Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Guðni Þór Ólafsson

Signing, skírn, bæn

30. október 2013

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Ísland og íslenska þjóðkirkjan hefur þá sérstöðu að hafa fyrir sið að fólk signir í kirkjunni. Um allan heim er signingin tákn, sem kaþólskt fólk gerir, ásamt þeim sem tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni. Víðast hvar var signingin lögð af í lútherskum kirkjum við siðbót, en ekki hérlendis, enda fallegur siður. En til hvers er signingin? Hún er örstutt bæn um vernd, og svo er hún líka til að minna mig á að ég er skírður eða skírð. Þegar ég var skírður voru þessi orð sögð, sem lesin voru úr Matteusarguðspjalli, og það var gert krossmark á enni mitt og brjóst til að merkja hverjum ég ætti að tilheyra. Krossinn er merki Jesú.
Það eru ekki margir sem muna eftir því þegar þeir voru skírðir. Ég held að enginn muni það sem gerist þegar hann er nokkurra mánaða. En ef maður hefur verið skírður, segjum um eða eftir þriggja ára aldur, þá er hugsanlegt að það geymist í minni.
En ef þú varst bara nokkurra mánaða, eins og algengast er, þá fékk kannski fólk að heyra nafnið þitt í fyrsta sinn.
Þá voru sögð orðin: Ég skíri þig í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda.
Já, ekki „Ég skíri þig nafni þínu….“, heldur: „Ég skíri þig í nafni Guðs.“
En nafnið þitt var líka nefnt í skírninni, kannski í fyrsta sinn. Ein af ástæðunum fyrir því að það þurfti að skíra barn sem fyrst eftir að það kom í heiminn var að margir ljóstruðu ekki upp nafninu fyrr en þá, og það er ekki gott að hafa ekkert nafn. Það er ekki gott fyrir foreldrana að geta ekki nefnt barnið sitt með nafni, og sérstaklega er það ekki gott fyrir barnið að ekki sé hægt að ávarpa það. Svo var líka önnur ástæða fyrir því að það þurfti að skíra börnin sem fyrst, því áður fyrr urðu börnin oft mikið veik og þá voru ekki til eins góð meðul og eru núna.
En foreldrarnir, skírnarvottarnir, afar og ömmur og margir aðrir voru sannfærð um að barn sem væri búið að skíra, það hefði betri vernd, af því að Guð væri búinn að blessa það, og blessunin væri eins og teppi sem væri búið að vefja barnið inní. Þessu trúði fólk, og þessu trúi ég.
Signingin er til að minna okkur á þetta, en þá er mjög mikilvægt að við fáum að vita um það hvernig það var þegar við vorum skírð. Ef þið eruð ekki búin að því, þá legg ég til að þið sem getið spyrjið pabba og mömmu hvernig það var þegar þið voruð skírð, og foreldrar og guðforeldrar ættu sem fyrst að rifja upp skírnardaginn og viðburði hans með börnunum.
Orðin sem eru sögð í skírninni eru úr Biblíunni. Þar saga um að nánustu vinir Jesú fóru upp á fjall og þar hittu þeir Jesú. Það er sagt að sumir hafi efast, eins og við gerum stundum, því við sjáum hann ekki lengur, og það er erfitt að skilja hvernig getur hann þá verið hjá okkur?
Og Jesús gengur til þeirra og segir þeim að hann hafi allt vald, bæði á himni og á jörðu. Núna myndum við kannski frekar segja að hann hafi öll völd. Hann ræður. Og hann getur ráðið öllu, nú, alveg eins og hann gat ráðið því þegar hann hitti fólk að líf þess yrði í lagi, og fólk fór að sjá að Guð elskaði það en vildi ekki bara refsa öllum. Hann gat hjálpað öllum, líka börnum, og veikum og fötluðum eða þeim sem voru útundan, svo fólk fékk hugrekki til að nota líf sitt í einhverjum tilgangi. Eins og hann hafði kennt þeim að Guð væri hjá okkur, og að við gætum talað við hann, og ættum meira að segja að segja við hann: Faðir vor, þú sem ert á himnum, þú sem ert eins og mamma mín og pabbi, gef okkur í dag vort daglegt brauð.
Nú segir Jesús að þótt þeir sjái hann ekki alltaf, þá sé hann hjá þeim og hafi þessi völd. Og að hann þurfi að biðja vini sína að fara og segja öllum öðrum í heiminum, á öllum tungumálum, allt sem hann hafi kennt og gert. Að það sé gott fyrir mann að gera öðrum ekki illt, heldur gott. Að það sé gott ef maður er sterkur, að hjálpa þá þeim sem eru veikir. Að þeir sem eru vitrir geti lært af þeim sem eru minna vitrir, til dæmis þetta þrennt: trú, von og kærleikur, og þeirra er kærleikurinn mestur. Farið út um heiminn og skírið í nafni Guðs, því að þetta er mikilvægt. Skírið með vatni, sem viðheldur lífinu, það frískar og hreinsar og endurnýjar llífið.
Jesús sagði ekki sérstaklega að það ætti að skíra börnin, en hann útilokaði það ekki. Allir vita að börn þurfa vernd og hjálp fullorðinna, sem geta sýnt þeim hvernig maður lifir lífinu skynsamlega. Við vitum líka að börnin þurfa mikla þolinmæði og athygli því þau hafa svo margar spurningar, sem þarf að svara, og það þarf svo oft að beina þeim rétta leið: opna fyrir þeim dyr, svo þau sjái hvert er hægt að fara og hvað er hægt að gera. Og ég veit af eigin reynslu sem foreldri, að foreldrar eru ekki fullkomnir fremur en annað fólk, og getum ekki uppfyllt allar væntingar sem til okkar eru gerðar. En ef okkur tekst að sýna umburðarlyndi og samstöðu um það góða sem við þekkjum, þá er það mikilvægur áfangi. Að minnast skírnar sinnar er lika að minnast þess að
við erum á leiðinni til að verða þær manneskjur sem Guð ætlaði okkur að verða,
Signingin segir að við erum vernduð af Guði
Signingin segir að við erum nálæg Jesú.
Við erum ekki ein í því sem við þurfum að gera í lífinu, ekki sem foreldrar, ekki sem börn, ekki sem afar eða ömmur eða skírnarvottar.
Við erum bara manneskjur, sem geta ekki ráðið öllu. Það er gott að minna sig á það, því að það var hálærður vísindamaður í atómvísindum sem benti á að algengast orsök þess að eitthvað færi úrskeiðis í heiminum, væru mannleg mistök. Manneskjan er uppspretta mistaka, stærsta uppspretta mistaka, og, það sem meira er, þau mistök sem er allra erfiðast að sjá fyrir. Þess vegna bið ég þess að kærleikur Guðs, sem er æðri öllum skilningi, sé með okkur öllum. Amen
(Flutt við fjölskyldumessu, byggt á hugmynd frá Hanna Kressel-Lieberman.)

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2564.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar