Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hildur Eir Bolladóttir

Umskurn íslenskra kvenna

17. mars 2013

Biblían er þeirrar gerðar að þar er lítið um einkunnagjöf, m.ö.o þá lýsa bækur hennar sjaldan tilfinningum fólks og hugsunum, guðspjöllin lýsa vissulega samskiptum fólks og oftast samskiptum Jesú við annað fólk en að höfundar þeirra fari í sálgreiningu eða tilfinningaeinkunnir þekkist varla. Sennilega er það ein ástæða þess að Biblían er endalaust uppspretta nýrra spurninga. Hún er líka rúmgóður mátunarklefi fyrir eigið líf og persónu, þar skilur á milli hennar og annarra frásagna í rituðu formi þar sem persónur stökkva oft fullmótaðar fram á sjónarsviðið. Nú vantaði ekki hefð fyrir dramatískum skrifum þegar Biblían var að mótast, þá voru grískir harmleikir og skopleikir þar sem tilfinningar voru settar í ljóðrænt form og dramatískt leiknir og þar þurfti sjaldan að geta í eyðurnar. Sú hefð varð til a.m.k. fimm öldum fyrir Kristsburð þannig að höfundar guðspjallann hafa þekkt hana mæta vel. Hins vegar eru guðspjöllin á margan hátt passív í frásögnum þó að undir niðri kraumi heilt eldfjall af tilfinningum sem bíða þess að gjósa. Að mínu mati er þetta einn af stærri kostum guðspjallanna, þau gera sístæða kröfu til mannkynsins, þau krefja manneskjur á öllum tímum þess að þær læri fyrst að þekkja sjálfar sig áður en þær stíga fyrsta skrefið inn um gáttir guðspjallanna þar sem fólk tekst á við lífið með sömu vonir og þrár. Já sömu vonir og þrár en annan menningarheim, viðmið og gildi og þess vegna er guðfræðin ekki bara trúfræði heldur mannfræði, fornleifafræði, félagsfræði og sagnfræði svo fátt eitt sé nefnt.
Guðfræðin snýst að stórum hluta um að skyggnast bak við þann veruleika sem birtist á síðum ritningarinnar, þar liggur akademía guðfræðinnar sem skiptir svo miklu máli í allri textarýni, ef við hana bætist svo trú erum við komin með eitthvað sem kallast prédikun . Guðfræði óháð trú er mikilvæg afruglun á bókstafstrú og öfgum en líka lífsseigum sögusögnum. Því má t.d. svara fólki sem heldur því fram með samanbitnar varir að að Biblían tali gegn samkynhneigð, að samkynhneigð hafi verið jafn þekkt hugtak á ritunartíma Biblíunnar eins og internetið, þá þekkti enginn orðið samkynhneigð þar sem tveir jafningjar af sama kyni játa hvor öðrum ást sína og virðingu, ekki það að slíkar tilfinngar væru ekki til þá eins og nú, það er nú annað hvort, það var bara enginn grundvöllur fyrir að tjá þær. Þá var hjónabandið aðeins hugtak yfir samfylgd karls og konu þar sem karlinn hafði öll völd og átti sína konu með húð og hári, menn gátu ekki séð hjónaband fyrir sér sem sem jafningjasamskipti, og hvernig í ósköpunum áttu tveir karlar að finna út úr því, átti annar að verða kona? Hugtakið kvenréttindi eða jafnrétti var ekki til þó að konur á þeim tíma þráðu jafn heitt og nú að vera samþykktar eins og þær voru og eiga sér rödd í samfélaginu. Það er engin tilviljun að kvenréttindi og réttindi samkynhneigðra hafi lengi verið samstíga í lífinu . En í ljósi þessa veruleika má síðan spyrja hvort við getum átt fyrirmyndir úr Biblíunni aðrar en Jesú Krist sem kom sem holdgervingur hins tímalausa sannleika inn í samfélag manna fyrir tvöþúsund árum, hann Jesús, barn allra tíma? Á þessum degi sem helgaður er boðun Maríu er áhugavert að staldra við hana og velta fyrir sér hvort María mey hafi eitthvað að segja nútímakonu í vestrænu samfélagi sem veit að hún hefur þúsund sinnum meira val í sínu lífi en Guðsmóðir forðum. María frá Nasaret fyrsta staðgöngumóðir veraldar sem lánaði öllu mannkyni leg sitt svo það mætti lifa með Jesú. Hvað hefur hún að segja okkur þessum ungu konum í hinum vestræna heimi sem höfum endalaust val, val um hvað við viljum verða og gera? Við þessar sjálfstæðu konur 21.aldar sem látum ekki segja okkur hvað sé æskilegt né óæskilegt fyrir okkar frama, heilsu eða útlit, við erum menntaðar, upplýstar og sterkar og látum ekki kúga okkur. Eða hvað?
Erum við frjálsar ef við veljum að fórna kynheilsu okkar fyrir útlit sem rekur viðmið sitt til klámmynda? Því það er nýr veruleiki í okkar samfélagi, að konur fara í skurðaðgerðir til að láta breyta kynfærum sínum svo þau falli undir eitthvað sem telst „eðlilegt“ útlit en enginn veit hvaðan kemur nema þá helst úr einskismannslandi klámsins ,þar sem fólk er verkfæri en ekki markmið. Á dögunum stóðu Zontakonur fyrir málþingi hér á Akureyri þar sem Ebba Margrét Magnúsdóttir fæðinga og kvensjúkdómalæknir fjallaði um þessar aðgerðir sem virðast í langflestum tilvikum flokkast undir fegrunaraðgerðir en ekki heilsufarsaðgerðir þó það sé vissulega til og lúti öðrum lögmálum. Þessar aðgerðir þekktust varla hér á landi fyrir 10 til 15 árum. Áhættan sem fylgir slíkum aðgerðum felst m.a. í skertri ánægju kvenna af kynlífi sem í mínum huga er ekkert annað en frelsisskerðing og afturför í kvenréttindabaráttunni. Þá verður manni hugsað til allra kvennanna sem á undan gengu og börðust fyrir því að kynsystur þeirra fengju líka að vera kynverur eins og karlar og að kynlíf þeirra hefði ekki bara þann eina tilgang að geta börn. Allt hugrekkið, óþægindin og orkan sem fór í að berjast fyrir því að konur fengju yfirráðarrétt yfir líkama sínum, barátta sem enn stendur yfir. Í ríkjum Norður-, Austur- og Vestur-Afríku eru stúlkubörn „umskorin“ í frumbernsku, að vísu flokkast það fremur undir limlestingar því þá er misstór hluti kynfæra þeirra hreinlega skorinn burt svo þær njóti örugglega ekki kynlífs þegar að því kemur, þannig telja karlarnir sig geta hamið konurnar betur og komið í veg fyrir lauslæti og tryggðarrof. Þetta er auðvitað ekki sambærilegt þeim fegrunaraðgerðum sem hér eru til umfjöllunar, þetta er óskiljanlegur veruleiki. Hins vegar er ekki úr vegi að velta því fyrir sér hvað komi konum hér á landi til að taka þá ákvörðun að fórna ánægju og frelsi og talsverðum fjármunum fyrir útlit sem er fullkomlega afstætt. Hver getur svarað því hvernig hin fullkomnu kynfæri líta út? Og hvers vegna í ósköpunum eru endalaust fundnar upp fegrunaraðgerðir bara fyrir konur? Og hvar kemur María mey inn í dæmið? Ég er ekki viss um að hún komi næst á eftir Simone de Beauvoir í róttækum feminisma enda barn annars tíma, en er María eitthvað valdaminni í persónu sinni, burtséð frá ólíkum tíma, en konan sem í dag velur að fórna kynfrelsi sínu fyrir útlit sem aðeins er blekkingin ein? María valdi kannski ekki stóra verkefnið sem hún er þekktust fyrir en hún skilaði því með þeim hætti að um víða veröld er hún enn tilbeðinn dýrlingur, hún efldi sjálfstraust sitt með trú á Guð og það að hún hefði mikilvægu hlutverki að gegna, ekki bara sem kona með leg heldur sem manneskjan María sem var útvalin vegna persónu sinnar. Hún gerði sig áfram gildandi á jarðneskum dögum Jesú, hafði áhrif í fyrstu kraftaverkasögunni þegar Jesús breytti vatni í vín og fylgdi honum upp á Golgatahæð þar sem hann var krossfestur. Og henni er eignaður einn fallegasti texti Nýja testamentisins, lofsöngur Maríu.
Spurningin sem fegrunaraðgerðir eins og þær sem hér eru til umræðu vekja er spurningin um eðli hins innra og ytra frelsis, við þurfum nefnilega á hvoru tveggja að halda. Það er ekki síður vettvangur hins dýrmæta feminisma að synda á móti straumi vestrænnar blekkingar um að maðurinn sé frjáls í vali sínu. Hið innra frelsi snýst fyrst og fremst um að þekkja sjálfan sig og eigindir sínar og rækta það góða sem er fólgið í persónu manns. Þar eru foreldrar ungra barna þungavigtarfólk og þar á eftir koma uppeldisstofnanir, íþróttafélög og kirkjan. Með hinu innra frelsi eflist sjálfstraustið en það er ekki eins afstætt og tíðarandinn eða menningin, María Guðsmóðir ber þeirri staðreynd göfugt vitni. Jesús sagði „ sannleikurinn mun gera yður frjálsa“ það er mikill sannleikur fólginn í því að sérhver manneskja er sköpuð í Guðs mynd og hefur fyrst og síðast það hlutverk að vera sjálfri sér trú. Sannleikurinn er undirstaða frelsis, þess vegna þurfum við að þekkja sannleikann, það er vissulega æfiverkefni hvers manns, en eitt er víst að ekkert er eins andstætt sannleikanum eins og það að vinna gegn eigin frelsi.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1983.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar