Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Jóhannesson

Nýtt upphaf, ný sköpun

9. apríl 2012

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega upprisuhátíð. Gleðilega páska

„Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni . . . “

Þannig hefst sagan, hin tvöþúsund ára gamla frásögn páskana, sem við heyrðum hér áðan, upprisufrásögnin! Þessi frásögn sem kallar okkur saman hér í dag. Það er ekki ofsagt að engin önnur frásögn hefur haft viðlíka áhrif á gang sögunnar. Engin önnur frásögn hefur haft jafn afgerandi áhrif á líf jafn margra. Engin önnur frásögn hefur mótað með sama hætti líf fólks og þjóða eins og frásagan af upprisu Jesú frá Nasaret. Í raun markar hin látlausa og allt að því einfalda frásögn páskanna og þeir atburðir sem hún greinir frá algjör þáttaskil í sögu mannsins. (Og gildir þá eiginlega einu hvaða afstöðu við tökum til hennar og metum innihald hennar og boðskap.)

Og í því liggur einmitt merking hennar. Hún markar þáttaskil í sögunni, í sögu mannsins. Hún felur í sér upphaf nýs tíma og nýs heims. Með upprisunni skilur algerlega á milli þess sem á undan henni fór og þess sem á eftir henni kom. Því upprisan áréttar að Guð er að verki með sérstökum hætti innan þessa heims og í sögunni, í lífi fólks hér og nú.

En þetta er bara saga, hugsa sumir. Falleg að vísu, uppörvandi og áleitin, en saga engu að síður. Já, margir hafa átt erfitt með að trúa því að upprisan hafi í raun og veru átt sér stað. Að hún hafi verið atburður sem gerðist á sögulegum stað og tíma.

Og þannig hljóta allir að hugsa einhvern tíma. Hvað sem öðru líður þá er sagan auðvitað með eindæmum.

En gleymum því þá ekki að við sem erum komin saman hér erum ekki ein um að koma saman í kirkju í dag í minningu um upprisu Jesú frá dauðum. Milljónir manna minnast nú upprisu Jesú í kirkjum út um allan heim. Og ekki bara í dag heldur vikulega meira eða minna, allt árið um kring. Ár eftir ár, öld eftir öld.

Í tvöþúsund ár hefur fólk komið saman til þess að minnast upprisu Jesú Krists, allt frá því að fámennur hópur karla og kvenna, kom fyrst saman í litlu herbergi í Jerúsalem.

Eina mögulega útskýringin á því, á tilkomu kristindómsins, á upphafi kirkjunnar sjálfrar og viðgangi hennar, er sú að þremur dögum eftir að hafa verið grimmilega líflátinn af rómverjum og komið fyrir í lokaðri gröf sem var kyrfilega gætt reis Jesús frá Nasaret upp frá dauðum. Gröfin var tóm! Hefði hún ekki verið tóm hefðu lærisveinar Jesú ekki trúað eigin augum og gyðingar og rómverjar hefðu ekki átt í vandræðum með að kveða niður það sem lærisveinanir og vaxandi hópur fólks var að segja: Að þeir hefðu séð Jesús sjálfan eftir dauða hans, upprisinn. Að þeir hefðu beinlínis hitt hann, snert hann, talað við hann, snætt með honum. Fjöldinn allur af fólki, ólíkir hópar á ólíkum stöðum og tímum. Ef það var ekki svo hefðu lærisveinarnir einfaldlega litið svo á, rétt eins og gyðingarnir gerðu, að einhver hefði brotist inn í gröfina – eins og algengt var á þessum tíma – og hreinlega stolið líkama Jesú. Þeir hefðu ekki fórnað lífi sínu fyrir þá sannfæringu að hinn krossfesti Jesús væri risinn upp frá dauðum þvert á allt sem þeir höfðu ástæðu til að halda. Þeir vissu jafnvel og aðrir að undir eðlilegum kringumstæðum hélt dáið fólk yfirleitt áfram að vera dáið.

En það var einmitt það sem þeir gerðu. Þvert á allt sem eðlilegt gat talist fórnuðu þeir lífi sínu fyrir það sem þeir vissu að var satt, það sem þeir vissu að þeir höfðu séð og reynt. Að Jesús væri sannarlega risinn upp frá dauðum, rétt eins og hann hafði sagt að hann mundi gera.

Það er stundum gott að setja upprisufrásögn guðspjallanna og upprisutrú kirkjunnar í sögulegt samhengi. Þannig blasir upprisan við á síðum Nýja testamentisins og í víðara samhengi Biblíunnar allrar og í vitund og lífi kirkjunnar allrar ár frá ári.

En það er eitt. Hitt er annað, eins og við vitum, að það er lítið vit í því að fara út að morgni dags með lítið kertaljós til að sjá sólina betur og til að vita hvort hún hafi risið upp. Sumt veit maður, sumt sér maður einfaldlega.

En hvað segir þetta okkur? Hvað segir upprisan okkur? Upprisa Jesú frá dauðum að morgni páskadags markar upphaf einhvers alveg nýs. Hún markar upphaf nýs tíma, nýrrar sköpunar. Upprisan áréttar að Guð er nálægur og að verki í þessum heimi. Með upprisu Jesú hófst Guð sjálfur, skapari himsins og jarðar, handa við að umskapa og umbreyta heiminum til þeirrar myndar sem hann ætlaði honum frá upphafi. Í Jesú frá Nasaret gekk Guð sjálfur inn á vettvang sögunnar, inn í líf mitt og líf þitt, til þess að leiða okkur fyrir sjónir hvernig þetta líf á að vera, hvernig okkur ber að umgangast það og hvernig okkur ber að lifa því.

Með upprisunni hefur guðsríkið hafið innreið sína inn í þennan heim, inn í líf okkar. Og það var líka meginboðskapur Jesú, að guðsríki væri í nánd, sá veruleiki þar sem vilji Guðs er allt í öllu og fær að ríkja í huga og hjarta sérhvers manns. Það var líka bænarefnið sem Jesús lagði lærisveinum sínum á brjóst, bæði þá og nú: Tilkomi þitt ríki. Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.

Ólíkt því sem ýmsir kunna að halda eru himinn og jörð, veruleiki Guðs og manns, eilífðin og tíminn, ekki andstæður heldur tvær hliðar þess veruleika sem Guð hefur skapað. Og þeim er ætlað að verða eitt, renna saman í eitt, í þann veruleiki sem Jesús kallar guðsríki.

„Við hvað eigum vér að líkja Guðs ríki?“ spyr Jesús. „Með hvaða dæmi eigum vér að lýsa því?“ Hann heldur áfram og segir: „Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold, er það smærra hverju sáðkorni á jörðu. En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar, að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess.“

Það er veruleiki þar sem vilji Guðs er mótandi afl og stýrir öllu og leiðir allt. Það átti alltaf að vera hlutskipti mannsins, það var sá veruleiki sem hann var skapaður til og átti að fá að njóta. En það var líka sá veruleiki sem maðurinn hafnaði með því að fara sínar eigin leiðir í krafti síns eigin vilja og langana, þvert á vilja Guðs, eins og saga hans fyrr og síðar vitnar um.

En nú er Guð mættur á sviðið, hann hefur skorist í leikinn og tekið til sinna ráða. Um það vitnar upprisan. Í henni mætir hið gamla því nýja. Sorg og erfiðleikar víkja fyrir gleði og hamingju. Dauðinn hopar fyrir lífinu. Og við erum kölluð fram undir merkjum þess. Við erum erum ekki aðeins hluti þeirrar sköpunar heldur þáttakendur í henni, meðskapendur. Við erum kölluð fram, til verka, til að greiða guðsríkinu veg í lífi okkar og annarra með því að leita vilja Guðs og lifa samkvæmt honum. Og það er vilji Guðs að hver sem sér soninn og trúir á hann, hafi eilíft líf.

Nú erum það við sem komum að gröfinni. Það er að vísu ekki árla dags lengur. En merking þess að koma til kirkju á páskadsag er að koma til grafarinnar, að vitja um Jesú, í sínu eigin lífi. Að mæta þar Guði sínum. Spurningin er hvað við finnum. Eða réttara sagt: Hvað leyfum við okkur að finna. Hugleiðum það vel og vandlega. Svarið við þeirri spurningu varðar mestu í lífinu.

Sagan, upprisusagan, verður ekki lifandi fyrir okkur fyrr en við gerum þær aðstæður, þann veruleika sem hún vísar til, að okkar eigin. Þegar við lifum okkur inn í þær aðstæður sjálf og gerum að aðstæðum okkar lífs. Þegar við göngum inn í söguna og verðum þáttakendur í henni. Þegar við mætum hinum upprisna Jesú og segjum: „Drottinn minn og Guð minn.“

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, um alla eilífð. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2468.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar