Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Bjarni Karlsson

Ástrík hlustun eflir læsi barna

5. febrúar 2012

Við lifum á mögnuðum tímum. Hvert misseri í lífi þessarar þjóðar er nýr kafli í áhugaverðri framvindu. Nú leiðir ný rannsókn í ljós að því meiri tekjur sem foreldrar íslenskra drengja hafa því líklegra er að lesskilningi piltanna sé ábótavant. Þá kemur líka í ljós í annari nýlegri rannsókn sem greint var frá í fjölmiðlum í vikunni að börn fráskilinna foreldra eru almennt í betri tengslum við feður sína að því gefnu að forræði sé deilt og þau búi jafnt hjá báðum foreldrum.

Hugsum nú aðeins saman.

Besta aðferðin til þess að viðhalda neikvæðu ástandi er sú að hella úr eyrunum og hneykslast á fólki. - Hann ríður ekki við einteyming íslenski plebbahátturinn! er t.d. fín setning í því sambandi. Önnur er líka góð: Það er ekki að spyrja að þessum íslensku karlmönnum. Þeir vakna ekki fyrr en búið er að henda þeim út götu og króunum á eftir þeim!

Ef okkur langar hins vegar að breyta einhverju þá held ég að við verðum að skoða málið dýpra. Ég held raunar að þessi vandi eigi ekkert skylt við plebbaskap eða aulahátt enda þótt hann vissulega birtist í þeim búningi. Guðspjallið í dag, sagan af verkamönnunum í víngarðinum, er í raun niðurlag af mjög skemmtilegri plebbasögu sem sýnir að plebbaskapur er langþróaður vandi sem var ekkert fundinn upp hér á Íslandi. Við sem lásum bláu og bleiku Biblíusögurnar í barnaskóla munum eftir ríka unglingnum sem svo var nefndur og kom til Jesú í mjög sérstökum sökksess-erindum. Því er lýst í 19. kafla Matteusarguðspjalls hvernig hann kemur með tilþrifum, varpar sér fram fyrir Jesú og spyr þannig að athygli allra beinist að honum: „Meistari, hvað á ég að gera til að öðlast eilíft líf?” Og í stað þess að hæðast að þessum vandræðalega gjörningi unga mannsins sem ber með sér svo áberandi yfirborðsmennsku þá notar Jesús tækifærið til þess að kenna honum og okkur öllum hvernig best er að tækla plebbaskap. Jesús horfir á unga manninn og mætir honum bara af virðingu.

Yfirborðsmennska á rætur í óttanum við það að vera ekki nóg. Að maður sé með einhverjum hætti ófullnægjandi einstaklingur og þurfi þ.a.l. að bera utan á persónu sinni alls konar flögg og merki. Öll merkjavaran er til vitnis um algengi þessa vanda. Ég þekki það semt best af sjálfum mér. Alltaf þegar ég er eitthvað að rembast innan um fólk þá er það vegna þess að ég er óöruggur og vantar fullvissu um eigin virðingu. Nú, jæja. Jesús tekur við spurningu unga mannsins sem í alvöru trúir því að það sé á hans valdi að gera eitthvað til þess að tryggja sér eilíft líf. Höfum hugfast að þessi ungi maður átti allt og hafði ekki heyrt mörg Nei um dagana. Hann var í forréttindastöðu á flestum sviðum dáður og öfundaður og í hans hugarheimi var eilíft líf e.t.v. meira svona spurning um það að hafa fullt hús í spilinu, vera með eilífðarmálin í tékki við hliðina á öllu hinu sem hann hafði á valdi sínu.
„ Ef þú vilt inn ganga til lífsins þá haltu boðorðin.“ svaraði Jesús
Hann spurði: „Hver?“
Jesús sagði: „Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, heiðra föður þinn og móður og þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Ungi maðurinn var risinn á fætur og hefur litið í kring um sig feginn að sjá að allir voru að horfa og hlusta þegar hann leit á Jesú og mælti fullur af sjálfsöryggi: “Alls þessa hef ég gætt. Hvers er mér enn vant?“
Þarna stóð hann frammi fyrir meistaranum og samferðamönnum sínum og skorti svo átakanlega innsæi í sjálfan sig og mannlífið almennt að hann trúði því í alvöru að hann hefði haldið sjálf boðorðin tíu allt frá æsku. Það hálfa væri hellingur hafa margir hugsað sem nær stóðu. En ungi maðurinn elskaði áskoranir. Hann stóð bara í markinu reiðubúinn að verja alla bolta. Tíu mörk varin! Boðorðin öll á hreinu. Skjóttu aftur Jesús!

Guðspjall dagsins er úr Matteusi en þegar Markús guðspjallamaður greinir frá þessum sama atburði hefur hann fyrir því að lýsa augnaráði Jesú þar sem hann horfir á ríka unglinginn: „Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ (Mark. 10.21)

Munum að tillaga Jesú var mæld fram í ástúð ekki sem ögrun. Því fór ungi maðurinn ekki reiður á braut heldur bara hryggur, „enda átti hann miklar eignir” útskýrir Matteus.
En Jesús sagði við lærisveina sína: „Sannlega segi ég ykkur: Torvelt verður auðmanni inn að ganga í himnaríki. Enn segi ég: Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“
Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta urðu þeir steini lostnir og sögðu: „Hver getur þá orðið hólpinn?“
Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þess en Guði er ekkert um megn.“

Þarna verða einkar áhugaverð kaflaskil í sögunni þegar kviknar á perunni hjá Pétri lærisveini og hann sér leik á borði þegar ríki unglingurinn er genginn út af sviðinu. Munum að lærisveinarnir voru einmitt sjálfir ungir karlmenn og það kemur ítrekað fram í Guðspjöllunum hve þrekaðir og þjáðir þeir voru af hugmyndinni um sjálfa sig sem sigurvegara.

Þá sagði Pétur við Jesú: „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum við hljóta?“
Og Jesús byrjar bara aftur á sama stað og gefur Pétri og vinum hans sömu meðferð og ríka unglingum. Hann stígur inn í þeirra eigin hugarheim og byrjar nákvæmlega þar sem þeir eru staddir: „Sannlega segi ég ykkur: Þegar Guð hefur endurnýjað allt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu munuð þið, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels. Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá allt hundraðfalt aftur og öðlast eilíft líf.”

Þeir áttu drauminn um Guðs ríki. Þessir ungu menn áttu trúna á góðan Guð sem leysa mun heiminn frá öllu illu og endurnýja allt. Og í þeirra hugarheimi var jafn vel ákveðin landafræði í þessu tengd sterkum myndum úr Gamla Testamenntinu og hugmyndum um hásæti og herradóma og völd. Tökum nú eftir aðferð Jesú. Hann gengur bara þarna inn eins og ekkert sé. Samþykkir heimsmynd þeirra gagnrýnislaust, fyllir þá þannig öryggi og lætur þá svo líka heyra að hann viti hvað þeir hafa lagt mikið á sig, gefið mikið og misst af mörgu vegna þess að þeir gerðust lærisveinar hans. „Hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá allt hundraðfalt aftur og öðlast eilíft líf.” Og þarna þar sem lærisveinarnir standa líkt og í heitri sturtu og drekka í sig viðurkenningu meistarans á öllu því sem þeim er kærast og helgast og eru hugsa með sér hvort það sé ekki einmitt svona þegar maður meikar það í Guðsríki, þá bætir Jesús við einni lítilli setningu sem kippir þeim niður á jörðina með hliðstæðum hætti og ríka unglingnum var hjálpað til þess að komast í betri tengsl við raunveruleikann:
“En margir hinir fyrstu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.“
Ég sé fyrir mér sæl og upphafin andlit lærisveinanna verða langleit og óviss. “En margir hinir fyrstu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.“

Saga dagsins, sagan um verkamennina í víngarðinum sem ekki fengu greitt samkvæmt vinnuframlagi heldur eftir þörfum, er útskýring á þessari litlu óþægilegu setningu.

Við trúum því að við séum hér til þess að sigra. Við göngum út frá því að helsta verkefni okkar í veröldinni sé það að ávinna okkur stöðu og ná árangri. Hvenær byrjaði þessi skynvilla? Hvenær var fyrsta drengnum kennt að ef hann ætlaði að verða raunverulegur karlmaður yrði hann að lifa sem mest uppi í höfðinu á sér og hætta að hlusta á tilfinningarnar í brjóstinu? Og því meira sem við leggjum á okkur við það að sigra því minna hlustum við á börnin okkar, einkum drengina. Þeir eiga að læra að vera sigurvegarar. Ómeðvitað einangrum við drengi frá ástúðinni og hlustuninni, þeirra heimur á að vera heimur hraða og árangurs. Þess vegna læra þeir ekki að lesa. Ríki unglingurinn kom heldur betur á fartinni en hann var ólæs á aðstæður sínar og hafði varla gripsvit á því hvað í því er fólgið að vera manneskja. Í ljós kom að lærisveinar Jesú voru lítið betur settir.

Frásagnir Guðspjallana sýna að aðferð Jesú gagnvart þessum vanda var ástúðleg hlustun. Hann fór bara inn í hugarheim hins einangraða og byrjaði samtal á hans forsendum. Í blaðagrein sem Andri Snær Magnason skrifaði um daginn um læsi drengja er hann að biðja samfélagið um að nota þessa aðferð. Hann hvetur okkur til að setja okkur inn í hugarheim barnanna þegar hann segir:
„Furðufiskar og lífríkið í hafinu kringum Ísland ætti að vera örvandi fyrir ímyndunaraflið. Ættu 10 ára krakkar á Íslandi ekki að hafa æði fyrir fiskum eða hvölum? Þeir ættu allir að vilja verða kafarar og sjávarlíffræðingar. Eða hvað? Ákvað einhver að þeir ættu ekki að hafa áhuga? Eða erum við almennt hlutlaus og meðvitundarlaus um menningarheim barna og unglinga? Eldvirkni og eldgos síðustu ára ættu að fylla þá löngun til að verða jarðfræðingar og vísindamenn. Íslendingasögurnar og bókmenntirnar eiga að fylla þá draumum um að verða skáld eða fornleifafræðingar.” (http://www.visir.is/strakarnir-okkar/article/2012701259993)

Sigurvegaramenningin er ævafornt vandamál og hún hefur alltaf sömu einangrandi áhrifin; aðskilur kynin, fjarlægir mann frá náttúru, gerir stéttir og þjóðir framandi og veldur því að drengir missa af feðrum sínum og læra ekki að lesa á lífið. Þess vegna talaði engillin Gabríel við Sakaría föður Jóhannesar skírara og sagði: „Og hann mun ganga fyrir Guði í anda og krafti Elía, til að snúa hjörtum feðra til barna sinna og gefa óhlýðnum réttlátt hugarfar og búa Drottni altygjaðan lýð.“ (Lúk. 1.17)

Leyfum því að gerast.

Amen.

Textar dagsins:
Jer 9.22-23
1Kor 9.24-27
Matt 20.1-16

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2377.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar