Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Stefán Karlsson

Sonur ekkjunnar frá Nain

23. september 2012

Biðjum með orðum Hallgríms Péturssonar:

Ég lifi í Jesú nafni,
Í Jesú nafni ég dey.
Þó heilsa og líf mér hafni,
hræðist ég dauðann ei.
Dauði ég óttast eigi
afl þitt né valdið gilt.
Í Kristi nafni ég segi:
Kom þú sæll, þá þú vilt.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Flest okkar þekkja dauðann í einhverri mynd. Við höfum umgengist hann frá því að við munum fyrst eftir okkur. Dauðinn er staðreynd sem hver maður þarf að horfast í augu við einhvern tímann á lífsleiðinni. Öll sköpunin er ofurseld valdi hans. Nær daglega eru fluttar fréttir af mannfalli af völdum sjúkdóma, slysa, hernaðarátaka, náttúruhamfara og hungursneyða. Margir eru þeir sem hafa orðið að horfa á eftir ástvinum. Börn syrgja foreldra, eiginmenn og eiginkonur maka sína, foreldrar börn sín og þannig mætti áfram telja. Sorgin er oftar en ekki fylgifiskur dauðans, ekki síst þegar börn og ungt fólk eiga í hlut.

En þrátt fyrir að dauðinn sé hluti af sameiginlegum reynsluheimi mannkynsins og að við vitum að við fáum ekki umflúið vald hans verðum við sjaldan handgengin honum. Langflestir óttast hann sjálfs sín vegna og sinna. Sumum er ekki um það gefið að vera minntir á hann. Þeir vilja helst aldrei um hann hugsa eða heyra um hann talað. Slíkir menn reyna að breiða blæju þagnarinnar yfir angist sína. Leggist einhver nákominn vinur eða ættingi veikur, þá má ekki nefna dauðann á nafn. Því síður má minnast á hann verði þeir sjálfir sjúkir.

Það er hins vegar ekki hluti af reynsluheimi nútímamannsins að nokkur maður hafi verið reistur upp frá dauðum með jafn ótvíræðum hætti og lýst er í sögunni af kraftaverki Jesú á syni ekkjunnar frá Nain. Hvaða erindi á slík saga við samtímann? Flestir hrista höfuðið þegar talað er um upprisu frá dauðum. Slíkt er svo fjarri hugmyndaheimi þeirra að þeir afgreiða allt slíkt tal sem blekkingar og lygasögur. Þeir finna enga huggun í slíkri„fjarstæðu”.

Þjónar þá einhverjum tilgangi að segja fólki þessa sögu? Felst einhver sú huggun í henni sem réttlætir að henni sé haldið á lofti?

Þegar við hugleiðum þessa frásögu nánar komumst við að raun um að hún býr yfir lífssannindum sem hafa úrslitaþýðingu fyrir alla menn og ekki síst fyrir þá sem taka við þeim með opnum huga og í trú. Hlutverk hennar er ekki bara að segja frá dauða einhvers manns, sorgum aðstandenda hans og einhverju einstöku kraftaverki sem Jesús vinnur með því að reisa unga manninn upp frá dauðum. Þegar nánar er að gáð býr hún yfir dýpri merkingu sem ekki liggur í augum uppi. Auk þess að segja frá atburðum sem gerðust er höfundur guðspjallsins líka að túlka það sem gerðist. Hann reynir að fá okkur til að sjá atburðarrásina með augum persónanna í sögunni og einnig að miðla upplýsingum sem ljúka upp fyrir okkur æðri sannindum. Hann notar söguna til að koma ákveðnum boðskap til skila.

Þeir atburðir sem lýst er í sögunni gerast fyrir upprisu Jesú. Höfundur guðspjallsins talar hins vegar til áheyrenda sem þekktu til upprisunnar. Það gerum við líka sem heyrum söguna nú. Það gerir að verkum að við erum í betri aðstöðu til að öðlast dýpri skilning á því sem gerðist en þátttakendurnir í atburðarrásinni.

Ef við horfum á atburðarásina með augum þátttakendanna er það sorgin og gráturinn sem blasa við augum. Það er sú mynd sem við þekkjum úr lífinu þegar einhver hefur misst ástvin sinn. Við getum séð fyrir okkur líkfylgdina, grátandi fólkið og ekkjuna sem er yfirkomin af harmi. Sorgin og vonleysið eru allsráðandi. En mitt í þessum dapurlegu kringumstæðum sjáum við Jesús stíga inn á sviðið. „Grát þú eigi“ segir hann við ekkjuna. Síðan gengur hann að og snertir líkbörurnar um leið og hann mælir þessi orð: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp“.

Þá gerist það óvænta. Hinn látni sest upp og tekur að mæla. Það er eins og fjötrar dauðans hafi látið undan máttugri hendi lífsins. Það er að minnsta kosti sá boðskapur sem guðspjallamaðurinn vill flytja okkur. Í þeim orðum hans að Jesús hafi gefið unga manninn móður sinni felast þau skilaboð að Jesús sé sá sem veitir gjöf lífsins. Hann er sú uppspretta sem allt líf sækir næringu sína í. Guð hefur vitjað lýðs síns eins og mannfjöldinn sem varð vitni að máttarverkinu sagði.

Ef svo væri að einn maður hafi verið reistur upp frá dauðum með þessum hætti í þetta eina skipti, væri það harla lítil huggun fyrir þann aragrúa syrgjandi fólks sem hefur misst ástvini sína. Slíkur einstakur atburður væri lítil stoð fyrir það fólk sem ekki hefði aðgang að kraftaverkamanni á borð við Jesú. Skuggi dauðans og sorgarinnar héldi áfram að svífa yfir vötnum. Sagan af máttarverkinu í Nain væri þá í besta falli áhugaverð en einnig ótrúleg kraftaverkasaga sem lítið væri á að græða.

En auk þess að segja sögu af einstöku kraftaverki horfir höfundur guðspjallsins á atburðinn út frá sjónarhóli upprisunnar. Frásögn hans er líka innblásin af andanum, þeim anda sem var gefinn á Hvítasunnudegi og leiðir okkur í allan sannleikann um eðli og þýðingu Krists fyrir allt mannkyn. Sá andi sem stýrir hendi guðspjallamannsins veitir okkur nýjan skilning á hlutverki sögunnar um kraftaverkið í Nain. Hún er einfaldlega tæki sem sögumaður notar til að ljúka upp fyrir okkur nýjum sannindum. Í þeim felst að með komu Jesú í heiminn, dauða hans, upprisu og gjöf heilags anda urðu tímamót í sögu mannkynsins, ný skil sem öllu breyta. Með komu Jesú í heiminn gekk Guð inn í mannleg kjör. Hann vitjaði mannanna. Ekki vegna þess að við mennirnir leituðum hans heldur vegna þess að hann hafði frumkvæði að því að kom til okkar í Jesú Kristi. Eilífa lífið, upphaf alls sem er, er stigið inn í mannheim. Stund þess er runnin upp í veröld mannanna. Hinn lífgefandi andi hefur brotist inn í þá veröld sem virðist mörkuð dauðanum. Sjálfur frelsarinn staðfesti það með orðunum,„Ég er upprisan og lífið”. Við þurfum því ekki að bíða eftir degi dómsins til að mæta skapara okkar. Sjálfur frumkraftur allrar sköpunar, sá sem skapar og gefur líf, er orðinn hluti af veruleika okkar. Hann er staddur hér og nú, mitt á meðal okkar. Og sem hluttakandi í sköpunareðli Guðs hefur Jesús vald til að vekja til lífs. Áhrif hans eru jafn raunveruleg nú sem fyrr. Við þurfum því ekkert að óttast lengur. Broddur dauðans og syndarinnar hefur verið brotinn. Hvað sem á dynur í lífi okkar, jafnvel þótt dauðinn sæki okkur heim, getum við treyst því að hann muni ekki eiga síðasta orðið. Guð hefur tekið frá okkur dauðann í Jesú Kristi. Er hægt að hugsa sér meiri gleðitíðindi? Er hægt að heyra huggunarríkari boðskap?

En til þess að öðlast hlutdeild í eilífa lífinu verða menn fyrst að deyja með Kristi. Þeir þurfa að deyja með honum til þess að rísa upp með honum. Leiðin til lífsins liggur í gegnum dauða. Dýrð Guðs opinberast í dauða. Þessi mikla þversögn verður aðeins skilin í ljósi þess að menn tóku ekki við konungi lífsins þegar hann mætti þeim á veginum. Og þar sem okkur auðnaðist ekki að koma til hans, kom hann til okkar eins og Jesús kom til sonar ekkjunnar svo að við mættum eignast hlutdeild í gjöf lífsins. Sjálfur skaparinn afklæddist dýrð sinni og steig niður í hyldýpi mannlegrar tilveru. Hann sameinast okkur í ófullkomleikanum svo við megum öðlast hlutdeild í fullkomleikanum. Guð er sú uppspretta sem mennirnir þiggja líf sitt frá og með því að hafna gjöf lífsins sem þeim stóð til boða með komu mannssonarins héldu þeir áfram að vera ofurseldir dauða og glötun. Í stað þess að veita guði lífsins viðtöku héldu þeir dauðahaldi í falsguði efnishyggjunnar og veraldlegrar framagirni þaðan sem einskis hjálpræðis er að vænta. Þeir völdu að feta hinn breiða veg sem snýr hugum mannanna frá hinu æðsta takmarki, hinum lifandi guði, að skurðgoðum veraldarhyggjunnar sem ekkert líf hafa að gefa. En enginn fær bjargað lífi sínu með því að sækjast eftir veraldlegum markmiðum sem mölur og ryð fær grandað. Slíkur eltingarleikur við hjómið eitt hlýtur að enda í öngstræti glötunar. Því að hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni? Það er vegna þessarar afstöðu sem Jesús varð að mæta mönnunum á vegi þjáningarinnar og ganga þá vegferð til enda því að aðeins hann einn megnar að snúa þeim af braut tortímingar og sigrast á valdi dauðans. Honum má líkja við kjarnann sem einn megnar að sprengja utan af sér skel þjáningarinnar til þess að blóm hans fái vaxið upp í ljósið. Það að Jesús deyr snýr öllu við, þjáningu í gleði, hatri í kærleika, dauða og eyðileggingu í líf og nægtir. „Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi” segir frelsarinn. Þannig er sagan um kraftaverkið í Nain táknræn fyrir vegferð hins kristna manns á leiðinni til lífsins. Sonur ekkjunnar dó og var reistur upp. Eins deyjum við með Kristi í skírninni til þess að rísa upp til eilífs lífs með honum. Upprisan er þegar komin með sigri Jesú yfir dauðanum. Hún er forsenda þess að við öll getum öðlast eilíft líf. Í því ljósi er dauði og upprisa unga mannsin frá Nain táknræn saga fyrir þá vegferð sem við mennirnir þurfum að ganga til að öðlast hlutdeild í sigri lífsins. Hún er fyrirmynd og forsmekkurinn að upprisu Jesú Krists.

Fyrirheit frelsarans um eilífa lífið er staðfesting á því að dauðinn er ekki nein endastöð því að Jesús dó ekki bara fyrir sjálfan sig heldur okkur líka. Páll postuli staðfestir það með orðunum:„Ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn”. Upprisa hans er okkur trygging fyrir upprisu allra manna sem vilja veita gjöf hans viðtöku í trú. Hún er staðfesting á því að það er byggð á bak við heljar strauma, að lífsins tré er beggja megin móðunnar miklu. Vegna hennar getum við treyst því að dauðinn muni ekki megna að slíta vináttubönd og rífa ástvini hvorn frá öðrum nema um stundarsakir. Því að hver einasta sál sem hverfur út í dauðann í trú á Jesú Krist verður blóm á lífsins meiði í æðri tilveru. Vegna upprisunnar vitum við nú að ekkert megnar að skilja okkur frá hinni eilífu uppsprettu allrar blessunar. Veggurinn, sem gerði skilin á milli hins forgengilega heims mannsins og hinnar óforgengilegu veraldar Guðs, hefur verið rofinn. Trúin á Jesús ætti því að þurrka út allan ótta við svefninn langa. Við þurfum ekki lengur að líta á hinn jarðneska dauða sem óvin lífsins heldur sem náttúrulögmál framkvæmt samkvæmt heilögum vilja Drottins, vísdómsfulla ráðstöfun til að koma fyrirætlunum hans með allt hið skapaða í framkvæmd. Þetta þýðir að lausn á ráðgátu dauðans verður aðeins fundin með því að leita hennar í æðaslögum lífsins. Þegar aldurinn færist yfir og heilsan fer að bila getur hann orðið fagnaðarefni. Þá mætir hann okkur sem líknandi engill sem leysir okkur undan þjáningum lífsins. Við skulum því ekki hugsa um dauðann sem óvin lífsins heldur sem þjón þess og hjálpara í eiginlegasta skiningi. Við skulum hugsa um hann þannig að fyrir lögmál hans þróist öll náttúran til nýs lífs og að brotthvarf okkar úr þessum heimi sé anda okkar ný fæðing. Í spámanninum eftir Kahlil Gibran segir: „Því hvað er það að deyja annað en standa nakinn í blænum og hverfa inn í sólskinið. Og hvað er að hætta að draga andann annað en að frelsa hann frá friðlausum öldum lífsins, svo að hann geti risið upp í mætti sínum og ófjötraður leitað á fund Guðs síns? Þegar þú hefur náð ævitindinum, þá fyrst munt þú hefja fjallgönguna. Og þegar jörðin krefst líkama þíns muntu dansa í fyrsta sinn“.

Vegurinn til dauðans er vegurinn til upprisunnar. Því að allt frá fyrstu stundu lífs okkar erum við á heimleið þar sem Guð á allar götur. Líf okkar slitnar ekki í dauðanum því að veruleiki Drottins er beggja megin móðunnar miklu eins og fram kemur í þessum orðum postulans: „Því að enginn okkar lifir sjálfum sér og enginn deyr sjálfum sér. Ef við lifum, lifum við Drottni, ef við deyjum, deyjum við Drottni. Hvort sem við þess vegna lifum eða deyjum þá erum við Drottins“.

Í sögunni um máttarverkið í Nain mætast andstæður sem öll tilveran er mörkuð af. Annars vegar dregur hún upp mynd af mannlífi þar sem dauði og sorg eru allsráðandi. Við fylgjumst með sorgmæddu og hnípnu fólki sem eygir enga von gagnvart mætti dauðans. Það er sú mynd sem þeir sem ekki hafa eignast trúna á Krist hafa fyrir hugskotssjónum sínum. Það er sú mynd sem blasti við mannkyninu áður en Guð gaf okkur gjöf lífsins í Jesú Kristi. Hins vegar höfum við þá mynd sem hin dýpri merking sögunnar leiðir okkur fyrir hugskotssjónir. Það er sá gleðiboðskapur fullvissunnar að Guð er kominn í mannheim. Hann er hér mitt á meðal okkar. Sá frumkraftur sem við erum öll runnin af í árdaga sköpunarinnar hefur hafið sitt endurlausnarstarf í nýrri sköpun. Það eina sem við þurfum að gera er að veita honum viðtöku í trúnni. Við þurfum því ekki að óttast neitt eða vera harmþrungin. Við skulum miklu frekar veita gjöf Guðs viðtöku með gleði. Tími sorgarinnar er liðinn; tími gleðinnar er upp runninn. Við gleðjumst yfir minni gjöfum en þeirri sem Guð gaf okkur í Jesú Kristi. Enginn maður getur hugsað sér stærri gjöf en lífið sjálft. Það er því ríkari ástæða til að gleðjast en nokkru sinni fyrr. Sagan af kraftaverkinu í Nain tjáir með myndrænum hætti glötun manna og vonleysi áður en Guð gekk inn í mannleg kjör. Þá var ástæða til að vera harmþrunginn. Sagan færir okkur líka þau gleðitíðindi að stund endurlausnarinnar sé hafin. Konungur lífsins er stiginn inn á sviðið til að snerta líkbörurnar. Ástæða okkar til að fagna og gleðjast er því mikil. Því meiri sem sorgin og eymdin hafa verið þeim mun hærra hlýtur gleðin að rísa. Það er sá huggunarríki boðskapur sem sagan um máttarverkið í Nain flytur okkur.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2229.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar