Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Sigurjónsson

Þá máttu fyrst fara að hafa áhyggjur

13. febrúar 2013

Sunnudagur í föstuinngang. (Lúk. 18:31-34) - útvarpsprédikun

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag er sunnudagur í föstuinngangi. Fastan er á næsta leiti. Íslendingar halda sína kjötkveðjuhátíð á sprengidegi og borðað sig í spreng af saltkjöti. Persónulega finnst mér það góður siður – enda veit ég fátt betra en saltkjöt og baunir. Síðan ættum við að láta kjöt vera allt fram að páskum að fornum sið.

Ég sagði eitt sinn við konuna mína: „Þóra mín – ég held þú elskir mig ekki lengur“

„Hvers vegna heldur þú það?“ spurði hún með furðusvip.

„Vegna þess að við borðum ekki saltkjöt og baunir nema einu sinni á ári og það er það besta sem ég veit að borða“.
„Gunnar minn. Þetta er svo óhollt að að við höfum þetta ekki í matinn nema einu sinni á ári – vegna þess að ég elska þig. Ef ég fer að hafa það oftar, þá máttu fyrst fara að hafa áhyggjur.“

Sem betur fer hefur það svo verið að kristnir, vítt um heim, hafa haldið í þessa hefð að kveðja kjötið og fasta fram að páskum með því að borða eitthvað annað. Á Ítalíu, Portúgal, Spáni og fleiri löndum þar sem kristni er þjóðartrú, borða menn á föstunni kynstrin öll af saltfiski sem þeir kunna að matreiða á margvíslegan hátt. Þetta hefur um kynslóðir stutt íslenskt atvinnulíf svo um munar. Sérstaklega vegna föstunnar. Við höfum líka lært af þessum þjóðum nýjar matreiðsluaðferðir með saltfiskinn.
Það var nú reyndar svo að leiða má líkum að því að bannárin hafi tekið enda með hinum svokölluðu Spánarvínum þar sem sömu lönd og keyptu af okkur saltfiskinn fannst vöruskiptajöfnuður helst til óhagsstæður og kröfðust þess að selja okkur innlendar vörur sínar í skiptum fyrir saltfiskinn.
En það er önnur saga.

Í ljóði Steins Steinars sem hann kallar Passíusálm nr. 51 segir:

Á Valhúsahæðinni
er verið að krossfesta mann.
Og fólkið kaupir sér far
með strætisvagninum
til þess að horfa á hann.

Það er sólskin og hiti,
og sjórinn er sléttur og blár.

Þetta er laglegur maður
með mikið enni
og mógult hár.

Og stúlka með sægræn augu
segir við mig:

Skyldi manninum ekki leiðast
að láta krossfesta sig?

Stúlkan með sægrænu augun veltir því fyrir sér hvort manninum leiðist ekki að láta krossfesta sig. Slíkt hlutskipti myndi að sjálfsögðu enginn velja sér.

Það er því ekki nema von að lærisveinarnir sýni skilningsleysi við orðum Jesú: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“

Lærisveinarnir fóru vítt og breitt með Jesú. Allt frá því að Jesús fór með þeim til brúðkaupsins í Kana þar sem hann breytti vatni í vín, breytti skorti í gnægð, var ferðalagið með Jesú eitt samfellt ævintýri. Þeir sáu ýmislegt markvert, öðluðust trú á hann og upplifðu stórkostlega hluti. Hann flutti Fjallræðuna, eina stórmerkustu prédikun allra tíma. Gerði kraftaverk, mettaði þúsundir, reisti frá dauðum og vakti trú hjá samferðafólki sínu. 
 Ef Jesús hefði nú sagt. „Við skulum fara aftur til Kana í brúðkaupsveislu. Þar verða veisluföng og okkur verður tekið fagnandi. Ekkert mun þrjóta af þeim gæðum sem fram verða bornar og við förum þaðan mett, sæl og glöð.“ Þá hefðu lærisveinarnir sennilega fyllst gleði og verið spenntir fyrir því sem framundan væri.

Núna skilja þeir ekki neitt. Það er ekki laust við að maður velti því fyrir sér hvort maður hefði ekki í þessum sporum reynt að hafa áhrif á meistarann og forðað honum frá þessum ósköpum sem hann er að lýsa. Hvers vegna ættum við að velja þann kost að kalla yfir okkur niðurlægingu og dauða?

„Jesús, eigum við ekki heldur að fara eitthvað annað? Mér líst eiginlega ekkert á þetta. Förum frekar til Kana eða einhvers annars staðar í Galíleu. Þá forðum við þér frá þessum örlögum.“

Hvers vegna ætlar Jesús að fara til Jerúsalem ef hann á von á þessum móttökum?

Svarið gefst í guðspjallinu sjálfu og er í fullkomnu samræmi við það sem Jesús hefur undirbúið lærisveina sína fyrir. Í Matteusarguðspjalli verða lærisveinarnir hryggir þegar Jesús segir þessi orð. Jesús hafði undirbúið þá eins vel og hann gat fyrir þetta en það er mannlegt að vona það besta og ýta slíkum spádómum eða fyrirsjáanlegum örlögum til hliðar, þegar allt leikur í lyndi.

Í Lúkasarguðspjalli, sem er guðspjall dagsins í dag, skilja þeir ekki neitt í neinu. Nú er komið að því sem meistarinn hefur áður um talað. Það hafa því ekki verið glaðværir lærisveinar sem fylgdu meistara sínum áleiðis til Jerúsalem vitandi hvað biði hans. Kanski báru þeir þá von í brjósti að þetta færi á annan veg. Viðbrögð þeirra, þegar þeir atburðir gerast sem marka píslargöngu Krists, bera það með sér að lærisveinarnir voru óöryggir, hræddir og vonsviknir. Þrátt fyrir allt.

Konurnar sýna mestu áræðnina og ef ekki hefði verið fyrir þær, hefði boðskapur upprisunnar borist með allt öðrum hætti.

Krossfesting er líka svo niðurlægjandi dauðdagi. Krossfestingin er hneyksli, þar sem hinn deyjandi er hengdur upp á almannafæri til sýnis og háðungar. Hún er augsýnileg og pólitísk aftaka. Hún er líka heimskuleg drápsaðferð sem veldur almennri reiði og gæti stuðlað að uppþotum.

Þannig var líka trúnni á hinn krossfesta og upprisna tekið. Hún var mörgum hneyksli og þótti jafnvel heimskuleg. Það hefur ekki breyst. Þau sem eiga trúna á hinn upprisna Drottinn, mæta oft slíkum viðhorfum. „Því að orð krossins er heimska þeim er glatast, en oss sem hólpnir verðum, er það kraftur Guðs“, segir í pistli dagsins.


Jesús uppfyllti það sem spáð var fyrir um með dauða sínum. Til þess að allt það komi fram sem spáð var. Vér prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku, en hinum kölluðu, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs.


Píslargangan er því hvorki ósigur né endalok baráttunnar. Hún er upphafið að sigurgöngu Krists, hún er sigur Guðs og upphaf kirkjunnar. Hún er forsendan fyrir skilningi okkar á frelsun mannsins. Fyrir trú höfum við sigurinn. 
Krossinn sem er hneykslunarlegt og heimskulegt aftökutæki í sjálfu sér, er fyrir hinum trúuðu sigurtákn trúarinnar vegna upprisunnar. Þess vegna bera margir þetta aftökutæki sem krossinn er, með stolti vegna upprisunnar. Vegna sigursins, þegar lífið sigrar dauðann. Þess vegna merkjum við okkur líka þessu tákni þegar við signum okkur, skírum börnin okkar og minnumst ástvina við kistulagningu eða gröf. Dauðinn er sigraður.

Fastan er kærkominn tími til þess að setja til hliðar eitthvað það sem þér gæti fundist að stjórnaði lífi þínu eða vilt athuga hversu mikið er ráðandi í lífi þínu.
 Það þarf ekki endilega að vera kjöt. Þú gætir allt eins tekið ákvörðun um það að frá og með öskudegi myndir þú sleppa áfengi eða tóbaki eða hverju því sem ekki er lífsnauðsynlegt og lagt til hliðar þá fjárhæð sem neysla þess kostar þig til tækjakaupa Landspítalans sem Þjóðkirkjan mun standa að með landssöfnun og frú Agnes Sigurðardóttir, biskup hefur tilkynnt að staðið verði að á næstunni.

Nú eða tekið þann tíma sem þú hefðir annars varið fyrir framan sjónvarp eða tölvuna í frítíma þínum og farið í heimsóknir eða boðið vinum heim til þín. Það gæti verið sá tími sem fjölskylda og vinir fá frá þér í staðin.

 Taktu burtu á föstunni eitthvað sem er ekki lífsnauðsynlegt, eitthvað sem þú innst inni vilt ekki verja tíma þínum í en er samt að taka rými í lífi þínu.
Notaðu það til góðs, fyrir þig – fyrir aðra.
Hvernig væri að nota föstuna sem endurmat á lífinu og nota hana sem andlega og trúarlega uppörvun?

Fastan er tíminn þar sem við getum endurnýjað trú okkar, gert upp það sem truflar okkur frá því að lifa því lífi sem við viljum lifa og horft fram til páskasólarinnar með von í hjarta og brennandi í andanum. Þá verður fastan tímabil nýrra uppgötvana, betri lífsstefnu og trúarlegrar dýptar.

Jesaja segir:“.. sú fasta sem mér líkar er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.“ (Jes.58.6)

Jesaja er þarna að benda á að fastan er ekki bara íhugun inn á við, heldur felur í sér athöfn.
Að berjast góðu baráttunni með því að standa vörð um þau sem minna mega sín, „leysa bönd oksins“ sem geta verið efnahagslegar þrengingar einstaklinga og heimila, fæða, klæða, hýsa og annast um. Þetta brennur á samfélagi okkar núna. Fastan sem Jesaja bendir á er því hápólitískt mál. En svo er líka um öll mál er varða samfélag okkar og félagslega vitund.

Á annað hundrað kirkjur um land allt bjóða upp á trúarlegt samfélag þar sem við getum komið saman að hlýða á Guðs orð, biðja og eiga samfélag við trúsystkin okkar í nærveru Krists. 
Í kirkjuna eru allir velkomnir sem þangað vilja leita og ferðalagið framundan er spennandi því guðspjallstextar föstunnar eru fullir af baráttu og stórfengleika. Ef við erum eins og lærisveinarnir í guðspjalli dagsins í dag að skilja ekki alveg merkingu og tilgang. Komum þá til kirkju til þess að öðlast betri innsýn inn í þann veruleika sem Guð vill opinbera okkur.

Notum föstuna sem framundan er til sjálfsskoðunar, endurmats og trúarlegrar íhugunar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun, um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1798.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar