Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Skýra sjón hjartans

24. júní 2012

Agnes M. Sigurðardóttir vígð biskupsvígslu í Hallgrímskirkju, 24. júní 2012

Í Efesusbréfinu segir: „Eftir að hafa heyrt um trú ykkar á Drottin Jesú og um kærleika ykkar til allra heilagra hef ég þess vegna ekki heldur látið af að þakka fyrir ykkur er ég minnist ykkar í bænum mínum. Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa ykkur anda speki og opinberunar svo að þið fáið þekkt hann. Ég bið hann að upplýsa sjón hjartans svo að þið sjáið hver sú von er sem hann hefur kallað okkur til, hve ríkulega og dýrlega arfleifð hann ætlar okkur meðal hinna heilögu og hve kröftuglega hann verkar í okkur sem trúum. En þetta er sami áhrifamikli, kröftugi mátturinn sem hann lét koma fram í Kristi er hann vakti hann frá dauðum….(Ef. 1. 15-20)

Engum blandast hugur um að hér erum við að lifa sögulegan viðburð í íslenskri kirkju, þegar kona er í fyrsta sinn vígð til embættis biskups. Hér er merki reist og afgerandi og gleðilegt skref stigið til jafnræðis kvenna og karla í kirkju og samfélagi. Þjóð og kirkja fagnar þér, séra Agnes Sigurðardóttir, þú ert umvafin elsku og fyrirbæn kirkjunnar, og væntingum alþjóðar.
Margir hafa lýst þér sem konu með hlýtt og stórt hjarta. Þú hefur sem prestur í kröfuhörðum verkahring þurft að leggja þér að hjarta neyð og vanda sóknarbarna þinna og samþjóna, væntingar og vonbrigði. Þú hefur átt skýra sjón hjartans gagnvart því öllu. Ég bið með postulanum að svo megi áfram vera er þú nú ert kölluð og frátekin til aukinnar hirðisþjónustu. Hér eftir eru sóknarbörn þín um land allt, og miklu fleiri en þú ímyndar þér. Kastljósin mun beinast að þér meir en þú hefur áður þekkt, orð þín og atferli vegin og metin.

Biskup er tilsjónarmaður, sá sem hefur yfirsýnina og sér til þess að kirkjan sinni hlutverki sínu. Það er mikilvægt að hafa skýra sjón og vakandi vitund, glöggskyggni og árvekni. En ekki síður og umfram allt að sjón hjartans sé skýr og björt, sjón til þess að Guð er að verki, þrátt fyrir allt sem við blasir ytri augum og bendir til annars, þá er Guð samt að verki að leiða líf og heim. Þér er mikilvægt að sjá ekki aðeins neyð og vanda, reiði og andúð, deilur og átök, spurningar og efasemdir, leit og þrá. Heldur fólk í Guðs mynd, fólk sem skapað er til samfélags við Guð, karla og konur, sem birta náðar Guðs í Jesú Kristi er að snerta, hrífa, laða til að leiða og blessa. Þá er þér líka mikilvægt að hafa ætíð fyrir innri augum þínum vonina sem Drottinn hefur kallað okkur til, arfleifðina sem hann hefur heitið okkur sem og kraftinn sem hann lofar þeim sem á hann treysta.

Þú hefur talað von og kjark í fólkið þitt á erfiðum stundum. Þú hefur líka þurft að áminna og leiðbeina, þegar þörf hefur krafið. Við eigum dýrmæta arfleifð í orði Guðs, í sakramentunum, í sálmum og bænum, list og ljóði sem ber fram fjársjóði trúar og vonar og kærleika. Okkur er falið að varðveita þennan arf og ávaxta hann til gleði, gagns og blessunar samtíð og framtíð. Með postulanum bið ég þess að þú megir reyna og sjá kraftinn sem Guð gefur ástvinum sínum. Að kraftur anda hans megi bera þig í krefjandi þjónustu, uppörva þig og styrkja. Svo þú megnir að styrkja trú hinna veiku, hugga þau sem harma, hughreysta þau sem þreytast og hníga, og uppörva þau sem bera hita dagsins og þunga.

Orð og verk biskups fá oft mikla athygli. Biskup fær á tíðum hrós og þakkir, en líka deyðandi gagnrýni einkum ef hann vogar sér að andæva ráðandi öflum eða áhrifastraumum. Eins og erlendur biskup sagði við mig þegar ég stóð í sömu sporum og þú í dag: „Margir munu segja þér að þú eigir að vera leiðarljós en oftar muntu upplifa þig sem skotskífu eða sorphaug.“ Það er nú það, þetta voru hans orð, en ég er ekki frá því að hann hafi hitt naglann á höfuðið. Það er auðvelt að missa kjarkinn og leyfa skuggunum að setjast að. En þetta allt eru hverfulir skuggar sem skjótt líða hjá, það sem eftir stendur og mestu varðar er trúfestin við fagnaðarerindi Jesú Krists. Það er mælikvarðinn sem þú munt vegin og mæld við, Agnes Sigurðardóttir, þegar þjónustutími þinn er á enda og bjarmi eilífðar fellur yfir lífsveginn þinn. Það verða ekki dómar viðhorfskannana, dægurþrasið eða kastljós fjölmiðlanna. Heldur það hvort það sem þú vitnaðir um Jesú nafn og Jesú trú og Jesú orð og verk var satt og heilt, upplýst af anda hans og þú leidd og blessuð af ljósi hans.

Ég bið með postulanum að Drottinn upplýsi sjón hjarta þins svo að þú sjáir hver sú von er sem hann hefur kallað okkur til, hve ríkulega og dýrlega arfleifð hann ætlar okkur meðal hinna heilögu og hve kröftuglega hann verkar í þeim sem trúa. Mættir þú ætíð eiga hið milda og skæra ljós náðarinnar í hjarta þínu og birta þeirrar náðar berast frá þér til þeirra sem á vegi þínum verða. Og í sömu bæn fel ég kristni þessa lands og þau öll sem nafn Drottins játa, elska það og því treysta í frelsarans Jesú nafni.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2315.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar