Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þorgeir Arason

Þá lítum við ekki undan

26. febrúar 2012

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Sérhver manneskja
verður að læra
að horfast svo fast

í augu við sjálfa sig
að hún neyðist til að líta undan.
Og horfa svo aftur
án þess að líta undan.

Þannig yrkir Njörður P. Njarðvík.

Fastan er gengin í garð. Bolludagur og sprengidagur eru að baki með veislum sínum og áti og sömuleiðis öskudagur, fyrsti dagur föstunnar, með sprelli og búningum stórra og smárra!

Hin andlega merking öskudagsins og raunar föstunnar í heild er þó trúlega mörgum hulin nú á dögum. Í sumum kirkjum á höfuðborgarsvæðinu hafa öskudagsmessur reyndar verið endurvaktar á síðari árum. En hin forna áminning spámanna Gamla testamentisins um „að iðrast í sekk og ösku“ er sennilega flestum gleymd eða orðin merkingarlítil.

Þó fanga ljóðmæli samtímaskáldsins Njarðar hér í upphafi nokkuð vel megininntak föstunnar í kristnum skilningi. Verkefni kristins manns á föstunni er einmitt að horfast svo fast í augu við sjálfan sig að hann neyðist til að líta undan! – „Og horfa svo aftur án þess að líta undan.“

Verkefni föstunnar felst nefnilega í því að við lítum inn á við og horfum í hinn andlega spegil þar sem breytni okkar, hugsanir og áform búa. Þar kann að leynast sitt lítið sem betur mætti fara, og jafnvel eitthvað sem ekki þolir dagsljósið. Þannig er því að minnsta kosti farið í mínu tilfelli. Kannski hrópum við með Hallgrími: „Ó, synd, ó, syndin arga, hvað illt kemur af þér?“

Við tölum ekki mikið um syndir nú á dögum, ekki einu sinni í predikunum kirkjunnar manna. Hvort það er vegna þess að við manneskjurnar séum orðnar minna syndugar en áður leyfi ég mér að efast um! En hollt er að hafa í huga skyldleika orðsins synd við annað hugtak, sundrung.  Nafn djöfulsins á grísku, diabolos, getur m.a. vísað til þess sem sundurdreifir. Þannig er syndin það sem sundrar því heilbrigða og góða, það sem sundrar Guðs vilja.

Þá sundrung alla, sem við finnum í lífi okkar, megum við fela Drottni í einlægri bæn um fyrirgefningu og styrk. Og við megum treysta því að blóð Jesú,  sem rann á krossinum, hreinsi okkur af allri synd.

Þannig yrkir líka Hallgrímur:

Ljúfan Jesúm til lausnar mér
langaði víst að deyja hér.
Mig skyldi og lysta að minnast þess
mínum drottni til þakklætis.

Ég hef hér leyft mér að vitna í Passíusálmana og úr þeim sungum við líka sálmvers fyrr í messunni. Í lok vikunnar sem leið bárust þær fréttir að stofnun í Bandaríkjunum, sem berst fyrir réttindum gyðinga um heim allan, hefði sent útvarpsstjóra bréf með ósk um að lestri Passíusálma á föstunni yrði hætt, þar sem í sálmunum væri að finna andgyðinglegar tilvísanir.

Hér skal það viðurkennt að Hallgrímur vísar í sálmunum til gyðinga með þeim hætti sem fæstir myndu gera nú, hálfri fjórðu öld eftir hans dag. Og umvöndun frá virtri stofnun sem berst fyrir umburðarlyndi og gegn fordómum ber jafnan að skoða í fyllstu alvöru.

Hinu skulum við þó ekki gleyma, að meginboðskapur Hallgríms í sálmunum fjallar um kjarnaatriði kristinnar trúar og er í þeim skilningi bæði djúpsær og listilega fram settur. Því hafa þeir nú lifað aldirnar.

Svo þekkjum við hitt líka, að þar sem fordómar eru þegar fyrir hendi grípa menn gjarnan til ýmissa ráða þeim til réttlætingar. Einmitt þar reynir á sjálfsskoðun föstunnar, að við rannsökum okkur sjálf og prófum með gagnrýnum huga og mælistiku kærleikans að vopni. Þá þurfum við jafnvel að horfa svo fast í eigin augu að við neyðumst til að líta undan!

En þegar við nú tökum upp þennan andlega spegil föstunnar og beinum honum rannsakandi að okkur sjálfum, kunnum við einnig að finna þar fyrir það, sem er betra og fegurra en það sem við viljum halda á lofti um okkur sjálf. Þar gæti leynst meiri andlegur styrkur en við töldum okkur eiga, meira hugrekki og þolgæði til að takast á við þrengingar og meira ljós en við höfum leyft að skína. Notum föstuna líka til að leyfa því öllu að njóta sín, sem Guð hefur gefið okkur. Látum það afl ekki komast að, sem vill rífa okkur niður, draga úr okkur kjarkinn og segja okkur að við séum ekki nógu góð!

Og kannski finnum við líka innra með okkur, með Drottins hjálp, ef við horfumst nógu fast og afdráttarlaust í augu við okkur sjálf, ríkari mátt viljans en við höfum áður getað fært okkur í nyt, ríkari mátt til að standast þær freistingar syndarinnar sem á vegi okkar verða í lífinu.

Í guðspjallsorðunum sem mæta okkur í dag, við upphaf föstu, hittum við lausnara okkar sjálfan fyrir í andlegri vegferð þar sem tilgangurinn er beinlínis sá að vera freistað og að sigrast á freistingunum.

Guðspjallamaðurinn greinir frá atburði sem á sér stað eftir skírn Jesú, en áður en hann hefur starf sitt við að boða Guðs ríki og lækna sjúka. Í eyðimörkinni hittum við Guð sem er með áþreifanlegum hætti líka maður, svo hungraður sem hann er orðinn eftir langa föstu þegar hólmgangan við óvininn hefst.

Í Nýja testamentinu er dregin upp mynd af  djöflinum sem andstæðingi Guðs og hans góða vilja. Frammi fyrir árásum hans er okkur því hætt við að fara að efast um okkur sjálf og hlaupast undan því góða, fagra og fullkomna sem Guð hefur gefið okkur og ætlað okkur að stefna að í lífinu.

Freistingarnar þrjár sem Jesús mætir í sögunni tákna eiginlega svo margar þeirra freistinga sem við verðum fyrir í okkar daglega lífi. Jesús fer á undan okkur á hólm við djöfulinn og mætir því, sem við þurfum öll að takast á við.

Steinarnir, sem Jesú er boðið að breyta í brauð, geta þannig merkt hættuna sem í því felst að taka hið stundlega og líkamlega fram yfir þau gæði, sem andleg eru og eilíf.

Freistingin um að kasta sér ofan af musterisbrúninni varar okkur við sýndarmennsku, ofdrambi og stærilæti.

Öll ríki heims í skiptum fyrir tilbeiðslu djöfulsins minna okkur á það sem sókn eftir völdum og auðæfum getur leitt til, fylgi þeim ekki raunhæfur sjálfsskilningur og þjónusta við Guð og náungann.

Og allar þessar freistingar leiða okkur fyrir sjónir nauðsyn þess að standa með báða fætur á jörðinni. Þær minna okkur á að tilbiðja lifandi Guð í stað mannlegra skurðgoða. Þær fjalla um jafnvægið í lífinu, það jafnvægi sem við finnum þegar við leitum uppsprettunnar í faðmi Guðs og keppum eftir boðum hans.

Það er í leit að þessu jafnvægi sem við tökumst á við verkefni föstunnar.

Það er í leit að þessu jafnvægi sem við erum hvött til að horfast svo fast í augu við okkur sjálf að við neyðumst til að líta undan – og til að horfa svo aftur, án þess að líta undan.

Já, við horfum aftur og sjáum okkur sjálf með augum Krists; sjáum möguleikana og kraftinn sem Guð gefur okkur, sjáum okkur íklædd fyrirgefningu og kærleika Krists.

Og þá lítum við ekki undan.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2933.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar