Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Arna Ýrr Sigurðardóttir

Ugla sat á kvisti…

2. september 2012

Ugla sat á kvisti, átti börn og missti; eitt, tvö, þrjú og það varst…..

Ljót saga
Sagan um Kain og Abel er ekki falleg. Sögur um bróðurmorð eru það aldrei. En það er meira en það sem er erfitt við þessa sögu. Hún sýnir okkur nefnilega Guð í ljósi sem okkur þykir óþægilegt. Okkur finnst (og okkur hefur verið kennt) að Guð sé algóður, almáttugur, réttlátur og sanngjarn Guð. Segir ekki Jesús sjálfur að Guð láti rigna yfir réttláta sem rangláta? (Matt. 5:45) Hvað er það þá sem við mætum þarna? Jú, er þetta ekki bara lífið eins og það er? Það er ekki réttlátt. Hverjir þekkja það ekki að foreldrar gera upp á milli barna sinna? Hverjir hafa ekki hrópað upp yfir sig (til Guðs jafnvel) Þetta er ekki réttlátt!!! Þegar lítið barn deyr, eða þegar reglumaður á áfengi og tóbak deyr úr krabbameini, á meðan stórreykinga-maðurinn lifir góðu lífi!
Bara núna er í sjónvarpinu auglýsing um þann harðneskjulega raunveruleika að sum börn fá krabbamein, og sum þeirra lifa það ekki af. Hversu óréttlátt er það? Og óréttlætið er í raun undirstrikað með gömlu barnaþulunni, Ugla sat á kvisti. Það er bara tilviljun sem ræður. Þetta ógnar okkur. Þetta ógnar þeirri mynd sem við viljum hafa af lífinu… að þar sé að finna einhverja skikkan og reglu. Að við uppskerum eins og við sáum…

Laun syndarinnar…
Kain uppskar ekki eins og hann sáði. Hann færði Guði fórn, en Guð kaus að hunsa hana, en leit með velþóknun á Abel. Þannig er lífið. Ekki sanngjarnt. Ekki réttlátt… Það fer ekki eftir fyrirfram ákveðnum ferlum. Ugla sat á kvisti…
En hver er þá boðskapur sögunnar? Guð segir við Kain… Er það ekki svo að ef þú gerir rétt geturðu verið upplitstdjarfur, en ef þú gerir rangt liggur syndin við dyrnar? Boðskapur sögunnar snýst um viðbrögð Kains. Kain reiddist og varð brúnaþungur. Í staðinn fyrir að halda andlitinu, í staðinn fyrir að vera upplitsdjarfur og hugsa:„Ég veit að fórn mín var góð, ég gerði allt sem mér bar, ég þarf ekki að láta höfnun Guðs hafa áhrif á mig, ég held bara mínu striki…” þá reiddist hann, höfnunarkenndin sáði fræjum haturs í hjarta hans. Haturs í garð bróður hans, sem gat ekkert að því gert að Guð kaus hann frekar. Ekkert frekar en systkini geta að því gert að þau eru uppáhald foreldra…
Kain tók reiði sina og hatur út á bróður sinum. Og mætti svo ásökun Guðs með því að firra sig allri ábyrgð. Á ég að gæta bróður míns?

Hinn upplitsdjarfi
Samverjinn sem sinnti fórnarlambi ofbeldis í guðspjallstextanum brást öfugt við. Samverjar höfðu einmitt alltaf fengið þau skilaboð að þeir væru ekki uppáhaldsbörn Guðs. Þeir voru af sama stofni og Ísraelsmenn, en það hafði einmitt verið systkinarígur sem olli vinslitum á milli þjóðflokkanna, þar sem Ísraelsmenn litu á það sem svo að þeir nytu sérstakrar góðvildar Guðs fram yfir Samverja. Það hefði verið auðvelt fyrir Samverjann að spyrja þessarar spurningar:„Á ég að gæta bróður míns? “ En Samverjinn var upplitsdjarfur. Hann lét ekki óréttlæti lífsins hafa áhrif á sig. Hann hélt mennsku sinni, í góðri merkingu þess orðs, hann hélt reisn sinni og bróðurkærleika sínum. Alveg eins og við flest gerum þegar við fullorðnumst, við sættum okkur við það að foreldrar elska okkur ekki jafnt, og við elskum systkini okkar fyrir því.
Hvað gerum við ?
Ugla sat á kvisti… Lífið er ekki réttlátt, gæðum og þrautum er ekki úthlutað eftir kerfi… Hvernig ætlum við að bregðast við? Tökum við reiði okkar út á meðbræðrum okkar og systrum, ásökum við Guð, eða höldum við andlitinu og gerum okkar besta til að gera heiminn örlítið betri?

Merki Guðs
Og er Guð þá bara óréttlátur Guð? Sitjum við uppi með það? Nei, fagnaðarerindið er að Guð sleppti ekki hendinni af Kain. Guð sýndi honum náð, Kain var ekki réttdræpur. Þrátt fyrir glæp sinn var hann merktur Guði.
Við erum líka öll merkt Guði. Hvernig sem lífið leikur okkur, hver sem afstaða okkar til Guðs er, og hvort sem við upplifum það að við höfum notið forréttinda í augum Guðs eða ekki. Merkið sem við höfum fengið var krossmarkið sem við vorum merkt í skírninni. Þá vorum við helguð honum, og þrátt fyrir það hvernig lífið veltur og snýst, þá erum við börnin hans. Fagnaðarerindið er að Guð elskar okkur, ekki að við elskum hann. Alveg eins og foreldri elskar börn sín, jafnvel þótt það geri upp á milli þeirra á stundum. Og við höfum val um hvernig við bregðumst við óréttlæti lífsins. Við getum orðið brúnaþung, steytt hnefann framan í Guð og lífið eða við getum tekið því upplitsdjörf og lifað í vissu um kærleika Guðs þrátt fyrir allt.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3024.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar