Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Aftansöngur jóla í Sjónvarpinu 2011

24. desember 2011

Guð gefi þér og þínum gleðileg jól.

Jólamessa sjónvarpsins er tekin upp í Dómkirkjunni, eins og svo oft áður. Dómkórinn syngur, en hann hefur í áranna rás sungið jólin inn í hjörtu landsmanna. Skólakór Kársness leggur líka sitt að mörkum til þessarar stundar, raddir hinna ungu sem njóta ómetanlegs uppeldisstarfs kennara síns, Þórunnar Björnsdóttur. Ég þakka það heilshugar og bið Guð að blessa þetta góða fólk og allt sem því er hjartfólgið, og blessa þau öll sem leggja góða krafta að því að færa okkur jólafögnuð og jólafrið.

Dómkirkjan í Reykjavík er með elstu helgidómum landsins, reist fyrir 225 árum. Hér hefur kynslóð eftir kynslóð heyrt fagnaðarerindið og tekið undir söng englanna. Hér hefur Drottinn talað til lýðs síns, hrifið hjörtu einstaklinganna, snortið sál samfélagsins, sett fyrir sjónir sýn til þess fagra og bjarta, eilífa og sanna. Aldrei eins og einmitt um jól, - nema þá það sé við skírn, þegar barn er borið að faðmi frelsarans.
Í báðum tilvikum er barn í brennidepli.

Lítið barn er einstakt kraftaverk, sem er svo algengt að við tökum því næstum sem sjálfsögðum hlut. Ný persóna er kominn inn í litla heiminn fjölskyldunnar. Við dáumst að þessu litla lífi, hrífumst af því, „nei, sko, sjáðu, hún er bara alveg eins og mamma sín!“ „Hvaða vitleysa! hún er alveg eins og pabbi hennar var.“ Og að hugsa sér, svo tekur við heil ævi þar sem við fáum að kynnast þessum einstaklingi, og það er alltaf ný reynsla. Við skírnina er þessu nýfædda, varnalausu lífi lyft fram, hvers vegna? Vegna þess sem við minnumst á jólum, að Guð son fæddist sem barn í Betlehem, frelsari heimsins og allra jarðarbarna, Kristur Drottinn. Í hverju barni sjáum við hans mynd.

Er ekki merkilegt að Guð skyldi velja að nálgast okkur eins og barn? Þannig vill hann birtast heiminum, þannig vill hann að við lærum að þekkja hann, og þekkja okkur sjálf.
Og það er lærdómsferli. Trúin er lærdómsferli, æviverkefni, og við verðum aldrei fullnuma, fyrr en í eilífðinni.

Hér yfir kór Dómkirkjunnar, eins og í fjölmörgum gömlum kirkjum um landið allt, er loftið skreytt stjörnum til að minna á stjörnubjartan himininn yfir Betlehem nóttina helgu þegar englarnir sungu. Við sjáum ekki englana, né heldur heyrum við vængjasláttinn og himneska hljóminn, en við skynjum fegurðina sem er öllu æðri. Lífið rúmar svo miklu meir en okkur grunar, víddir þess, dýpt og tign er meiri en nokkur orð fá lýst.
Ef það er eitthvað sem tengir saman kynslóðirnar í þessu landi - annað en landið okkar, stórbrotin náttúra, mild og hörð í senn, og tungan, íslensk tunga - , þá er það trúin! Iðkun trúarinnar tengir kynslóðir þessa lands í þúsund ár, kynslóð eftir kynslóð: skírnin, signingin, Faðir vor. Allt hefur breyst, meir og minna allt, en ekki þetta. Hugleiddu það, íslenska þjóð, í umbrotum og uppgjöri sem ekki sér fyrir endann á. Þarna er traustur, sterkur þráður sem tengir okkur við fyrri tíðar kynslóðir, sem glímdu við þetta land og öguðu hugsun sína við íslenska tungu, sögur og ljóð, og signdu börnin, báru þau til skírnar og lögðu þeim Faðir vor á varir. Gætum þess að sá trausti, helgi þráður slitni ekki!

„Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs. Hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.“
„Í jötu,“ já, það þekktu hirðarnir, iðulega leiddu þeir sauði sína að jötunni, aldrei höfðu þeir séð þar ungbarn,  hvað þá frelsara, aldrei hefði þeim til hugar komið að himneskir herskarar gætu ímyndað sér svo hversdagslegt fyrirbæri hvað þá að að  englar gætu nefnt jötu á nafn,! Er þetta ekki undursamlegt! Og hvað segir þetta þér um trúna?
Guðspjallið segir annars ekkert um trú hirðanna. Guðspjöllin segja ekki heldur neitt um trú vitringanna. Það kemur eitt og annað fram um trú þeirra Maríu og Jósefs, trú, trúrækni, tryggð, umhyggju og kærleika. Samtímaheimildir í landinu helga lýsa fjárhirðum sem óáreiðanlegum og utangarðs í trúarsamfélaginu, starf þeirra var með þeim hætti að þeir gátu vart sinnt trúrækniskyldum lögmálsins. Um vitringana má ætla að þeir hafi verið raunvísindamenn síns tíma, alla vega af framandi trúar og menningarheimum, menntunar- og þjóðfélagsstigum. En hirðarnir og vitringarnir eiga það sameiginlegt að þeir kunnu að hrífast og undrast, og veita virðingu og lotning því sem æðra er mannlegum skilningi og rökum. Hugleiddu það, ef til vill er það einmitt slík virðing og lotning og undrun sem Guð er ekki síst að leita að.

Trúin, kristin trú, er ekki einvörðungu huglæg. Ég nefndi skírnina, signinguna, og svo er það kærleiksboðið, gullna reglan, hið trúarlega er ekki aðeins á sviði sálar og anda, hugsunar og hughrifa, heldur varðar líkama manns og hold og grundvallar lífsskilyrði. Guð varð maður, orðið varð hold, það segja jólin og þetta er kjarni okkar kristnu trúar. Efnið skiptir máli, líkaminn skiptir máli, jörðin, landið skiptir máli, þess vegna varð Guð maður, mannsbarn hér á jörð, í litlu landi, fæddur í Betlehem í Júdeu og lagður í jötu, alinn upp í Nasaret, líflátinn í Jerúsalem og lagður þar í gröf, allt eru þetta áþreifanlegir staðir á landakortinu. Og þegar hann var upprisinn mælti hann sér móts við vini sína í Galíleu, á þeirra heimaslóðum. Guð mætir þér hér og nú, þar sem þú ert, í raunheimi þínum, í hversdagsheiminum þínum.

Kristin trú er hversdagstrú, áþreifanleg og efnisleg. Á það minna jólin. Jólagjafirnar eru áþreifanlegar, umhyggjan og náungakærleikurinn sem jólin leysa úr læðingi, þetta er áþreifanlegt. Jólin eru tími hinnar mannlegu snertingar umhyggju og kærleika.

Ég hugsa til fólksins á sjúkrahúsunum og dvalarheimilunum, fangelsunum. Ég hugsa til björgunarsveitamanna og löggæslumanna, lækna og hjúkrunarfólks og allra þeirra fjölmörgu sem eru við störf eða á vakt á helgri jólanótt til að við hin getum notið helgi og friðar. Ég hugsa til þeirra sem á þessari stundu eru hér úti á Hjálpræðishernum, heimilislaus og einmana, en sem gott fólk gefur að njóta heimilishlýju og jólagleði á þessu helga kvöldi. Guð blessi það fólk og þau öll sem auðsýna örlæti, gestrisni og fórnarlund. Jólin virkja það með sérstökum hætti, þó ekki sé nema skamma hríð, jólin vekja hugi og hjörtu til áþreifanlegra kærleiksverka og þá lýkst upp mynd af því hvað gott líf og gott samfélag er og á að vera – líf og samfélag sem er borið uppi af góðvild og örlæti.

„Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.“ – sagði engillinn.
Hvað merkir það?

„Nýfætt barn er ótvíræðasta viljayfirlýsing almættisins um að heimurinn skuli halda áfram að vera til,“ sagði bandarískur rithöfundur. Annar spekingur, Indverjinn Tagore sagði: „Sérhvert barn kemur í heiminn með þann boðskap frá Guði, að hann hafi ekki enn misst trúna á manninn.“
Guð kemur inn í heiminn okkar sem barn. Og eins  og öll ungbörn ævinlega er hann algjörlega háður því fólki sem umhverfis hann er. Svona bjargarlaus vorum við á ævimorgni, líka þau sem hæst hreykja sér á hátindi valda og frægðar, já, og eins ógæfumanneskjan og sakamaðurinn, eitt sinn voru þau varnalaus, ambrandi ungbörn, háð umhyggju og kærleika annarra. Og þannig verða þau og við væntanlega við ævilok. Svona er lífið. Við gleymum því bara allt of oft.
Hann var vafinn reifum mannlegrar þjáningar, forgengileika og dauða, hann var í jötu lagður lágt, heimilislaust barn svo við gætum séð og fundið markmið og forgangsröðun Guðs. Það er sem Guð sé að endurskilgreina hvað það er að vera maður og í hverju framtíðarvon heimsins er fólgin. Það er ekki ný skilgreining, vegna þess að við þekkjum okkur aftur í því sem hann setur fram.

Dýpst í sálarinnum teljum við okkur vita að það sem skilgreinir manneskju er ekki það sem hún á eða gerir. Við erum öll sköpuð í Guðs mynd segir Biblían. Jesús kom til að minna okkur á það. Við erum í mynd Guðs af því að við erum fær um að elska og líkna og fyrirgefa. Eigind alheimsins og hina sönnu mennsku er að líta í andliti ungbarns í jötu. Hinn sanni maður er ekki afreksmanneskjan eða ofurhetjan, heldur barn. Varnalaust barn í örmum náðar Guðs og elsku manna. Ósjálfbjarga erum við öll í lífi og dauða nema hann haldi okkur í örmum sínum. Og sönn mennska, heilt og gott mannlegt samfélag er það sem gerir allt sem í þess valdi stendur til að vernda hið varnalausa barn  eins og þau María og Jósef auðsýndu Jesúbarninu.

„Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.“
Jólin grípa til strengjanna sem innst og dýpst liggja. Þau segja sögu sem öðrum þræði er sagan um þig og það sem mestu varðar, Guð, áhrif hans, vald og mátt í varnaleysi trúar, vonar og kærleika. Þetta gefa jólin og bera fram með sögunni helgu og söngnum, list og ljóði, hefðum og venjum sem beina sjónum okkar til birtu, gleði, vonar og friðar Guðs, hans sem var í jötu lagður lágt og er frelsarinn, Kristur Drottinn.
Ómetanleg gjöf, ljósgjöf og lífgjöf, vonargjöf. Þiggjum þá gjöf og gefum áfram gleðileg jól!

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1910.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar