Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Meiri músík, minna mas?

21. október 2012

Það er tónlistarguðsþjónusta í Víðistaðakirkju í dag. Við komum saman til guðsþjónustu þar sem fögur tónlist er í fyrirrúmi og íhugum líka hvers virði tónlistin er í lífi okkar, fyrir líkama og sál. Við njótum píanóleiks og söngs hinnar frábæru listakonu Ragnheiðar Gröndal og erum þakklát fyrir að fá að njóta gjafanna hennar í dag. Við njótum einnig fjársjóða sálmabókarinnar og syngjum sálma í sameiningu.

Tónlist er stór hluti af lífinu og stefnumót trúar og tónlistar hefur alltaf verið dýrmætt og frjósamt. Í Biblíunni er mikið talað um tónlist og hún notuð til að tjá gleðistundir, þakklæti og lof. Í Davíðssálmunum er oft vísað til söngs og tónlistar - og margir sálmar eru tileinkaðir einhverjum sem er kallaður söngstjórinn og leikur stórt hlutverk í lífi þess sem ritaði sálmana. T.d. þessi sálmur sem er númer 40. Hann byrjar svona.

Til söngstjórans. Davíðssálmur.
Stöðugt vonaði ég á Drottin
og hann laut niður að mér og heyrði ákall mitt.
Hann dró mig upp úr glötunargröfinni,
upp úr fúafeni,
veitti mér fótfestu á kletti
og gerði mig styrkan í gangi.
Hann lagði mér ný ljóð í munn,
lofsöng til Guðs vors.
Margir sjá það og óttast
og treysta Drottni.
Sæll er sá maður sem gerir Drottin að athvarfi sínu

Þessi sálmur - sem kenndur er við Davíð konung og tileinkaður söngstjóranum - segir á sinn hátt dramatíska sögu um manneskju í djúpri kreppu sem nær fótfestu í lífinu á ný. Við þekkjum þessa sögu og sjáum hana í raun allt í kringum okkur. Ekki bara í bíómyndum, skáldsögum og leikverkum heldur líka hjá samferðafólki okkar eða jafnvel eigin lífi. Hugsum til þeirra sem hafa séð hyldýpi neyslu og misnotkunar en náð bata. Þetta er þannig saga.

Í sálmi 40 er þessi saga sögð í gegnum tónlist. Fyrst er dregin upp mynd af hinni krepptu manneskju sem veinar og hljóðar - þar til Drottinn heyrir ÁKALL hennar. Þegar hún hefur komist á þurrt og gegnur styrkum fótum til móts við verkefni lífsins hefur hún NÝ LJÓÐ og LOFSÖNG í munni sínum. Með hinum nýja söng hreyfir hún við þeim sem hún mætir með því að bera frelsara sínum vitni.

Davíðssálmarnir eru 2500 - 3000 ára gamlir. En myndin sem þeir gefa af tjáningu tilfinninga í gegnum tónlist á ennþá við. Ennþá hlustum við á dægurlög í ólíkum gerðum sem tjá sársaukann í lífinu, óttann við að vera skilin eftir ein og yfirgefin, og vonbrigðin vegna óendurgoldinnar ástar. Tónlist sem verður eins og ákall úr djúpi sálarinnar, vegna þess hún sprettur upp af innstu hjartans rótum og tjáir dýpstu tilfinningar manneskjunnar. Besta dæmið um þetta er t.d. hin stórkostlega blússöngkona Billy Holiday og hvernig hún syngur frá hjarta til hjarta og lætur engann hlustanda ósnortinn. Sögulega varð blúsinn til snemma á síðustu öld í samfélagi svarta Ameríkubúa sem lifðu þrengingar og erfiðleika vegna kúgunar og mismununar - en rætur hans ná alla leið til forfeðra þeirra og - mæðra og samfélags þeirra í Afríku.

Gleðisöngurinn sem tjáir gleði og fögnuð yfir örygginu, ástinni og lífinu á líka birtingarmynd sína í dægurlögum og tónlist samtímans. Kannski á Elvis Presley frummyndina að ástarsöngvum samtímans sem við hlustum á daglega í nýjum og nýjum búning. Auðvitað virðast þessi nýju ástarljóð stundum yfirborðskennd en ástæðan fyrir því að þau eru ennþá kveðin og ná eyrum okkur aftur og aftur er sú að þau snerta streng í brjóstum okkar allra og lyfta andanum.

Upplyftingaráhrif tónlistarinnar hafa líka verið vel þekkt um langa hríð. Í einni af bókum Biblíunnar sem greinir frá konungum Ísrael, segir frá konunginum Sál sem þjáðist af þunglyndi. Í gegnum veikindi sín hafði hann tekið eftir því að honum leið betur ef hann fékk að njóta tónlistar. Þess vegna var gripið til þess ráðs að kalla á ungan hörpuleikara þegar Sál fékk köstin sín og láta hann leika fyrir konunginn hugsjúka. Þegar tónar hörpunnar bárust til eyrna honum, var eins og honum létti fyrir hjartanu og dimm ský þunglyndisins viku um stundarsakir.

Hörpuleikarinn ungi var enginn annar en Davíð, sem seinna varð konungur í Ísrael og Davíðssálmarnir eru kenndir við. Minningu Davíðs konungs er því ekki síst haldið á lofti fyrir sakir tónlistarinnar í lífinu hans, bæði fyrir hina áhrifaríku sögu um geðveiki Sáls og sjálfa sálmana og tónlistina í þeim.

• • •

Frásagnir Biblíunnar af græðandi mætti tónlistarinnar kallast skemmtilega á við reynslu dagsins í dag af því hvernig tónlist nýtist í lækningarskyni. Mjög margt bendir til þess að tónlist hafi góð áhrif á líðan sjúklinga vegna þess að hún róar hugann og leysir upp streitu. Rétti tónninn og rétta tíðnin getur líka hitt mannslíkamann fyrir með ótrúlegum árangri. Rannsóknir á því hvernig heilinn okkar skynjar og móttekur tónlist leiða ýmislegt í ljós sem getur stuðlað að framförum í umönnun og meðferð á ýmsum sjúkdómum og einkennum.

Músíkþerapía er t.d. notuð með börnum með einhverfu. Einhverfa er taugaröskunarsjúkdómur sem uppgötvast í ungum börnum og er m.a. greind á grundvelli málþroska, félagsfærni og áráttuhegðunar. Einhverfa hefur mikil áhrif á getu einstaklingsins og möguleika hans til að þroskast og dafna, en einstaklingur með einhverfu er sviptur getunni til að bregðast við og aðlagast áreitinu sem verður okkur að öllu eðlilegu til þroska. Rannsóknir hafa sýnt áhugaverðar niðurstöður um áhrif sem tónlist í meðferðarskyni hefur á einhverf börn. Tónlist getur náð í gegn til einhverfa barnsins og haft bætandi áhrif á samskiptahæfni þeirra og félagsfærni. Einhverfa barnið getur móttekið tónlistina á allt annan hátt en orð og tónlausa tjáningu. Tónlistin getur hjálpað hinum einhverfa að skapa tengingu við umhverfið og það sem er í kringum hann - og með því að læra á hljóðfæri getur skapast færni í að fást við ákveðna hluti.

Þannig getur tónlistin orðið að brú milli einhverfa barnsins og umhverfisins og gefið barninu leið til að tjá sig. Þetta gerist gegnum söng, dans og hljóðfæraleik og verður þegar vel tekst stórkostleg lausn og frelsi fyrir barnið sem er lokað í eigin heimi og nýtur ekki góðs af félagslegum samskiptum.

Fólk sem þjáist af heilabilunum eins og Alzheimer sjúkdóminum, er líka móttækilegt fyrir tónlist og ljóðum, þótt að öðru leyti virki þau út úr heiminum. Lög og textar lifa lengur með manneskjunni með heilabilunina, heldur en jafnvel minningin um nána ástvini.

• • •

Tónlist sem verður til að frelsa manneskjuna frá einangrun og kreppu er auðvitað Guðs gjöf og mikið þakkarefni. Eitt stórkostlegasta tónskáld fyrr og síðar, Jóhann Sebastian Bach vissi þetta vel og tjáði með djúpri virðingu þakklæti sitt með því að tileinka Guði tónverk sín. Soli Deo Gloria - Aðeins Guði til dýrðar - var það sem hann merkti sín stórkostlegu tónverk með.

Það sem styður við lífið, auðgar mannlega reynslu og tengir saman fólk, er aðeins Guði til dýrðar. Það á sannarlega við um tónlistina, hina klassísku fáguðu tónlist, hina djúpsáru blússöngva, hina laufléttu ástarsöngva sem ljá brjóstinu vængi - allt það sem hittir manneskjuna í hjartastað og mætir henni hér og nú.

Þess vegna er það okkur hvatning að láta tónlistina móta lífið okkar í ríkara mæli og leyfa henni að hafa þessi góðu áhrif á okkur sem hún hefur möguleika til að gera. Það er ekki tilviljun að tónlist skipi eins mikilvægan sess í kirkjunni og raun ber vitni. Það er vegna þess að tónlist er tungumál andans sem snertir og hreyfir. Munum eftir orðunum sem postulinn talar til kirkjunnar í texta dagsins og látum þau lýsa okkur inn í daginn:

„Fyllist heldur andanum og ávarpið hvert annað með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum. Syngið og lofið Drottin af öllu hjarta og þakkið jafnan Guði, föðurnum, fyrir alla hluti í nafni Drottins vors Jesú Krists.“

• • •

Meiri músík - minna mas voru einkunnarorð útvarpsstöðvar sem spilaði dægurlög en lagði minna upp úr hinu talaða orði. Um helgina fékk þjóðin okkar tækifæri til að tjá skoðun sína á nokkrum stórum atriðum er varða grunnsáttmála þjóðarinnar í stjórnarskrá. Of oft hefur ósætti og þras einkennt umræðu á Íslandi um sameiginleg málefni okkar. Það er þakkarefni að við fengum þetta tækifæri til að taka þátt í að móta framtíðina á landinu okkar og að fólk nýtti það í eins miklum mæli og raun varð. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar ber voninni í þjóðarsálinni vitni - von um betri og réttlátari þjóðarsáttmála sem komandi kynslóðir njóta. Það er sérstakt fagnaðarefni að þjóðkirkjan er hluti af vonarríkri framtíðarsýn þjóðarinnar. Útkoma þjóðaratkvæðagreiðslunnar er gæfuspor til samfélags sem einkennist vonandi af meira samtali og minna þrasi.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1928.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar