Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Vald væntinganna

27. janúar 2013

Vænstu þess góða
Hugur okkar er sífellt að gera ráð fyrir framtíðinni og draga upp myndir af hinu ókomna. Væntingarnar sem við gerum okkur um framtíðina hafa bein áhrif á reynslu okkar og það hvernig við upplifum það sem á daga okkar drífur.

Þetta er útgangspunktur í nýrri bók eftir Chris Berdik sem heitir Mind over mind - the surprising power of expectations, eða Hvernig hugur ræður huga - hið óvænta vald væntinganna. Í henni notar höfundur kenningar úr læknisfræði, taugafræði og sálfræði til að skoða hvernig væntingar okkar um framtíðina hafa áhrif á og móta gjörðir okkar, persónuleika og heilsu. Hann tekur dæmi af því hvernig væntingar hafa áhrif á bragðupplifun þegar fólk dreypir á víni með bundið fyrir augu og hvernig lyfleysur sem innihalda engin virk efni hafa samt sem áður áhrif á heilsu fólks.

Atriðin sem Chris Berdik bendir okkur á, leiða hugann enn og aftur að því hvað hugarfar manneskjunnar skiptir miklu máli. Á einfaldan hátt getum við sagt að neikvætt hugarfar leiði til neikvæðrar atburðarrásar og jákvætt hugarfar leiði til jákvæðra atburða. Væntingarnar sem við berum í brjósti skipta raunverulegu máli fyrir það hvernig okkur farnast.

Þetta er m.a. ástæðan fyrir því hvað jákvætt umhverfi sem styður og lyftir upp hinu góða og fallega, er mikilvægt öllum, ungum og eldri, körlum og konum. Þetta er ástæðan fyrir því að það er eftirsóknarvert að skapa umhverfi sem horfir til þess sem jákvætt og uppbyggjandi, því það styrkir hvert og eitt okkar til að hafa væntingar í samræmi við það. Andstæðunni við slíkt umhverfi, var gerð prýðileg skil í áramótaskaupinu núna síðast þegar kommentakerfi á netinu voru færð af skjánum og inn í samhengi daglegs lífs. Þar voru engar væntingar um annað en kaldhæðni, lítillækkandi athugasemdir, dónaskap og hreint og klárt ofbeldi af hálfu samferðafólksins.

Umhverfið skiptir máli
Snilldin við þessi atriði í áramótaskaupinu var vitaskuld sú að þau settu okkur andspænis hegðun sem vissulega viðgengst ótrúlega víða. Fáránleikinn sem fylgdi því að færa samtölin frá kommentakerfi fjölmiðils og inn í raunveruleikann, olli því að við vissum ekki hvort við ættum að hlæja eða gráta. Nei, þetta er ekki umhverfi sem er jákvætt og gott að tilheyra. Við viljum ekki svona umhverfi.

Styðjandi umhverfi er hvetjandi á jákvæðar væntingar sem leiða til þess að við leyfum gjafanna okkar að njóta sín, hvert með sínum hætti, eins ólík og við erum. Splúnkunýtt Júróvisjón lag Lífið snýst, með Svavari Knúti og Hreindísi Ylvu, orðar þetta svo vel þegar segir í viðlaginu: Heimurinn má njóta okkar ljósa. Hvert og eitt okkar eigum gjafir og hæfileika sem við getum ræktað til góðs og margfaldað, okkur sjálfum og öðrum til gæfu og gleði.

Hæfileikar heita talentur á sumum tungumálum en það er líka orðið yfir gjaldmiðilinn á tímum Jesú. Og þannig vill til að talentur koma við sögu í guðspjalli dagsins um þjónana þrjá og húsbónda þeirra sem fór í ferð og fól þjónunum eigur sínar, fimm, tvær og eina talentu (Mt 25.14-30).

Væntingar þjónanna
Ég held að við eigum að lesa þessa sögu með kenningarnar um áhrif væntinganna í huga. Sagan snýst um þriðja þjóninn sem eins og hinir tveir fær fjársjóð til varðveislu á meðan húsbóndi þeirra fer burtu. Öll atburðarrásin gerir hann brjóstumkennanlegan, öfugt við hina þjónana er hann sviptur fjársjóðnum sem honum var falinn, og þar ofan í kaupið er hann rekinn út í ystu myrkur þar sem er grátur og gnístran tanna.

Þessi ógæfusami þjónn á skilið samúð okkar, ekki hafði hann gert neitt rangt, ekki glataði hann fjársjóðnum, ekki umgengst hann fjársjóðinn af léttúð, eyddi honum ekki í rugl eða lánaði með okurvöxtum. Hann skilaði nákvæmlega því tilbaka sem honum var falið.

Kannski var það ekki brilljant hugmynd að grafa fjársjóðinn - en síðan hvenær krefst Guð þess að við séum snillingar til að við getum tekið á móti boðskap hans? Ef það að skorta snilligáfu er ávísun á grát og gnístran tanna, erum við flest í vondum málum. Hvað er þá það sem þriðji þjónninn klikkar á? Klikkið hans liggur í afsökuninni sem hann ber fram - sem afhjúpar með hvaða hugarfari hann nálgaðist allt viðfangsefnið.

Þegar hann segir: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki, dregur hann kolrangar niðurstöður af því sem hann ætti að vita. Hefur húsbóndinn virkilega gert eitthvað til að verðskulda þessa einkunn sem þjónninn gefur honum? Sagan dregur einmitt upp hið gagnstæða, hann treystir þremur þjónum fyrir eigum sínum og gefur þeim frjálsar hendur um meðferð þeirra. Samt heldur þriðji þjónninn hinu gagnstæða fram. Hann gerir húsbóndanum sem hafði látið verðmæti í hendur hans, upp að vera kröfuharður og yfirgangsamur.

Líf í ótta og líf í frelsi
Þannig hafði þjónninn gert sér kolranga mynd af húsbónda sínum, og í samhengi dæmisögunnar, kolranga mynd af Guði. Þessar neikvæðu væningar fæða af sér angist og áhyggjur sem hafa raunveruleg áhrif á viðkomandi. Þessi þjónn þurfti ekki að vera sendur út í ystu myrkur - hann var þar þegar, í ótta sínum og angist yfir kröfunum sem honum fannst stjórna lífi hans. Grátur og gnístran tanna var þegar veruleiki hans, kallaður fram af hans eigin tilbúnu mynd af því hvernig Guð er.

Árangur og velgengni hinna þjónanna felast því ekki í fjárhagslegum gróða sem þó liggur fyrir, heldur í því að hafa tileinkað sér frelsið sem jákvæðar væntingar fela í sér. Frelsi jákvæðu væntinganna leiddi þá til að finna með áræðni og orku hvaða leiðir þeim voru færar til að njóta sín og njóta þeirra gjafa sem þeim voru gefnar.

Þessar væntingar geta líkað kallast trú. Trúin okkar mótar sýn á okkur sjálf og stöðu okkar í heiminum. Við getum því sagt að trú þjónanna hafi skipt sköpum um væntingarnar sem þeir höfðu til húsbónda síns. Hinir tveir fyrri höfðu trú á Guð sem gefur og styður og gleðst yfir góðum hlutum. Sá þriðji átti trú sem lokaði og hamlaði af því að þannig var myndin af Guði.

Hvernig er trú þín?
Með hvaða hugarfari umgengst þú talenturnar sem þér eru gefnar? Ertu frjáls og notar þær til að ávaxta hæfileikana þína, mæta áskorunum með jákvæðum væntingum og láta drauma þína rætast? Eða ertu hrædd og vilt helst ekki gambla með gjafirnar þínar, því það gæti farið illa? Lætur þú mynd af Guði sem er kröfuharður og ágengur loka þig inni í óttanum - eða opnar þú faðminn fyrir gjöfum Guðs sem hann gefur þér til að nota til góðs fyrir sjálfa þig og aðra? Hvernig er trú þín?

Lífið er að vissu leyti eins og hæfileikakeppni. Það snýst ekki um hver stendur uppi sem sigurveigari, hver fær að fara til Malmö með besta Júróvisjónlagið í ár, heldur hvernig þú notar þá hæfileika - þær talentur sem Guð gefur þér - til góðs fyrir þig og aðra.

Heimurinn má njóta okkar ljósa!

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2530.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar