Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Davíð Þór Jónsson

Argspæingar og óttaprangarar

30. júlí 2012

Lexía: Svo segir Drottinn hersveitanna: Hlustið ekki á orð spámannanna. Þeir flytja yður boðskap en þeir blekkja yður, þeir flytja uppspunnar sýnir og ekki af vörum Drottins. Þeir segja sífellt við þá sem fyrirlíta orð Drottins: „Þér hljótið heill.“ Og við hvern sem fylgir þverúð eigin hugar segja þeir: „Engin ógæfa kemur yfir yður.“ En hver hefur staðið í ráði Drottins, séð hann og heyrt orð hans? Hver hefur hlýtt á orð hans og boðað það? Reiði Drottins slotar ekki fyrr en hann hefur framkvæmt og fullkomnað fyrirætlanir hjarta síns. Síðar meir munuð þér skilja það. Ég sendi ekki þessa spámenn, samt hlaupa þeir, ég talaði ekki til þeirra, samt spá þeir. (Jer 23.16-18, 20-21)

Pistill: Þannig erum við, systkin, í skuld, ekki við eigin hyggju að við skyldum lúta henni því að ef þið gerið það munuð þið deyja. En ef þið látið anda Guðs deyða gjörðir sjálfshyggjunnar munuð þið lifa. Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn. Þið hafið ekki fengið anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu. Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“ Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn. En ef við erum börn erum við líka erfingjar og það erfingjar Guðs en samarfar Krists því að við líðum með honum til þess að við verðum einnig vegsamleg með honum. (Róm 8.12-17)

Guðspjall: Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá. Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum. Margir munu segja við mig á þeim degi: Drottinn, Drottinn, höfum vér ekki í þínu nafni flutt orð Guðs, rekið út illa anda og gert mörg kraftaverk? Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn. (Matt 7.15-23)

Náð sé með ykkur öllum og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Fyrir nokkrum árum var ég þess undarlega heiðurs aðnjótandi að vera fundarstjóri á ráðstefnu lyfjafræðinga sem haldin var í Reykjavík. Umræðuefnið var einkum ótti og kvíði og lausnir lyfjafræðinnar á þessum vandamálum, sem þjaka marga, og ekki síður ofnotkun þessara lausna. Mér er einkum minnisstætt erindi sem þýskur lyfjafræðingur flutti. Hann lagði í upphafi þess út af svokallaðri „arachnofóbíu“, sjúklegum ótta við kóngulær, og setti fram áhugaverða kenningu um uppruna hennar og orsakir.

Samkvæmt henni er ótti við kóngulær óhjákvæmileg afleiðing af náttúruvali. Þær suðlægu slóðir, þar sem maðurinn spratt fram sem tegund, eru nefnilega náttúruleg heimkynni heilmargra tegunda af hættulegum kóngulóm. Þeir, sem ekki óttuðust þessar kóngulær, lifðu að jafnaði skemur og eignuðust færri afkvæmi en þeir sem höfðu vit á að forðast þær. Af hverju? Jú, kóngulærnar réðu þeim frekar bana langt fyrir aldur fram heldur en hinum. Þess vegna óttast margir enn kóngulær, jafnvel þar sem þær eru hin mestu meinleysisgrey. Þetta er arfur frá forfeðrunum.

Ekki veit ég hvað þróunarlíffræðingar myndu segja um þessa kenningu. Sjálfur hefði ég haldið að þekking á umhverfinu, þar með talið dýralífi þess og þeim hættum sem af því geta stafað, væri eitthvað sem lærðist frekar en að það erfðist. En reyndar held ég nú að það hafi ekki vakað fyrir lyfjafræðingnum að storka viðteknum kenningum í þróunarlíffræði heldur að sýna fram á að ótti er okkur eðlislægur og oft fráleitt óskynsamlegur.

Það er ekkert óskynsamlegt að óttast ísbjörn ef maður mætir honum úti á víðavangi hér á Íslandi. Hann er væntanlega ráðvilltur og hræddur, banhungraður og svo aðframkominn að manneskja er sennilega eina bráðin sem hann ræður við. Þá getur óttinn bjargað lífi manns. Það er aftur á móti óskynsamlegt að þora ekki í dýragarðinn af ótta við ísbjörninn. Það er ekkert óskynsamlegt að forða sér ef maður mætir brasilískri flökkukónguló á ferðum sínum um Amazonsvæðið. Hún er talin eitraðasta kóngulóartegund jarðar og bit hennar er oft banvænt, einkum börnum og fólki með viðkvæmt ónæmiskerfi. Það er aftur á móti ekkert skynsamlegt við það að reka upp óp og forða sér, fölur af skelfingu, þegar sárasaklaus krosskónguló verður á vegi manns í berjamó. Þá segir skynsamt fólk ekki: „Hjálp! Hjálp! Kónguló! Kónguló!“ heldur: „Kónguló, kónguló, vísaðu mér á berjamó,“ og kemur heim með rjóðar kinnar og berjablátt í framan.

Óskynsamlegur og ástæðulaus ótti rýrir lífsgæði okkar. „Arachnofóbía“ á háu stigi eyðileggur fyrir þeim, sem henni er haldinn, ánægjuna af því að fara í berjamó. Við síðustu talningu voru fóbíurnar, sem læknavísindin hafa skilgreint, um 530 talsins – allt frá „ablutofóbíu“, ótta við að þvo sér og fara í bað, til „zoofóbíu“, ótta við dýr. Orsakir sjúklegs ótta eru ótrúlega fjölbreyttar og bera vott um mikla hugmyndaauðgi. Fólk óttast ekki bara sprautunálar og blóð, mannleg samskpti, gerla og sýkla og hin ýmsu dýr. „Alliumfóbía“ er ótti við hvítlauk. „Hexakosioihexekontahexaphobia“ er ótti við töluna 666. „Omfalofóbía“ er ótti við nafla. „Gamofóbía“ er ótti við hjónaband og „anuptafóbía“ er ótti við að pipra. „Melanofóbía“ er ótti við svart og „leukofóbía“ er ótti við hvítt. Sá hlutur eða fyrirbæri í umhverfi okkar er vandfundinn sem ekki er líka á listanum yfir fóbíurnar sem hrjá mannkynið.
Okkur er eðlislægt að finna til ótta og tortryggni. Það er nauðsynlegt til verndar okkur sjálfum og viðhaldi okkar sem tegundar að hafa vit á að óttast það sem okkur steðjar hætta af og tortryggja það sem okkur kynni að steðja hætta af. En óttinn getur farið út í öfgar. Og þá verndar hann okkur ekki og frelsar okkur frá illu heldur skemmir hann fyrir okkur og hneppir okkur í þrældóm.
Það er enginn skortur á fólki sem gerir sér glögga grein fyrir því hve óttinn er okkur eiginlegur, hve hann á ríkan sess í vitund okkar, og hika ekki við að höfða til hans og ala á honum, sjálfum sér til framdráttar. Það gildir nánast einu hvað er sagt og gert. Alltaf skulu einhverjir þeirra, sem sjá í því ógn við hagsmuni sína, rjúka upp til handa og fóta, mála skrattann á vegginn og spá auðn, eymd og eyðileggingu nái það fram að ganga sem um er talað. Jafnvel þótt ekki sé um annað að ræða en þá ákvörðun að hækka bílastæðagjöld í miðborg Reykjavíkur til jafns við það sem tíðkast í erlendum stórborgum er nánast sjálfgefið að fulltrúar kaupmanna spái því að sú ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur verði til þess að aðalverslunargata landsins síðastliðnar aldir líði einfaldlega undir lok. Þetta er svo inngróið í menningu okkar að við eigum meira að segja rammíslensk orð yfir svona fólk: „Argspæingur“. Argspæingur er sá sem spáir örgu. Argspæingur er fylltur „anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu“ svo vitnað sé í pistil dagsins.

Ég hef ekki gert upp hug minn til mögulegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu og jafnvel þótt svo væri ætti sú afstaða mín ekkert erindi í prédikunarstólinn. En ég hef fylgst með umræðunni og tel upplifun mína af henni eiga erindi hingað – sem dæmi um það sem mig langar að tala um. Mér hafa nefnilega þótt argspæingarnir fulláberandi í báðum fylkingum. Samkvæmt öðrum hópi argspæinganna bíður okkar ekkert nema einangrun, óðaverðbólga og okur ef við göngum ekki strax í Evrópusambandið. Hin fylkingin er sannfærð um að fullveldisafsalið, sem í aðild felst, geri Íslendinga nánast að réttlausum leiguliðum í sínu eigin landi sem fái ekki að veiða fisk eða hval, ekki einu sinni ref, nema að fengnu leyfi skrifræðisbáknsins í Brussel. Og þetta er lagt að jöfnu við landráð.
Báðir hóparnir hafa rangt fyrir sér. Noregur er ekkert helvíti á jörð þótt hann sé utan Evrópusambandsins og mörg lönd þess eru þjökuð af efnahagsörðugleikum, landlægu atvinnuleysi og öðrum félagslegum vandamálum, útlendingahatri og misrétti. Sömuleiðis er fráleitt að halda því fram að Finnar og Portúgalir séu steyptir í sama mótið, þótt bæði löndin séu í Evrópusambandinu, og að aðild þeirra að því hafi máð út menningu þeirra og einkenni, hvað þá að hún hafi verið landráð eða atlaga að öllu sem finnskt eða portúgalskt er.

Argspæingarnir hafa rangt fyrir sér – hver sem afstaða þeirra er.

En þetta er aðferðafræði argspæinganna, falsspámanna okkar tíma. Þeir forðast rökræður og upplýst samtal um efnisatriði þess sem um ræðir, en grípa þess í stað til upphrópana og slagorða til að ala á ótta okkar og tortryggni í garð hinna. Hvað felst nákvæmlega í „fullveldisafsali“, svo dæmi sé tekið? Það vilja þeir ekki ræða. Á annan bóginn er fullyrt að um ekkert „fullveldisafsal“ sé að ræða, á hinn bóginn er „fullveldisafsal“ lagt að jöfnu við landráð – og hvorugt hugtakið útskýrt. Eru það landráð að missa æðsta dómsvald úr landi? Felur aðild í sér slíkan missi? Eða er það rétt, sem fullyrt hefur verið, að allar réttarbætur og framfarir í mannréttindamálum hér á landi hafi verið þvingaðar upp á Íslendinga í trássi við hérlend stjórnvöld og dómstóla í krafti þeirra alþjóðlegu sáttmála og skuldbindinga sem við þó erum aðilar að? Eru það landráð að gefa Íslendingum færi á að vera arðrændir af útlendingum með milljarðainnistæður í hinum ýmsu skattaskjólum frekar en öðrum Íslendingum með jafnháar innistæður í sömu skattaskjólum – eins og við erum vön? Eða er það arðránið sem slíkt, óháð ríkisfangi arðræningjans, sem er hin raunverulegu landráð? Er ekki annars áhugavert hve orðin „landráð“ og „þjóðráð“ hafa ólíka merkingu?

Ein algengasta og hættulegasta fóbía nútímans er svokölluð „xenófóbía“ sem jafnan er þýdd „útlendingahatur“. En hér er í grunninn ekki um hatur að ræða heldur ótta, ótta við það sem er og þá sem eru framandi og öðruvísi. Og við höfum orðið vitni að hryllilegum glæpaverkum sem framin hafa verið af lafhræddum hugleysingjum vitstola af „xenófóbíu“, nú síðast í Noregi fyrir rétt rúmu ári.
En af hverju upplifum við það sem er framandi og öðruvísi sem ógn? Ógn við hvað? Ógn við einsleitni samfélagsins? Ógn við lifnaðarhætti okkar? Af hverju ætti það að ógna hjónabandi mínu að á efri hæðinni búi tveir ástfangnir karlmenn? Af hverju ætti það að ógna rúsínugrautnum með slátri, sem ég ætla að hafa í kvöldmat, að á neðri hæðinni sé verið að elda falafel? Af hverju ætti það að ógna trú minni að á móðurmáli trúrækna fólksins á neðri hæðinni, sem er að elda falafel, hljómi setningin „Guð er mikill“ svona: „Allahu akbar“?

Það er ábyggilega ágætt að vilja vera sjálfum sér nægur. En sú árátta getur líka farið út í öfgar. Það var sú árátta sem orsakaði arðrán þriðja heimsins þegar helstu þjóðir Evrópu sáu ástæðu til að sölsa undir sig land og auðlindir þjóða sem ekki höfðu vopn eða tæknikunnáttu til að standa uppi í hárinu á þeim og verjast ásælni þeirra. Og við erum enn að súpa seyðið af því.
Að vera sjálfum sér nægur. Hugsum um mikilvægi þess þegar við göngum hér út úr kirkjunni á eftir á ítölsku leðurskónum okkar og á leiðinni heim í bílnum okkar, sem er frá Japan og knúinn áfram af eldsneyti frá Rússlandi, nema við viljum heldur hlusta á uppáhaldshljómsveitina okkar á leiðinni, hvort sem hún er Bítlarnir frá Englandi eða ABBA frá Svíþjóð. Að ástæða sé til að óttast það, sem útlenskt er, er ekki boðskapur Jesú … frá Nasaret.

Við erum tortryggin að eðlisfari. Og við viljum henda reiður á umhverfi okkar. Til að auðvelda okkur það setjum við fólk í kategoríur, við drögum það í dilka. Og dilkarnir verða að vera nógu fáir til að við höfum yfirsýn yfir þá. Það gengur ekki að setja mannkynið í sjö milljarða dilka og einn einstakling í hvern. Þess vegna setjum við útlendinga í einn, homma í annan, múslimi í þann þriðja og þar fram eftir götunum. Og svo setjum við viðeigandi merkimiða á hvern einstakling í huganum. Þannig verða allir hommar að dragdrottningum með bleikan púðluhund í bandi og allir múslimar að lærisveinum Ósama bin Laden. Það er þetta sem er uppskriftin að xenófóbíu, óskynsamlegum ótta við allt sem útlenskt er. Og xenófóbía er ekkert frábrugðin öðrum fóbíum að því leyti að hún „hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu“.

Það er gott að geta litið í eigin barm. Það er gott að geta sett sig í spor annarra. Hvaða merkimiði er á þér? Hvernig sæir þú þig ef þú værir með annan merkimiða? Sjálfur er ég sennilega hættulegasti einstaklingurinn á Austurlandi um þessar mundir þegar þannig er litið á mig. Ég er hvítur, kristinn karlmaður um fimmtugt. Það var ég sem smíðaði kjarnorkusprengjuna. Ég er nýlenduherrann. Ég er þrælahaldarinn. Ég er fjöldamorðinginn frá Srebrenica og fangabúðavörðurinn í Auswitch.

Eða hvað?

Um þetta segir Jesús frá Nasaret: „Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.“ – Ekki merkimiðanum. Til útskýringar bætir hann við: „Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.“ Það sem þú segir og gerir á sunnudögum gerir þig ekki kristinn heldur það sem þú segir og gerir sjö daga vikunnar. Og hver er vilji föðurins á himnum? Það þarf ekki að fara í miklar grafgötur með það. Hann hefur sagt okkur það sjálfur með munni spámanna sinna og Jesú Krists. Sennilega hafa fáir orðað það betur en spámaðurinn Míka: „Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.“ (6.8) Jesaja er nákvæmari: „Hættið að gera illt, lærið að gera gott, leitið réttarins, hjálpið hinum kúgaða. Rekið réttar munaðarleysingjans. Verjið mál ekkjunnar.“ (1.16-17) Og gullna reglan er: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“ (Matt 7.12//Lúk 6.31) Þetta eru engin geimvísindi. Og takið eftir því að kærleikur kristins manns er ekki skilyrtur. Hann er ekki háður þjóðerni, kynþætti, kynferði, kynhneigð og ekki einu sinni trúarafstöðu. „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“ Ekki „aðrir hvítir menn“, ekki „aðrir kristnir menn“, ekki ekki „aðrir karlmenn“ eða „aðrir gagnkynhneigðir menn“. Aðrir menn. Punktur.

„Til frelsis frelsaði Kristur okkur. Standið því stöðug og látið ekki aftur leggja á ykkur ánauðarok,“ segir Páll postuli í Galatabréfinu (5.1). Við höfum meðtekið fagnaðarerindi. Ávöxtur þess er fögnuður. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Ávextir óttaprangsins sem argspæingarnir stunda eru ánauðarok ótta og hræðslu, andi sem hneppir í þrældóm – ekki heilagur andi.

Fagnaðarerindið um Jesú Krist hefst á orðunum sem Guð notaði til að boða okkur fæðingu hans: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum“ (Lúk 2.10). Hvað segir Guð þá um spámenn sem hefja boðskap sinn á orðunum: „Verið lafhræddir, því, sjá, ég boða yður mikla ógn sem steðja mun að öllum lýðnum“? Í því samhengi má einu gilda hvort hin meinta ógn er Evrópusambandið eða höfnun á Evrópusambandsaðild, hækkun bílastæðagjalda í Reykjavík eða breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Hvernig erindi er það sem hefst á þennan hátt? Það er að minnsta kosti ekkert fagnaðarerindi. Og um þá segir Guð í dag með munni Jeremía spámanns: „Ég sendi ekki þessa spámenn, samt hlaupa þeir, ég talaði ekki til þeirra, samt spá þeir.“
Óttaprang er góður bisnes. Það er alltaf eftirspurn eftir góðum ótta, einhverju nýju til að vera hræddur við. Það er nánast eins og það sé ein af frumþörfum okkar að hafa eitthvað til að beina eðlislægri tortryggni okkar að. Kannski höfum við komið okkur upp of miklu öryggi í samfélaginu, kannski höfum við verið svo dugleg við að útrýma því, sem raunverulega er ástæða til að óttast, að við sitjum uppi með umframótta og ekkert til að beina honum að. Þess vegna erum við ginnkeypt fyrir upphrópunum, þess vegna samþykkjum við umhugsunarlaust að „landráð“ og „fullveldisafsal“ séu samheiti – skiljandi hvorugt hugtakið – af því að með því opnum við farveg sem við getum beint þessum uppsafnaða ótta í. Þess vegna er upplýst rökræða byggð á staðreyndum eitur í beinum óttaprangaranna, því hún kynni að leiða í ljós að það sé ekkert að óttast.

En er þá ekkert að óttast?

Hvernig væri að beina ótta okkar að þeim sem vilja hafa af okkur fögnuðinn og gleðina og leggja á okkur ánauðarok ótta og vænisýki í staðinn. Fólki sem vill fylla okkur anda sem hneppir okkur í þrældóm tortryggni og hræðslu. Fólki sem leitast við að rífa fagnaðarerindið úr hjarta okkar og skipta því út fyrir hræðsluáróðurinn sem hentar hagsmunum þess. Fólki sem spilar svo vel á eðlislæga óttakennd okkar, jafnvel með Guðs orði rifnu úr samhengi, að við göngum sjálfviljug í gildru þess og leggjum hálsinn af fúsum og frjálsum vilja í fjöturinn. Fólki sem þekkir þörf okkar fyrir öryggi svo vel að því tekst að fylla hausinn á okkur af alls konar ímynduðum ógnum sem það eitt getur bjargað okkur frá, ef við aðeins gerum vilja þess og veitum því fulltingi okkar.
Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Ávöxtur fagnaðarerindisins er fögnuður og gleði í Jesú Kristi. Ávextir óttaprangaranna og argspæinganna eru tortryggni og vænisýki. Við þjónum ekki Guði með tortryggni og vænisýki. Við þjónum Guði með gleði og fögnuði.
Kannski var í senn hyldjúp og hákristileg speki í orðum Winstons Churchills þegar hann sagði: „Við höfum ekkert að óttast nema óttann sjálfan.“

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2758.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar