Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Til hvers er þetta hús?

20. maí 2012

Ég þakka að fá að eiga þessa stund með ykkur hér í Langholtskirkju í tilefni af sextugsafmæli safnaðarins og 75 ára afmæli Heyrnarhjálpar. Ég árna Heyrnarhjálp heilla og bið blessunar og þeim öllum sem því starfi sinna og þess njóta. Ég blessa Langholtssókn og helgidóm og minningu þeirra sem reistu hann, og þeirra sem hingað hafa leitað í áranna rás. 

Til hvers er þetta hús?
Langholtskirkja er listahöll, þar sem sönglistin er iðkuð og ungir sem gamlir njóta þeirrar óumræðilegu gleði að aga sig við þá iðkun og tjá þá list, drottning allra lista. Og hér er orgelið, drottning hljóðfæranna í heiðurssæti, fagurt á að líta og yndislegt að á að hlýða.
Á afmælisári minnumst við og þökkum eldmóðinn og aflið, sem reisti þetta hús, hugsjónina um athvarf hins góða og fagra í þessu nýbyggðarhverfi Reykjavíkur. Fyrsti sóknarpresturinn, hugsjónamaðurinn og brautryðjandinn, séra Árelíus, fór hreint ekki troðnar slóðir er hann plægði holtin hér og undirbjó jarðveginn við stofnun og uppbygging safnaðar og byggingu helgidóms. Og hann fékk marga, góða krafta til liðs við sig. Það voru notuð orð eins og „æskulýðshöll“ „félagsmiðstöð“ – óhefðbundin orð í svonefndu „kirkjulegu samhengi.“ Og séra Sigurður Haukur kom með nýjar og breyttar áherslur og einhvern veginn var það alltaf hér í Langholtskirkju sem aksjónin var, hér voru nýir hlutir að gerast, ný framsetning fornra sanninda, nýjar leiðir ruddar.
Það var ný sýn á kirkjustarf og trúboð sem réði ferðinni, kirkjan mitt í hverfinu, á milli háhýsanna, og umfram allt á meðal fólksins. Og fórnfúst starf Kvenfélags Langholtskirkju og annarra sjálfboðaliða hefur auðgað og blessað þetta hús og söfnuð ríkulega, því má ekki gleyma. Eða honum Helga Þorlákssyni, skólastjóra, sem var einatt vakinn og sofinn í málefnum safnaðarins, formaður sóknarnefndar, spilaði við messurnar og æfði kórinn. Og sóknarnefndarfólk og forystumenn síðar sem lögðu þrotlaust starf að mörkum. Jón Stefánsson, kom til starfa bráðungur, með nýja strauma hámenningar kirkjusöngs og Langholtskirkjukór varð heimsfrægur og orgelið fagra eitt helsta sérkenni Langholtskirkju. Svo má ekki gleyma þætti Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur, hið heilladrjúga tónlistar og uppeldisstarf þeirra hjóna, Jóns og Ólafar hefur skilað ómetanlegum verðmætum inn í samfélag okkar og menningu, barnakórastarfið hefur vakið heimsathygli, en ávexti þess starfs má víða finna til blessunar.
Mikil saga tengist þessu húsi og kirkjustarfi í Langholtssókn, og mikið vatn runnið til sjávar.
Til hvers er þetta hús? Hvað gefur því gildi? Er það nema bara minnismerki um liðinn tíma, kulnaðar hugsjónir og horfinn hugmyndaheim?

Mörgum finnst það um kirkjuna í samtíðinni. Því miður, í gjörbreyttu samfélagi og menningu.
Textar dagsins varpa ljósi á tilgang kirkjunnar. 

Einn textinn er úr Postulasögunni,  (1. kafla,  12-14):„ Þá sneru þeir aftur til Jerúsalem frá Olíufjallinu, sem svo er nefnt og er í nánd við Jerúsalem, hvíldardagsleið þaðan. Er þeir komu þangað fóru þeir upp í loftstofuna þar sem þeir dvöldust: Það voru þeir Pétur og Jóhannes, Jakob og Andrés, Filippus, Tómas, Bartólómeus, Matteus, Jakob Alfeusson, Símon vandlætari og Júdas Jakobsson. Konurnar voru einnig með þeim og María móðir Jesú og bræður hans. Öll voru þau með einum huga stöðug í bæninni.“ Og síðar segir í næsta kafla: „Þau ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar.“

Mér er til efs að nokkur mynd ritningarinnar lýsi betur tilgangi og stöðu kirkjunnar en þessi stutta frásögn. Hún lýsir því þegar páskarnir eru minning ein, Kristur horfinn sjónum og trúin hefur ekkert við að styðjast nema minninguna og fyrirheitin. Og þessi minning, fyrirheiti, þetta orð leiddi lærisveinahópinn smáa að borðinu þar sem þau höfðu verið með honum forðum, nóttina, sem hann svikinn var. Nú safnast þau saman við þetta borð, um þessa minningu og iðkun.

Þarna eru nöfn sem sum eru okkur kunn, önnur hreint ekki. Um flest þeirra fer fáum sögum.   Samvera okkar hér er framhald þess samfélags sem þau áttu, nöfnin okkar hafa bæst við þessa nafnarunu og þrátt fyrir allt sem aðskilur okkur og þau, er það eitt og hið sama sem tengir okkur: hinn krossfesti og upprisni Kristur, uppfræðsla postulanna, brotning brauðsins og bænirnar.   

Þau voru með einum huga stöðug í bæninni, þeirri bæn, þar sem trúin spennir greipar um minninguna og fyrirheit þess Drottins sem birti sjálfan sig í Jesú Kristi og mun aftur birtast í dýrð. 

Þau fengu að sjá fyrirheitin rætast, fyrirheitin sem líf Jesú, orð og verk, dauði og upprisa og uppstigning birta, já og undur og stórmerki Hvítasunnunnar. Það er okkur líka lofað. Þessvegna erum við hér. Þessvegna er kristin kirkja til og horfir fram til þess dags þegar allt þetta verður augljóst og opinbert, þetta, sem trúin skynjar innri augum: Jesús Kristur og kærleikur hans, fyrirgefning syndanna og lífið eilífa.

Svarar þetta spurningunni: Til hvers er þetta hús?

Það er tekist á um sess trúarbragðanna í samfélaginu. Hvers vegna ímynda menn sér að lýðræði verki best þegar lokað er á tilvistarlegar og trúarlega afstöðu og því er vísað inn í aflokað rými einkalífsins? Er ekki einmitt styrkur lýðræðis að trúarleg og menningarleg fjölbreytni fái að blómstra og næra lýðræðislegt samfélag og menningu umburðarlyndis, friðar og frelsis? Getur það í alvöru verið góð hugmynd, eins og kerfisbundið virðist unnið að um þessar mundir, að slíta okkur frá rótum boðorða, siðvenja, hefða og siðgæðislegra áttavita, - eins og td gullnu reglunnar?

 Við þurfum virðingu og heildarsýn á manneskjuna og lífið, þau öfl sem ráð för í mannlegum samskiptum. Við þörfnumst ekki aðeins þekkingar og upplýsinga, heldur líka innsýn í djúpin, myrkrin og ógnina, og birtuna og gleðina, vonina og náðina í lífinu. Og sú þekking fæst ekki nema að afar takmörkuðu leyti gegnum spilverk Disney og tölvuleikjanna, heldur umfram allt með iðkun í samfélagi, frásögum, táknmyndum og helgisiðum trúarinnar. Sem til dæmis leggja okkur til orð til að tjá hið skelfilega og óskiljanlega, ógn og ótta. Ég fullyrði að í siðmenningunni sé það aðeins í iðkun trúar sem ákallið um miskunn, fyrirgefningu, líkn, gagnvart því ógnvænlega og ægilega er tjáð, gráturinn og harmurinn yfir því ósegjanlega: „Drottinn, miskunna þú oss!“ „Fyrirgef oss vorar skuldir….“ - eru andvörp samofin trúariðkun kristninnar. Og svo er borðið í miðdepli, tákn gestrisninnar og umhyggjunnar, altarið þar sem brauðið er brotið, og minnir okkur á að við erum eitt, mannkyn er eitt, við sitjum öll við sama borð, sem Guð reiðir fram af nægtum náðar sinnar, til að veita okkur styrk og kjark, hugrekki og trú til að miðla með okkur öðrum til heilla. Og allir eru velkomnir!

Siðgæði, siðferði er ekki bara lesið og numið af bókum, ekki einu sinni góðum bókum, heldur í samfélagi sem varðveitir minningu og von og iðkar þá minningu og von í táknum, sögum, bæn og söng. Staðsetur okkur í samfélagi sem tók við okkur þegar við komum inn í þennan heim og mun bera okkur út þegar lífsgöngunni er lokið.

Til hvers er þetta hús?
Við verðum að vera vakandi fyrir þeirri spurningu og svörunum sem við henni eru gefin. Og meginspurningin er: Er trúin sönn, kristnin sönn, kirkjan sönn? Er innistæða fyrir þessum fyrirheitum sem páskarnir lýsa og Biblían fjallar um og kirkjan vitnar um er hún bendir á Jesú, á bæn og trú? Er Guð virkilega eins og Jesús segir hann vera; góður Guð, góður faðir sem elskar okkur, börn sín, varðveitir okkur og blessar, þrátt fyrir allt, alltaf? Er að marka það sem Jesús segir: Komið til mín þið öll sem erfiði hafið og þungar byrðar. Ég mun veita yður hvíld? Er að marka það? Já, Það er virkilega satt, við megum treysta því! Og á meðan kirkjuhúsið hýsir þá iðkun, orð og athöfn sem byggir upp það traust í sál einstaklingsins og samfélagsins, þá er það ómissandi í nágrenninu! 
 
Umhugsunarverð orð einnar skáldsagnarpersónu Karenar Blixen: „Ég þekki aðeins eitt einasta hús,“ sagði hann, „þar sem menn geta gengið inn án þess að neinn spyrji þá hverjir þeir séu.“ „Hvers konar hús er það?“ spurði hún. „Það er kirkja,“ sagði hann.“
Við þurfum á slíkum húsum að halda fremur nú en nokkru sinni, helgidómum sem tjá opinn og styrkan faðm sem ber, þótt stormarnir æði og mennirnir bregðist,  hús þar sem þeirri iðkun og atferli, orði og söng er haldið uppi sem skapar, mótar, nærir samfélag, iðkun sem stuðlar að því uppeldi og mótun kynslóðanna, að virðingin, umhyggjan, náðin og náungakærleikurinn, listin og ljóðið og söngurinn, fegurðin og friðurinn eigi sér skjól og vörn, þar sem orð frelsarans hljómar og er lært og numið og þar sem birta vonarinnar skín fyrir augum. Kirkjurnar í Reykjavík, eins og um landið allt, hafa veitt slíkt skjól og athvarf og vonarríka framtíðarsýn. Framtíðarsýn og samfélagssýn á grundvelli traustra viðmiða, og virðingar fyrir því sem við eigum sameiginlegt sem manneskjur í þessu landi, þrátt fyrir allt sem aðskilur. 

Til hvers er þetta hús?
Ég var unglingur þegar faðir minn sagði mér frá gamalli konu sem hann þekkti ungur og hún sagði: „Einu sinni stóð ég með deyjandi barnið mitt, ein heima með þau fjögur, eitt í dauðanum, maðurinn var austur í sveitum að smíða kirkju. Og ég horfði á veikt barnið og hugsaði: Til hvers eru kirkjur. Því verður að byggja kirkju? En á þeirri stund byggði ég mér þá kirkju sem mér hefur dugað hingað til.“

Hvaða kirkja var það? spurði ég, krakkinn. Hann sagði: Barnið hennar lifði og varð vélstjóri, dó á Reykjaborginni, sem var sökkt af þýskum kafbáti árið 1941. Sagt var að er hann hafði fengið skot í handlegginn, fór hann að bjarga félögum sínum og söng á meðan uppáhalds sálminn sinn: Dýrð sé Guði í hæstum hæðum.

Kirkjan sem hún reisti, móðirin unga, var helgidómur bænar og trúar í hjörtum barnanna sinna.
Guði sé lof fyrir allar slíkar mæður og alla þá ótal mörgu helgidóma hjartnanna. Guð blessi þá helgidóma á heimilunum hér í sókninni, og þær mæður og feður, afa og ömmur sem reisa þá og viðhalda í hjörtum barna sinna. Og Guði sé lof fyrir bænahúsið, helgidóminn, sem segir eins og vísan gamla:

„Við skulum geyma von og trú
í vorum sálum,
til fegri heima byggja brú
úr bænamálum.“

- Já, það skulum við gera!
 Til þess er þetta hús.
 

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2047.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar