Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Elínborg Sturludóttir

Vont er þeirra ránglæti verra þeirra réttlæti

24. febrúar 2013

Kæri söfnuður!
Ég heilsa ykkur með kveðju Páls postula. Náð sé með ykkur og friður.

Björgunarsveitarmennirnir okkar í Heiðari fóru á milli húsa í sveitinni í gær og seldu okkur blóm og súkkulaði og minntu okkur á það að Konudagurinn er í dag.

Konudagurinn er fyrsti dagur góu. Þorrinn kvaddi okkur í gær með strekkingi og þungbúnum himni. Og það er áreiðanlega víst að veðurspekúlantar geta lesið í það hvernig þorri og góa mættust!

Áður fyrr áttu húsfreyjur að fagna góu á sama hátt og bændur fögnuðu fyrsta degi í þorra. Þær áttu að fara fyrstar allra á fætur, ganga út fáklæddar fyrsta morgun í góu og bjóða hana velkomna. Góan er næstsíðasti vetrarmánuðurinn skv. hinu gamla tímatali okkar Íslendinga en þorrinn og góan þóttu langerfiðastir vetrarmánaðanna áður fyrr þar sem oft var farið að ganga á matarbirgðirnar á bæjunum. Orðatiltækið að þreyja þorrann og góuna birtir einmitt þann skort sem gat einkennt þessa mánuði áður en menn fóru að komast í nýmetið sem fylgdi vorinu.

Ég las nýverið bókina Mensalder eftir sunnlendingin Bjarna Harðarsson, bóksala og fv. alþingismann. Í bókinni segir frá fólki á suðurlandi sem fæddist fyrir síðustu aldamót og lifði langt fram eftir tuttugustu öldinni.

Aðalsöguhetjan er Mensalder Raben Mensalderson. Móðir hans dó af barnsförum þegar hann fæddist. Vinnukonan varð fóstra hans og ól hann upp. En saga hennar er saga svo fjöldamargra Íslendinga í gegnum tíðina sem lenti í þeirri stöðu að verða ómagar, eins og það var kallað. Hún var aldrei fermd af því að hún lærði aldrei að lesa. Hún var ekki vitlaus, síður en svo, en það nennti enginn að kenna ómaganum að lesa!

Af hverju skyldi hún hafa lent á sveitinni? Jú, það var vegna þess að þegar hún og annar maður fundu ómerktan sauð, sem var illa leikinn af vargi, skáru þau sauðinn og fóru með kjötið heim. Sauðurinn var skorinn og settur í tunnu og kjammarnir sviðnir og fólkið, sem var orðið svo langt leitt af sulti í harðræði útmánaðanna af því að heyin árið áður höfðu verið léleg og harðindin mikil, hjörnuðu við. Garnagaulið hætti og það kom litur á kinnar barnanna. En eitthvert barnið missti það óvart út úr sér að það hefði fengið svið á þorranum eða góunni og þar með byrjaði boltinn að rúlla.

Hreppstjórinn kom með meðreiðasveina og allir voru yfirheyrðir og húsbóndinn sakfelldur fyrir þjófnað. Engum vörnum var við komið. Kotið var boðið upp og með því allar fátæklegar eigur fjölskyldunnar, meira að segja silfursvipan — ættargóssið — og hnakkur bóndans. Allt boðið upp fyrir slikk. Heimilið leyst upp, börnin send út og suður og hjónin, niðurlægð og öllu svipt, lentu í vinnumennsku með minnsta barnið. Þetta er saga fátæks fólks, íslenskrar alþýðu í gegnum aldirnar. Smánarblettur á íslenskri sögu. Saga um miskunnarleysi, illsku og múgæsings. Er að undra þó að nóbelskáldið hafi ritað þessa fleygu setningu: „Vont er þeirra ránglæti, verra þeirra réttlæti.“

Ísraelsmenn voru fjörutíu ár í eyðimörkinni áður en þeir voru tilbúnir til að ganga inn til fyrirheitna landsins. Fjörutíu daga var Kristur í eyðimörkinni og stóðst freistingar Satans.

Fjörutíu virkir dagar líða frá öskudegi og fram að páskum. Upprisuhátíðinni.

Föstutíminn hefur í gegnum tíðina verið notaður í trúarlegu samhengi til að fara inn á við, skoða huga sinn og breytni. Velta fyrir sér brestum sínum, hvort og hvernig við höfum gert á annarra hlut. Iðrast og sýna yfirbót með einhverjum hætti. Föstutíminn hvetur okkur til að horfast í augu við þær freistingar sem okkur hefur ekki tekist að standast. Það er freisting að standast að draga sér ekki fé, þótt maður sé í aðstöðu til þess. Það er freisting að standast að vera maka sínum ekki ótrúr þótt maður hafi tækifæri til að halda framhjá. Það er freisting að standast að misnota ekki vald sitt eða aðstöðu sé maður í valdastöðu. Svona mætti telja upp mýmargar freistingar sem karlar og konur standa frammi fyrir alla daga árið um kring.

Þessi árstími er tíminn þegar trúin hvetur okkur til þess að hlúa að auðmýkt og styrk til að sýna iðrun, gera yfirbót og biðjast fyrirgefningar.

Það getur verið mikið átak að sjá að sér. Það getur verið stórt skref að horfast í augu við að maður hafi gert mistök eða á annarra hlut. Flest höfum við tilhneigingu til að réttlæta okkur og finnast okkar sjónarhóll sá eini rétti. Í lífi okkar flestra rennur upp sú stund að það gæti verið hjálplegt að brjóta odd af oflæti sínu og biðjast fyrirgefningar.

Og það er mikil gjöf að geta fyrirgefið öðrum. Og gleymum því ekki að við eigum ekki heimtingu á fyrirgefningu. Fyrirgefningin er gjöf. Og þótt okkur þyki við ekki geta fyrirgefið er Guði ekkert um megn. Það er Guð sem gerir fyrirgefninguna mögulega. Því trúin flytur þann boðskap að allir menn eigi sér von. Von um að sjá að sér, byrja upp á nýtt og verða betri og heilli manneskjur. Og vegna þess að mannheimar eru brotinn og viðkvæmur veruleiki biðjum við: „Fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.“

Flest göngum við í gegnum ýmsa erfiðleika og áföll í lífinu. Mótlæti gerir ekki endilega boð á undan sér og það getur mætt okkur á ýmsan máta og jafnvel óvæntan. Mótlæti getur þroskað okkur, en það getur líka brotið niður. En við þurfum að geta tekist á við áföll og mótlæti. Trúin gerir ráð fyrir því að við þurfum að herða okkur og aga til að geta mætt erfiðleikum þegar þeir virkilega steðja að. Og þess vegna hafa föstur haft þann trúarlega tilgang í gegnum tíðina að stæla andlegan viljastyrk.

Ég gekk með fermingarbarnahópnum mínum á Stafholtsfjall á dögunum. Þetta er orðinn hluti af fermingarfræðslunni. Það var bjartur og fallegur dagur og þegar við komum að vörðunni sem þar hefur verið hlaðin, sáum við til allra átta og marga jökla bæði í vestri og austri og a.m.k. til sjö kirkna að sagt er. Við stóðum á krossgötum í bókstaflegri merkingu þess orðs. Það getur verið erfitt að standa á krossgötum eins og þjóðsagan segir okkur, það geta verið margar freistingar sem þarft að standast. Við vitum ekki alltaf hvaða ákvörðun er sú rétta. „Sjaldan hef ég flotinu neitað“, sagði maðurinn á krossgötunum, sem hafði staðist gull og gersemar, en sulturinn sagði til sín og hann freistaðist eitt augnablik og þar með gekk hann af göflunum. Ákvarðanir geta orðið til blessunar og bölvunar og við vitum ekki alltaf hvert þær leiða okkur.

Það koma reglulega tímar í okkar lífi þegar við stöndum á krossgötum. Krossgötur hafa það eðli að við getum tekið nýja stefnu, stundum beinlínis finnum við fyrir þörf til þess.

En til þess að við getum tekið nýja stefnu þurfum við oft að fara inn á við, skoða hug okkar og lífssýn. Jafnvel að taka til gagngerrar endurskoðunar alla okkar breytni. Þetta getur verið erfitt en það getur líka verið mikill léttir og spennandi breyting sem fylgir því.

Ég hef verið nokkuð hugsi yfir þeim múgæsingi sem einkennir íslenskt samfélag í okkar samtíma. Það er auðvelt að stjórna samfélagsumræðunni. Þar leika fjölmiðlar og netheimar stórt hlutverk. Það er auðvelt að láta undan þeirri freistingu að rjúka upp til handa og fóta. Samfélagið virðist þrífast á óyfirvegaðri umræðu og upphrópunum. Það getur verið freistandi að elta fjöldann í skoðunum. Það er mikil freisting að láta draga sig til þess að „kommentera“ með stórkarlalegum yfirlýsingum, dómum án yfirheyrslu og réttarhöldum og þá er stutt í að fordómar og hatur taki völdin. Þetta er dómstóll götunnar og hinna sjálfskipuðu sem álíta sig hafa pólitískt réttar skoðanir eins og það stundum er kallað.

Það reynir á okkur hvert og eitt, þegar samfélagsumræðan er orðin jafn hatrömm og raun ber vitni, að vera yfirveguð, spyrja gagnrýninna spurninga. Og ap taka ekki öllu sem gefnu en muna að fjölmiðlamenn túlka sannleikann og hinn stóra endanlega sannleik er ekki endilega að finna á síðum dagblaðanna eða í fréttum RÚV eða þeirra sem eru í valdastöðum og hafa lög og reglur með sér. Við skulum minnast þess að flest mál eiga sér tvær hliðar og margir menn eiga sér málsbætur og grundvallarréttarregla lýðræðisríkisins er sú að maður sé saklaus þar til sekt er sönnuð. Þar með er ég ekki að halda því fram að dómarar geti ekki komist að rangri niðurstöðu.

Það reynir á okkur að hrapa ekki að ályktunum sem byggja á hæpnum forsendum.
Minnumst þess að múgæsingur olli því að Kristur var krossfestur, en ekki Barrabas. Ótti, vanþekking og misbeiting valds olli því að þúsundir kvenna og karla voru brennd á báli á miðöldum fyrir litlar eða engar sakir.

Höfum það í huga að enn þann dag í dag er fólk sem er tilbúið til að kasta öðrum á eldinn! Og margt af því telur sig byggja ástæðurnar á sannfærandi rökum!

Við gætum velt því fyrir okkur á þessari föstu hvort við gerum okkur sek um að taka þátt í múgæsingi eða hvort við horfum á bálið brenna og hvaða birtingarmynd hefur bálið nú?

Kæri söfnuður! Guðspjall dagsins fjallar um miskunnsemi. Bartimeus blindi situr við veginn og hrópar á miskunn. Og í upphafi hverrar guðsþjónustu endurómum við þessa bæn: Drottinn miskunna þú mér. Kristur miskunna þú mér.

Sú stund rennur upp í lífi okkar flestra að við þurfum á miskunn Guðs að halda. Og ekki aðeins miskunn Guðs heldur jafnframt miskunn annarra manna. Að sýna öðrum miskunn og mildi er göfugmannlegt. Jesús sýndi Bartemeusi að hann vildi mæta neyð hans og gefa honum sjónina aftur. Við megum þakka fyrir að sjá og hafa sjón. En mörg skortir skýra sýn. Skýra sýn á það sem mestu varðar. Skýra sýn á það hvar Guð er að finna. Skýra sýn á þann styrk sem okkur er gefinn. En Jesús áréttaði mikilvægi þess að treysta Guði.

„Trú þín hefur bjargað þér! “ sagði hann við Bartemeus.

Guð gefi að við hvert og eitt megum eiga og rækta þannig trú.
Trú sem bjargar okkur á ögurstundu. Trú sem frelsar og styrkir þegar við þurfum allra mest á því að halda.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 9680.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar