Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hjálmar Jónsson

Góðar gjafir

17. júní 2012

Gleðilega þjóðhátíð.

Það er kominn 17. júní, með hátíð og gleði. Dagur þjóðar, fólks sem er fætt eða flutt hingað til lífs í þessu landi. Við erum lítil þjóð sem grannríkin í heiminum taka gilda. Fulltrúar annarra þjóða taka þátt í hátíðahöldunum með okkur í dag. Það er vinarvottur og okkur mikilvægur.

Þjóðfáninn blaktir við hún, tákn þess frelsis sem barist var fyrir forðum. Íslenski fáninn, sem hefur aldrei verið blóði drifinn. Sjálfstæðið var ekki útkljáð á vígvöllum. Áræðið fólk talaði máli lítillar þjóðar sem vildi standa á eigin fótum. Við áttum skáld, andans menn og trúar, sem kváðu kjark í þjóðina og minntu hana á hugsjónir sínar. Athafnamenn, frumkvöðlar, kjarkmikið fólk fór fyrir í uppbyggingu atvinnulífs og þjóðfélags. Þrátt fyrir kippi og afturkippi getum við ekki annað sagt en að okkur hafi miðað vel og vegnað vel. Markmið þeirra kynslóða sem fyrr fóru voru næsta skýr og birtast þau t.a.m. í Íslandsvísum Jóns Trausta, sem hefjast á þessu erindi:

„Ég vil elska mitt land, ég vil auðga mitt land,
ég vil efla þess dáð, ég vil styrkja þess hag.“
Ég vil leita að þess þörf
ég vil létta þess störf.
Ég vil láta það sjá margan hamingjudag.“

Þetta hljótum  við öll að vilja. Það er vissulega dýrmætt að horfa til sögunnar – minnast Jóns Sigurðssonar og þeirra allra sem fyrr stóðu í stafni. Þau höfðu skýr markmið. En við náum ekki nýjum markmiðum nema með því að hafa þau og halda áfram.
Margt er vissulega breytt og nýir tímar krefjast nýrra aðferða og efnistaka. Auðveld boðskipti, hratt og greiðfært upplýsingastreymi, vissulega hefur það aukið möguleikana og auðveldað lífið. En þarna eru fleiri hliðar á. Eins og Páll postuli sagði þurfum við að geta „metið rétt þá hluti sem máli skipta…“  Það er brýnt á tímum þegar aumasta bloggið og ljótasta lygin er jafnsett hæstu gildum og hugsjónum – og fær jafnmikið svigrúm í umræðu dagsins. Þegar hending ræður því eftir hverju er tekið og hvað vekur umhugsun og umræðu. Þess vegna er ennþá ríkari þörfin fyrir dómgreind og skynsemi.

Nokkur orð úr Fjallræðu Jesú Krists eru til grundvallar erindis kirkjunnar á þessum degi.  Fjallræðuna ber hátt í sögu „hins kristna heims“ sem svo er gjarnan nefndur.  Hún hefur orkað á hugsun fólks og þjóða um langan aldur. Orð Krists í dag enda á Gullnu reglunni: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður það skuluð þér og þeim gjöra.“

Þetta er háleitt viðfangsefni og hlýtur að teljast verðugt markmið. Að setja sig í spor annarra, skilja aðstæður þeirra, glöggva sig á því sem þeim kemur vel og leitast við að uppfylla það. Kristur segir að við eigum að ráða við þetta verkefni. Við eigum að geta sett okkur í spor hvers annars og hugsað og gert það sem öðrum kemur vel. Og hann segir að við getum beitt til þess sérstakri tækni. Hann segir: Þið sem eruð vond hafið þó vit á að gefa börnum ykkar góðar gjafir. Takið þetta lengra, farið alla leið með þetta.
Notið þær góðu tilfinningar og það elskandi hugarfar sem þið berið til ykkar nánustu gagnvart öllu fólki.  Þetta segir hann að sé um leið lykillinn að farsælla samfélagi og þjóðfélagi.

Þetta getið þið gert, enda þótt þið séuð vond, segir Kristur.
Mér fundust þessi orð lengi vel býsna óvægin af hálfu frelsarans. En ég tel að við höfum gott af þeim. Hún er rík tilhneigingin til að grípa til vondra verka. Óvægni í skoðunum og dómum er næsta yfirþyrmandi á stundum. Þegar leitað er að veilum
og misfellum í fari og verki annarra, þegar gert er mikið úr þeim og síðan allt lagt út á versta veg. Við eigum jú, erfitt með að koma okkur saman. Brýnustu hagsmunamál samfélags okkar eru um leið alvarlegustu deilumálin.

Það er mála sannast, að þegar við tökum tilfinningarnar úr sambandi, þegar ást og kærleikur,  þær tilfinningar sem við helst þroskum í hinu nánara samfélagi, þegar þær eru fjarverandi í lífi þjóðar og á vettvangi þjóðmálanna, þá er voðinn vís.
Og samt eigum við fullt af góðum tilfinningum. Vilja ekki allir að göfgi og fegurð sé ráðandi í mannlegum samskiptum, að hlýja og velvilji ríki,  þær dyggðir sem kristin trú okkar hefur í heiðri og leitast við að hlú að og innprenta. Leyfum okkur þá að rækta ennþá betur góðar hliðar lífs okkar og tilveru. 

Ég vísaði til skáldsins og ljóðlínu þess um landið okkar „ég vil efla þess dáð, ég vil styrkja þess hag.“

Ég efast ekki um að allir landsmenn vilji gera þessi orð að sínum og leggja sitt af mörkum. Sumir eru hins vegar í betri færum til þess en aðrir. Löggjafarsamkoman starfar hér í næsta húsi. Vafalaust hafa alþingismenn í raun þessi orð skáldsins að leiðarljósi. Þjóðin á líka mikið undir því  að þeim takist að starfa saman fyrir landið, að “efla þess dáð og styrkja þess hag.“ Það krefst agaðra vinnubragða, háttvísi og gagnkvæmrar virðingar. Árangurinn veltur mest á því. En hitt skilar litlu þegar klögumálin ganga á víxl.

Í erindi sem frú Guðrún Agnarsdóttir, læknir og fv. alþ.m. flutti fyrir tveim áratugum segir hún svo: „Það er enginn vafi í mínum huga að þeir sem taka að sér fulltrúahlutverk í stjórnmálum, opinbera stöðu eða embætti taka jafnframt á sig aukna siðferðilega ábyrgð. Sá eða sú sem gerist slíkur fulltrúi verður jafnframt samnefnari margra annarra manneskja og ber því margvíslegar skyldur gagnvart þeim.“

Þetta megum við minna okkur á og hafa jafnan hugfast í allri auðmýkt.

Gagnkvæm virðing, háttvísi og náungakærleikur eru ekki náttúrulögmál sem koma  af sjálfu sér heldur þarf til að koma vilji og meðvituð ræktun. Fórnfús kærleikur er kristin trú í verki. Trú sem starfar í kærleika gerir heiminn betri.  “Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra,”  segir Kristur um Gullnu regluna. Megi hún vera stefnuskrá okkar og stjórnarskrá.
Í Jesú nafni.
AMEN.

 

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1870.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar