Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hildur Eir Bolladóttir

Tómasarhjartað

15. apríl 2012

Já, „sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó,“ það er fátt sem hefur eins sterk áhrif á trú mína og vitnisburður annars fólks sem játar ást sína á Guði þrátt fyrir eða kannski vegna erfiðleika sinna, þjáninga og sorga. Stundum þegar ég stíg inn í sorgarhús slær Tómasarhjartað mitt í takti við hugann og mig langar um stund að gera sem minnst úr erindi mínu sem boðbera kristinnar trúar, það er þessi undirliggjandi ótti um að storka fólki og tala yfir aðstæðum þess, í stað þess að tala inn í þær. Þá gerist það að heilagur andi tekur völdin og lætur mig þegja á meðan syrgjendur opna sjálfir á trú sína og von, og það er þá sem það gerist að ég átta mig á að ég er bara verkfæri Guðs og ekki kölluð til annars en að hlusta á rödd engilsins. Það er þá sem ég átta mig á að ég er ekki bara kölluð til að gefa í mínu starfi heldur fæ ég að þiggja og læra. Ég hef heyrt foreldra sem misst hafa börn sín vitna um trú á ögurstundu og þá huggun og þá von sem þau þiggja af henni, ég hef setið andspænis ungu fólki með ólæknandi sjúkdóma, með öllu óvinnufært, ýtt frá borði lífslestarinnar, vitna um kærleika Guðs og náð, ég hef heyrt fíkla sem sokkið hafa á dýpsta botn neyslunnar lýsa því hvernig Kristur reisti þá við og dró upp á yfirborð lífsins og gaf þeim kraft til að viðurkenna vanmátt sinn og leita hjálpar. Og þegar ég fæ að vitna þetta þá líður mér líka eins og Tómasi forðum þegar hann snerti á naglaförum Krists og síðusári, þegar hann fékk að reyna návist frelsarans með svo áþreifanlegum hætti, fékk að snerta á upprisunni eins og svo margir prestar fá að gera í þessu dýrmæta og þakkláta starfi.
Og svo bættist við einn vitnisburður enn á dögunum og þann vitnisburð langar mig að deila með ykkur hér í dag. Það er nefnilega þannig að við söfnuðurinn hér í Akureyrarkirkju eigum vinasöfnuð út í afríska ríkinu Kenýa í bæ sem heitir Kamito en söfnuðurinn nefnist Kapkorish.
Og um daginn fengum við lífsreyndan gest hingað í kirkjuna kristniboðann Skúla Svavarsson sem er einmitt móðurbróðir séra Svavars Alfreðs og hann sagði okkur frá þessum vinasöfnuði okkar í Kamito sem er raunar enn meðvitaðri en við um tengslin, úr því þurfum við alveg endilega að bæta, kannski er meðvitund þeirra sterkari sökum aðstæðna, félagsauður er þeim ef til vill sýnilegri af því að annar auður er af svo skornum skammti. Í okkar neyslumiðaða samfélagi er því miður margt sem skyggir á perlurnar í skálinni, í samfélaginu okkar út í Kenýa er ekki talað í milljónum þegar fjármuni ber á góma af því að þær eru hvergi til meðal þeirra sem halda úti hinu kristna starfi, þar er í mesta lagi talað í hundruðum þúsunda ef um stór samfélagsverkefni er að ræða. Og í Kapkorish söfnuðinum í Kamito er starfsfólki greidd laun á uppskerutíma en þegar frá líður eru oft engin laun , hvorki til presta né annara starfsmanna safnaðaðanna, biskupinn er þar ekki undanskilin. Þetta er veruleiki fólksins þarna og nú þarf áþreifanlega að byggja nýtt þak á kirkjuna þeirra af því að það sem er heldur hvorki vatni né vindum og eins og við vitum þá geta rigningatímar í Kenýa orðið ansi öflugir. Hér höfum við mynd af kirkjunni þeirra ( ljósmynd á skjá) og eins og þið sjáið þá þarf að bregðast við eins fljótt og hugsast getur svo fólkið megi nærast í samfélagið kristinna manna og fá til þess áþreifanlegt skjól þó skjól Guðs veiti því vissulega mikið. Skúli kristniboði lýsti því svo lifandi fyrir okkur starfsfólkinu hér hvernig fólk þyrstir í að heyra meira og meira og læra um ritninguna og hinn kristna fjársjóð, það bókstaflega teygar í sig orðið og það þolir við í marga klukkutíma. Og loks þegar kristniboðarnir sem kalla nú ekki allt ömmu sína, eru orðnir þurrir í munni og uppgefnir af að tala þá hefst spurningaflóðið og það er eins og fólkið fái aldrei nóg, það hlýtur að vera magnað að kynnast þessum veruleika sem prestur og kristniboði. En s.s. þakið á kirkjuna kostar heilar 300.000 krónur, svipað og tvær Ipad vélar eða kannski einn stóll úr hönnunarbúð og við vorum að hugsa hvort ekki væri hægt að leggjast á eitt um að safna þessari upphæð saman og senda út þannig að vinasöfnuður okkar í Kapkorish geti haldið áfram að gleðjast saman í trúnni. Ein leiðin er t.d. að taka samskot í guðsþjónustum strax á eftir prédikun, á meðan sungið er og áður en hin almenna kirkjubæn er flutt, þannig verða samskotin táknræn athöfn um fórn náungans fyrir náungann og þar með eðlilegur undirbúningur undir altarisgönguna þar sem við þiggjum líf með Jesú eins og hann bauð í síðustu kvöldmáltíðinni. Þessi háttur er viðhafður í nágrannakirkjum okkar í Skandinavíu og raunar víða um heim. Það sem virðist hins vegar helst vefjast fyrir okkur Íslendingum í þessum efnum eru rannsóknir okkar í samanburðarfræðum, þ.e.a.s við erum of stressuð gagnvart því hversu mikið við gefum. Þetta á ekki að verða til þess að fæla fólk frá kirkju eða gera því kinnroða, þetta er einfalt mál, þú gefur ef þú hefur lausan aur á þér og eins mikið og þú telur þig mega við að gefa, af því að í fyrsta lagi veit enginn hvað er mikið í buddunni þinni og í öðru lagi er mjög algengt að fólk sé ekki með lausan aur á sér, það þekki ég sjálf mæta vel og þarf oft að neita ungum sem öldnum er banka upp á hjá mér á síðkvöldum að selja varning til styrktar góðu málefni. Þetta þarf ekki að verða að vandamáli, við látum körfurnar ganga frá aftasta manni að þeim fremsta , messuþjónar eða/og meðhjálpari setja þær af stað og koma þeim síðan upp að altari þar sem presturinn tekur við þeim og nefnir í bæninni þá ósk okkar að peningarnir megi verða náunga okkar til gagns og gæfu. Það er um að gera að koma fram með svona sértæk verkefni, hvort sem þau eiga sér stað innanlands eða utan og safna þangað til upphæðinni er náð. Þetta er nefnilega mjög mikilvæg leið til að skynja sig í tengslum við annað fólk, þetta eflir samstöðuna, þ.e.a.s. ef fólk gerir þetta ekki að vandamáli heldur lítur á þetta sem helgihald. Þetta eru mikilvæg skilaboð til ungmenna og fermingarbarna og undirbýr þau undir að þiggja gjafirnar sem verða gefnar á fermingardaginn sjálfan, kennir þeim að sælla er að gefa en að þiggja, af því að það er ekki eðlilegt að vera bara þiggjandi í lífinu, við viljum ekki ala upp þannig kynslóðir svo þar með er þetta líka orðið uppeldislegt atriði. Þetta gerir okkur kannski líka meðvitaðri um að því fylgja skyldur og ábyrgð að vera kristinn einstaklingur sem tengist söfnuði, við lifum í samfélagi alls heimsins og megum aldrei samþykkja að nokkur maður sé eyland. Á tímum frumkirkjunnar og í tíð Páls postula voru tekin samskot í guðsþjónustum safnaðanna til þess að styðja við bágstadda svo að við sjáum að hugsunin er grundvallandi í sögu kirkjunnar, en fyrst og síðast eru samskot í anda Jesú Krists sem lagði áherslu á að við þjónuðum náunganum í kærleika og af fórn eins og hvert og eitt okkar megnar að gera, í því samhengi er gott að rifja upp söguna af eyri ekkjunnar en hún gaf mest til bágstaddra að mati Jesú þar sem hún gaf af fátækt sinni en ekki auðlegð. Það besta sem við getum gert til að læknast af kreppusóttinni er að gefa og gefa af öllum lífs og sálarkröftum það er svo frelsandi fyrir sál og sinni já bara eins og hið besta fúkkalyf.
Kæri söfnuður við skulum leggja af stað með viljann að vopni, við tökum fyrst fyrir þetta tiltekna verkefni að safna fyrir þaki á kirkju vinasafnaðar okkar í Kamito við sjáum um að upplýsa ykkur og þau um hvernig miðar með söfnunina og ég veit fyrir víst að þegar þakið verður fullklárað þá fáum við myndir og bréf til að fagna með þeim uppskerunni og vináttunni sem verður þar með innsigluð með táknrænum hætti. Allar kirkjubyggingar þurfa þak og allir söfnuðir þurfa sömuleiðis að líta inn í hinn þaklausa himinn í starfi sínu, Guð veiti okkur gæfu til þess. Hver veit nema eitthvert okkar eigi síðar eftir að heimsækja þennan söfnuð og sitja við guðsþjónustu í þessari elskulegu kirkju. Nú hlýðum við á kórinn okkar syngja verk ættað frá Afríku og á meðan þau syngja látum við myndir af vinasöfnuði okkar rúlla og körfurnar fara af stað og hver einn gefur eftir getu og aðstæðum. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.Amen

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2535.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar