Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Toshiki Toma

Hluti af útsýni

21. júlí 2013

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. - Amen.

1.
Hin íslamska moska sem byggð verður í Reykjavík hefur aftur orðið að umræðuefni þessa dagana. Þjóðkirkjan átti frumkvæði að mótun Samráðsvettvangs trúfélaga á Íslandi, sem var stofnaður árið 2006 en aðild að honum eiga nú 16 trúfélög. Um grunnmarkmið segir í stefnuyfirlýsingu vettvangsins: að „stuðla að umburðarlyndi og virðingu milli fólks með ólík lífsviðhorf og af ólíkum trúarhópum og trúarbrögðum og standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi“.

Múslimar á Íslandi eiga að iðka trú sína og jú þeir hafa rétt til að byggja mosku fyrir sitt trúarlíf. Að tryggja réttindi annarra trúfélaga er eitt, hvort við séum sammála því sem þau trúa eða ekki er annað. Samráð við önnur trúfélög og fólk sem tilheyrir þeim er mikilvægt fyrir okkur, kristna kirkju.

Við þurfum að sjá öll jarðarbörn sem börn Guðs, fyrst og fremst, og við megum ekki horfa fram hjá tilvist annarra trúarbragða í heiminum og fólks sem tilheyrir þeim. En í samráði felst réttur og frelsi okkar til að gagnrýna eða skipta um skoðun sem varðar sérhverja trú manna.

Það er mikilvægt að bera virðingu fyrir öðrum trúarbrögðum og fólki sem á aðra trú en okkar eigin. Gagnkvæm virðing á milli trúarbragða er sem sagt mikilvæg.

En þegar ég segi slík falleg orð, verð ég strax að játa það að ég get ekki borið virðingu fyrir öllum trúarbrögðum, alls staðar í heiminum. Þó að ég tali um mikilvægi gagnkvæmrar virðingar, á ég raunar við um þau trúarbrögð sem eru viðurkennd í mannlífinu.„Viðurkennd trúarbrögð“ er mjög óskýrt orðalag en það þýðir trúarbrögð sem eru orðin hluti af menningarheimi mannkyns og hafa meira eða minna jákvætt hlutverk í mannlífinu.

2.
Ég talaði um trúarlíf Japana í síðasta skipti þegar ég kom hingað. Menningarlega eru Japanir undir áhrifum Búddisma og Shintóisma. Japanir munu ekki neita tilvist guða og búdda en samtímis munu þeir ekki heldur viðurkenna að þeir séu virkir trúmenn á guði eða búdda. Þátttaka Japana í reglulegri trúariðkun er yfirleitt mjög lítil og venjulegur Japani mun skilgreina afstöðu sína til trúarbragða sem „engin tiltekin trú“ eða „utan trúfélaga“.

Það sem er áhugavert er aftur á móti að í Japan fæðast stöðugt ný trúfélög. Sum eru í hefðbundnum trúarbrögðum en flest þeirra eru blöndun búddisma, kristinnar trúar og einhverrar annarrar trúar. Nokkur eru skrítin en saklaus, en nokkur eru mjög slæm og ill eins og þau sem fjarlægja félaga frá fjölskyldum sínum og geyma í einangrun eða ræna félaga eignum sínum. Það er augljóst að við getum ekki verið lofsamleg við slík trúfélög eða borið virðingu fyrir þeim.

Versta dæmi slíks trúfélags er ef til vill „Aum Supreme Truth“. Þetta félag byrjaði starfsemi sína sem eins konar blöndun jóga-hindúisma og búddisma. En trúfélagið notaði ofbeldi til þess að leiða fólk á brautir sem það kenndi að vera rétt og stig af stigi var félagið komið út í ólöglega starfssemi og eftir nokkur ár varð það hryðjuverksamtök fremur en trúfélag.

Árið 1995 framdi trúfélagið „Aum Supreme Truth“ alvarlegt hryðjuverk með því að sprengja eiturgas í neðanjarðarlest í Tókíó og drap 13 farþega í lestinni og særði 5.000 manns sem voru í nágrenninu.
Það kom í ljós á eftir að þetta trúfélag myrti 26 manns á sex ára tímabili, frá árinu 1989, þar á meðal var nýfætt barn.

Japanska þjóðin varð skelfingu lostin þegar mál„Aum Supreme Truth“ kom upp. Mikið var rætt hvort félag af þessu tagi ætti skilið heiti „trúfélags“ eða ekki. „Aum Supreme Truth“ hafði 5.000 – 6.000 félaga, og meðal þeirra voru foringjar japanska hersins, skólakennarar og tölvufræðingar.

Fólk í trúfélögum í Japan fékk annað högg út af þessari staðreynd: „Hvers vegna gekk svona vel menntað fólk í slíkt trúfélag fremur en hefðbundin búddistafélög eða kristnar kirkjur“?

3.
Ill trúfélög sem þræla félaga sína eru til staðar fyrir utan „Aum Supreme truth“, en af hverju leitar fólk til slíkra trúfélaga? Hvers vegna leitar fólkið ekki til kirkju sem boðar hið sanna fagnaðarerindi? Þetta var stór spurning fyrir japönsku kirkjuna.

Víst er það, að margt fólk hafði trúað lygi trúfélagsins og verið svikið. En það myndi ekki vera hægt að stjórna þúsundum manns aðeins með lygi. Það hlaut að vera eitthvað annað sem hafði virkað til þess að halda félögunum innan þess.

Maður sem var í „Aum Supreme Truth“ útskýrði ástæðuna hvers vegna hann hafði gengið inn í „Aum“ en ekki í önnur trúfélög í samtali við fjölmiðlana: „Ég var í vandræðum og leitaði trúarlegs og andlegs friðar. En hefðbundinn búddismi var ekkert annað en „hluti af útsýninu“ fyrir mig.“ Sem sagt, hefðbundinn búddismi, náði ekki til mannsins sem leitaði friðar í anda sínum.

Nokkrar ungar konur sem höfðu verið í öðru trúfélagi sem hafði vont orð á sér í japanska samfélaginu sögðu þetta einu sinni: „Við vissum um hinn slæma orðróm. Það var í raun og veru ýmislegt vont í félaginu en samtímis var þar sönn tenging á milli manna. Og þá tengingu við aðra menn höfðum við hvergi haft í samfélaginu fyrir utan í því trúfélagi.“

,,Tenging á milli manna“ er ef til vill eitthvað sem margt fólk, sérstaklega í háþróaðri þjóð, saknar og langar í. Og það einmana fólk vill jafnvel ganga í trúfélag með slæman orðróm, ofbeldissamtök eða rasistasamtök þar sem fólkið getur staðfest að það sé með félögum sínum.

Stöðug tilvera nýrra trúfélaga í japanska samfélaginu, sem eru ekki með hefðbundið vald, lítur út fyrir að vera skrítið fyrirbæri en það er ekki skrítið í raun. Þar birtist raunveruleiki japanska samfélagsins, sem er nefnilega að fólk missti tengingu við aðra menn eða stað sem fólk getur tilheyrt.

Það er samtímis sterk gagnrýni í garð hefðbundinna trúfélaga, að þau geti ekki veitt fólki nægilega þjónustu og uppfylli ekki trúarlega þörf þeirra. Hefðbundinn búddismi eða kristni í Japan hló að þeim sem leituðu til hinna skrítnu trúfélaga en gátu engu að síður ekki boðið því betur en trúfélögin sem höfðu á sér vont orð.

4.
Undanfarin ár hefur þjóðkirkjan okkar verið í andstreymi. Það virðist vera eins konar tíska að neita trú og segjast treysta aðeins sjálfum sér. En sem maður er ólst upp í Japan, stórri trúleysingjaþjóð, get ég ekki verið svo bjartsýni um framtíð trúlauss samfélags sem ákveðið fólk lýsir sem betri heim en heiminn með trúarbrögðum.

Ef hefðbundin trú hverfur úr heiminum, hvernig mun fólk bregðast við því? Fyrirbæri í Japan benda á raunverulegan möguleika á því að fólk byrji að búa til ný trúarbrögð en að mínu mati er slík ný trú oftast „falstrú“ á „falsguð“.
„Þið elskuðu, trúið ekki öllum sem segjast hafa andann, reynið þá heldur og komist að því hvort andinn sé frá Guði. Því margir falsspámenn eru farnir út í heiminn“ (1Jóh 4:1).


Það sem við í þjóðkirkjunni eigum að gera er ekki að kvarta yfir slíku andstreymi eða móðgast heldur endurskoða okkur sjálf vel svo að við verðum ekki að „hluta útsýnis“ fyrir fólk í samfélagi okkar sem leitar að andlegum stuðningi, leiðbeiningum eða samstöðu.

Þeir, sem tala illa um þjóðkirkjuna eða sýna neikvætt viðhorf við trú okkar, hafa einhverja ástæðu til þess að haga sér á þann hátt og við skulum reyna að hlusta á þá fremur en að hafna þeim frá upphafi.

Að mínu mati, eru dagar í andstreymi jafnframt dagar í tækifærum. Núna er mikilvægt að hlusta á fólk, á samfélagið og jafnvel á gagnrýni. „Hefð“ er ekki nógur málstaður fyrir tilvist þjóðkirkjunnar í dag. Okkur vantar nýjungar líka. En vísbendingar að nýjungum koma oftast að utan. Því er samráð mikilvægt, hlustun er mikilvæg.

Við megum ekki misskilja eins og það sé virk gerð að boða fagnaðarerindið, en það sé óvirk gerð að hlusta á fólk. Að hlusta á fólk getur verið virkur þáttur til að færa fagnaðarerindið til hjarta margra manna, af því að margt fólk getur staðfest tengingu við kirkju þegar það áttar sig á því að kirkjan er til í að hlusta á það.

Boðun eða prédikun án hlustunar stenst ekki. Kirkjan sem lyftir aðeins upp hefð, kirkjan sem hlustar ekki á fólk verður að „hluta útsýns“ með tímanum.

„Þið eruð af Guði og hafið sigrað falsspámennina því að andinn sem er í ykkur er öflugri en andinn sem er í heiminum“(1Jóh 4:4).
Okkar kirkja er lifandi söfnuður, en ekki hluti af útsýni. Lifum lífi okkar í þessari viku sem lifandi söfnuður í samskiptum við fólk í samfélaginu.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. –Amen

Textar dagsins eru hér.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2389.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar