Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Fritz Már Jörgensson

Dagur góða hirðisins

25. apríl 2012

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen
Þegar ég vaknaði í morgun vissi ég að þetta yrði góður dagur. Vorið leggur svo fallega hulu yfir landið og blæs lífi í allt sem fyrir verður. Trén vakna af vetursvefni og fuglarnir æfa vorsinfóníur sínar þannig að unun er á að hlýða. Versin sem við heyrðum hér í dag eru úr Jóhannesarguðspjalli og fjalla um góða hirðinn og sauðina hans. Við könnumst flest við söguna en fæst höfum við velt því fyrir okkur hvað þessi orð bera með sér. Þessi dagur er oft kallaður dagur góða hirðisins. Þegar Jesú talaði til áheyrenda sinna notaði hann orðfæri sem þeir þekktu. Allir þekktu hlutverk fjárhirðanna. Jesú talaði einnig til þeirra sem þekktu ritninguna, þeir vissu að hann var að vísa í Esekíel spámann í Gamla testamentinu. Jesú bendir á að hann muni gæta sauða sinna og safna þeim saman í dagslok. Það er gott að vita til þess að einhver gæti manns í lífsins ólgusjó.

Þegar ég minnist á ólgusjó dettur mér til hugar saga sem mér var sögð af manni sem hefur verið skipstjóri í áraraðir. Það gerist alltaf af og til á skipinu hjá honum að menn fara fyrir borð. Harðir karlar sem kalla ekki allt ömmu sína, blóta meira en þeir tala og eru líkast til sjaldan í miklu sambandi við Guð. Mér skilst að það sé skelfileg reynsla að flækjast í veiðarfærum og fara útbyrðis úti á sjó. Þrúgandi kalt og kæfandi hafið skilar helst ekki fangi sínu til baka. Menn þurfa að berjast fyrir lífinu hverja einustu sekúndu sem hafið heldur þeim i greipum sínum. Þegar menn komast upp á yfirborðið eftir að hafa farið á kaf í kaldan sjóinn kalla þeir yfirleitt allir á þann sama í örvæntingu sinni. Og hvernig skyldi kallið hljóma? Guð! Elsku Guð hjálpaðu mér. Kannast einhver hér við þetta? Á örvæntingarstund þá leitum við Guðs. Elsku besti Guð, elsku góði Guð. Ég skal aldrei aftur, eða ég skal alltaf á hverjum degi… Þannig leitum við um stundarsakir til hans en eftir að hjálpin berst erum við fljót að gleyma og ráfum úr öryggi góða hirðisins.

Textinn innifelur ekki boð eða bönn, aðeins þessa huggun sem felst í því að vera gætt af einhverjum. Það felst öryggi í því að vita að við erum örugg hvað sem á dynur. Við vitum að okkar er gætt án skilyrða. Páll postuli sagði styrk sinn fullkomnast í veikleika sínum. Þegar við erum veik þá er styrkur Guðs til staðar fyrir okkur. Þegar við erum heilsuhraust og sterk og okkur gengur vel efnalega þá gleymum við oft Guði. Við höldum að við séum svo sérstök í því sem við gerum. Við trúum því að allt gangi okkur í haginn af því við erum svo klár. Skyldi okkar málum vera þannig háttað? Við ættum ekki að gleyma því að hirðirinn okkar er tilbúinn til að leggja allt undir fyrir okkur ef hann er sannur. Hann stendur við hlið okkar þegar krefur og hann safnar okkur saman í lok dagsins ef við höfum villst af leið.

Hugsið ykkur hvað það er stórkostleg tilhugsun að einhver skuli gæta okkar frá fæðingu og út yfir gröf og dauða. Jesú sér til þess að hjörðin fái næringu og hvíldarstað. Það er auðvelt að villast af leið, taka ranga stefnu. En hann gerir allt sem hann þarf til að halda okkur í sínu skjóli. Hann fórnaði sér fyrir okkur á krossinum. Hann fyrirgefur allar okkar syndir. Og hann gerir þetta án þess að fram á það sé farið.

Við lifum á erfiðum tímum. Það er margt sem glepur og freistar. Margir leiguhirðar eins og talað er um í guðspjallinu sem reyna að ná til okkar og fá okkur til að fylgja sér á rangri leið. Umræða og þrýstingur um nýjar leiðir sem eru betri en leiðirnar sem við þekkjum svo vel með góða hirðinum okkar.
Á síðasta ári týndust börn á aldrinum 12-15 ára 182 sinnum í Reykjavík. Hér nefni ég einungis þau börn sem lögreglan þurfti að leita að en því miður leitar lögreglan ekki allra. Skömm foreldra er oft of mikil. Börn búa við aðstæður þar sem ekki er talin ástæða til að leita sér hjápar. Einstaka sinnum neitar lögreglan um aðstoð. Hugsið ykkur; börnin okkar hverfa að heiman og enginn veit hvar þau eru niðurkomin eða í höndum hverra. Oft eru börnin að flýja erfiðar aðstæður heima fyrir. Stundum eru þau á leið eftir dimmum vegi neyslunnar. Þau glíma jafnvel við sjálfsmynd eða kynhneigð sem umhverfið hefur ekki skilning á. Það er skelfilegt að hugsa til þess sem getur gerst á þeim tíma sem börnin eru að heiman. Sem betur fer koma blessuð börnin stundum óhult heim til fjölskyldna sinna. En það má ekki gleyma því að oft lenda þau í hræðilegri og óafturkallanlegri reynslu sem fylgir þeim til æviloka. Þannig lenda börnin í höndunum á vondum hirðum. Leiguhirðum eins og talað er um í guðspjallinu. Níðingum sem flýja um leið og á reynir. Þau setja traust sitt á aðila sem eru einskis trausts verðir. Niðurbrot barnanna heldur áfram og afleiðingarnar verða hræðilegri en orð megna að lýsa. Lífið ber mörg þessara blessuðu barna því miður svo langt af leið að þau verða úlfunum að bráð.
Við erum stundum óörugg um okkar stað. Hvað ef ég er ekki kristinn? Hvað ef ég trúi ekki nógu sterkt? Það er eðlilegt að efast um trú sína og missa samband við Guð sinn af og til. Þá er gott að rifja upp söguna af sjómönnunum sem fara fyrir borð og bjargast aðeins fyrir óútskýranlega náð. Við sem erum hér inni erum skírð á unga aldri í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda. Þannig erum við merkt góða hirðinum. Ég hitti mann um daginn sem sagðist hafa talað við Guð meira og minna alla ævi. Hann fer með bænirnar sínar. Einn og með börnunum sínum. Hann áttar sig ekki á því hvernig í ósköpunum hann getur heyrt svar Guðs. Eða hvort Guð svarar honum yfirhöfuð. Guð getur vissulega talað til okkar í öllum kringumstæðum. Ekki endilega úr hátalarakerfinu í stórmarkaðnum eða í flugstöðinni þar sem hávaðinn er svo mikill að ekki heyrist orða skil. Hann getur hvíslað til okkar í grasinu, í mjúka vorblænum eða með þýðum söng fuglanna sem nú undirbúa hreiðurgerð. Sauðirnir heyra sjaldnast orð Jesú sem drynjandi röddu af himni ofan heldur miklu frekar í kirkjunni eða jafnvel í þögninni. Það er gott að hlusta í þögn, það er sérstakt en gott og alveg furðulegt hvað hægt er að heyra mikið þegar enginn segir neitt. Það er stórkostlegt að vita að einmitt þá er hirðirinn að tala við sauðinn sinn.

Jesú gleymir ekki sjómönnunum okkar sem kalla eftir honum í örvæntingu eða týndu börnunum jafnvel þó þau viti ekki hvert þau eiga að snúa kalli sínu. Hann heyrir bænir okkar og þekkir líf okkar. Við þurfum engu að lofa vegna þess að það er engin krafa um loforð hjá góða hirðinum. Hann safnar okkur öllum saman í lok dagsins og sér til þess að allt sé í lagi. En við skulum ekki gleyma því að hann safnar jafnframt saman þeim sem ekki telja sig tilheyra hans sauðabyrgi. Jesú er annt um þá sem telja sig ekki tilheyra honum. Þeir sem hafa ekki fundið réttu leiðina eru líka sauðirnir hans og þegar til tekur þá sinnir hann þeim af sömu kostgæfni og sínum eigin sauðum. Jesú er hirðirinn sem leiðir alla og tekur alltaf aftur á móti okkur, sauðunum sínum. Hann kallar eftir þeim sem eru í höndum leiguhirðanna, þeir heyra kallið hans að lokum og við sameinumst öll í eina hjörð undir einum hirði sem er Drottinn Jesú Kristur.
Dýrð sé föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.
Amen..

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3365.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar