Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Fjölskylduboðin

25. desember 2011

Vitringarnir þrír

Er eitthvað sérstakt við annan dag jóla, spyrja Baggalútarnir, í einu af lögunum sínum sem eru fyrir löngu orðin að föstum lið í jólalagasyrpunni sem við hlustum á í aðdraganda jólanna. Er einhver sem fæddist þann dag? Á dagurinn sér sögu? Á hann sér tilgang? Á hann einkennislag?

Aftur að Baggalútslaginu. Þeir syngja:

Ja, eitt er það reyndar sem rétt er að nefna
og ráðlegt að staldra aðeins við;
fjölskylduboðið, annan í jólum.
Þann fallega íslenska sið.

Og svo fylgir lýsing á seríu-ljóma-boði sem er gamansöm þótt undir búi einlægur tónn:

Útkeyrðar mæður á meltunni liggja
í munnvinum rís al’amand.
Úti á svölum er amma að reykja
alsæl með kaffi og grand.
Tengdó er komin á trúnó með afa.
Tertan er farin í spað.

Svarið sem Baggalútarnir gefa á ekki aðeins við annan jóladag heldur jólin öll: Fjölskylduboðið er það sem einkennir þennan dag og jólin.

Jólin eru tími fjölskyldunnar.
Það sjáum við allt frá upphafi.

Fyrstu jólin, í Betlehem, þar sem litla fjölskyldan kom saman. Barnið nýfætt og lagt í jötu. Móðirinn þreytt eftir fæðinguna, faðirinn stoltur. Góðir gestir sem mættu - flestir óboðnir.

Jólin eru tími stórfjölskyldunnar.

Sú sýn er ekki bundin við Baggalútana þótt þeir orði hana ágætlega í mörgum lögum sínum. Við sjáum merki um þetta víðsvegar í menningunni. Í kvikmyndum, tónlist, bókmenntum. Í auglýsingum. Í jólahefðum.

• • •

En hvað segja jólin okkur um fjölskylduna?

Strax á hinum fyrstu jólum er fjölskyldan skilgreind:

Í jötunni er Jesúbarnið.
Við hlið jötunnar eru María, sem ól barnið, og Jósef, heitmaður hennar, fósturfaðir Jesú.

Þetta er samsett fjölskylda eins og það er kallað. Þetta er fjölskylda sem býr við erfiðar aðstæður. Eins og margar fjölskyldur þá og nú. Þau eru ein, án stuðnings, varla með húsaskjól.

Þessa nótt voru þau fjarri heimahögum sínum, en samt varð nú til fjölskylduboð.

Hverjum var boðið þangað? Eða hverjir buðu sér þangað?

Hirðarnir.
Vitringarnir.
Englarnir.

Og allir komu með eitthvað í boðið: Undrun og aðdáun, gjafir, söng.

Þess er reyndar ekki getið að nokkur hafi komið með mat. Kannski var það svo sjálfsagt að ekki tók því að nefna það.

Þetta voru fulltrúar ólíkra hópa. Hirðarnir eru fulltrúar hinna lægst settu, vitringarnir eru fulltrúa hástéttar. Og við sjáum mynd af heildinni. Í jólaboðinu á jólanótt var ólíkt fólk. Sem myndaði saman eins konar fjölskyldu þessa nótt og kannski upp frá því.

Alveg eins og við sem hér komum saman í Víðistaðakirkju erum líka fjölskylda og erum hér í okkar fjölskylduboði. Búin að klæða okkur í fínasta púss og komin saman til að eiga góða stund og þiggja næringu til daglegs lífs og til hátíðarbrigða.

Það er reyndar talað um slíka fjölskyldumyndun í guðspjalli jóladags:

En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd.

Þetta er lýsingin á því hvernig fjölskylda Guðs verður til.

Það er kirkjan.

Því kirkjan er fjölskylda.

Og út á þetta ganga jólin: Að draga fram og leiða í ljós þennan skyldleika og minna okkur á út á hvað þetta gengur allt.

Að minna okkur á að við erum eitt.
Ein fjölskylda.
Þótt við séum ólík.
Og að það er gott.

Jóladagsmessan okkar, hér í Víðistaðakirkju, er þannig eitt af fjölskylduboðið sem við getum sótt í ár. Boð þar sem við getum legið á meltunni, hvort sem við erum útkeyrð eða ekki, boð þar sem við getum verið alsæl, boð þar sem við hittum þau sem skipta okkur máli, boð þar sem við getum lagt eitthvað með okkur og þegið eitthvað í staðinn.

Því þannig eru jólin.

Þau eru tími fjölskyldu og samveru og samfélags. Þau eru tíminn þegar við sjáum skyldleikann við aðra í nýju ljósi. Tíminn þegar við finnum að við erum hluti af stærri heild.

Tíminn þegar við erum öll velkomin
í fjölskylduboð Guðs.

Guð gefi þér gleðileg jól.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2231.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar