Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn!

8. apríl 2012

Gleðilega páska.

Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn!

Um allan heim hljómar á þessum morgni frétt, sem er endurtekin á ótal tungum, ótal röddum um alla heimskringluna, uppteiknuð, sungin, sögð og téð á margvíslega vegu: Kristur er upprisinn! Og hér erum við, yst á norðurslóðum, með sömu fregn í eyrum og sömu kveðju á vörum, sömu trú og játning í huga og hjarta: Kristur er sannarlega upprisinn!

Upprisu þekkjum við, við sem höfum lifað vor. Fönnin og frerinn og viðjar vetrar eru sem mynd dauðans. En í hjarta manns vakir vonin, að senn muni vora og vetrarböndin rakna. Við höfum séð það gerast og heyrt upprisusöngva og vonarhljóma vorsins. Sérhvert fræ á sína páska. Upprisu þekkja þau sem fannst fokið í skjólin og öll von úti, en gátu staðið á fætur og haldið áfram með Guðs hjálp og góðra manna.

Í sálum okkar allra býr von og þrá, draumur, hugboð um vor sem engin hret fá kæft, um sumar er engan enda tekur, um líf þar sem dauðinn er ekki hlutskipti manns. Guð hefur lagt okkur þá von og þrá í brjóst. Upprisusögurnar eru margar og margvíslegar, þær má sjá og heyra allt í kringum okkur, ef við aðeins leggjum við hlustir. Það þurfum við meðvitað að gera, vegna þess að uppgjafarsöngurinn er svo ágengur, krepputalið og neikvæðnin svo áleitin og eyðandi, og sorgin gleymir engum.

Í áhrifaríku blaðaviðtali við mæðgurnar Ólöfu Emmu Kristjánsdóttur og Margréti Pálmadóttur, söngkonu, sem fundust á ný eftir hálfrar aldar aðskilnað segir sú síðarnefnda: .„..við verðum að muna eftir bæninni. Það er svo gott að leita til skapara síns og ég kalla mömmu oft Jesúbarn. Hún hefur stuðst við hann allt sitt líf og sjáðu hvað hún hefur upplifað? Hvað annað en kærleikurinn býr til slíka leið að …. heila svona óendanlega djúp sár? Það eru gömul og ný sannindi að þegar ljós og skuggi skiptast á, þá kann maður svo sannarlega að meta það að vera í ljósinu.“ - Svo mörg voru þau orð.

Enn einn endurómur upprisunnar í samtíð okkar. Guð blessi þær mæðgur og þau öll sem kunna að meta það að vera í ljósinu.

Kristur er upprisinn! Kærleikurinn sigrar. „Nú sér trúin eilíft ljós“ – eins og við sungum áðan.

Því sem gerðist í morgunsárið hins fyrsta páskadags er hvergi lýst, ekki upprisunni sjálfri. Guðspjöllin segja það eitt að þegar konurnar hugðu að legstað hans í ræktarskyni, var gröfin tóm og þær fengu skilaboðin: Hann er ekki hér, hann er upprisinn.
Á þessu grundvallast kristindómurinn. Hvorki meira né minna.

Getur annað eins og þetta gerst í raunheimi, í raunveruleikanum? Er þetta annað en í besta falli táknmynd og helgisögn? Menn hafa í aldanna rás sannarlega leitað svara og skýringa. En eiginlega er ekkert vit í neinni skýringu nema því sem sagt var við gröf hans, það sem páskarnir enduróma og við treystum og trúum, svo óskiljanlegt sem það nú er: „Hann er upprisinn, hann er ekki hér, sjáið, þarna er staðurinn þar sem þeir lögðu hann, en hann fer á undan ykkur, uns markmiði hans er náð, sigur hans er öllum ljós, náð hans, líkn og líf hefur náð að heila sérhvert sár, lækna hverja sál og lífið allt.“ Það er í raunheimi!

Þau eru til sem halda því fram að þetta sé blekking, að trúin sé blekking, að fyrirgefning og friðþæging og eilífa lífið sem kristin trú boðar, sé blekking eða tálsýn. Hausaskeljastaður er nefnilega svo allt of víða, vonbrigðin og áföllin, þjáningin, sektarbyrðin, hatrið, dauðinn. Er ekki hver sinnar gæfu smiður sem uppsker svo sem til var sáð? Svo er spurt. Eða er hver og einn leiksoppur þeirra kerfa og aðstæðna sem ráða för? Og svo kemur dauðinn og þá er sagan öll.

Nei! Þá er ekki sagan öll.

Atburðirnir í Jerúsalem hina örlagaríku daga árið 33 þegar Jesús er svikinn, handtekinn, dreginn fyrir dóm, afsagður og fordæmdur af almannarómi, píndur og krossfestur, þeir atburðir standa í samhengi við sögu sem við þekkjum ofur vel og sem sannarlega er eitt leiðarstefið í mannkynssögunni allri, já og á Íslandi í dag þar sem óspart er kallað á dómarann og böðulinn til að hreinsa til.

Í Jerúsalem tóku ríki og kirkja höndum saman til að ryðja Jesú úr vegi.

Samkvæmt lögmálinu skyldi hann deyja.

Kröfu þess var fullnægt.

En á krossinum tók Jesús á sig allar kröfur lögmálsins, öll okkar brot og sár og syndagjöld, hann sem ber burt synd heimsins, sló striki yfir skuldirnar. Páskadagsmorgun leiddi í ljós að orð hans er eilífs gildis, að máttur hans sigrar, sýknuorð hans stendur, skuldaniðurfellingin gildir, að réttlætið, fyrirgefningin, miskunnsemin ber sigurorð af synd og dauða. Kærleikurinn hefur síðasta orðið.
Kristur er upprisinn!

Þetta var og er véfengt sem vonlegt er, í aldanna rás hefur það verið hlegið og spottað, þau sem komu með þessa furðufrétt voru hædd og smáð, ákærð fyrir heimsku og villu, þau voru sjálf dæmd, pínd og deydd. En það var samt hlustað. Þau sem hlógu og spottuðu í gær, stóðust ef til vill ekki mátið að leggja við hlustir í dag, og á morgun voru þau gengin hinum upprisna Kristi á vald og tökin voru djúp og sterk og náðu víðar og víðar og ekkert gat þaggað það né stöðvað.

Ekki heldur á Íslandi í dag!

Páskarnir, upprisa Krists er raunveruleiki í heiminum, kristin trú er ekki skoðanir eða álit á hinu og þessu sem helst fangar hug þeirra sem hugsa og skrafa, blogga og blaðra hverju sinni. Hún stendur og fellur með sannleiksgildi þeirrar fréttar sem sögð er um alla jörð í dag, og endurómar fregnina sem hljómaði við opna, tóma klettagröf í Jerúsalem hinn fyrsta páskadag. Þetta er erindi kirkjunnar við heiminn. Annað ekki!

Kristin kirkja er samfundur við lifandi lausnara við orðið og borðið og skírnarskál og í umhyggju um þau sem hann kallar sín minnstu systkin. Þar fáum við að sjá hann og lífið í undursamlegri heild sinni, hin raunverulegu verðmæti og sönnu lífsgæði, og við sjáum hvert annað sem systkin, þar sem við heyrum rödd og róm þess máttar sem, sýknar, læknar og reisir á fætur.

Þessi hugsun leitaði á mig nýlega við skírnarathöfn á heimili hér í borg, þar sem fjöldi fólks var saman kominn á hátíðarstundu. Þau öll, ungir sem eldri einum huga í bæninni fyrir barninu litla, tóku undir trúarjátningu og Faðir vor og sungu einum rómi, líka unglingarnir og börnin, sem greinilega kunnu þetta. Þetta var páskaprédikun, vitnisburður um návist hins lifanda frelsara. Óskir og vonir sem umvefja barnið litla, bænirnar, áhyggjurnar, trúin og kærleikurinn, allt er tjáð og falið þeim mildu og máttugu kærleiksörmum sem ekkert megnar að slíta okkur frá, hvorki dauði né líf né nokkuð það sem að ber eða til er. Hann Sveinn Pétur litli, Guð blessi hann, hann var færður hinum upprisna Kristi, lagður í faðm ljóssins og kærleikans eilífa, eins og þú og ég á ævimorgni, og kynslóðirnar í þessu landi í þúsund ár. Engan trúnaðarbrest milli kirkju og þjóðar var þar að merkja, þó því sé skefjalaust haldið að manni að hann sé ómótmælanleg staðreynd.

Hvaða sögu segir það, að þrátt fyrir skefjalausan áróður gegn kirkjunni, hinum kristna sið og trúarhefðum þá lifa flestar fjölskyldur í landinu slíkar helgistundir og hátíðir um ársins hring? Enn eru flest ung börn borin til skírnar, nú í vor hefur mikill meirihluti unglinga á 14. aldursári fermst, gengið upp að ölturum sóknarkirknanna og játað trúna á hinn upprisna frelsara, leiðtoga lífsins, þrátt fyrir andróðurinn og svívirðingarnar sem þau þurfa nú einatt að þola frá umhverfinu. Guð blessi þau og góðu játninguna sem þau játa, og allt sem að þeim stendur.

Trúin og hinn kristni siður virðist þrátt fyrir allt ómissandi þáttur í lífi þorra fjölskyldna í landinu. Gömlu, góðu siðferðisgildin eru ekki horfin úr vitund þjóðarinnar. Því fer fjarri að hér hafi orðið siðrof eins og ætla mætti af ýmsu því sem fyllir fréttir dagsins. Kirkjan er ein grunnstoða hins góða mannúðarsamfélags sem við viljum sjá dafna á Íslandi. Stór hluti þjóðarinnar heldur enn tryggð við hinn kristna sið, þrátt fyrir allt, og vill sjá kirkjuna og hið kristna uppeldi í trú og sið lifa og dafna með þjóðinni.

Kristur er upprisinn!

Svarið við frétt páskanna er að leita samfunda við hinn upprisna Jesú og hlýða leiðsögn hans. Vettvangur þess eru meðal annars guðsþjónustur og helgar athafnir í kirkjum og heimilum, signingin og bænin við rúm barnsins að kvöldi dags, lestur og íhugun Guðs orðs, trúariðkun í dagsins önn og hvíld. En einskorðast ekki við það. Frelsarinn er nefnilega lifandi návist, en ekki látinn meistari, aldrei aðgengilegur upp á vasann, aldrei fastur í formúlum eða fræðum eða skilgreiningum okkar, alltaf meira en allt sem við kunnum að hugsa, skynja eða skilja.
Krossinn og upprisan er túlkunarlykill að þjáningu manns og heims og örlögum öllum, en líka leiðarljós í samskiptum, mynstur og fyrirmynd lífsmáta kærleikans. Og krossinn og upprisan leiða inn í samfélag bænarinnar í dimmunni þegar óttinn og örvæntingin setjast um vonina og leitast við að fella trúna. Trúin á hinn krossfesta og upprisna og bænin í nafni hans veitir þolgæði í þrautum, vonarljós í myrkri, ómetanlegan styrk og blessun í hverju því sem að höndum ber.

„Ljósið eilíft lýsir nú dauðans nótt og dimmar grafir,“ sungum við áðan. Og það er satt. Það er satt.
Maður nokkur vildi hughreysta helsjúkan vin sinn og sagði við hann: „Vertu ekki hræddur! Stattu þig maður uns yfir lýkur.“ Hinn svaraði: „Já, það er einmitt það sem ég vil. En á hverju á ég að standa?“ Já, það er góð spurning! Á hverju getum við staðið í vonlausum aðstæðum, hverju getum við treyst, á hverju getum við staðið þegar allt hrynur? Á honum sem tók á sig synd þína og dauða, og bar á krossinn fyrir þig, fyrir mig, fyrir heiminn allan, heiminum til lífs. Og reis af gröf og lifir!

„Sigur þinn oss sigur gefi, sigurhetjan, Jesús minn!“ Sungum við áðan, og þannig er sungið um allt land í dag. Við eigum öll hlutdeild í þeim sigri.

Kristur er upprisinn!

Það er góða fréttin sem gefur fyrirheit um návist og handleiðslu í nepju og hretum lífsins og skuggalendum sorgar og dauða, um huggun og sigur í óförum öllum. Tökum okkur stöðu á þessum traustu fyrirheitum, og leitumst við að verða sjálf hluti af góðu fréttinni, með viðmóti okkar og orðum, með líferni, gildismati, breytni. Vorsins börn og ljóssins, sem hlynna að lífinu, að lífsþróttur eflist, viðjar rakni og þorni tár.

Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn!

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3453.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar