Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl V. Matthíasson

Brúðkaupsgesturinn

15. janúar 2012

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi. Amen.

Þegar Jesús kom í brúðkaupið í Kana breyttist stemmingin, breyttist allt.

Brúkaupið í Kana er upphaf nýrra tíma í lífi tveggja einstaklinga brúðguma og brúðar. Brúkaupið í Kana er upphaf nýrra tíma í ævi Jesú frá Nazaret. Án heimsóknar Jesú í þetta brúðkaup hefði það orðið hálf vandræðlegt, neyðarlegt, jafnvel hálf dapurt. Eða hvað er leiðinlegra en að hafa boðið fólki til veislu, þar sem veisluföngin reynast vera á mörkum hins boðlega og klárast. Við getum gert okkur í hugarlund þegar við lesum Guðspjallið að stemmingin hafi verið orðin hálfleiðinleg, vandræðaleg, vínið búið og það sem verra var ekki gott. Í raun og veru allt að því hallærisvín. En Jesús breytir þessu öllu hann bjargar veislunni og við getum rétt ímyndað okkur hversu hin nývígðu hjón verða glöð og fólkið þeirra og þakklát Jesú þegar hann breytir vatninu í hið best vín sem þau höfðu nokkurn tímann smakkað.

Margir drykkjumenn leggja þessa sögu á minnið og er hún þeim kær enda nota þeir hana til þess að réttlæta óhóflega víndrykkju sína og bæði með sjálum sér og fyrir öðrum.

Tilgangur Guðspjallamannsins með því að greina frá þessu fyrsta kraftaverki Jesú og um leið inngöngu hans til þjónustunnar við lífið sjálft er að upplýsa okkur hversu stórkostleg umskipti koma inn í lífið þegar Jesús verður sá sem veitir - þegar Jesús verður sá sem við treystum - þegar Jesús verður sá er við köllum til þá skortur, skemmd og skömm koma inn í líf okkar.
“Takk, takk elsku María að þú komst með soninn þinn í þessa veislu” gæti brúðurin hafa hvíslað í eyru hennar, “þetta var svo mikil blessun og það var ekki bara vínið, heldur hvernig allt breyttist einhvern veginn við þetta allt.”
“Njóttu þessa, kæra brúður” gæti María hafa sagt en hugsað með sér um leið: “Ég hef ýtt syni mínum af stað í ferð sem ég veit ekki hvar endar. Ó Guð, nú er hann í þínum höndum leiddu hann drenginn minn. Taktu kvíðann og óttann, gef mér að treysta þér.”

Já, Guðspjallamaðurinn Jóhannes greinir frá því að María móðir Jesú er með honum í upphafi hins stórkostlega starfs hans og einnig við lok þess, undir krossinum á hæðinni Golgata.
Þessi frásaga, sem gæti heitið: “Brúðkaupsgesturinn Jesús” er falleg og skemmtileg jafnvel fyndinn, sem kallar okkur til þess að halda áfram að lesa Guðspjallið. því það býr yfir fleiri og stigmagnandi kraftaverkasögum ásamt ræðum og bænum sem Jesús flytur, fyrir nú utan öll samtöl og frásagnir af lífi hans og kappi þeirra sem vildu hann dauðan.
Þar sem Jesú fer um, þar verður breyting. Öll frásagan af ferð hans frá Maríu móður sinni til hæðarinnar Golgata sýnir okkur fólk í hinum ólíkustu aðstæðum mannlegs lífs og hvernig kraftur hans kemur til bjargar, blessunar og líknar.
Guðspjallið er ritað til þess að upplýsa alla menn sem á jörðinni búa að Guð elskar heiminn og að hann er nálægur okkur hverja stund og og hvar sem við dveljum. Þetta fær Nikódemus, spekingurinn og öldungurinn að heyra af vörum Jesús í einni setningu:
“Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíf líf. Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn heldur til að frelsa hann.”

Guð hefur frumkvæði í því að tala við okkur og það er heilagur andi hans sem knýr okkur til þess að líta upp, nema staðar, hlusta, taka eftir lífinu og biðja. Það er heilagur andi hans sem segir við okkur þegar við eigum í vanda: “Treystu Guði, farðu með bænir, lestu Guðs orð, legðu þig eftir því. Þá verður lífi þitt veisla og gleði án skorts og skammar.”
Já, hvar sem ég er þar er hann að tala við mig og þar segir hann: “Ekkert vald getur unnið þeim mein sem ég vernda”
Orð Guðs kemur til hvers okkar og eins með uppörvun og kraft en engu að síður skal sá sem hefur eignast lifandi trú og jafnvel fundið hönd Guðs á brjósti sínu vaka og vaka því mikil ábyrgð hvílir á þeim sem slíka blessun og smurningu hefur hlotið. Ábyrgð sem ýtir burtu sjálfhverfri prívat ást á Guði ábyrgð sem hlýtur sífellt að minna okkur á orð hans “Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum mun og ég við kannast fyrir föður mínum á himnum”. Og hér er ekki aðeins átt við í orði heldur og verki. “Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.”

Við getum ekki ímyndað okkur annað en að allir sem komu til brúðkaupsins í Kana hafi fengið nóg er á veisluna leið og enginn hafi í græðgi hrifsað til sín frá öðrum.
Þessi veisla sem byrjaði illa varð að veislu, gleði, gnægta, ástar, hamingju og blessunar vegna þess að dyrnar voru opnaðar fyrir Jesú.
Við sem hér erum vitum að veislur geta verið misjafnar, stórkostlega góðar og indælar en líka villtar, spilltar og jafnvel endað í fullkominn illsku, hatri græðgi, grimmd og öfund.
Slík veisla stóð yfir í landi okkar en hún var haldin án þess að orð Jesú Krists fengi að koma þar inn og breyta öllu til hins heila og heilbrigða.
Nei honum var ekki hleypt inn heldur mammon sem Kristur varar okkur við þegar hann segir “Enginn getur þjónað tveimur herrum, annað hvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammon.”

Hið veraldlega og andlega ríki okkar varð sjálfu sér sundurþykkt og þess vegna varð hrun og hrunið mun verða meira takist íbúum landsins ekki að ganga í einum huga, og láta orð pistils þessa dags smjúga inn í merg og bein
Hafið andstyggð á hinu vonda en haldið fast við hið góða. Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu. Verið ekki hálfvolg í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni. Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni, staðföst í bæninni. Takið þátt í þörfum heilagra. Leggið stund á gestrisni.
Blessið þá er ofsækja ykkur. Blessið en bölvið ekki. Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.
Já hér höfum við þessi Guðs orð og hver ætlar að gefa gaum að þeim ?
Hver ætlar að segja: “Jesús hér er skortur í íslensku brúkaupsveislunni sem við erum í viltu koma inn og breyta skortinum í gnægð, því skemmda í heilt, skömminni í sæmd, tómleikanum í fyllingu, vonleysinu í von, hrokanum í auðmýkt og vantrúnni í trú.

Dagar eru liðnir frá brúðkaupinu forðum, en myndir þess eru skýrar fyrir hugskotssjónum okkar, myndir sem við getum gengið inni í og lifað í. Jafnvel sá er sárast syrgir, sá sem rændur hefur verið eða sá sem rændi og íhugar iðrun sína, sá sem völdin, tignina og dýrðina þyrstir sem og sá sem hyggur á hefndir, ellegar sá sem umlukinn er grjóthörðum vöðvum bakkusar hins illa eða hinn er skorturinn nagar öll geta þau gengið inn í þessa gömlu mynd þar sem Jesús opinberar matt sinn, dýrð sína og þá heillaríku undirstöðu sem orð Guðs er hverjum og einum.
Upphaf starfs Jesú hefst þegar verið er að stofna nýja fjölskyldu og nýtt heimili. Það undirstrikar mikilvægi og friðhelgi fjölskyldunnar og heimilisins sem gleði og griðastaðr hverrar einustu manneskju. Sérhverri kristinni manneskju hverju starfi sem hún hún gegnir, hvort sem það er í bankaheiminum, í rukkunarveröldinni, stjórnsýslunni hárri sem lágri ber því að leggja lóð sitt á þær vogarskálar er stuðla að því að heimilin varðveitist og splundrist ekki og að allir í þeirri veislu sem við skulum efna til búi við sömu gleði og sátt sem ríkti forðum í brúðkaupinu í Kana þar sem Jesús var brúðkaupsgesturinn góði.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1657.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar