Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Yfirskrift aðventunnar er von

27. nóvember 2011

Bústaðakirkja fjörutíu ára.

Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinn
þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.“
Þetta varð svo að rættist það sem spámaðurinn sagði fyrir um:
Segið dótturinni Síon:
Konungur þinn kemur til þín,
hógvær er hann og ríður asna,
fola undan áburðargrip.
Lærisveinarnir fóru og gerðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín en Jesús steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn. Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“Matt, 21, 1-9

Bænin.
Undursamlegi Guð. Þú sem þú kemur til okkar í syni þínum Jesú Kristi, ekki í valdi og krafti, heldur auðmjúkur og allslaus, og ert þó sterkari en allt vald á jörðu. Gef öllum mönnum og þjóðum náð til að þekkja þig og að taka eftir syni þínum þegar hann kemur, svo að nóttin okkar verði björt eins og dagur í ljósi hans. Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen

Kristján Valur IngólfssonKæri Bústaðasöfnuður.

Aðventan er gengin í garð. Guð blessi hana í lífi okkar allra að hún megi vera það sem hún er, vitjunartími og náðartími, en ekki eitthvað allt annað sem hún er stundum neydd til að vera.

Hjartanlegar hamingjuóskir með 40 ára afmæli Bústaðakirkju. Megi Guð gefa ríkulegan ávöxt alls hins góða starfs sem hér hefur verið unnið í þessum helgidómi í fjörutíu ár.

Þetta Guðs hús er byggt af miklum stórhug hins vonglaða unga safnaðar, og stór er sá skari trúfastra játenda Jesú Krists sem lagði af stað í þá löngu vegferð sem við í dag njótum ávaxtanna af. Mörg þeirra eru fyrir löngu horfin til æðri heima. Blessuð sé minning þeirra allra. En aðrir hafa bæst í hópinn á leiðinni og með þeim er gott að horfa fram til nýrra tíma og nýrrar uppskeru þess sem til er sáð. 
40 er merkileg tala og 40 ár merkilegur áfangi í lífi einstaklinga og safnaðar. Talan 40 er helgidómur í sjálfu sér í biblíulegum skilningi. Það er áningarstaður eins og sá sem Biblían segir frá og heitir Elím. Þess vegna er svo mikils vert að gera eins og hér er gert í dag. Numið staðar, horft til baka en þó fyrst og fremst fram, til hins komandi, til þess sem verða mun.

Þegar Ísrael hélt frá Egyptalandi inn til sinnar löngu eyðimerkurgöngu sem stóð í 40 ár var fyrsti stóri áningarstaðurin Elím, að liðnum 40 dögum eða sex vikum. Þar voru miklar vatnslindir og skuggsæl pálmatré. Og barnanna vegna er rétt að nefna að það var ekki séra Pálmi sem átti þau tré.

Í dag, á fyrsta sunnudegi í aðventu, eru það ekki bara réttlæti og friður sem fallast í faðma, heldur allt þetta: 40 ára afmæli Bústaðakirkju, upphaf aðventu með innreið Jesú til safnaðarins, og jólasöfnun Hjálparstarfsins til að færa þyrstum vatn og opna nýja brunna.

Og yfir þessu öllu má skrifa eitt orð með stórum stöfum. Það er orðið VON.

Börnin hafa tendrað ljós á altarinu og á fyrsta aðventukertinu. Það er til lítið ævintýr fyrir bæði stór og lítil börn, um aðventukransinn

Það er svona:

Á aðventukransinum loguðu öll kertin fjögur. Það var kyrrt í húsinu, svo kyrrt að það heyrðist að kertin fóru að tala saman. Fyrsta kertið andvarpaði og sagði: Ég heiti friður. Ljósið mitt logar, en það er enginn friður með mönnunum. Og ljósið á kertinu varð minna og minna uns það slokknaði alveg. Loginn á öðru kertinu blakti, og kertið sagði: Ég heiti trú. En ég er alveg óþarft, því að mennirnir vilja ekkert af Guði vita. Og það kom vindgustur og slökkti á kertinu. Lágum sorgarrómi sagði þá þriðja kertið: Ég heiti kærleikur, en ég er búinn að missa allan mátt. Mennirnir hugsa bara um sig sjálfa og ekki um aðra sem þeir eiga að elska og annast um. Og loginn á kertinu glaðnaði eitt augnablik en slokknaði svo. Þá kom barn inn í herbergið, leit í kringum sig og sagði hálfgrátandi: Þið áttuð að loga, en ekki slokkna! Þá sagði fjórða kertið: Hafðu ekki áhyggjur, og óttastu ekki. Meðan ég loga getum við tendrað aftur logann á hinum kertunum. Ég heiti von! Þá tók barnið fjórða kertið og kveikti aftur á hinum þrem.

Kæri söfnuður, það býr mikil von í þessu vígða húsi, vegna þess að þetta er hús Guðs. Vonin gefur okkur kraft, vonleysið dregur úr okkur kraftinn.

Fermingarbörnin í landinu sem söfnuðu sjö milljónum fyrir hjálparstarfið til að gefa þyrstum vatn, senda með því von hinum vonlitlu, um líf og bjartari framtíð.

Hjálparstarf kirkjunnar gefur alltaf von, og glæðir von og okkar eigið framlag á þessari jólaföstu, smátt sem stórt er ný von.

Fólkið sem settist að í Elím forðum fékk nýja von við skuggsælar vatnslindir undir pálmatrjám. Elím er góður staður. Elím er sannkölluð vin. Með vatnslindir og pálmavið. Elím þýðir staður hvíldar og næringar.

Þar er endurnæring til lífs og sálar. Þar voru pálmatré. Pálmar eru heilög tré frá fornu fari. Pálmaviðurinn hefur mörg tákn sem orðið hafa til á löngum tíma. Eitt er tákn lífsins. Pálmagreinin er tákn um sigurinn yfir dauðanum. Þess vegna er það tákn einkum að finna á mörgum elstu legsteinum kristinnar. Pálmagrein er líka tákn friðar og blessunar í fjölskyldu og heimili.

Jesús Kristur er friðarhöfðingi. Sem tákn um það voru pálmaviðargreinar lagðar á veginn þar sem hann fór. Pálmagreinarnar eru tákn um blessun hans sem kemur í nafni Drottins.

• • •

Ef einhversstaðar er til afdráttarlaus yfirskrift aðventunnar þá eru það þessi orð úr Opinberunarbókinni: Sjá ég stend við dyrnar og kný á.

Hann er að koma. Hann er þegar kominn.

Enn má sjá á heimilum myndina af frelsaranum Jesú Kristi, þar sem hann stendur með ljósker í hendi úti fyrir dyrum á óþekktu húsi og býr sig til banka á dyrnar.

Á þessari mynd er það er ekki einstaklingurinn sem leitar til Jesú, eftir því fyrirheiti sem hann sjálfur gaf að hver sá finnur sem leitar og að fyrir þeim sem á knýr verður upp lokið, heldur er það Jesús sjálfur sem á knýr, og leitar inngöngu.

Mörgum þykir vænt um þessa mynd, bæði ungum og öldnum. Hún segir margt, og hún gefur tilefni til margskonar hugleiðinga.

Listamennirnir sem valið hafa þetta myndefni gera mynd sína venjulega mjög friðsæla, með blómum og allskyns jurtum og rólegri lýsingu. Jesús er líka greinilega ekkert að flýta sér, og maður hefur á tilfinningunni að hann muni ýta við hurðinni ef enginn kemur til dyra og gægjast inn og spyrja hvort nokkur sé heima, af því að stundum eiga íbúar í friðsælum húsum erfitt um gang.

En kannski er líka húsið læst og enginn heima, eða einhver heima sem óttast gesti. Kannski hefur voðaverk verið framið bak við læstar dyr, þó að myndin sé friðsæl. Og kannski eru líka þessar dyr alls ekki dæmigerðar fyrir dyr sem opnast þegar Jesús knýr á. Kannski eru þetta fangelsisdyr, kannski brotnar dyr ofbeldis, kannski engar dyr hinna heimilislausu?

Þessi mynd kallast á við myndina sem dregin er upp í guðspjallinu, þegar Jesús kemur til borgarinnar og múgurinn kemur á móti honum, eins og þjóðhöfðingi væri að koma í heimsókn. Það varð ókyrrð í borginni. Og menn spurðu hver annan: Hver er að koma? því að þeir vissu það ekki.

Annarsvegar er borgin í uppnámi, hins vegar er húsið í kyrrðinni.

Annarsvegar er ókyrrðin vegna þess sem kemur að utan, hinsvegar er kyrrðin vegna þess sem kemur að innan.

Kæri söfnuður.

Það er eiginlega bara þetta sem er hugleiðingarefni fyrsta sunnudags í aðventu og ekki síst á afmælisdegi þessa heimilis safnaðarins sem Bústaðakirkja er. Það er munurinn á því sem kemur að utan og því sem kemur að innan. En um leið viðbrögðin við komu Krists til kirkju sinnar í ljósi þess, og afleiðingin sem það hefur fyrir mótun aðventunnar sem stundum ræðst fyrst og fremst af þeim sem vita ekki hver að koma og hafa þessvegna háreisti og jafnvel skrípalæti.

Það er mikill munur á þessum tveim myndum, en þær eru ekki andstæður þótt þær séu ólíkar.

Við fögnum inngöngu Krists. Ekki bara vegna aðventunnar og kirkjunnar, heldur inngöngu hans til lands og þjóðar. Þannig var innreiðin til Jerúsalem. Eins og konungskoma. Þjóðin stígur fram og fagnar konungi sínum. Ekki hinum jarðneska, heldur himneska.

Gjörið beinar brautir Drottins, segir Jóhannes skírari. Drottinn kemur, og hann á að vaxa, en ég að minnka. Rými hans í lífi mínu á að vaxa, en sjálfhverfar hugsanir og langanir eiga að leggjast af.
Minnstu hinna þurfandi og hinna útskúfuðu.

Nú kemur heimsins hjálparráð.

Í dag hefst formlega söfnun Hjálparstarfs kirkjunnar á jólaföstu. Hjálparráð heimsins er Jesús Kristur. Þau sem þjóna honum vilja með honum finna hjálparráð. Yfirskrift söfnunarinnar í ár er Gefðu lífsvon – gefðu vatn. Vegna hungursneyðar einkum í Austur-Afríku deyr fólk úr hungri á hverjum degi. Þúsundir deyja. Börnin fyrst. Til þess að reyna að forða fleirum frá dauða vinnur Hjálparstarf kirkjunnar að því að tryggja fæðu og hreint vatn og þjóna lífinu og voninni.

Kirkjan, söfnuðurinn er líkami Krists á jörðu. Hendur þínar eru hendur hans þegar þú líknar þeim sem líknar eru þurfi, Orð kærleikans á tungu þinni þegar þú mætir þeim sem enginn elskar eru ekki bara orð hans, heldur er tunga þín hans. Lítil snerting þess sem aðrir óttast að snerta, er hans.

Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér.

Sjá, ég stend við dyrnar og kný á.

Í kyrrðinni er söngur, í óróleikanum aðeins hávaði. Við leitum hins besta og fegursta. Aðventa er undirbúningstími. Hann kemur, hann sem er þegar kominn. Leitum ekki langt yfir skammt.

Hið dýrmætasta er ekki hið ytra, heldur hið innra. Og það áttu nú þegar.

Það er hæfileikinn til að elska, og þar er Guð með þér, því þú hefur þegar lokið upp fyrir honum sem kemur og er þegar kominn, rétt eins og hér var lokið upp fyrir honum á vígsludegi þessa húss hans fyrir fjörutíu árum.

Kæri afmælissöfnuður.

Það rifjaðist upp nýlega söngur sem á íslensku er jafngamall þessari kirkju. Þar segir: 
Í fylgd með Kristi ég kýs að vera, 
hans kærleikshönd mun mig styrkan gera, 
eins þó að margt muni útaf bera. 
Sný aldrei við. 
Sný aldrei við.

Söngurinn sjálfur er miklu eldri og kemur frá Indlandi, frá kristniboðsstarfinu þar fyrir meira en öld síðan. Það eru margar sögur til um það hvernig hann varð til, en þær sögur skipta litlu. Það sem skiptir máli er þessi einarða yfirlýsing um að þegar maður hefur valið að fylgja

Jesú Kristi af fulli alvöru og einurð, þá verður ekki snúið við.

Hér er Guðs hús. Hér er hlið himinsins. Hér skal ekkert fara fram sem ekki hæfir í Guðs húsi, heldur má söfnuðurinn treysta því að hér sé Guði einum þjónað, í Jesú nafni, svo að söfnuðurinn eflist og uppbyggist.

Hér er Elím. Hér er góður áningarstaður til að hugleiða það sem var og það sem verður og gleðjast yfir samfylgdinni við Guð. Ekki bara í fjörutíu ár, heldur frá upphafi allrar sögu til endimarka hennar.

Guð blessi Bústaðakirkju, söfnuðinn, prestinn og starfsfólkið allt og hvert einasta andartak sem unnið er Guði til dýrðar og söfnuðinum blessunar, með hinum ungu sem hinum öldnu.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2045.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar