Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Bjarni Karlsson

Ég get ekki trúað

29. apríl 2013

Um daginn varð ég fyrir ágætri reynslu. Þetta var vikuna á meðan prestastefna stóð yfir. Það var kvöldmatartími og ég sat heima með mínu fólki og fleirum úr prestastétt og var að fara að nærast þegar síminn hringdi í brjóstvasanum. „Hvaða númer er þetta?!” spurði ég borðnauta mína því ég þóttist kannast við það. Þetta er einhver fjölmiðill sagði einhver og, jú, af gamalli reynslu þóttist ég þekkja að þetta væri eitthvað frá 365. Óðara tengdi ég saman tvo og tvo og gaf mér að nú væri vitaskuld verið að hringja í kallinn til þess að spyrja út í gang mála á prestastefnu. Í snarheitum samdi ég stutta ræðu, setti mig í stellingar og svaraði með ábyrgu röddinni: Bjarni. „Fyrirgefðu ónæðið” sagði ung rödd á línunni. „Þetta er hjá Stöð 2.” „Já” svaraði ég innvirðulega „Hvað get ég gert fyri þig?” „Sko, kortið þitt virðist verað lokað svo að greiðsla fyrir maímánuð hefur ekki farið í gegn.” – Ég veit ekki hvort unga stúlkan tók eftir því að þögnin varð óeðlilega lögn. En mér tókst vonandi að þakka henni fyrir upplýsingarnar og kveðja fallega áður en ég lokaði símanum og brosti fánalega framan í fólkið sem með mér sat við borðið. Mér leið hálfvitalega.

Við lifum á tímum þegar gríðarlega mörgum líður einmitt bjánalega. Það er einhvern veginn allt í svo lausu lofti. Enginn veit hvert á að stefna eða hvert stefnir í raun. Flest okkar voru í mestu vandræðum að gera upp hug okkar í nýafstöðnum kosningum. Allir eru ringlaðir og asnalegir eins og ég þegar ég hélt í hégóma mínum og góðum ásetningi að ég væri að fara að fræða alþjóð um stöðu mála á prestastefnu en var bara fræddur á því að kortið mitt væri stoppað.

Hugsum nú aðeins saman.

Við lifum á mjög merkilegum tíma í sögu veraldarinnar. Nútíminn er liðinn. Við er tekið tímabil síðnútímans, eftirnútímans.
Nútímamaðurinn var bjartsýnn og kokhraustur. Síðnútímamaðurinn efast um allt. Nútímamaðurinn trúði á sjálfan sig og treysti á framfarir. Síðnútímamaðurinn hefur horft upp á tvær heimsstyrjaldir. Og enda þótt fæst okkar hafi lifað styrjaldirnar þá sitja þær í samvitund okkar, sameiginleg undirliggjandi vitneskja um það að fólki sé ekki treystandi. Trúin á manninn er dauð.
Vísindin sem áttu að efla alla dáð hafa fætt af sér kjarnorku, stuðlað að hlýnun jarðar og búið í haginn fyrir alþjóðavæðingu með risastórum siðfirrtum samsteypum sem hundsa vistkerfi náttúrunnar, menningu þjóðfélaga og hagkerfi þeirra.

Í hjarta síðnútímamannsins er trúin dauð. Trúin á allar stórar sögur er horfin. Við trúum ekki lengur á neinar alsherjarlausnir. Það er búið að prófa allt og það hefur ekkert virkað. Marxisminn og kommúnisminn trúði á hina sögulegu nauðsyn og hinn óhjákvæmilega sigur öreiganna. Nasisminn trúði á hið hreina mannkyn og gott skipulag. Kapitalisminn treysti á hina huldu hönd. Yfir öllum þessum ‘ismum’ sveif svo efnishyggjan sem trúði því að ekkert væri til utan efnisheimsins og sú sannfæring sem kennd er við Pósitívisma að til væru áreiðanlegar niðurstöður í mælingum og unnt væri að nálgast málefni og rannsaka þau af fullkomnu vísindalegu hlutleysi. Í dag vitum við að hlutleysi er ekki í boði. Engin ein stór saga, hugmyndakerfi eða aðferð hefur reynst virka. Eftir stöndum við svikin og eigum fátt að halda í annað en efann. Og það síðasta af öllu sem síðnútímamaðurinn ætlar að hlusta á eru helgisögur. Trúarbrögðin og þar með kristindómurinn sem hugmyndakerfi er fallinn í hans vitund og hann langar ekki að vera með í stóru þunglamalegu kirkjunni með sína háu turna, upphöfnu ölturu og embætti preláta með krumpað tilfinninglíf í síðum skrautkuflum. Nei takk, ómögulega, segir síðnútímamaðurinn.

„Hér stöndum við trúlaus á tæpustu nöf” orti gamli Sigurbjörn Einarsson og lýsti stöðunni vel. Maður dagsins í dag getur ekki trúað!
Við trúum ekki á neina hugmyndafræði. Við reiðum okkur ekki á einhver tkerfi og stofnanir eru ekki þau traustu fyrirbæri sem við héldum.

Hvað er þá eftir?
Mig langar að benda á eitt.
Hefur þú ekki reynslu af því að hitta gamla félaga og vini, jafnvel eftir áratuga aðskilnað, já, einmitt eftir áratuga aðskilnað og uppgötva að einhver náungi sem var með þér í bekk eða á vinnustað er bara sami gamli góði einstaklingurinn þótt árin hafi liðið.

Fyrir nokkru hringdi einmitt hann Palli sem var með mér í Langholtsskóla og bað mig að skíra hjá sér barn. Við höfðum ekki hist frá því við kvöddum skólann á sínum tíma en samt alltaf vitað hver af öðrum og mér þóttin notalegt að heyra í honum og við ákváðum fund til undirbúa skírnina. Ég gleymi aldrei augnablikinu þegar við hittumst gömlu félagarnir því um leið og við sáum hver annan rákum við upp hálfgert óp. Hvorum þótti hinn hafa breyst heldur mikið og elst! En þegar við fórum að tala saman vorum við bara sömu strákarnir, sömu einstaklingarnir með sömu takta og sömu tilheigingar og áður. Það er eitthvað varðandi persónur fólks sem ekki breytist heldur virðist standa af sér núning tilverunanr. Er það ekki þess vegna sem alltaf er verið að halda „ríjúníon” út um allar trissur? Persónur eru stöðug fyrirbæri sem hægt er að ganga að vísum þótt ár og áratugir líði.

Stofnanir hrynja, hugmyndafræði bilar og kerfi riðlast en persónurnar sem við kynnumst á lífsleiðinni eru þarna á meðan þær draga andann.

Í þessu ljósi er magnað að hugleiða þá staðreynd að Guð Biblíunnar er persóna, eða öllu heldur persónur.
Í fyrsta kafla Gamla Testamenntisins sem tekið var saman um sex hundruð árum fyrir Krist í tilefni af því að heil þjóð hafði ratað í slíkar ógöngur að þorri allra kunnáttumanna hafði verið herleiddur til höfuðborgarinnar Babylon og allir innviðir samfélagsins höfðu verið þurkaðir út og helgidómar rændir, brotnir og brenndir er Guð kynntur til sögunnar. Já, tökum eftir því að í rauninni er Gamla Testamenntið hrein og klár hrunskýrsla; þar er á ferð rannsókn á atburðum sem leiddu til þess að eitt þjóðfélag leystist upp og verið er að leita skýringa á því hvers vegna slíkt gat gerst. Og sá Guð sem kynntur er til sögunnar er persónulegur Guð. Hann talar við sjálfan sig í fleirtölu og segir: “Við skulum gera manninn í okkar mynd.” Og þegar Guð skapar manninn í sinni mynd skapar hann ekki einn mann heldur tvo, karl og konu. M.ö.o. Guð sem er fleiri en ein persóna í nánu samfélagi skapar manninn sem fleiri en eina persónu í samfélagi.

Síðan hefst þessi langa saga þar sem í ljós kemur að Guð getur ekki á heilum sér tekið. Guð Biblíunnar veit oft ekki sitt rjúkandi ráð vegna þess að hann elskar fólkið í heiminum og er í sífellu að leita leiða til að kalla það til samfélags við sig og hvert við annað.

Er það ekki með þig eins og mig í þínu persónulega lífi, að stundum veistu ekkert hvað þú átt að gera - vegna þess að þú elskar? Þú elskar og einmitt þess vegna finnur þú til, hefur áhyggjur og veist hreint ekki hvað á til bragðs að taka. Áhyggjur af börnum, áhyggjur af ástarsambandi, áhyggjur af málefnum sem eru þér hjartfólgin…

Sú saga sem rakin er í löngu máli í gegnum allt Gamla Testamenntið og nær svo hámarki sínu í Nýja Testamenntinu er saga af tilraunum Guðs til þess að ná tengslum við fólk og finna lausnir vegna þess að hann elskar.

Fyrsta merkið um ástina birtist í þeirri dásamlegu senu þegar Guð gefur Adam og Evu skinnkirtla um leið og hann rekur þau út úr aldingarðinu Eden. Hann gefur þeim skinnkirtla svo að þeim sé ekki kalt á veginum út í óvissuna.

Fyrsta stóra tilraunin sem Guð Gamla Tesamenntisins gerir í því augnamiði að yfirvinna ranglætið og sundrungina í heiminum er fólgin í Nóaflóðinu. Hann velur eina fjölskyldu, Nóa og hans fólk, og smalar fulltrúum allra dýrategunda inn í örkina með þeim og drekkir svo restinni í einu alsherjar flóði í örvæntingarfullri tilraun til að útrýma hinu illa með illu. En þegar sögunni lýkur iðrast Guð þess sem hann gerði og setur regnbogann á himininn sem tákn þess að svona ætli hann aldrei aftur að gera. Ranglæti verður ekki útrýmt með ranglæti. Enda kemur á daginn að Nói og hans fólk eru ekkert betri en aðrar fjölskyldur. Glöggt má t.d. sjá af sögunni að Nói er veikur alkahólisti því dag einn liggur hann brennivínsdauður úti fyrir tjaldi sínu og er í þokkabót kviknakinn og verður sér og öllum til skammar.

Nú, nú.
Næsta tilraun, fyrst ekki reynist unnt að útrýma illu með illu, er í því fólgin að rækta fram réttlætið í gegnum fjölskyldutengsl. Guð velur Abraham og Söru og kallar þau til að vera forfaðir og formóðir Guðs þjóðar. Sú saga endar illa, enda kemur strax í ljós að Abraham hefur alvarlega persónubresti er hann setur konu sína í alvarlega hættu innan um ókunnuga menn þar sem hann þorir ekki að kannast við að vera eiginmaður hennar heldur lætur í veðri vaka að hann sér bróðir hennar og setur þannig konu sína í hættu á að verða fyrir nauðgun. Abraham er kjarklítill maður. Saga þessarar fjölskyldu er síðan rakin og þar má segja að birtist bæði allt það fegursta og allt hið versta sem einkennir okkur manneskjur og hún endar á hinni frægu einelstissögu um Jósef langafabarn Abrahams og bræður hans.

Æ, æ.

En Guð er persónulegur elskandi guð og gefst ekki upp. Þriðja tilraunin, fyrst hvorki reyndist unnt að eyða illu með illu né heldur að rækta það fram í gegnum fjölskyldutengsl, er í því fólgin að setja reglur og gera sáttmála um að hlýða þeim. Afkomendur Abrahams og Söru eru orðnir að þjóð sem orðin er að þrælum hjá Faraó í Egyptalandi og það horfir illa fyrir þessu fólki. Þá kallar Guð Móse til að leiða þjóðina út úr þrælahúsinu. Vissir þú að Móse var morðingi? Guð kallaði morðingjann Móse til að vera verkfæri sitt. Í framhaldinu koma svo reglurnar góðu, boðorðin tíu og allt hitt lögmálið sem fylgdi. En í ljós kemur í gegnum allskyns atburði, átök og breytingar að reglur eru ekki nóg. Það virðist enginn geta fylgt boðorðunum tíu og vandi sundrungarinnar – orðið synd skrifað með „y” því hugtakið er komið af orðinu sundrung – vandi sundrungarinnar eða syndarinnar verður ekki leystur relgum. Ekki frekar en hann varð leystur með því að drekkja öllu heila klabbinu í Nóaflóðinu eða með því að rækta fram heilaga fjölskyldu með Abraham og Söru.
Ekkert virkar.

Loks gerist það að Guð kemur sjálfur í persónu.

Sagan af Jesú er saga um Guð í persónu. Guð sem fæðist grátandi í hendur ungra foreldra sem ofan í kaupið eru í ótryggu ástarsambandi og faðernið er ekki á hreinu og þau eru á flækingi undir gírugu pólitísku valdi síns samtíma vegna einhverra fáránlegra ákvarðana um skattlagningu sem teknar hafa verið einhversstaðar hátt uppi í kerfinu af fólki sem aldrei þarf sjálft að taka afleiðingum ákvarðana sinna.
Þarna fæðist Guð. Hann fæðist við aðstæður þar sem allt hefur brugðist. Hann fæðist vegna þess að ekkert hefur virkað. Engin aðgerð eða aðferð, ekkert regluverk, engin hugmyndafræði hefur virkað. Hann fæðist vegna þess að það er ekki hægt að trúa í heiminum og það er engu að treysta.
Og þessi Guð, eða guðssonur, eða mannssonur eða hvað við kjósum að kalla hann lýkur jarðvist sinni í þeirri ömurlegustu stellingu sem hægt er að upphugsa, hangandi negldur upp á tré. Og hróp hans bergmálar enn í eyrum veraldarinnar: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?!”

Var einhver að tala um eftirnútíma?

Var einhver að ræða efa?

Getur verið að þegar allir kirkjuturnar eru molnaðir, hverskyns klerkakerfi dauð og allir pólitískir ismar eru orðnir að endanlegum fornleifum – að þá lifi reynslan af hinum persónulega Guði sem elskar?

Getur verið að ástin sigri og að hún sé einmitt eilíf eftir allt og allt?

„Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað ykkur.” Segir Jesús við vini sína í guðpjalli dagsins. „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þið eruð vinir mínir ef þið gerið það sem ég býð ykkur. Ég kalla ykkur ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla ykkur vini því ég hef kunngjört ykkur allt sem ég heyrði af föður mínum. Þið hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið ykkur. Ég hef ákvarðað ykkur til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti ykkur sérhvað það sem þið biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég ykkur, að þið elskið hvert annað. (Jóh 15.12-17)

Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2305.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar