Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Bjarni Karlsson

Kindakofinn og Alþingishúsið

5. maí 2013

Nú er vetur að baki hér sunnan heiða og brátt munu fannir þána nyrðra og lömbin sem nú eru borin í vetrarríki munu innan furðu skamms skoppa um grösuga bala. Þetta mun allt fara vel á endanum því vorsólin er máttug og lífsaflið er svo ósvikið. En við bíðum átekta öll því á meðan bæir og tún í Fljótum, Fnjóskadal og víðar eru enn í klakaböndum er eitthvað í þjóðarsálinni sem ekki tekur við vorinu. Við bíðum með bændum og búaliði því vorinu heilsum við sem saman þjóð og hugur okkar er ekkert síður í útihúsum noruður í Skagafirði en í Alþingishúsinu í Reykjavík. Og e.t.v. er hann þar enn fremur því nýborin lömbin sem þrýsta sér upp að mæðrum sínum bíðandi í stíunni og þekkja ekki enn dögg í grænu grasi, hlýja sól, mófuglakvak og ferskan blæ eru meiri veruleiki en nokkur stjórnarmyndun. Lömbin í landinu eru mátugri þáttur í alheimi heldur en ríkisstjórn þess því sauðkindin var hér á undan okkur og þegar allar raddir stjórnmálamanna verða þagnaðar mun enn vera jarmað á jörðinni.

Textar dagsins fjalla um vonina. Um traustið á lífinu og góðum Guði.
„Í þessari von erum við hólpin.” Segir postulinn í Rómverjabréfinu og bætir við: „Von, sem menn sjá fram komna, er ekki von. Hver vonar það sem hann sér? En ef við vonum það sem við sjáum ekki bíðum við þess með þolinmæði.” (Róm 8. 24-25) Þessi orð standa í 8. kafla Rómverjabréfsins sem ég vil fullyrða að sé einn sá merkasti í skrifum Páls því þar kemur fram frumleg og mögnuð sýn á samhengi manns og náttúru og það er svo merkilegt að vonin sem um er rætt er ekki síður von náttúrunnar en mannsins. „Því að sköpunin vonar og þráir að Guðs börn verði opinber” segir Páll nokkru framar. (v. 19)
- Hefur þú einhvern tímann leyft þér að hugsa þá hugsun að náttúran eigi sér sjálfstæða tilveru og tilverurétt? Við erum svo vön því að líta á runnann í garðinum okkar, skepnur í túni og fugla á flugi frá sjónarhóli okkar þarfa. Runnar þykja gagnlegir á lóðamörkum, skepnur gefa af sér veisluföng og meðvitað eða ómeðvitað skiptum við öllu sem dafnar og vex í tvo flokka: nýtanlegt og ónýtanlegt. Ekki satt? Þetta viðhorf er alltént rótgróðið í mér frá því ég var vinnumaður í sveit í Flóa og Holtum og síðar sláturhússtarfsmaður á Hellu á Rangárvöllum. Þá lærði ég að taka í nefið og við slátruðum þúsund lömbum á dag. Sumt var nýtt, öðru fargað.

„Ég hef augu mín til fjallanna. Hvaðan kemur mér hjálp?” spyr skáldið í lexíu dagsins og áfram er verið að tala um náttúruna. „Ég hef augu mín til fjallanna. Hvaðan kemur mér hjálp?” Er ekki eitthvað sem rímar í vitund þinni þegar þessi þrjúþúsund ára orð eru lesin? Það er eitthvað þarna sem við vitum innst inni. Hver skyni gædd sál veit að það býr von í fjöllum og allri náttúru. Hún blasir við í hreiðurgerð starranna í garðinum okkar, í leik kettlingsins, í brumi trjánna. Þess vegna er t.d. ekki gefandi heldur bara forvitnilegt að horfa á dýr í búrum. Það er einhver mótsögn fólgin í dýrabúrum og það finna það allir. Náttúran er full af von sem þrífst ekki í búri. „Við vitum að sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.” Skrifar Páll í kaflanum sem ég vitnaði í áðan. „Við vitum að sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir.”

Fæðingarhríðir. Afastelpan mín varð fjögurra ára í gær og ég man enn þegar við ókum endalausar ferðir niður Laugarveginn og átum ís á meðan tengdadóttir mín var að fæða og þá hraut yfir varir mínar þessi setning: Fæðingar eru fáránlegar. Ég er með fóbíu fyrir fæðingarhríðum og bara skil ekki að þetta skuli þurfa að vera svona. Ég get ekki hugsað mér að dóttir mín þurfi að ganga í gegnum þetta, eins og mig langar mikið til þess að eignast fleiri afabörn. Engin þjáning felur þó í sér meiri von en fæðingarhríðir. Það er þrátt fyrir allt von, sigrandi von, fólgin í fæðingarhríðum, þótt manni þyki fyrirkomulagið út í hött.

„Við vitum að sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.” Sauðféð norður í Fljótum stynur núna og þjáist ásamt bændum og búaliði og okkur öllum og bíður þess að losna út í vorið. Og það kemur ekki vor með þjóðinni fyrr en líka þessi lömb njóta blíðunnar.

En líkingamál ritningarinnar fer dýpra og horfir lengra en til komandi vors. Í andanum horfum við út fyrir þennan heim, út fyrir tímann og rúmið til þess sem elíft er. Og postulinn sprengir alla hugsanafjötra er hann fullyrðir að náttúran öll, já, gjörvöll sköpunin bíði og vænti þess að vera leyst úr ánauð tímans og hvefulleikans. „Því sköpunin vonar og þráir að Guðs börn verði opinber. Sköpunin er hneppt í ánauð hverfulleikans, ekki sjálfviljug heldur að vilja hans sem bauð svo, í þeirri von að sjálf sköpunin verði leyst úr ánauð sinni undir hverfulleikanum og fái frelsið í dýrðinni með börnum Guðs.” (v. 19 – 21)

Heyrir þú þá róttæku náttúrusýn sem hér er boðuð? Heyrir þú mófuglakvakið og fossaniðinn í þessum orðum? Sköpunin bíður þess að verða leyst úr ánauð sinni undir hverfulleikanum. Finnur þú ilminn af moldinni og þanginu og fugladritinu, gargið í bjarginu og þytinn í krónum trjánna? Náttúran vonar eftir frelsi og dýrð. Það er traðk hjarða í þessum orðum er þær taka á rás og sérðu dýrðina í djúpi hafsins? Allt lifir það í von, boðar von – en þó með þeim formerkjum að von sína á það undir manninum. Missi maðurinn marks mun allt missa marks. „Við vitum að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa. Og ekki það eitt, heldur stynjum við sem eigum frumróða andans einnig með sjálfum okkur meðan við bíðum þeirrar stöðu Guðs barna sem í vændum er með endurlausn líkama okkar. Í þessari von erum við hólpin.” (v. 22-24)

Hér sjáum við ástæðu þess að kristin kirkja í heiminum hlýtur að láta umhverfismál sig miklu varða. Trúin veit að maður og náttúra eru á samleið. Örlög mannsins eru örlög náttúrunnar og bregðist maðurinn sjálfum sér bregst hann náttúrunni svo allt líf á jörðu missir marks. Von manns og náttúru er ein og hin sama. Við finnum þetta innra með okkur þegar við horfum til fjalla, við samlíðum ósjálfrátt með norðlensku sauðfé, sjáum vonina birtast í brumi vorsins og vitum að örlög okkar eru samofin öllu sem andar.

Þess vegna skiptir pólitík máli, ekki síst mannréttinda- og umhverfispólitík. Vegna trúarinnar á Jesú er hugur okkar jafnt inni í kindakofanum sem í Alþingishúsinu. Frá sjónarhóli kristinnar trúar er ekki sama hvernig við umgöngumst lífið og landið. Það skiptir máli hvernig við högum þjóðlífi okkar.

Og nú er stjórnarmyndun.

Ef við leggjum eitt augnablik til hliðar hægri og vinstri, ef við horfum framhjá hagsmunaárekstrum þéttbýlis og dreifðra byggða og látum kyrrt liggja um allar aðildir að þjóðasamböndum þá er eitt stórt sameiginlegt pólitískt markmið sem e.t.v. má orða svo í nafni kristinnar trúar: Gerum ráð fyrir veruleikanum í heild sinni.

Við þurfum að leita leiða til að lifa í ljósi þess að veruleikinn er einn og við erum öll aðilar að honum, allar þjóðir, allt fólk, öll náttúra.

Þannig leggur trúin á Jesú okkur pólitískar skyldur á herðar. Yfirvöld eiga ekki að taka afstöðu í trúarefnum en trúin gerir pólitískar kröfur. Hún truflar og ónáðar valdið sem safnar sjálfu sér og leitast í sífellu við að dreifa valdi til fólks og náttúru svo að lífið eigi leik á borði í veröldinni.

Amen.

Textar: Sálm 121
, Róm 8.24-27
, Lúk 11.5-13


Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2885.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar