Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Við erum öll Lady Gaga

30. september 2012

Þetta er Judas með Lady Gaga. Lag og myndband sem hefur notið töluverðra vinsælda. Tókuð þið eftir spennunni sem Lady Gaga tjáir bæði í laginu og myndbandinu? Spennunni sem felst í valinu milli Júdasar og Jesú. Lafðin er sjálf mitt á milli.

Þetta er spennan milli freistingarinnar og frelsisins. Því manneskjan er frjáls – við erum frjáls. Og báðir kostir líta vel út. Svolítið ólíkir vissulega, en aðlaðandi.

Tókuð þið eftir textanum:

„Jesus is my virtue, but Judas is the demon I cling to.“

Jesús er dygðin mín, Júdas er skrattakollurinn sem ég laðast að.

Kannski getum við séð þetta sem eins konar lýsingu á lífi okkar allra. Við viljum gera það sem er gott en freistingarnar geta verið svo aðlaðandi.

• • •

En það er meira í myndbandinu. Mótorhjólagengið sem Lady Gaga er með er allt merkt. Þetta eru lærisveinarnir. Þeir eru samfélagið hennar, samhengi lífsins.

Rétt eins og þessi söfnuður í Borgarholtskirkju er samhengið okkar.

Það er ekki alltaf þannig að lærisveinar séu merktir – eins og þessir eru – með nafni á jakka eða peysu – eða með tattú á augnlokinu eins og Lil Wayne í Mirror.

Alla jafna getum við ósköp lítið sagt um það hver fylgir Jesú út frá ytra byrðinu. En kannski sjáum við það þegar við horfum á hvernig vi ð mæta öðru fólki.

Jesús segir í Jóhannesarguðspjalli – og þetta er guðspjallslestur dagsins: Á því munu menn þekkja að þér eruð lærisveinar mínir að þér berið elsku hver til annars.

Og hvernig sjáum við það? Hvernig birtist það?

Það birtist meðal annars í umhyggju.

Og hér verður mér hugsað til alveg dæmalaust fallegrar bíómyndar sem heitir Drottningin af Montreuil. Hún er opnunarmynd RIFF - Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík í ár. Henni er leikstýrt af Sólveigu Anspach og íslensk mæðgin, Didda og Úlfur, leika tvö aðalhlutverkin.

Myndin gerist í París, en hún fjallar um ástandið – á Íslandi og í heiminum – eftir efnahagsHrunið. Hún segir sögu þessara mæðgina sem eru strönduð í París af því að flugfélagið fór á hausinn og þau eiga enga peninga og hafa engan samastað. Og þau hitta franska konu sem heitir Agata og hún skýtur yfir þau skjólshúsi og reynist þeim vel og þau reynast henni líka vel.

Það sem er svo fallegt við þessa mynd er hvernig fólkið í henni mætir öðrum. Hvernig þau mæta ókunnugum.

Þau mæta þeim með því að vera opin.

Kærleiksrík.

Og full af umhyggju.

Og þegar ég sá myndina varð mér hugsað til þess sem unglingarnir á Landsmóti æskulýðsfélaga kirkjunnar sögðu svo eftirminnilega um hvað það merkti að vera kristin manneskja fyrir okkur, í lífinu: Við erum – og eigum að vera – hendur Guðs til góðra verka í heiminum.

• • •

Kæri söfnuður.

Við erum öll Lady Gaga.
Við þurfum að velja milli ólíkra kosta í lífinu.
Stöndum mitt á milli Júdasar og Jesú ef svo má að orði komast.

Sumir valkostir gera okkur og öðrum gott.
Leiða til góðs, fyrir okkur og aðra.
Aðrir ekki.

Við getum valið Jesús.

Eða Júdas.

Og hér kemur þá hvatningin til ykkar: Við skulum velja Jesús og við skulum velja umhyggjuna og þjónustuna.

Við skulum líkjast Drottningunni af Montreuil.

Vera hendur.
Til góðra verka.
Í heiminum.

Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2129.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar