Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Toshiki Toma

Glötuð náð og endurnýjuð náð

11. mars 2012

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

1.
Fyrir mörg ykkar er dagurinn í dag fyrst og fremst þriðji sunnudagurinn í föstu. Það er alveg satt, en í dag minnist ég þess, sem einstaklingur líkt og allir Japanir, að nú er nákvæmlega eitt ár liðið frá jarðskjálftanum og flóðbylgjunum sem áttu sér stað víða á norðaustursvæði Japans 11. mars í fyrra.

Þetta gerðist rétt fyrir kl. þrjú á föstudegi. Fólk hlaut að vera að huga að kvöldmat á heimili sínu eða vera að skipuleggja helgina með fjölskyldu sinni. Skólabörn hlutu að hlakka til þess að njóta frítímans framundan með vinum sínum eða fjölskyldu. Enginn gat ímyndað sér hvers konar martröð var framundan. Innan nokkurra klukkustunda höfðu margir íbúar misst foreldra sína, börn, vini, nágranna, húsnæði sitt, vinnustaði og jafnvel heilu bæina.

Margir voru farnir án þess að geta kvatt sitt fólk. Við sem vorum áhorfendur urðum orðalaus þegar við hugsuðum til fólksins á hamfarasvæðunum og veltum fyrir okkur hvernig fólkinu leið eftir að það hafði misst allt á svo skömmum tíma. 15.848 menn létust samstundis eða fljótlega en 3.305 manns er enn saknað. Um 400 þúsund manns voru skyndilega á flótta. Hamfarasvæðin voru aðallega meðfram ströndinni og fleiri en 22.000 bátar eða skip eyðilögðust.
En hörmulega afleiðingin hamfaranna og áhrifin náðu raunar yfir miklu stærra svæði Japans en beinum hamfarasvæðunum.

Að kvöldi 11. mars fóru mörg þúsund manns gangandi á heim í Tokyo, sennilega í fyrsta skipti fyrir flesta. Lestarkerfið varð óvirkt og símkerfið var niðri. Margir gáfust upp á að fara heim og dvöldu á vinnustöðum, en aðrir kusu að ganga í margar klukkustundir. Þeir voru í fullkominni óvissu um hvort fjölskylda sín væri heil á húfi og vildu því komast heim til að staðfesta það öryggi þeirra.
Japönsk vinkona mín í Tokyo sagði mér frá upplifun sinni nokkrum mánuðum síðar en hún á íslenskan mann og stúlku á leikskólaaldri. Hún fór gangandi heim þennan dag. „Ég gat ekki haft samband við manninn minn og stelpuna. Það tók mig fimm klukkustundir að komast heim en ég var svo áhyggjufull þar til ég sá manninn minn og stelpuna.“

2.
Tjónið sem stafaði af jarðskjálftanum og flóðbylgjunum var alltof stórt, og við Japanir vorum neyddir þess til að endurskoða líf okkar og viðhorf okkar til lífsstílsins. Skortur á hreinu vatni til drykkju, skortur á ákveðnum mat, skortur á rafmagni, ótti við kjarnorkugeislun eða áhyggjur af næsta stóra jarðskjálfta hafði gríðarleg áhrif á Japani og japanskt þjóðfélag. Í stuttu máli sagt viðurkenndi japanska þjóðin að það sem þeir áður töldu sjálfsagða hluti voru „ekki sjálfsagðir lengur“. Japanir tóku eftir því hve mikill óþarfi hafði verið til staðar t.d. í hversdagslegri neyslu matar eða rafmagnsneyslu. Því byrjuðu þeir að spara við sig í mat og nýttu hann betur með því að frysta afganga og spara rafmagn með því að setja hærri lofthita í kæliloftskerfi eða búa til mat sem þyrfti ekki að elda í ofni.

Þessi breyting varðaði ekki aðeins mat eða rafmagn, heldur einnig samskipti fólks. Í Japan er það hluti hefðbundinnar menningar að þriðji aðili fer á milli konu og kalmanns sem leitar að lífsförunaut fyrir sig og hjálpar þeim með því að kynna almennilega konu fyrir karlmanni og öfugt. Þetta er raunar orðið að viðskiptum í dag og mörg fyrirtæki veita mönnum og konum slíka kynningarþjónustu. Eftir hamfarirnar jókst fjöldi notenda þessarar þjónustu um 25 til 40 prósent.

Þegar ég frétti þetta fyrst, hélt ég það væri eins konar brandari eða vitleysi, en það kom í ljós síðar að í þessu fyrirbæri endurspegluðust einlægar tilfinningar fólks. „Ég vil ekki vera ein/n. Mig langar að tengjast einhverjum sem ég get treyst “: sagði fólk sem vildi eignast félaga eða maka. Jafnframt jókst fjöldi giftinga. Mörg pör sem voru í góðu sambandi en ógift ákváðu að gifta sig eftir hamfarirnar. Raddir eins og þetta heyrðist oft: „Okkur langaði að staðfesta samband okkar og styrkja. Við viljum endurmeta nauðsyn sambands okkar sem pars og meðal fjölskyldu okkar“.

Það kemur á óvart að þetta skyldi vera ein birtingarmynd afleiðinga jarðskjálftans en það er staðreynd að japanskt fólk finnur innra með sér fyrir frekari hvatningu til að gifta sig. Þetta þýðir að Japanir eru að endurmeta sambandið sín á milli og endurbyggja fjölskyldugildi sín, ekki aðeins þjóðvegi eða húsnæði. „Orð ársins“ er valið í desember á hverju ári í Japan, sem telst tákna liðið ár best, en orð ársins 2011 var „Kizuna“ sem þýðir samband meðal manna.

3.
Pistill dagsins og Guðspjallið, hvort tveggja skilar okkur sömu skilaboðunum. Skilaboðin eru þau: „Ef maður þiggur orð Guðs og náð einu sinni, en ef maður vanmetur þau eða gleymir verðmæti þessa, þóknast Guði það ekki“. Þau hljóma eins og Guð refsi manni á einhvern hátt ef maður vanþakkar orð Guðs og náð, en ég tel að það sé ekki réttur skilningur. Guð refsar manni ekki sérstaklega þó að maður líti lítið á orð Guðs eða vanþakki náð hans. Ég má takmarka næstu orð eingöngu við okkur sem erum í kristinni trú, en að líta lítið á orð Guðs eða vanþakka náð Guðs er nú þegar myrkur sjálft sem er harðara en refsing. En þó að ég afmarki gildi þessarar fullyrðingar aðeins við kristið fólk, samt mun hið sama gilda um alla í heiminum hvað varðar að misskilja náð í hversdagslífi sínu eins og hún væri sjálfsagt mál og vanþakka fólk, hluti, umhverfi sem á skilið þakklæti. En hversu oft og auðveldlega föllum við í þennan forarpytt?

,,Maður þekkir náð sem gefin hefur verið manni og saknar hennar fyrst þegar náðin hefur tapast.“ Þetta er líklegast lögmál manna og gildir hvar sem menn búa í heiminum. Við þekkjum ekki verðmæti náðar sem við erum að þiggja núna fyrr en við töpum náðinni. Hve mörgum sinnum höfum við ekki upplifað þetta? Hversu mörgum sinnum höfum við sagt okkur sjálfum þetta með eftirsjá? Engu að síður, fetum við aftur slóðina í sömu sporin.

Það er sjálfsagt mál að vakna á morgnanna og borða morgunverð. Það er sjálfsagt mál að það verði ljós þegar kveikt er á lampa. Það er sjálfsagt mál að bíllinn fari í gang. Það er sjálfsagt mál að sjá fjölskyldumeðlimi á hverjum degi…. og svo framvegis. Á hverjum degi hugsum við ósjálfrátt að þetta sé allt sjálfsagt mál. En hvers vegna er þá ekki sjálfsagt mál að þakka fyrir öll þau gæði sem við þiggjum á hverjum degi?

Ein af ástæðum þess að við föllum í sama forarpyttinn er sú að þessi annmarki okkar er ekki virkileg tilraun til að óhlýðnast Guði eða særa aðra menn. Ef það væri slík tilraun og meðvituð til að vera vond við Guð eða náungann, þá værum við meira vakandi fyrir því. En annmarkinn er bara veikleiki sem manneskjur hafa í eðli sínu. Því er það afar erfitt fyrir okkur að fylgjast með þessum annmarka alla tíð og berjast við.

Samt er það einnig satt að það skiptir okkur miklu máli hvort líf okkar sé fullt af þakklæti og jákvæðu mati á hversdagslegum hlutum þess eða hvort það sé líf þakið skýjum vanþakklætis og yfirlætis yfir hversdagsumhverfi okkar. Og ef við þekkjum náð sem á skilið þakklæti okkar aðeins þegar við höfum glatað henni og við finnum að við söknum náðarinnar, þá erum við ekki að missa verðmæti í lífi okkar sjálfra?

4.
Ég var búinn að segja frá þeim breytingum sem urðu í lífi Japana og hvernig viðhorf þeirra til lífsins breyttist í kjölfar jarðskjálftans og flóðbylgnanna fyrir ári síðan. Japanska þjóðin er að endurmeta virði hversdagslegra hluta og einnig verðmæti sambands fjölskyldunnar sem og samskipta við annað fólk. Það má segja að við Japanir séum að taka eftir því sem við vorum að gleyma á meðan samfélagið þróaðist og lífið varð þægilegra og þægilegra á degi hverjum. Og það, að gleyma gefinni náð og þekkja hana aftur í tilefni af hamförum, slysi eða eins konar lífshættu, er sameiginlegt mál sem varðar öll mannsbörn í heiminum og hefur sig yfir landamæri og trúarbrögð. Því ættum við, sem búum á Íslandi, ekki að íhuga þetta mál fyrir okkur sjálf líka?

Að lokum langar mig að koma til skila skilaboðum skýrt frá kristinni trú. Ég trúi að þetta gildi okkur sem erum í kristinni trú en jafnframt langar mig að trúa að það gildi einnig annað fólk líka, með miskunnsemi Guðs.

Það sem stingur hjarta mitt hvenær sem ég hugsa um hamfararnir í Japan er sú staðreynd að margt fólk missti eigin fjölskyldu án þess að kveðja hana. Aðeins ef fólki hefði verið gefinn tími til að kveðja fjölskyldu sína, myndi það segja ýmislegt: þakka fyrir, skýra út óleyst mál, biðjast afsökunar eða fyrirgefningar eða segja eitthvað sem það geymdi í brjósti sínu. En raunveruleikinn leyfði fólki það ekki.

Í fréttum eða sjónvarpsþættum frá Japan heyrði ég mörgum sinnum að fólkið sagði og grét: „Mig langar að hitta manninn minn einu sinni enn og segja honum: Takk fyrir allt“. , ,Ég vil leika mér við mömmu mína aftur: Mamma mín, það var alltaf svo gaman“. „Væri það hægt langar mig að faðma barn mitt einu sinni að mér og segja: Fyrirgefðu að ég gat ekki verndað þig“. Fólk mun halda áfram að geyma þessi orð í brjósti sínu alla ævi sem er eftir fyrir sig. Samsvarandi staða gæti verið til staðar hjá öðru fólki en á hamfarasvæðinum Japans, t.d. hjá fólki sem missti ástvin í slysi eða úr skyndilegum sjúkdómi.

Í trú okkar á Guð, megum við fullvissa okkur um að við hittum aftur fjölskyldu okkar og æskuvini í Guðs ríki, og þar við getum komið til skila orðunum sem eru geymd í brjósti okkar. Guðs ríki eða eilíft líf er ekki orð samhyggju fyrir syrgjendur, heldur er það loforð Guðs til okkar og staðreynd sem við staðfestum í trúinni. Og þetta er ómetanleg náð Guðs, þar sem í Guðs ríki getum við læknað okkar eigin sársauka, hver sem hann er, og losnað undan álagi sem við þurftum að bera á herðum okkar í jarðnesku lífi okkar. Við megum fullkomast í friði. Náð Guðs er ótrúleg góð. Ég óska Guði og bið um að hið sama verði á fólk sem var ekki eða er ekki í kristinni trú á jörðinni.

Við erum í föstu. Munum að þakka fyrir náð sem Guð hefur gefið okkur gegnum hversdagslíf, gegnum fjölskyldu okkar, náunga okkar, samfélagið og gegnum krossinn Jesú Krists, á hverjum degi sem verður okkur gefinn.

Miskunnsami Drottinn okkar Jesús Kristur sé með sérhverjum manni sem syrgir vegna hamfaranna í Japan og gefi honum trú og von á eilífu lífi. Drottinn sé með öllum sem eiga í erfiðleikum og þjáningu í allheiminum. –Amen

-Texti dagsins er hér -

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3181.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar