Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Kom þú, Drottinn Jesús

27. nóvember 2011

Amen. Kom þú, Drottinn Jesús. Náðin Drottins Jesú sé með öllum. Amen.

Með þessum niðurlagsorðum Opinberunarbókarinnar lýkur Biblíunni, sögunni sem hefst á sköpunarorðinu sem í upphafi rauf þögnina, myrkrið og tómið: „Verði ljós! Og það varð ljós.“ Hún endar á þessari bæn:„Kom þú, Drottinn Jesús.“ Sú bæn ómar innst í æðum allrar tilverunnar, bifast dýpst í barmi sérhverrar mannssálar. Því ekkert hjarta er til sem ekki á sér þessa djúpu þrá til Hans, sem frelsar, vegna þess, að Guð hefur skapað oss fyrir sig, og hjarta manns er órótt uns það hvílist í honum.

„Kom þú, Drottinn Jesús.“ Líf manns er jarðneskt skammdegi, húmar að hið hinsta kveld. Hvað bíður þín, barn, sem á morgni lífs skimar upp í ljósið og daginn? Hvað mun komandi dagur bera í skauti? Svarið dylst í sorta. Og þó. Hjarta manns nemur blik þess ljóss og óm þeirrar raddar sem segir: Lífið er aðventa, tilkoma. Birtan kemur á móti þér. Drottinn kemur, með ljós og frið, með líf og lækning. Opnaðu hjarta þitt og sál fyrir því ljósi. Kristur kom, það segja jólin og páskarnir, smælingi meðal smælingjanna, samferðarmaður í okkar heimi, kominn til að leita að hinu týnda og frelsa það, leita að hinu sjúka og lækna það. „Ég er ljós heimsins,“ sagði hann.„sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“ Heimurinn vildi hann feigan, vildi kæfa ljósið hans og deyða. „Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því,“ eins og segir í jólaguðspjallinu.

En ljósið hans lýsir þó enn. Það kemur til þjáðra í heimi hér með huggun, líkn og von. Það vitjar okkar í helgu orði og sakramentum. Ljós heimsins og lífsins vitjar okkar í þeim sem hann kallar sín minnstu systkin, þeim fjötruðu, sjúku, nauðstöddu. Allt sem þið gerið þeim gerið þið mér, segir hann. Þegar þú bregst þeim, þá bregstu mér. Og, segir aðventan og atferli trúarinnar allt: Hann kemur aftur, sýnilegur öllum mönnum, öllum heimi, og birtan hans ummyndar allt, læknar allt. Þetta vitnar sérhvert aðventuljós og er bæn til hans og blessunarorð til þeirra sem sjá og njóta: „Amen. Kom þú, Drottinn Jesús! Náðin Drottins Jesú sé með öllum!“

En þessa sögu verður að segja. Hún setur svip sinn á almanakið með rauðu dögunum sínum, hún markar lífsskeið manna með einum eða öðrum hætti, hún hefur sett óafmáanleg spor í menningu og sið vesturlanda, bókmenntir, listir og samfélög með svo margvíslegum hætti, en hana verður að segja með orðum og með söng! Af því að hún leggur menningu og samfélagi til viðmið og túlkunarmynstur þegar einstaklingur og samfélag takast á við það sem máli skiptir.
Guðspjall dagsins segir söguna af innreið Jesú í Jerúsalem. Sá atburður var tákn. Borgin með sína voldugu múra og turna er tákn þess sem reiðir sig á vald og auð og velsæld þessa heims. Innreið Jesú á asnanum er dómur yfir því, dómur yfir lífsmáta, þar sem umbúðirnar eru metnar umfram innihald, vilja Guðs er storkað. Og þennan dóm þurfum við að heyra og nema og taka til okkar, hvert og eitt okkar. Jesús kemur á asnanum smáa og smáða, konungurinn sem kemur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds, hann sýnir í hverju vonin er fólgin og framtíðin. Það er NÁÐIN.

„Amen. Kom þú, Drottinn Jesús! Náðin Drottins Jesú sé með öllum!“

Ég held það hafi verið hún Magnea, djákni í Hallgrímskirkju, sem sagði mér frá því að eitt sinn er hún heimsótti leikskólana fyrir jólin og ræddi við börnin um jólaboðskapinn – þetta var áður en Reykjavíkurborg brást við meintum háska trúaruppeldis og áhrifa á ómótuð skólabörn og bannaði heimsóknir kirkjunnar þjóna -. Magnea spurði börnin: „Hvar eru jólin?“ Lítil stúlka rétti upp hönd:„Í Smáralind!“ „Nei,“ sagði djákninn, „jólin eru í hjartanu á okkur.“ „Jaá,“ sagði þá sú litla, „þetta þarf ég að segja henni mömmu. Hún veit það ekki!“
Blessuð börnin.

Um þessar mundir er hávær krafan um að fjarlægja hið andlega, trúarlega úr samfélagi og menningu í nafni fjölmenningar og virðingar við önnur trúarbrögð og lífsskoðanir. Þá virðingu verðum við öll að hafa í heiðri. Þjóðkirkjan hefur leitast við að stuðla að umburðarlyndi gagnvart ólíkum lífsskoðunum og trú. Þess vegna ma. beitti þjóðkirkjan sér fyrir stofnun Samráðsvettvangs trúfélaga, sem fagnaði fimm ára afmæli nú í vikunni sem leið. Markmið vettvangsins er meðal annars að, eins og segir í stefnulýsingunni:
,,að stuðla að umburðarlyndi og virðingu milli fólks af ólíkum lífsviðhorfum, trúarhópum og trúarbrögðum og standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi.” Síðan segir: „Slíkt næst ekki með því að samsinna hverju sem er eða láta hvað sem er gagnrýnilaust heldur með því að vera reiðubúinn til að hlusta á sjónarmið annarra, setja sig í spor þeirra og virða sjálfsákvörðunarrétt sjálfráða einstaklinga og trúfélaga.“

Þetta er mikilvægt að hafa hugfast og vinna að af virðingu og heilindum. Með pólitískum aðgerðum í höfuðborginni er nú í nafni umburðarlyndis unnið ötullega að því að skera á trausta og þanþolna þræði sem myndað hafa uppistöðu samfélags og menningar. Nú má ekki nefna Jesú nafn í skólunum og ekki má fara með bæn í kirkjunni þegar skólabörn koma þar fyrir jólin. Borgarráð bannar það - það má góðfúslega syngja Heims um ból, það telst að mati borgaryfirvalda hluti af menningararfinum, en alls ekki fara með Faðir vor – sem nánast hvert einasta mannsbarn á Íslandi hefur lært og beðið í þúsund ár! Nei, það þykir stórháskalegt. Hvurslags ofstæki er þetta annars!! Hið pólitíska vald í Reykjavík seilist býsna langt í forræðishyggju,, allt inn í helgidóminn. Alls ekki má benda börnunum á að „Þessa hátíð gefur okkur Guð. Guð hann skapar allan lífsfögnuð…“ eins og mamma þjóðskáldsins, Matthíasar Jochumsonar, kenndi drengjunum sínum og hann fékk aldrei fullnóg þakkað þá gæfu. Ekkert mannréttindaráð var til að slá á munninn á henni er hún kenndi þeim hið „eilífa´og stóra, kraft og trú..“ Hún vissi, eins og mömmurnar í þessu landi hafa einatt vitað, hvað varðar mestu, Guð, og trúin, vonin og kærleikurinn og gleðin sem hann gefur.

Tilburðir yfirvalda í Reykjavík minna óhugnanlega á Sovétið sáluga. Í merkri bók, Glíman við Guð, fjallar Árni Bergmann rithöfundur um tilburði austur þar til að afnema trúna. Og segir litla sögu: „Lítill rússneskur drengur á Sovéttíma hafði spurt föður sinn um guð, kannski hafði amma hans minnst eitthvað á hann. Faðirinn útskýrði það fyrir syni sínum að guð gæti ekki verið til. Þá spurði drengurinn hugsi: Já, en pabbi, veit Guð að við trúum ekki á hann?“

Sem betur fer eru þær margar mæðurnar og ömmurnar, feðurnir og afarnir sem gæta vel þessa uppeldishlutverks síns og köllunar. Fleiri en okkur grunar. Ég vona og bið að þau gæti þess að fara með börn sín í kirkju nú um aðventu og jól, og segi börnunum söguna af Jesú. Við sem játum kristna trú, við sem viljum að hin kristnu viðmið og kristna saga verði áfram lifandi veruleiki í landinu okkar, berum mikla ábyrgð að saga og mynd Jesú hverfi ekki úr vitund samfélagsins. Það eru ekki aðrir til þess en heimilin og svo kirkjan. Og þau þurfa að taka höndum saman svo arfurinn glatist ekki, svo niðjar okkar verði ekki ólæs og sljó gagnvart trú og sið sem mótað hafa okkar samfélag og menningu. Við megum ekki heldur gleyma að Guð er og Guð veit og þekkir okkur. „Sjá, ég stend við dyrnar og kný á,“ segir hann. Það eru dyr hjarta þíns og sálar sem hann knýr á.

Það er nú svo að í hverri mannssál býr bæði myrkur og ljós, góðvild og illska, speki og fáviska. Það sást berlega í borgarhliðum Jerúsalem forðum eins og í Reykjavík í dag hve besta fólk á merkilega auðvelt með að syngja með englunum, og hrópa síðan með múgnum: „krossfestu!“ og formæla með böðlunum. Það virðist svo ótrúlega auðvelt að hrífast með bylgju tilfinninganna og samsinna þeim sem hæst láta. Hin kristna saga um jötuna og krossinn, um fórnina sem færð var í eitt skipti fyrir öll, um sigur upprisunnar yfir hatri, synd og dauða gefur viðmið og fótfestu og þar er lind vonar, náðar og fyrirgefningar að finna, ljós og gleði hverjum þeim sem lýkur upp hjarta sínu í trú.

Í fjóra áratugi hefur jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar sett svip sinn á aðventuna. Ég þakka fermingarbörnunum um land allt sem nú á dögunum gengu í hús og söfnuðu fjármunum til Hjálparstarfs kirkjunnar. Um 2700 fermingarbörn fengu fræðslu um aðstæður í fátækum löndum Afríku, sérstaklega um skort á hreinu vatni. Féð sem þau söfnuðu rennur til vatnsverkefna Hjálparstarfsins í Eþíópíu, Malaví og Úganda. Ég hef með eigin augum séð hvaða árangri þau verkefni skila til að bæta lífsskilyrði ótrúlega margra örsnauðra. Ég þakka því góða fólki sem hefur stutt verkefnið og minnt hina ungu á mikilvægi þess að gefa af tíma sínum og fjármunum til hjálpar öðrum. Ég þakka hið hlýja og góða viðmót sem þau mættu hvarvetna þar sem þau knúðu dyra, ég þakka ómetanlegan stuðning og skilning foreldra. Og ég þakka Hjálparstarfi kirkjunnar og samstarfsaðilum þess sem koma gjöfum okkar í réttar hendur.

Nú að lokinni prédikun gefst söfnuðinum tækifæri að leggja fram gjafir til Hjálparstarfs kirkjunnar. Gjafirnar verða bornar fram á altarið og þar beðið sérstaklega fyrir þeim, þær blessaðar sem og allir þeir sem láta gjafir af hendi rakna til góðs.

„Amen, Kom þú, Drottinn Jesús. Amen.“
Kristur er á ferð um borgarhliðin okkar, um breiðvanga og öngstræti, krossgötur, kringlur og torg. Hann kemur upp að hlið þeirra sem halloka fara, syrgja og líða. Kirkjan er fylgd hans, konungsins sem fæddist í Betlehem og var í jötu lagður lágt, hans sem átti hvergi höfði að að halla, og lét sitt líf á krossi, dæmdur milli ræningja, en reis af gröf og lifir. „Konungur lífs vors og ljóss.“ Fögnum honum er hann kemur!
„Náðin Drottins Jesú sé með öllum. Amen“

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2791.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar