Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Bjarni Karlsson

Fallegt fólk

24. júní 2012

Prédikun flutt í Geðveikri messu Hugarafls og Laugarnessafnaðar á Kaffi Flóru í Grasagarðinum í Laugardal:
Hefur þú tekið eftir því hvað það er til mikið af fallegu fólki? Mér finnst ótrúlega gaman að horfa á fólk og fylgjast með því hvernig það hreyfir sig og talar eða þegir saman. Eins er svo gaman að sjá hvernig fólk klæðir sig og skreytir sig. Stundum þegar konan mín vill líta inn í einhverja búð á Laugaveginum þá nýt ég þess að bíða í bílnum, einkum í góðu veðri. Þá horfi ég á fólkið ganga hjá og er bara alveg heiðarlega að skoða það. Sumir bera sársauka eða vonleysi í hreyfingum sínum, aðrir eru á tánum af forvitni og lífsþorsta. Sumt fólk er bara úti á þekju og augljóslega statt einhversstaðar allt annarsstaðar. Og hver hefur ekki séð einhvern ganga aleinan og skælbrosandi svo mann blóðlangar að vita hvað það skyldi vera sem er svona skemmtilegt. Svo er það allt ástfangna fólkið sem er svo dásamlega fyndið á háttum. Hvað er fyndnara og fallegra en ástfangið par?

Ég heyrði eitt sinn fornleifafræðing segja frá því að þegar verið sé að rannsaka mannvistarleifar og upp komi skart af einhverju tagi þá dragi menn þá ályktun að þar hafi lifað fólk sem naut lífsins. Skraut og skart hefur fylgt mannkyni frá örófi sem tjáning og staðfesting á því að lífið sé gott og það sé þess virði að lifa því.

Við erum mis fríð af náttúrunnar hendi. Ég þyki t.d. heldur lágvaxinn, er  með lítil augu, útskeifur og rauðbirkinn með vaxandi skalla, en samt finnst mér ég vera fallegur karl og er ekkert feiminn við að segja það. Ég byggi svo sem ekki á neinum mannfræðirannsóknum en ég er samt með kenningu um mannlega fegurð. Ég held að fólk sem raunverulega er fallegt sé ekki fallegt af því það sé frítt eða limafagurt. Því þótt fríðleiki sé síst til vansa þá er það samt staðreynd í mínum huga að fallegt fólk er fallegt af því að það ber umhyggju fyrir sjálfu sér. Ég held raunar að umhyggja sé uppspretta allrar fegurðar. Ég held m.a.s. að náttúran sé svo fögur sem raun ber vitni vegna þess að hún eigi rætur í umhyggju og ást.

Funduð þið andrúmsloftið þegar þið komuð hér inn í Kaffi Flóru? Ég meina þetta er nú bara gróðurhús! Hér eru bara einhverjar hellur á gólfinu og innréttingarnar væri hægt að endurnýja með einni heimókn í Húsasmiðjuna. Af hverju er fegurð hér inni? Hvers vegna er svona gott að vera hérna? Jú, það er venga þess að hún Marentza og fólkið hennar bera umhyggju fyrir staðnum og það er kærleikur í gangi sem birtist í stóru sem smáu. Eða Hugarafl! Hvað eru þessi samtök? Það gerðist núna einhvern tímann að áliðnum vetri að ég hafði verið með jarðarför og það var haldin erfisdrykkja í ágætum sal í Borgartúninu eins og gengur. Ég fór upp með lyftunni og kom í erfið til að blanda geði og njóta veitinga og ákvað svo af rælni að ganga stigann frekar en taka lyftuna.  Þá finn ég þessa fínu málningarlykt og af því að ég er áhugasamur um slíka hluti þá fer ég að skima og sjá hvernig menn vinna og rek þá augun í skilti þar sem á stendur Hugarafl. Það hafði farið fram hjá mér að samtökin væru að flytja hér í sóknina svo ég ákvað að skygnast um gáttir. Þá gerðist þetta sem gerist þegar maður kemur á góða staði, ég gekk inn í andrúm mannlegrar fegurðar. Þarna var bara fullt af fallegu fólki saman komið og það lá gleði í loftinu. Þessi gleði sem vaknar alltaf alls staðar þar sem umhyggja og virðing ræður ríkjum.

Hún Snædís las hér áðan fyrir okkur guðspjallið um týnda sauðinn. Við þekkjum þá sögu?   - Um sauðinn sem týnist og hirðinn sem skilur níutíu og níu sauði eftir til þess að leita að þeim sem týndur var. Og þegar hann loksins finnur hann leggur hann sauðinn glaður á harðar sér, gengur heim, kallar saman vini sína og segir: „Samfagnið mér því ég hef fundið sauðinn sem var týndur!”
Þessi saga Jesú fjallar nákvæmlega um þetta sem við erum að ræða. Það er umhyggja hirðisins og gleðin þegar hann finnur týnda sauðinn.  Umhyggja og gleði. 

Það var gengin drusluganga í gær. Frábært framtak þar á ferð vegna þess að með druslugöngum er verið að hafna druslustimplinum sem settur er á þau sem verða fyrir kynferðisofbeldi. Með því að færa staðalmyndina út á torgið og bera hana með sæmd þá verður hún eitthvað svo fáránleg. Þegar Hugarafl hélt upp á níu ára afmælið sitt um daginn með því að ganga með sjúkrarúm frá bráðamóttöku geðdeildar og göngufólk klæddist litskrúðugum náttfötum þá var líka verið að tjá brenglaða staðalímynd geðsjúkra og hreinlega viðra hana úti á torgi. Báðar þessar göngur eru ekkert annað en aðferð til þess að varpa af sér oki niðurlægjandi staðalmynda með húmor sem tjáir um leið mannlega umhyggju,   umhyggju og gleði. 

Góða fréttin um Jesú er um þetta. Erindi Jesú við hvern sem hann mætti var að láta hann finna eigið gildi. Þess vegna var hann iðulega umkringdur þeim sem samfélagið dæmdi og góðborgarar samtímans þoldu ekki að hann skyldi elska og virða fólk án skilyrða. Fyrir það var hann líka hæddur og deyddur. 

Við erum alltaf að nota skömm og sök til þess að meiða hvert annað og höldum jafn vel heilu hópunum í ósýnilegum spennitreyjum.  Hugsið ykkur baráttu samkynhneigðra og ástvina þeirra um allan heim. Það eru ekki bara þolendur ofbeldis eða geðsjúkir sem upplifa að vera stimplaðir. Við þekkjum líka vel baráttu þeldökkra fyrir virðingu sinni. Hvert samfélag á sínar dökku hliðar í þessum efnum. Og það hræðilegasta af öllu hræðilegu er þegar sjálfri trúnni á Jesú hefur verið misbeitt gegn fólki til þess að kúga það og viðhalda skömm.

Þegar Jesús gekk með krossinn á herðunum barinn og auðmýktur á allan hátt hvað var að gerast þá?  Fólk flyktist að til þess að horfa á hvað? Mann-drusluna! Fólk tróðst að til að bera afstyrmið augum. Trúin á Jesú er traust á góðum guði sem sjálfur tekur á sig skömmina og sökina og ber hana út á torgið svo menn megi sjá hvað það er fáránlegt að stimpla fólk. 

Finnur þú það ekki þegar þú horfir á Jesú á krossinum að hann er þarna í þína þágu? Alveg eins og fólkið sem gekk í druslugöngunni í gær. Þau voru ekki að þessu bara fyrir sjálf sig heldur báru þau vansæmd hins nauðgaða á líkama sínum fyrir okkur öll. Gleðiganga samkynheigðra hefur alveg sama inntak, líka afmælisganga Hugarafls. Þessar göngur eru allar um það að bera vansæmdina, dóminn, staðalmyndirnar og stimplana út á torgið til þess að auglýsa fáránleikann. Hrokinn er sviptur valdi sínu með húmor og umhyggu og gleði. 

Svona er sá Guð sem Jesús birtir. Guð sem tekur á sig skömm. Grátandi, barinn, auðmýktur guð. Kross Jesú táknar það sem við meinum með því að vera hér í dag í geðveikri messu. Við erum hér vegna þess að við viljum lifa fallegu lífi með öllu þessu fallega fólki þar sem umhyggjan er aðferðin sem við notum en ekki hótunin. Þar sem gleðin fær að ríkja en hrokinn afhjúpast og lyppast niður og verður að engu, því það er einmitt það sem hann er.

Amen.

 

 

Mík 7.18-19
Ef 2.4-10
Lúk 15.1-10

 

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1976.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar