Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Lena Rós Matthíasdóttir

Biskupskosning og heimilisguðrækni

1. janúar 2012

Drottinn blessi heimilið

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í Guðspjalli hins fyrsta dags á nýju ári ber okkur niður í lífi lítils barns og fjölskyldu þess. Barnið er einungis átta daga gamalt og það eina sem það kann er að gefa frá sér mismunadi hljóð til að segja til um grunnþarfir sínar. Með öðrum orðum, ósköp venjulegt lítið barn. Það sem þetta litla sveinbarn hins vegar veit ekki, er að nú stendur það frammi fyrir sársaukafullu inngripi inn í líf sitt. Foreldrar barnsins eru gyðingar og fylgja hefðbundnum trúarsiðum á borð við umskurn átta daga gamalla sveinbarna. Helgisið sem samsvarar skírn í kristinni kirkju.

Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi.

María og Jósep hafa ugglaust horft af aðdáun á litlu manneskjuna sem bar mynd þeirra beggja og undrast yfir afrekum sínum. Þvílíka hamingju höfðu þau ekki áður þekkt. Eitthvað alveg nýtt var nú til orðið í lífi þeirra.

Það er eitthvað alveg ótrúlega hversdagslegt við þessa frásögn. Mér finnst ég kannast við hana úr minni eigin lífssögu. Nema í mínu tilviki var sagan sögð með þessum hætti:

Þegar þrír mánuðir voru liðnir skildi skíra hana og var hún látin heita Lena Rós eins og foreldrum hennar hafði verið lagt á hjarta áður en hún var fædd úr móðurlífi.

Þessi saga heldur áfram að endurtaka sig mann fram af manni, hversdagsleg sammannleg reynsla um fyrstu skref lítillar manneskju inn í það samfélag sem barnið er fætt í. Ég veit ekki til þess að englar hafi vitrast foreldrum mínum með nöfnin Lena Rós, en ég veit að þau lögðu hvort sitt nafnið til, horfðu með aðdáun á litlu manneskjuna sem bar mynd þeirra beggja og undruðust yfir afrekum sínum. Þvílíka hamingju höfðu þau ekki áður þekkt. Eitthvað alveg nýtt var nú til orðið í lífi þeirra.

Þetta nýja í lífi foreldra og barna er eitthvað alveg einstakt. Ég minnist þess þegar ég fékk að upplifa gegnum frásögn frænda míns og vinkonu minnar, reynsluna af því þegar þau hjónakornin lögðu lönd undir fót til að mega faðma lítið barn á Kínverskri grundu. Frásögnin af því þegar þau fengu dóttur sína í fangið í fyrsta sinn hljómaði á einhvern undraverðan hátt eins og frásögnin af því þegar ég fékk frumburðinn minn í fyrsta sinn í fangið, slímugann og grettinn lítinn drenginn. Þarna stóðu þau í stórum sal og hið kínverska nafn stúlkunnar var borið upp um leið og hún var borin í faðm foreldra sinna.

Þegar ár af æfi hennar var liðið skildi skíra hana og var hún látin heita Lilja Hugrún eins og foreldrum hennar hafði verið lagt á hjarta áður en hún var færð í faðminn þeirra.

Foreldrar hinnar ættleiddu stúlku fundu sig horfa með aðdáun á litlu manneskjuna sem bar mynd þeirra beggja og undruðust yfir afrekum sínum. Þvílíka hamingju höfðu þau ekki áður þekkt. Eitthvað alveg nýtt var nú til orðið í lífi þeirra.

Í vissum skilningi berum við mynd beggja foreldra okkar, hvort sem um er að ræða blóðforeldra eða ekki. Með einhverjum hætti verða líkindin sýnileg hvort heldur sem er líkamlega eða andlega. Þegar allt leikur í lyndi verður samspil foreldris og barns afar náið og foreldrar eiga þetta skrítna orðatiltæki að börnin séu eins og hugur manns. Í þessu fallega samspili foreldris og barns er fólginn sköpunarkrafturinn sem reiðir fram eitthvað nýtt á hverjum degi. Þar erum við jafnt foreldrar sem börn, meðhjálp skaparans. Við leggjum okkar af mörkum til að þessi fallega samfélagslega eining megi verða heil og sterk og halda gegnum brotsjó lífsins.

Hin samfélagslega eining sem telur foreldri og barn, forsjáraðila og barn, hjón eða sambýlisfólk, systkin eða mæðgin, já, hvernig sem þessi samfélagslega eining annars raðar sér, þá köllum við hana fjölskyldu.

Fjölskyldan er grunneining samfélagsins. Hún er helgidómur manneskjunnar. Hið heilaga rými sem umvefur og verndar, hlúir að og nærir, styður og ögrar, gefur mikið en krefst einnig mikils til baka. Fjölskylda er hópur fólks sem hefur fjöl-skyldur hvert gagnvart öðru.

Jesús ólst upp í fjölskyldu sem var ekkert frábrugðin fjölskyldum eins og finna má á Íslandi árið 2012. Hann átti unga móður og eldri föður. Móðir hans hafði aldrei áður átt í sambandi en faðir hans var ekkjumaður með fjóra uppkomna syni og tvær dætur. Jesús elst því upp í hópi hálfsystra og bræðra en eignast líka yngri systkin. Við getum rétt ímyndað okkur hvort ekki hafi verið lagðar skyldur á herðar honum, gagnvart öðrum fjölskyldumeðlimum. Það voru skyldur sem hann bar með reisn, í kærleika og af djúpri virðingu gagnvart þeim sem hann elskaði mest. Þannig hlýtur það alltaf að vera þegar fjölskyldan er heil. En eflaust hafa líka verið erfiðleikar sem þurfti að yfirstíga. Erfiðleikar sem við þekkjum í stjúpfjölskyldum í dag þar sem fleiri en ein kjarnafjölskylda tvinnast saman. Bara að allar þær skyldur sem þar er að finna megi vera bornar af reisn, í kærleika, af djúpri virðingu gagnvart öllum fjölskyldumeðlimum. Þá er það vel.

***

Kirkjan er fjölskylda. Hún er félagsskapur fólks sem leggur sama skilning í tilveruna, siðgæði og æðri máttarvöld og hefur löngun til að eiga samfélag um þau gildi. Kirkjan er ekki og má aldrei vera skilin sem stofnunin er heldur úti hinum veraldlega rekstri þess félagsskapar. Kirkjan er ég og þú. Við sem með trú okkar og lífssýn leggjum það á okkur að tilheyra sama félaginu. Hún mun alltaf bera mynd okkar. Hvort heldur sem er líkamlega eða andlega mynd okkar. Hvernig strúktúr kirkjunnar lítur út, hvernig samspil leikra og lærðra er í söfnuðunum, hvernig helgihaldið er iðkað, hvað kirkjan hefur að segja, allt ber það mynd okkar sem innan hennar finnum okkur. Ef kirkjan virkar fjarlæg og ópersónuleg, þá er það vegna þess að við í söfnuðunum höfum gert okkur fjarlæg og ópersónuleg. Ef kirkjan virkar nálæg og innileg, þá er það vegna þess að við í söfnuðunum höfum stigið innar og gert okkur gildandi í húsi Guðs. Kirkjan er það sem við gerum hana að. Hún er samsafn fólks sem skiptir hvert annað máli. Kirkjan hlýtur því á öllum tímum að vera skapandi samfélag fólks sem er ekki sama. Fjölskylda sem á hverjum degi fær að vera þátttakandi í einhverju alveg nýju.

***

Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi. Þannig varð eitthvað alveg nýtt til í lífi Maríu og Jóseps. Litli drengurinn þeirra var tekinn inn í samfélag trúaðra, færður inn í sína aðra fjölskyldu hvar hann átti sannarlega eftir að láta til sín taka með reisn, í kærleika og af djúpri virðingu við Guð og aðra menn. Hann var óhræddur að taka ný skref, ögra ríkjandi hefðum og skapa eftir því sem hjarta hans bauð. Með honum kom eitthvað alveg nýtt.

Árið 2012 verður viðburðaríkt ár í kirkjunni okkar. Við stöndum frammi fyrir tveimur biskupskosningum og óhætt að segja að nú þegar megi skynja spennu og eftirvæntingu í hópi leikra sem lærðra. Hvernig biskupa viljum við? Hvað þurfa biskupskandídatar að hafa til að bera? Hvers þarfnast Þjóðkirkja Íslands árið 2012?

Kannski verður ekki hlaupið að því að svara þessum spurningum, hugsi hver fyrir sig í þeim efnum. En eitt myndi ég óska mér umfram allt annað, að sú/sá sem finnur sig knúna/knúinn til embættis biskups megi vera hugrökk manneskja sem vílar ekki fyrir sér að taka U-beygjur fyrir kirkjuna sína, ef hjarta hennar býður svo. Hún þarf að kannast við sig í leiðtogahlutverki innan fjölskyldu sem því miður hefur verið slöpp og hálflasleg undanfarna áratugi. Veikindin eru ekkert felumál, þau einkennast af trúarlegri spéhræðslu sem dregur úr reisn hins trúaða manns, skorti á samhyggð sem dregur úr verkgleði hins kærleiksríka manns og eigingirni eða hroka sem dregur úr djúpri virðingu við aðra menn, náttúruna og Guð. Þessi fjölskylda okkar sem við köllum kirkjuna, hefur í alltof langan tíma verið lituð af fólki sem er upptekið af því að ætla að fá eitthvað út úr kirkjunni. Þegar þannig einstaklingur gengur úr kirkjunni vegna þess að hann finnur sig ekki græða neitt á því að vera í henni er eins og þegar manneskja sem aldrei leggur neitt til í fjölskyldu sinni, gengur einn daginn út með þeim orðum að það sé alveg eins gott að yfirgefa fjölskylduna, maður græði hvort sem er ekkert af henni.

Biskupinn þarf að finna leiðtogahlutverki sínu farveg á meðal jafningja. Fjölskylda trúaðra hlýtur alltaf að vera söfnuður manna á jöfnum grunni. Þar hefur hver sitt hlutverk. Leiðtoginn þarf þess vegna að vera hvetjandi og hafa hugsjónir í áttina að þeirri þátttökukirkju sem við viljum vera. Þátttökukirkja sem ber einkenni fjölskyldu hlýtur því að vera félagsskapur fólks sem ber fjölmargar skyldur hvert gagnvart öðru. Enginn vöxtur felst í því að sitja stöðugt í sæti þess sem þiggur.

En það er ekki nóg að leiðtoginn finni sig í því hlutverki að draga vagninn, virkja fólkið sitt og vera fyrirmynd hins hrausta fjölskyldumeðlims. Biskupinn þarf líka að vera nærandi og uppbyggjandi í anda. Sú manneskja sem stígur inn í hlutverk biskups þarf að vera hugrökk og búa yfir visku sem horfir aftur fyrir stofnanavæðingu kristninnar. Hún þarf að hafa löngun og kjark sem þarf til að leiða þessa fjölskyldu aftur á slóðir hinna fyrstu kristnu.

Íslenska þjóðin hefur mátt horfa upp á misnotkun valds á flestum ef ekki öllum vígstöðum samfélags okkar. Hvarvetna mátti finna fólk í hæstu tignum sem féllu í þá gryfju að ota sínum tota. Íslenskt samfélag hefur ekki þol gagnvart því lengur. Ég spái því að kirkjan okkar og hinn óendanlega fallegi kristni boðskapur muni ná áður óþekktum hæðum á okkar tímum ef sú manneskja sem brátt vígist til biskups sýnir þá áræðni sem þarf til að fara til baka, einfalda, valddreifa og faðma hið fegursta í íslenskri kristni, heimilisguðræknina.

Hinir fyrstu kristnu áttu þennan sama arf og við íslendingar eigum, samfélagið um Guðs orð heima á baðstofulofti. Í nútíma samfélagi hefur þessi fallega heimilisguðrækni færst yfir á rúmstokkinn hjá börnum okkar. Tæplega 100% barna sem fermast kunna Faðir vor og fleiri bænir þegar þau hefja nám í kirkju sinni fyrir fermingu. Kannski er það bara sjálfsakt, ég skal ekki segja. En þegar við skoðum hversu mörg þeirra hafa vanið komur sínar í kirkjuna, lítur prósentan allt öðru vísi út. Lausleg könnun þeirrar sem hér stendur bendir til þess að innan við 20% þeirra hafi stundað það að koma til kirkju sem lítil börn og innan við 10% þeirra hafi sótt kirkju fram að fermingarfræðslu. Þetta eru merkileg hlutföll sem gefa til kynna að íslendingar séu mun trúræknari en kirkjusókn gefi til kynna. Sú manneskja sem velst til biskups þarf að hafa næmi gagnvart eðli hinnar trúarlegu fjölskyldu. Hún er lífræn afurð þeirra sem unnast. Hún hefur fundið sér farveg hér á Íslandi, farveg sem e.t.v. er ólíkur þeim sem aðrar Evrópuþjóðir hafa kosið sér, en ekki svo ólíkur þeim farvegi sem hinir fyrstu kristnu kusu sér.

Sá leiðtogi sem velst til biskups þarf að vera ríkur af þjónustulund gagnvart kirkju sem einkennist af heimilisguðrækni. Þar er akurinn sannarlega óplægður og vex í raun og veru án þess að kirkjan sem stofnun komi þar mikið nærri. Hinn þjónandi leiðtogi þarf að viðurkenna þann raunveruleika sem kirkja grasrótarinnar býr við og leggja sig fram um rækt við kristna uppalendur. Íslensk kristni eins og við þekkjum hana, stendur og fellur með heimilisguðrækninni.

Með því að leggja rækt við þetta fallega einkenni Þjóðkirkjunnar, mun hin þjónandi forysta finna sig standa á fallegu purpuralitu biskupsklæðunum og horfa með aðdáun á litlu söfnuðina sem bera mynd foreldra sinna frá dögum hinna fyrstu kristnu og undrast yfir afrekum sínum. Þvílíka hamingju mun hún ekki áður hafa þekkt. Eitthvað alveg nýtt verður nú til í lífi hennar en um leið kunnuglegt því þá mun sagan endurtaka sig á undurfallegan hátt með afturhvarfi til upphafsins.

Guð blessi fjölskyldu okkar hér í Grafarvogi, þennan stóra en hálfmynduga söfnuð! Guð blessi íslenska kristni og styrki foreldra í trúarlegu uppeldi sínu og bænamáli við rúmstokk lítilla barna.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3236.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar