Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Thor Aspelund

Óvissan er blessun

1. janúar 2013

Gleðilegt ár kæru kirkjugestir
Guðspjall dagsins er sérstakt og dularfullt jafnvel.
„Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.“
Textinn tengist páskahátíðinni í Jerúsalem. Reyndar 2 árum áður fyrir krossfestinginuna. Höfundur Guðspjallsins segir okkur að margir hafi farið að trúa á Jesú vegna þeirra tákna sem hann gerði. En hann gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti heldur ekki meðmæli eða umsagnir frá öðrum því hann vissi hvað í hverjum manni bjó.
Guðspjallamaðurinn segir okkur nokkrum sinnum í Jóhannesarguðspjalli að Jesú viti hugsanir annarra og að hann þekki eðli manna. Einnig segir hann okkur að Jesú viti fyrir fram hver muni svíkja hann og að hann viti allt, sem yfir hann mundi koma, þar eða að segja að hann viti örlög sín.
Þegar Jesú er handtekinn 2 árum síðar og Pétur reynir að verjast. 11Þá sagði Jesús við Pétur: „Sting sverðinu í slíðrin. Á ég ekki að drekka kaleikinn, sem faðirinn hefur fengið mér?“
Í Lúkasarguðspjalli er svipðu lýst með meiri sálrænni þjáningu. Þar er Jesús einn vakandi í Getsemane rétt fyrir handtökuna. Þar baðst hann fyrir og segir: „Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér! En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“ 
Þetta er dramatísk frásögn. Jésú gengur ekki af göflunum þó að hann viti örlög sín og fylgir áætluninni til enda, drekkur kaleikinn, eins og við þekkjum.
Ég hef alltaf verið heillaður af þessum möguleika sem þarna er gefinn. Væri í alvöru hægt að breyta út af þessari áætlun um krossfestingu og þjáningarfullan dauða? Hugsanlega. Alla vega er möguleikanum velt upp. Er þetta því frekar áætlun en örlög?

Í jólaleikriti Þjóðleikhússins, þessi jól, getum við fylgst með jarðneskjum manni og konu sem ganga af göflunum eftir að hafa fengið vísbendingar um örlög sín frá þremur nornum. Þar eru Makbeð hjónin sem ekki þola að fá fyrirboða um hvað gæti orðið. Þau reyna að fylgja spádómnum eftir og tortíma sínu nánasta fólki og svo sjálfum sér.
Ég held að það leggist líka mjög þungt á venjulegt fólk að fá vísbendingar um hvað verða vill þó svo að annar harmleikur Makbeðs verði ef til vill ekki að raunveruleika. Hugleiðið hvort þið munduð vilja vita hvernig næstu ár yrðu? Segjum að einhver vippaði sér inní bíl til ykkar og segði ykkur í grófum dráttum hvernig all yrði.
Við eigum varnaðarorð í Hávamálum:
Meðalsnotur 
skyli manna hver: 
æva til snotur sé. 
Örlög sín 
viti engi fyrir: 
Þeim er sorgalausastur sefi.
Þessar línur þýða:
Best að vera meðalvitur (ekki of vitur).
Og örlög sín ætti enginn að vita fyrir. Þá hefur maður minnstar áhyggjur.
Á þessum tímamótum velta samt örugglega allir fyrir sér hvað nýtt ár beri í skauti. Hver verða örlög okkar? Verðum við hamingjusöm? Verður heilsan í lagi? Náum við gefnum markmiðum?
Í starfi mínu sem tölfræðingur hjá Hjartavernd fæst ég við að búa til reiknilíkön til að spá fyrir um hvort fólk muni fá hjartasjúkdóm eða ýmsa aðra sjúkdóma á næstu árum.
Reiknilíkönin eru þannig gerð að upplýsingar um ýmsa mælanlega þætti og svör við heilsufarsspurningum eru notuð til að reikna líkindi á sjúkdómi t.d. á næstu 10 árum. Þannig er þetta ekki spá eins og við fengjum frá spákonur eða karli sem mundi segja við okkur: „Á næsta ári munt þú fá hjartasjúkdóm“.
Reiknilíkön gefa vísbendingar í formi líkinda. Niðurstaða úr þeim er ekki endanlegur dómur, hvað þá örlög. Þau gefa ákveðnar líkur á sjúkdómi og um leið þess vegna ákveðnar líkur á að fá ekki sjúkdóm. Einstaklingur með 20% líkur á sjúkdómi er um leið með 80% að fá ekki sjúkdóminn.
Í þetta reiknilíkan fara ýmsir mælanlegir þættir. Það ánægjulega við flesta mælanlega þætti reiknilíkansins er að þeir eru að miklu leyti á okkar valdi, eins og: þyngd, blóðþrýstingur, kólesteról, reykingar. Við getum breytt þeim til betri vegar með markvissum aðgerðum. Þannig getum við haft áhrif á líf okkar og örlög.
Gögnin sem eru notuð til að búa til reiknilíkanið koma úr rannsóknum Hjartaverndar á venjulegum Íslendingum. Miðað við stöðu þessara áhættuþátta höfum við svo fylgst með hvernig fólki hefur reitt af.
Til dæmis eru reykingar eitthvað sem allir ættu að forðast eins og heitan eldinn. Gögnin sýna það ótvírætt. En hvað höfum við heyrt það oft? Það er erfitt að hætta að reykja og skammtímaáhrif eru ekki augljós.
Ég get hins vegar séð í gögnum Hjartaverndar hvernig íslenskir reykingamenn og konur hellast úr lestinni jafnt og þétt með stærðræðilegum takti. Þetta eru næstum eins og örlög. Þeir sem ekki reyktu lifa lengur og eru heilbrigðari. Fólk sem reykir stórminnkar líkur sínar á að njóta lífsins á efri árum með barnabörnunum. Það ánægjulega hef ég líka séð að það borgar sig alltaf að hætta hversu seint sem það gerist.
Í öðru lagi er að borða skynsamlega. Minnka fitu og salt en borða meira af grænmeti og ávöxtum. Þannig má halda blóðfitum niðri og minnka líkur á sykursýki.
Það ánægjulega er að reykingar hafa minnkað og mataræði batnað til muna á síðustu 25 árum. Í kjölfarið hafa sparast mörg hundrum mannslíf á hverju ári.
Í þriðja lagi verður að stunda einhverja líkamsrækt. Þannig má sporna gegn hrörnum og hægja á öldrun. Þeir sem eru veikburða og hafa tapað styrk eru líklegri til að verða veikari og ósjálfbjarga og þurfa á meiri sjúkrahúsþjónustu að halda.

Einfalt hollráð til ykkar:
Besta leiðin er að æfa fæturnar með réttum æfingum eins og hnébeygjum. Það er nauðsynlegt að ganga eða synda með fyrir öndunina. Það þarf ekkert mikið meira.
Í rannsóknum Hjartaverndar á eldri borgurum var 100 manna hópur settur í líkamsrækt. Meðalaltur þátttakenda var 75 ár. Þessir einstaklingar bættu sig í vöðvastyrk og gönguhraða og lífsgæði þeirra jukust. Þarna eru aftur ánægjuleg tíðindi. Það er aldrei of seint að byrja.
Að lokum:
Verið þakklát fyrir að framtíðin er ekki ákveðin fyrir ykkur. Þið getið gripið í taumana. Nýtið ykkur trúna og vonina til að setja heilsuna í forgang og strengið nýársheit um að styrkja ykkur andlega og líkamlega á einhverju sviði.

Takið nýju ári fagnandi með spenningi án kvíða við óvissuna. Óvissan er í raun blessun.

Gleðilegt nýtt ár.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1382.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar