Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Óskar Ingi Ingason

Frelsarinn er fæddur

24. desember 2011

24. desember 2011.  Hjarðarholtskirkja.

Aðfangadagur jóla.

Lúkasarguðspjall 2:1-14.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Fagnaðarríka fæðingarhátíð!  Gleðileg jól! Nú er stundin komin.  Frelsarinn er fæddur.  Öll eftirvæntingin og allt stressið tilheyrir því liðna, áhyggjurnar einnig.  Nú er hátíð.  Hvernig sem undirbúningurinn gekk og hvernig sem okkur miðaði að þá er stundin komin og er alltaf sú sama.  Okkur er frelsari fæddur.

Konungur konunganna.  Það er nú heldur betur nauðsynlegt að hafa allt fínt og fallegt.  Nóg af ljósum og skrauti.  Ekkert er of fínt fyrir hann og jólin.  Það er því í mikið lagt og jólin glæsileg.  Hvert hús er sem höll, hæft konungum.  Gjafirnar eru það einnig.  Já, ríkidæmi okkar er mikið.  Þrátt fyrir allt.

Nú erum við komin til kirkju.  Við fögnum upphafi jólahátíðarinnar í kirkju.  Í samfélagi trúaðra, í kirkju hans sem lagður var í jötu.  En hann var ekki aðeins lagður í jötu, heldur varð hann fullorðinn.  Hann boðaði að Guðs ríki væri nærri.  Að Guðs ríki væri í okkur og hann boðaði nýtt hugarfar, nýtt hjarta.  Líf í kærleika og ljósi.  Það ljós var mörgum óþægilegt og lýsti upp ýmis skúmaskot sem ekki allir vildu að væru sýnileg.  Svo fór að lokum að Jesú var hafnað og hann líflátinn sem glæpamaður.  Það var þó ekki nóg til að sigra hann og Guðs ríki.  Hann reis upp frá dauðum og hér erum við í kirkju hins upprisna frelsara sem kom í heiminn sem ósjálfbjarga ungbarn og var þá algerlega háð okkur.

Já, ljósið kom í heiminn og heimurinn hafnaði því.  Enn eru ýmis skúmaskot sem heimurinn vill ekki að séu lýst upp.  Enn eru ýmis skúmaskot sem við viljum ekki að séu lýst upp hjá okkur.  Kirkjan er oft gagnrýnd fyrir það.  Hvað er hún að tala um synd og dauða.  Hvað er hún að tala um ófullkomleika og erfiðleika, sérstaklega á jólum?  Nei, hún á að benda á ljósið og hið fallega, ekki tönglast á dómi og því sem erfitt er og tilheyrir myrkrinu.  Víst er það að heimurinn er duglegur að sýna eigin ófullkomleika og skort, og það ætti að duga okkur, en við erum að verða blind fyrir þeirri fátækt heimsins og heimurinn duglegri að fela skort sinn með mýrarljósum og fjársjóðum nútímans.

En við löðumst að helgimyndinni af fæðingu frelsarans í gripahúsi í Betlehem.  Jafnvel heimurinn hefur umvafið þá mynd og gert að sinni.  Engin hátíð er meiri en jólin og jafnvel haldinn meðal ýmsra þjóða sem ekki eru kristnar.  En málið er að helgimyndin af jólunum er goðsögn, goðsögn sem skilst ekki nema í myrkri.  Myrkri sem síðan er upplýst af kærleika Jesú.

Hvað er fallegt við það að fjölskylda þarf að ferðast um langan veg þegar verðandi móðirin var svona á sig komin?  Hvað er fallegt við það að fá hvergi pláss, nema í gripahúsi?  Hvað er fallegt við að leggja nýfætt barn í jötu?  Alla vega kjósum við að gera betur við okkar börn, mæður og fjölskyldur.  Ef þetta sem þá gerðist kæmi fyrir í dag að þá væru netheimar, dagblöð og aðrir miðlar fullir af hneykslun og reiði.

Nei, myrkrið var mikið á hinni fyrstu jólanótt og það er stór hluti og lykill að skilningi goðsögunnar.  Það var í myrkrið sem ljósið kom.  Það kom ekki í uppljómaða og fagurskreytta höll eða til engla.  Það kom ekki í gleðina, heldur í myrkrið.  Það kom í heiminn, í myrkrið þar.  Það kom í myrkur okkar.  Að afneita myrkur heimsins er að gera sig blindan fyrir ljósinu.  Það er að fylla líf sitt svo skrauti og gerviljósum að hið sanna ljós sést ekki.

Rétt eins og kertin hér og ljós þeirra.  Við tökum ekki eftir þeim.  En ef við slökkvum rafmagnsljósin þá sjást þau.  Hvað getum við gert við svo fallegt ljós, en lítið?

Jesú kom í heiminn sem lítið barn.  Lítið ungbarn sem var algerlega háð okkur, rétt eins og þetta ljós.  Það þarf ekkert til að það slokkni.  Smá blástur og það er slokknað.  Kannski er það stór þáttur í vinsældum þessarar hátíðar að Sonur Guðs kemur til okkar og er háður okkur.  Algerlega.  Við tökum hann að okkur og sinnum, hjálpum honum að þroskast og dafna.

Þannig er eins með trúna og vonina.  Þannig er með kærleikann.  Nokkuð sem við tökum á móti sem agnir sem eru algerlega háðar velvildar okkar og umhyggju.  Án þeirra deyr trúin, vonin og kærleikur, rétt eins og litla barnið.

Okkar er að taka á móti barninu og sinna því andlega, líkamlega og sálarlega, svo það þroskist og dafni og verði að upprisnum frelsara okkar.  Á sama hátt ber okkur að taka á móti trú, von og kærleika, með velvild og umhyggju, svo að hvert um sig þroskist og dafni og verði að trú til að deyja fyrir, bjargfastri von og kærleika sem veitir líf.

Um þetta er ljósið tákn.  Við skulum dreifa því og sjá hvað gerist.  Þá er ljósið annað og meira.  Enn getur það vaxið og uppfyllt allan heiminn ef við höldum áfram að dreifa ljósinu, trúnni, voninni og kærleikanum.

En það er svo merkilegt að eins og ljósið á kertinu er háð okkur, sem og ungbarnið í jötunni eða á örmum okkar er algjörlega háð okkur, að þá komumst við að því að það er í raun öfugt.  Við erum háð ljósinu.  Við erum háð börnunum okkar, við erum háð hinum upprisna frelsara sem eitt sinn var ungbarn lagt í jötu.  Því með ljósi, trú, von og kærleika hans fær líf okkar tilgang og kraft.  Með því fær þroskumst við og döfnum.  Verðum að þeim einstaklingi, þeirri fjölskyldu, því samfélagi sem við getum orðið.  Þar bíður okkar fullkominn fögnuður, sem „eftirvæntingu okkar sælu vonar“ sem birtist í helgimyndinni á fyrstu jólum, uppfyllist á svo margfaldan og betri hátt en við getum ímyndað okkur.

Guð elskar okkur, líka í myrkrinu, líka í einmannaleikanum, líka í fátæktinni.  Hann kemur til okkar, ekki vegna þess að við búum í höll eða að hún sé uppljómuð, þrifin og skreytt.  Ekki vegna pakkana eða verðmæti þeirra.  Hann er sá sem gefur okkur um jólin svo að allir pakkar heimsins eru fátæklegir í samanburð við gjöf hans til þín og mín.  Hann kemur til okkar því við þörfnumst hans.  Hann gefur okkur nýtt hjarta, hjarta kærleikans og gleðinnar.  Það er það nýja líf sem barnið í jötunni birtir okkur og við löðumst að.  Við skulum taka á móti því og annast um það svo það vaxi og dafni.  Sama skulum við gera við trúna, vonina og kærleikann.  Svo að þau einnig vaxi og dafni svo að við getum þroskast og dafnað.  Við skulum vera hluti af því ljósi sem kom í heiminn og dreifa því og vera öðrum ljós kærleikans.  Þá eru ekki aðeins andi jólanna þessa þrettán daga jóla, heldur alla daga ársins.

Guð gefi þér og okkur öllum þá náð að taka á móti jólabarninu og veita þannig gleði jólanna viðtöku.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda.  Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.  Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2569.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar