Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Kristjánsson

„Andi Guðs á mig andi“

24. júní 2012

Gunnar Kristjánsson

Á sólríkum hásumardögum eins og undanfarið skartar landið sínu fegursta. Ferðamenn, innlendir sem erlendir, leggja í ferðir til að njóta náttúrunnar, ýmist í samfélagi við aðra eða út af fyrir sig. Svipmyndir liðinna daga fara um hugann.

Rómantísk mynd sprettur fram í huganum af viljugum gæðingum og hestafólki á björtum sumardegi, eftirvæntingin liggur í loftinu, þegar lagt er af stað í morgunljómann og þokast inn dalinn á sléttum grundum; hringaðir makkar og þandir nárar; andvarinn leikur við kinn; sól skín í heiði; fjöllin tignarleg standa vörð á báða bóga; litrík blómin prýða engjar og árbakka, fuglasöngur í lofti. Og áin byltist í grýttu gljúfri.

Þegar hollenskir samferðamenn okkar hætta sér loksins í fótspor þeirra, sem á undan eru og láta hrossin vaða stórgrýtta ána, taka þeir andann á lofti. Þetta eru ný samskipti við íslenska hestinn sem þeir höfðu aðeins kynnst í reiðhöllum og á skógargötum hins mjúka Hollands. Þessu nýju kynni á heimaslóð eru ný upplifun, nánast opinberun.

Fráir og fótfimir hestar, blómskrúð á bökkum, beljandi áin, heiður himinn, mildur blærinn. Eftirminnlegar myndir grópast í hug og hjarta þaðan sem þær mun aldrei mást út. Í hug koma hin þekktu orð Fásts í samnefndu verki Göthes: Dvel, ó hverfula stund, þú ert svo fögur.

En þannig ákall til náttúrunnar er tímaskekkja ef marka má ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun undanfarna daga í Ríó de Janeiro í Brasilíu, þar eru rómantískar myndir óspilltrar náttúru víðs fjarri, bjartsýnin einnig ef marka má fréttir fjölmiðla heimsins af ráðstefnunni. Hinar hverfulu stundir fegurðarinnar eru liðnar og koma aldrei aftur. Í hjörtum ráðstefnugesta hrannast upp svipmyndir eyðingarinnar. Sökudólgurinn mikli í uggvænlegri þróun umhverfismála er maðurinn að dómi ráðstefnugesta og það sem verra er: svo virðist sem hann sé – í það minnsta á þessari stundu – ófær um að ná tökum á vandanum. Því virðast öll vötn hníga að sama ósi: til ísaldar líkt og lagðist yfir jörðina fyrir ellefu þúsund árum.

Á rauða válistanum hjá Alþjóðanáttúruverndarsamtökunum í Genf má fræðast um þann voða sem steðjar að lífríki heimsins. Nú blasir þetta við í gagnabanka þessara virtu samtaka, sem hafa helgað sig verndun náttúruauðlinda í rúma sex áratugi: lífríki heimsins er í verulegri hættu, fjórðungur spendýra er á válistanum og fimmta hver fuglategund, kóralrif og náttúruminjar hrynja eins og spilaborgir, heimskautin bráðna með vaxandi hraða. Lífríki jarðar er í varnarstöðu, barátta upp á líf og dauða er hafin.
Vonbrigði voru mikil með árangurslitla ráðstefnu, vanmáttur mannsins afhjúpaður eina ferðina enn. Stundarhagsmunir bera allar hugsjónir, allar staðreyndir og alla válista ofurliði, það sýnir ráðstefnan í Ríó betur en flest annað.

Þrátt fyrir þetta fer því fjarri að uppgjöf sé öllum í huga. Umhverfisverndarsamtök hugsjónafólks um víða veröld halda samvisku heimsins vakandi. Eldhugar heimsins í öllum stöðum og stéttum benda á nýjar leiðir til skapandi lífsstíls og umhverfisvænna lífshátta. Og fjöldi vísindamanna, fyrirtækja um víða veröld og almennra neytenda tengjast böndum til að verjast vánni sem við blasir. Sumir sjá fyrir sér orkubyltingu á næsta leyti, viðhorfsbreytingar innan seilingar og upplýstan, ábyrgan og skapandi lífsstíl verða til. Því að endanlega – og kannski eingöngu – snýst málið um lífsstíl.

Hér á landi eru málefni auðlinda og umhverfis einnig til umræðu þar sem togast er á um auðlindir hafsins, um vatnsföll og vatnsorku, um orku úr iðrum jarðar, um fjöll og firnindi, í stuttu máli: um lífríkið en undir niðri um lífsstíl. Okkar land er heimur auðlindanna; í augum gestanna náttúruparadís, ekkert minna.

Það er ennþá viðhorf margra að aukin lífsgæði fáist með aukinni auðlegð, að aukin neysla hafi í för með sér betra líf, að allt skuli falt fyrir fé, einnig landið; öræfi og óbyggðir, fjöll, fallvötn og fossar.

Viðhorf til náttúrunnar eru breytingum háð, mörgum þótti á sínum tíma engin goðgá að virkja Gullfoss, Dettifoss og Goðafoss, en síðar rann mönnum kalt vatn milli skinns og hörunds þegar minnst var á slíkar hugmyndir og nafn Sigríðar Tómasdóttur í Brattholti kemur í hugann, konunnar sem var reiðubúin til að leggja líf sitt að veði fyrir verndun Gullfoss. Skammt er síðan sumum þótti ekkert eðlilegra en láta Þjórsárver hverfa undir uppistöðulón, gleymum því ekki.

Lífríkið á í vök að verjast. Nú finnst mörgum eðlilegt að selja stóran hluta hálendisins í hendur erlendra auðjöfra fyrir tímabundinn gróða af sölu á náttúrufegurð sem aldrei kemur aftur. Neysluhyggjan er skammsýn og grunnhyggin, sér lífríkið aðeins sem hráefni, lætur sér velferð mannsins og umhverfi hans í léttu rúmi liggja og það sem meira er: eirir engu. Er forsenda hennar ekki yfirborðskennd sýn á hamingju mannsins, drifin áfram af óljósri þrá um forgengilegan auð?

Hér er gömul saga og ný, þetta þekkti náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson einnig eins og kemur fram í Hulduljóðum hans þar sem honum eru ofarlega í huga menn sem „unna því lítt sem fagurt er;/ telja sér lítinn yndisarð/ að annast blómgaðan jurtagarð“. Þeir menn eru enn á meðal okkar.

Nú á jónsmessu skulum við horfa til merkrar arfleifðar í menningu okkar og sögu þar sem landið var sett á dagskrá í nýjum skilningi, sem andleg auðlind þangað sem maðurinn hefur mikið að sækja. Í þeirri arfleifð er náttúran annað og meira en hráefni, þar býr hún yfir fyrirheitum sem laða alla til sín og allir þrá og þarfnast.

Jónas Hallgrímsson setti ekki aðeins rannsóknir á dagskrá heldur einnig fegurð landsins, þar var hann fulltrúi rómantísku stefnunnar sem mótaði þessa þjóð flestum öðrum stefnum framar þegar horft er til langrar sögu. Þar er hin góða sköpun undirstraumurinn – innsti veruleiki hennar er ekki jarðneskur heldur guðlegur, hún lifir fyrir anda Guðs, sköpunin er þrungin skapandi krafti guðdómsins. Vei þeim sem unna því ekki sem fagurt er. Þannig var rómantíska stefnan innréttuð.

Fyrir rómantísku skáldunum var lífríkið meira en auðlind, það var einnig helgidómur, vettvangur trúarlegrar upplifunar sem gagntók manninn með nýrri sýn á líf sitt og umhverfi. Í því efni hafði stefnan djúp og varanleg áhrif á okkur Íslendinga. Eða hversu oft höfum við ekki heyrt setningar á borð við þessa: „Ég þarf ekki að fara í kirkju, mín guðsþjónusta er úti í náttúrunni, þar finn ég samfélag við skaparann.“ Í þannig vitund um návist Skaparans í lífríkinu birtist okkur arfur rómantísku stefnunnar.

Eitt ljóð Jónasar sem hann orti fáum misserum fyrir dauða sinn í Kaupmannahöfn er mér ofarlega í huga. Ljóðið Grátittlingurinn varðveitir bernskuminningu Jónasar þegar hann var rétt að verða sjö ára, heima í Öxnadal. Hrútur sem hann á og trippið Toppa – aleiga hans, sem hann nefnir svo – eru úti í haga þegar stormbylur skellur skyndilega á. Þegar veðrinu linnir er farið að leita. Leitin ber ekki tilætlaðan árangur en tekur óvænta stefnu. Þegar Jónas gengur fram á grátittling frosinn við jörðina eftir storminn gleymir hann þessum vinum sínum en aðkomunni að fuglinum lýsir hann þannig: Flogið gat ekki hinn fleygi, / frosinn niður við mosa,/ augunum óttabljúgum/ á mig skaut dýrið gráa. Hann krýpur á kné og blæs af öllum mætti á fuglinn. Og viti menn, smám saman færist líf í smáan líkamann og fuglinn flýgur á braut. Síðar meir fær þessi atburður djúpa táknmerkingu fyrir Jónasi.

Við gleymum því kannski stundum að prestssonurinn Jónas Hallgrímsson var ekki aðeins höfuðskáld og merkur náttúrufræðingur, heldur sótti hann fjórum sinnum um prestsembætti hér á landi en fékk ekki. Trúarheimspeki rómantísku stefnunnar var mótandi fyrir líf hans og lífsviðhorf.

Sterkan þátt í þeirri mótun – og raunar mótun Fjölnismanna – átti Jacob Peter Mynster, presturinn við Frúarkirkjuna í Kaupmannahöfn og síðar Sjálandsbiskup, einn af frumkvöðlum rómantísku stefnunnar. Jónas og vinir hans nutu þess að hlusta á prédikanir Mynsters. Fjölnismenn greiddu þakkarskuld sína við hann með því að þýða bók hans, Hugleiðingar um höfuðatriði kristinnar trúar, á íslensku. Hún reyndist drjúgt innlegg í nýja túlkun Íslendinga á náttúrunni, var mikið lesin hér á landi og mótaði nýtt viðhorf til lífríkisins.

Þessar rætur rómantísku skáldanna hafa skilið eftir sig sérstakan tón í íslenskum náttúruljóðum. Þau bera iðulega keim af trúarljóðum, einatt þrungin af lotningu og tilbeiðslu og ósjaldan kemur fram í þeim sterk þrá til að sameinast náttúrunni eða skaparanum sem að baki henni stendur. Við erum að tala um náttúrudulhyggju í ljóðum Jónasar.

Náttúrudulhyggjan snýst um það sem fagurt er, um náttúruna, um blómin og birtuna, um sólina. Í hinu fagra nálgast maðurinn guðdóminn að skilningi rómantísku stefnunnar. Fegurðin er með öðrum orðum meira en lýsing á ásýnd hlutanna. Hún er eitt af birtingarformum guðdómsins að þessum skilningi, í því sem fagurt er birtist Guð manninum. Þessar kenningar þekkti Jónas manna best.

Lokaerindi ljóðsins um grátittlinginn sýnir hvernig bernskuminningin um lífgjöfina sækir á Jónas hálffertugan í Kaupmannahöfn, ljóðið fær tilvistarlega merkingu og fer að snúast um hann sjálfan, hann er sjálfur eins og frosinn fugl og getur ekki losað sig.
Felldur em eg við foldu
 frosinn og má ei losast; 
 andi guðs á mig andi,
 ugglaust mun eg þá huggast.

Ljóðið beinist að djúpum spurningum skáldsins, að tilvistarspurningunni sjálfri. Skáldið skynjar sjálfan sig álíka vanmáttugan og frosinn fuglinn, hvaðan kemur honum hjálp, hver mun leysa hann aftur til lífsins, hver kemur og andar á hann lífgefandi anda? Við getum spurt hvers vegna Jónas skynji sig sem frosinn fugl. Er það ástarsorg, er það lífsstíllinn, er það vonbrigði með embættisframa, er það spurningin um tilgang þess að vera manneskja?

Hvað sem það er þá endar ljóðið á bæn um lausn, um hugrekki til að rísa upp og ganga í sig, finna aftur sjálfan sig líkt og týndi sonurinn í guðspjalli dagsins. Losna undan þrúgandi firringu líðandi stundar, finna lífið að nýju líkt og fuglinn sem varð laus úr helgreipum frostsins.

Þannig var einnig sá týndi heimur sem týndi sonurinn uppgötvaði í texta dagsins. Hann svaraði kalli síns unga hjarta og ólgandi lífsþorsta, leitaði lífsins í fjarlægu landi. Hann vildi skoða heiminn, njóta þess að vera frjáls og finna sjálfan sig í framandi umhverfi. En þar gekk auður hans til þurrðar, erfðahluturinn gufaði upp á skömmum tíma og hann sat uppi slyppur og snauður, einn og yfirgefinn í framandi samfélagi sem sneri við honum bakinu; hann var týndur.

Dæmisagan um týnda soninn er um þetta. Leitin að hamingjunni snýst upp í andstæðu sína, hann finnur ekki lífið heldur týnir því, hann missir allt nema eitt: minninguna dýpst í hjarta um rætur sínar, um hið upprunalega, einfalda, það sem máli skiptir, skapandi og gefandi lífsstíl.

Innst inni var hann samt alltaf hann sjálfur, frá sjálfum sér gat hann ekki flúið. Hann komst aldrei frá þeirri innri þrá sem ber uppi líf mannsins, eftirvæntingin bjó enn innra með honum og leiddi hann á réttan veg á ný.

Og hann gengur í sig, tekur stjórnina í eigin hendur, hann hafnar hinu eigingjarna, sjálfhverfa lífi. „Því skal eg upp standa“ þýðir Oddur Gottskálksson, hann tekur sig á, ákveður að lifa lífinu eins og manneskja og finna þau einföldu mannúðlegu grunngildi sem máli skipta.

Í dæmisögunni er þessi ákvörðun launuð ríkulega af föðurnum, óvænt: hann hleypur á móti syni sínum, faðmar hann og kyssir, dregur hring á fingur hans og lætur slátra alikálfinum. Það er gleði, sonurinn hefur fundið sjálfan sig. Hverful stund óendanlega djúprar merkingar rann upp. Þær stundir hverfa í reynd ekki, ekki frekar en andartak fegurðarinnar hjá Fást. Slíkar stundir bera uppi líf okkar, svipmyndirnar þegar allt var eins gott og hugsast gat. Augnablikin sem við vildum að tækju aldrei enda, heldur vara til eilífðar.

Dæmisagan er að mörgu leyti dæmigerð fyrir boðskap Jesú sem birtist í slíkum svipmyndum af fólki sem finnur lífi sínu nýjan farveg. Einföld saga og auðskilin. Jesús er að tala við fólkið um það sem liggur því ofarlega í sinni alla daga og raunar allar stundir. Hann er ekki að segja því fyrir verkum heldur leggja spilin á borðið og fá það til að hugsa sjálft, hann dregur upp mynd af því hvernig allt gæti komist í eðlilegan farveg.

Fræðimenn hafa vakið athygli á því að boðskapur Jesú, sem var vissulega óvenjulegur á sínum tíma og vakti – meðal annars þess vegna – óskipta athygli, hafi átt sér rætur í tveimur meginhefðum. Aðra hefðina finnum við í ritum hebresku spámannanna, einkum Elía, hina er að finna meðal alþýðuheimspekinga sem kenndir eru við kaldhæðni eða kyníkisma og áttu miklum vinsældum að fagna meðal alþýðu manna í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafsins á tímum Jesú og lengi eftir það.

Alþýðuheimspekingarnir voru oft háðskir, ögrandi og beinskeyttir. En þeir fundu hljómgrunn hjá fólki, þeir sögðu það sem allir fundu að stóðst og lögðu áherslu á nægjusaman, skapandi og gefandi lífsstíl. Fólk fann að málið snerist um lífsstíl þess.

Líkt og þeir, lætur Jesús sér annt um lífsstíl fólks. Hvernig getur fólk lifað innihaldsríku lífi en samt einföldu, gefandi og skapandi, og án þess að byggja sjálfsmynd sína á yfirborðslegum sýndargildum, á auði, frægð eða völdum? Hann bendir á liljur vallarins og fugla himinsins. Hvernig fær maðurinn fundið sína eigin sjálfsmynd nema horfa í eigin barm, gera upp við sjálfan sig?

Dæmisagan um týnda soninn er af þessum toga spunnin. Hún fjallar um valkostina tvo: annar er um tilraun til lífsstíls sem skilar sér ekki í lífsgleði og hamingju en svo er hinn kosturinn sem krefst þess að maðurinn takist á við sjálfan sig, láti ekki berast lengur með straumnum, láti sig ekki þokast með fjöldanum, heldur taki ákvarðanir sem eiga sér rætur í eigin sannfæringu um það sem hann veit best. Hann þarf að taka sig upp, hann þarf að rísa upp sem nýr maður. „Hann reis þá upp og kom til föður síns“ þýðir Oddur Gottskálksson. Orðalagið er áhugavert, það vísar í margar áttir en einnig til þess myndugleika sem maðurinn finnur í trúnni.
Fyrir Jónasi var myndin af fuglinum sem reis upp úr dauðans greipum frostsins myndin af trúnni sem breytir tilvist mannsins, leysir hann til nýrrar vonar. Hún er boðskapur um nýtt hugrekki til að lifa og takast á við verkefni dagsins, hún er boðskapur um nýja eftirvæntingu sem sækir sér meðal annars næringu í auðleg fegurðarinnar. Jónas Hallgrímsson þekkti þessa trú, ljóð hans bera henni vitni.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2529.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar