Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristín Þórunn Tómasdóttir og Árni Svanur Daníelsson

Ekkert undarlegt ferðalag

8. júlí 2012

Altarisbrauðið

Sumarið er tími ferðalaganna.

Þúsundir finna ferðaföt og tjöld og svefnpoka. Pakka í töskur og kælibox – viðbúnar alls konar veðri því þannig er íslenskt sumar – og halda á vit ævintýranna. Helgin sem nú stendur yfir er ein af þremur helstu ferðahelgum ársins og um allt land er fólk að gera sér glaðan dag, upplifa tilbreytingu frá hversdeginum. Sumir sækja inn til fjalla, aðrir í bæina á landsbyggðinni, enn aðrir á útihátíðir af ýmsum toga.

Fólk býr sig misjafnlega vel fyrir ferðalögin. Sumir eiga sitt ferðakitt, aðrir kaupa einnota. Sumir eru vel undirbúnir, smyrja kannski hollt nesti. Aðrir þiggja þjónustu vegasjoppanna og leita kannski í óhollan skyndibitann. Á þessu er auðvitað allur gangur.

Hvers vegna nefnum við þetta?

Jú, við gerum það vegna þess að það eru viss líkindi með kirkjuferðinni og áfangastöðunum á ferðalaginu. Til dæmis er það svo að kirkjuferðin ykkar á að vera nærandi. Rétt eins og sumarfríið. Hingað komum við til að þiggja næringu og nesti.

Horfum til þess hvernig lestrar dagsins kallast á við ferðalagshugsunina.

Þú skalt fara hvert sem ég sendi þig segir í lexíunni.

Komið til hans, [og] Látið sjálf uppbyggjast segir í pistlinum.

Legg þú út á djúpið er hvatningin í guðspjallinu.

Farðu, komdu, þorðu – til uppbyggingar. Það eru skilaboðin sem við getum lesið út úr þessum lestrum.

Er það ekki ágætis uppskrift að sumarfríi?

• • •


Sumarferðalögin eiga að vera nærandi. Samt kvíða margir sumarferðalögunum. Kvíða uppbroti hversdags og öruggra staða og öruggra hlutverka. Eru jafnvel uggandi. Jafn margir hlakka auðvitað til þeirra, en þetta er áhyggjuefni.

Fjölskylduráðgjöf sænsku kirkjunnar tók saman pistil um hvernig áhyggjur og erfiðleikar tengdar sumarfríinu geta birst hjá fjölskyldum og í hjónaböndum. Það kemur í ljós að þessi tími, sem sannarlega er tilhlökkunarefni veldur líka álagi.

Kröfurnar eru miklar. Þá á að hitta og vera með fjölskyldu og vinum og gera fullt af skemmtilegum hlutum - en líka að slappa af, hvílast og safna kröftum. Ólíkar væntingar til alls sem hugurinn stendur til geta leitt til árekstra - sem hægt er að forðast.

Ástæðurnar fyrir því að vandamálin skjóta upp kollinum í sumarleyfinu geta verið margþættar. Þegar skóla lýkur og við fáum frí frá vinnunni, skapast allt í einu mikill tími og rými til að umgangast og vera saman - sem er bæði gott og flókið.

Þá getur komið í ljós að fólk hefur ólíkar hugmyndir um hvernig það vill nota tímann. Annar vill kannski vera heima og slaka á, á meðan hinn vill vera duglegur að ferðast og hitta vini og ættingja. Sumir eiga erfitt með að skilja vinnuna við sig og festast í tölvupósti og facebook - á meðan makinn bíður og vonar að þau ætli að gera eitthvað saman. 

Sumarleyfisnúningur í samböndum og fjölskyldum á sér þó oft dýpri rætur en gýs upp þegar rýmið verður til. Ráðin sem fjölskylduráðgjöf kirkjunnar gefur eru m.a. að vera duglegri að tala saman, útskýra og hlusta á fjölskylduna sína. Svo getur þurft að finna málamiðlun sem mætir væntingum sem flestra og vera tilbúinn til að fara nýjar leiðir og sýna sveigjanleika. Þannig getur sumarleyfið orðið sá nærandi og góði tími sem því er ætlað.

• • •

Kannski er það eins með sjálft lífið. Við getum verið uggandi yfir því ferðalagi. Þótt jafn erfitt að undirbúa sig eða horfast í augu við hversdaginn og hátíðirnar.

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag segir í ljóði Tómasar Guðmundssonar sem fjallar um okkur sem gesti á hótel jörð. Textinn er hnyttinn og lagið er grípandi, en við ætlum nú samt að vera ósammála hugsuninni sem kemur fram í þessu fræga ljóði.

Tilveran okkar er ekkert undarlegt ferðalag.

Og við erum ekki gestir á hótel jörð.

Tilveran okkar er loforð.
Loforð um ást.

Frá Guði sem hefur verið þar sem þú gengur núna og munt ganga.

Sem hét því við skírnarlaugina, þegar þú varst borin fram fyrir söfnuðinn og vatni ausin og nefnd og rist á lófa Guðs.

Sem hét því þar að vera þinn Guð og hugsa alltaf um þig.

Og lífið okkar er ekki gestalíf heldur líf í fjölskyldu.

Í fjölskyldu Guðs.
Í hversdegi og sumarfríi – ferðalagi – þar sem Guð er með í för.

Og slíkt líf er líf í trausti og öryggi og von. Líf þar sem við megum tala um væntingar okkar, þarfir og langanir. Um áhyggjur, kvíða og vonbrigði.
Sama hvað á dynur.
Sama hvernig viðrar.

Guð gefi þér þetta traust.
Guð gefi þér gott sumar og gott frí.
Guð gefi þér góða daga.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3084.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar