Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hildur Eir Bolladóttir

Einelti og fermingarfræðsla

1. október 2012

Við vorum að tala um sjálfsmyndina í síðasta fermingartíma, krökkunum fannst það áhugavert viðfangsefni. Í raun held ég, burtséð frá aldri, að sjálfsmyndin sé eitt aðal áhugamál manneskjunnar, sannarlega ekki að ófyrirsynju. „Ég hélt að fólk gæti aldrei kvartað undan of miklu sjálfstrausti“ sagði glaðleg kona við mig í ræktinni í morgun, þar sem ég sagði annarri að ég væri líklega farin að finna árangur af Pilates æfingunum, hvort sem það væri nú raunveruleiki eða of mikið sjálfstraust. Nei það er rétt sem glaðbeitta konan segir, maður hefur aldrei of mikið sjálfstraust.
„Það er munur á því að vera montinn og hafa heilbrigða og sterka sjálfsmynd,“ segi ég við fermingarbörnin, af því að ég man að þegar maður var þrettán ára og yngri þá var, montinn, eitt af bannorðum samfélagsins, maður hafði ekki einu sinni húmor fyrir þeim sem voru montnir. Það kemur oft með aldrinum af því að þá sér maður betur, hvað það er kjánalegt. Ég sló strax þennan varnagla, að aðgreina mont frá sterkri sjálfmynd, ekki síst vegna þess að þetta er í eðli sínu andstæður. Sá sem er montinn er það vegna þess hann glímir við óöryggi og þarf að skrúfa sig upp til að komast í gegnum daginn, jafnvel þó það þýði að framganga hans kalli á neikvæð viðbrög. Það má aldrei vanmeta mont, það getur hreinlega verið viðbrögð við vanrækslu og kall eftir viðurkenningu og skilningi.
„ Ef allir væru með heilbrigða sjálfsmynd í skólanum ykkar krakkar, þá væri ekkert einelti til.“ Þessi setningi er ávísun á fullkomna athygli, þarna nær maður í fyrsta sinn athygli allra í hópnum ( ekki halda að þess utan megi heyra saumnál detta, þau eru nefnilega 13 ára og hafa á þessum tímapunkti lokið heilum skóladegi). „Þá væri ekkert einelti til“ glymur í höfði þeirra með sterkri viðkomu í hjartastað, af því að ekkert barn vill vera þar sem er einelti, ekki einu sinni þau sem koma beint að framkvæmdinni. „ Sá sem leggur annan í einelti, hefur ekki fengið ráðrúm eða stuðning til að byggja upp það sterka sjálfsmynd að hann eða hún geti átt eðlileg samskipti við hvern sem er,“ ( í tímanum reyni ég að útskýra þetta með einfaldari orðum). Með öðrum orðum, sá sem hefur sterka sjálfsmynd býr yfir frelsi til að geta verið allstaðar þar sem er fólk með ólíkar skoðanir, útlit og getu. „Það er svo mikið frelsi fólgið í því krakkar“ segi ég með áherslu á orðið frelsi því ef það er eitthvert æviskeið sem bara fyrir það eitt að vera æviskeið hneppir mann í ánauð, þá er það gelgjan. Það er alltaf flókið að vera unglingur og hver dagur er háður á vígvelli ómótaðrar sjálfsmyndar í líkama sem veit ekki hvort hann er vinur eða andstæðingur heilans.
„Eitt helsta mission Jesú Krists var að styrkja sjálfsmynd fólks, þess vegna langar okkur að kynna ykkur fyrir honum, þó að það þýði bara það eitt að ykkur líði betur í eigin skinni. „ Nú réttir ein stúlkan upp hönd, „Hildur þurfum við þá ekki að gera marktækar mælingar við upphaf og endi fræðslunnar,“ góð hugmynd og raunar alveg gerleg.
„En nú er þetta orð ekki einu sinni til í Biblíunni , sjálfsmynd. Hvað var Jesús hins vegar að gera í öllum þessum kraftaverkasögum.“ Þetta orð, kraftaverk er alltaf eldfimt í fermingarfræðslu, í fyrsta lagi vegna þess að tölvleikjarisarnir eru í harðri samkeppni við ritninguna og í öðru lagi vegna þess að krakkarnir eru flest of ung til að hafa séð fólk öðlast annað tækfæri í vonlausum aðstæðum.
„ En hvernig var þetta þegar Jesús var að koma til fólks sem var annað hvort, veikt, fatlað, tilheyrði útskúfuðum minnihlutahópi eða hafði gerst sekt um að svindla á samferðarmönnum sínum“? Hvað gerði Jesús þá? Gekk hann til fólksins og sagði, „ææ aumingja þú, þetta hlýtur nú að vera alveg ömurleg staða, að vera svona fatlaður“? Eða „ah óheppin þú að vera kona, koma tímar, koma ráð“ Nei hann sagði fólki að standa upp, ganga af stað, greiða náðinni veg. Og þegar fólk stóð upp, hvort sem það var hálf dáið, fatlað eða reyndist bara vera kona, í forundran yfir kraftaverki lífsins, þá bætti hann gjarnan við „ trú þín hefur bjargað þér.“ Og hvað þýðir það? Það þýðir það að kraftaverkin fara fyrst að gerast þegar við öðlumst trú á eigin verund, og kraftaverk þau gerast enn í dag, oft á dag. Kraftaverk verða vegna krafta sem eru að verki innra með okkur, sem byggja upp sjálfsmyndina sem gerir hið ómögulega mögulegt. Og í því er frelsi manneskjunnar fólgið.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2201.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar