Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Kristjánsson

Guð blessi heiðingjana

25. september 2011

Í stuttu sjónvarpsviðtali í fyrrakvöld sló leikari og leikritshöfundur því fram að Íslendingar hefðu áreiðanlega alltaf verið heiðnir. Hann var að kynna nýtt leikverk sitt sem verður frumsýnt í Borgarnesi þessa dagana og fjallar um kristnitökuna á Íslandi. Höfundurinn komst að þeirri áhugaverðu niðurstöðu í viðtalinu að kristnitakan hefði í reynd engu skipt því að eftir sem áður hefðu Íslendingar haldið sinni heiðni allt til þessa dags.

Ég reikna með að margir hafi hugsað sem svo: bíddu nú við, voru Íslendingar ekki alltaf kristnir, var ekki stór hluti landnámsmanna kristinn, þar á meðal þeir sem settust að hér á Kjalarnesi og við Hvalfjörð? Var ekki fyrsta kirkja landsins einmitt reist hér á Kjalarnesi um 900? Og hefur kristin trú ekki fylgt þessari þjóð í sæld og þrautum alla tíð síðan. Voru sjóferðabænirnar þá sýndarmennskan ein, voru húslestrarnir lesnir af einhverri þvingun, voru Passíusálmarnir lesnir með hálfum huga og Vídalínspostilla einnig, er skírnin marklaust pat, kirkjubrúðkaupið skrípaleikur einn og útförin frá kirkjunni gerð þar af illri nauðsyn? Meginþættir í uppistöðu trúarlífs og trúarmenningar einstaklinga, fjölskyldna og þjóðar: út í hött? Þannig mætti lengi rekja þráðinn út af einni setningu í stuttu viðtali.
Fullyrðing leikskáldsins gefur tilefni til vangaveltna um trú. Hvað er trú og til hvers er hún? Í þessu samhengi mætti einnig horfa til hins stóra heims í málefnum trúar og trúarbragða, þar sem engu er líkara en trúin hafi gengið í endurnýjun lífdaganna þvert á flest sem áður hafði verið spáð.

Trú og trúarbrögð eru sitt hvað. Trúarbrögðin eru nú eitt fyrirferðarmesta efni fjölmiðla um víða veröld, þau koma hvarvetna inn í líf mannsins og eru einn sterkasti áhrifavaldur á stjórnmál samtímans. Það verður ekki sagt að áhrif þeirra séu óveruleg og vart merkjanleg. Það er því áhugavert viðfangsefni leikskáldsins að skoða trúarbragðaskipti og þar með trú mannsins og heiðni – en það er hægara sagt en gert. Hvaða trú er til umræðu eða öllu heldur: hvers konar trú er til skoðunar og hvað skyldi heiðni vera?

Í fjölmiðlum sjáum við einstaka sinnum vitnað í rannsóknarniðurstöður um samband trúar og heilsu, þá er niðurstaðan iðulega sú að þeir, sem trúi, hafi betri heilsu en aðrir og séu langlífari. Um þetta efni er til viðamikil rannsókn sem fræðimenn styðjast almennt við. Þar er fjallað um trúariðkun og trúarskilning, þetta er ekki rannsókn á mismunandi trúarbrögðum heldur á samhengi margra tegunda af trú og samsvarandi mismunandi áhrif á heilsu og skapandi lífsstíl. Þar er sýnt fram á að viðtekin sjónarmið um að trúað fólk lifi lengur og sé heilbrigðara en aðrir, standist ekki. Ástæðan er sú að hér er allt undir því komið hvers konar trú er til umfjöllunar. Það sem máli skiptir í þessu samhengi er hvaða mannfræði liggur til grundvallar leynt og ljóst, hvers eðlis er sjálfsmynd hins trúaða og einnig guðsmyndin, og loks er trúarmenningin, sem þessu tengist, þáttur í rannsókninni.

Í skýrslunni segir orðrétt: „Þeir lifa marktækt lengur og sleppa betur við langvinna sjúkdóma, sem eru ástúðlegir og láta sér umhugað um að fyrirgefa öðrum og eiga trúarsamfélag við Guð, en fólk sem iðkar trúrækni sem einkennist af mannskilningi mótuðum af synd og sekt.“ Báðir hópar búa við sambærilegar félags-sálfræðilegar aðstæður og sambærilega líkamlega áhættuþætti. „Skynsamir guðleysingjar eru mitt á milli,“ segir einnig í skýrslunni [kennd við prófessor Ronald Grossharth-Maticek í Heidelberg].

Ákveðið samhengi er því milli trúar og lífstilfinningar, en það er ekki eins einfalt og oft er látið í veðri vaka. Til er trú sem vekur ekki lífsþrá og lífsgleði með fólki heldur ótta og angist. Fræðimenn tala hér því um mannsæmandi trú annars vegar en hins vegar um trú sem er ósæmandi manninum. Ég tek undir með þeim að sumar gerðir af trú, einnig kristinni trú, séu ekki til að mæla með og séu ekkert betri en versta útgáfa af islam eins og við þekkjum úr heimsfréttum og er þá mikið sagt. Hugtakið trú er vandmeðfarið, meðal annars vegna þess að öll trúarbrögð virðast eiga sér sína öfgafullu útgáfu af trú – en einnig sína – að mínum dómi – heilbrigðu útgáfu, sem hefur ekki hátt á strætum en gefur fólki dýrmætan lífsförunaut og gæðir líf þess nýrri vídd sem það vill ekki undir nokkrum kringumstæðum án vera.

Í hinni öfgafullu og sjálfbirgingslegu útgáfu af trúnni er málið iðulega þannig fram sett að allt snúist um trúarfullvissu einstaklingsins og sú fullvissa felist oftar en ekki í því að trúa hinu ótrúlega. Þar virðist um það að ræða að fólk samþykki af öllu hjarta það sem fylgir sögu trúarinnar af fornum heimsmyndum, af fornum hugarheimi, af hugmyndum fyrri tíðar fólks um eitt og annað sem er í augum fræðimannsins fáránleg krafa því að trúin snýst ekki um bókstaflega trú á hið ótrúlega, trúin afneitar hvorki þekkingu mannsins né skynsemi hans. Sú trú sem gerir þá kröfu til mannsins er á háskalegum villigötum. Í slíkri kröfu er trúin þrengd niður á afar frumstætt plan, þar verður einstaklingurinn að segja já eða nei, annað hvort er hann trúaður eða vantrúaður.

Samkvæmt gyðing-kristinni trúarhefð er „trú“ hins vegar talsvert annað og talsvert meira en það sem hér er rakið. Trú snýst öðru fremur um ákveðin afstöðutengsl, hún snýst um lífsskilning og lífsleikni, um merkingu þess lífs sem maðurinn lifir; í trúnni finnur hann svör við þeim spurningum sem fylgja honum eins og skugginn frá vöggu til grafar: til hvers lifi ég, hvers virði er lífið, er til von sem treystandi er, hvaðan kemur ástin inn í þennan heim, hvaðan kemur þrá mannsins til hins góða, hvar finn ég hugrekki til að lifa? Upplýst og hugsandi trú er sem sagt reynsla umvafin tilfinningum sem verða ekki þannig til að maður þvingi sig til að taka eitthvað ólíklegt sem gott og gilt.

Það var spurt um tegundir af trú, um mannsæmandi trú og ósæmandi manninum. Í því sambandi eru tvö lykilhugtök sem mennska mannsins sýnst um og gera manninn að manneskju, það eru undirstöðuhugtök gyðing-kristinnar trúarhefðar. Annað þeirra er frelsið, hitt er ástin. Hvort tveggja samsvarar þeirri mynd, sem hin fornu rit Biblíunnar draga upp af Guði hinna ævafornu frásagna, hann er frjáls og hann elskar. Hvort tveggja einkennir veru hans og mynd í sögum og reynslu hinna fornu rita. Trúin miðar að því að leysa þetta hvort tveggja úr læðingi í lífi mannsins, annars vegar frelsi hans en hins vegar ást hans.

Hvað frelsið varðar þá er ekki verið að tala um huglægt frelsi, það er að segja frelsi frá synd, dauða og djöfli heldur um frelsi í merkingunni persónuleg sjálfsákvörðun, frjáls dómgreind og frelsi til athafna. Það er partur af mennskunni að taka sjálfstæðar ákvarðarnir sem grundvallast á eigin dómgreind og sannfæringu um að ákvörðunin leiði til meiri farsældar en ella. Maður sem lifir ófrjáls er ekki sáttur við líf sitt. Trú sem heftir frelsi mannsins vinnur gegn mennsku hans. – Lúther vísaði til Biblíunnar og skynsemi sinnar, auk samviskunnar á örlagastund sinni á ríkisþinginu í Worms 1517, þannig varð hann frjáls og sáttur.

Ástin er önnur meginuppistaðan í heilbrigðri tilvist mannsins, að geta elskað aðra og endurgoldið ást annarra, hvort tveggja er eins og frelsið: uppistaðan í heilbrigðri mennsku. En ekki síður hitt: að elska sjálfan sig, heilbrigð sjálfselska er ekki sjálfhverf eigingirni heldur hið gagnstæða, hún felst í því að vera þakklátur fyrir líf sitt, þykja vænt um sitt hlutskipti, vera sáttur við sjálfan sig, hún er forsenda tvöfalda kærleiksboðorðsins: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Hvort tveggja eru grundvallarþættir mennskunnar og jafnframt uppistaðan í virðingu mannsins, virðing mannsins er lykilorð í stjórnarskrám margra vestrænna ríkja, í tillögum stjórnlagaráðs er talað um „virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni“, í þýsku stjórnarskránni – þar sem horft er til langrar sögu einnar þjóðar sem þekkir flestum betur niðurlægingu mannsins – segir í upphafi: Virðing mannsins er ósnertanleg/heilög. Þessi mannsmynd er komin frá trúararfinum, í sinni innstu veru er maðurinn heilagur, virðing hans er heilög, frelsi hans er heilagt og ást hans er heilög.

Í trúnni leitar maðurinn lífi sínu merkingar sem hann fær lifað við og getur reynist honum fjársjóður alla ævi, langa eða skamma. Um þetta snýst trú einstaklingsins.

Það hefur lengi verið boðað af prédikunarstólum að trúin væri tilboð, þar gæti maðurinn tileinkað sér trú sem gefur lífi hans frelsi og ást og þá um leið dýpt, löngun til þess sem gott er, hugrekki til að stuðla að því sem rétt er og vilja til að vernda það sem fagurt er. Og í reynd er það þrá okkar allra, hver sem við erum.

Í trúnni er mikils krafist af fólki í einum eða öðrum skilningi. Hún hefur jákvæð áhrif – ef hún er ekki sjúkleg eða óttavekjandi, og þrúgar líf mannsins, ef svo er gæti svar mannsins við henni höfnun hennar, þá ætti heiðnin leik og gæti unnið gott verk líkt og Guð hefur samkvæmt ritningunum iðulega notað það óæskilega til að ná æskilegu markmiði.

Sögur Biblíunnar lýsa trúnni nánast alltaf í tengslum við eftirvæntingu, von, hugrekki og þakklæti. Heilindi trúarinnar og styrkur hennar er allt skoðað undir þessu sjónarhorni: að hún komi fram í tilvistartengdum tilfinningum og hafi eitthvað að segja fyrir frelsi einstaklingsins og sambönd sem hann lifir í.

Samkennd Jesú með mönnunum, svo sem með hinum minnstu, sem gefa ástinni rými, eins og kemur fram í dæmisögunni undir lok Mattheusarguðspjalls um hina minnstu bræður og systur. Sömuleiðis með þeim sem láta ekki ræna sig í frelsi sínu eins og sæluboðin í Fjallræðunni draga skýrt fram í dagsljósið. Samstaða Jesú með jaðarfólki, tollheimtumönnum, sjúkum og syndurum, við aðstæður þar sem menn finna eitthvað af virðingu sinni að nýju: hugsum um fund Jesú og bersyndugu konunnar sem smurði Jesúm með dýrum smyrslum í húsi Símonar farísea og atvikið þegar Jesús verndar bersyndugu koununa fyrir grýtingu, eða um borðsamfélag Jesú og tollheimtumannsins Sakkeusar.

Og síðast en ekki síst: samskipti Jesú við sjúka manninn við laugina sem segir frá í guðspjalli dagsins. Í þeirri sögu kemur í reynd allt fram sem við höfum verið að fjalla um.

Jesús sýnir þessum sjúka og væntanlega aldraða manni þá virðingu að nema staðar hjá honum, hann hafði ekki orku til að koma sér sjálfur að lauginni þegar vatnið „hrærðist“, Jesús sýnir honum þá mannvirðingu að koma til hans, lúta niður að honum, hughreysta hann og leggja sína líknandi hönd á höfuð hans svo að hann varð heilbrigður á ný: frelsið féll honum í skaut, hann var ekki lengur bundinn og ófær um að njóta lífsins, frelsið varð nýr veruleiki í hans lífi og þáttur í lækningu hans. Einnig þakklætið, sem hefur sprottið í hjarta hans á ný, og endurvakið þrá hans til lífsins. Jesús gaf honum frelsið, hann vakti með honum ástina, sjálfselskuna, þakklæti fyrir lífið, að fá að lifa innihaldsríku lífi.

Þetta er trúin í frásögnum hinna helgu rita. Sjúki maðurinn var ekki settur upp við vegg og skipað að trúa þessu eða hinu. Þannig er trúin ekki, hér hefur hún hefur allt aðra merkingu og óræðan snertiflöt við þá trúarhugmynd sem leikarinn tjáði í stuttu sjónvarpsviðtali í fyrrakvöld.

Eru trú og heiðni þá algjörar andstæður? Fyrst mætti spyrja á þessa leið: Skyldi hinn heiðni ekki einnig vera leitandi að frelsi og ást, að merkingu lífsins, að virðingu fyrir manninum, að ljósi í myrkri, að huggun í mótlæti, að réttlæti í samfélaginu, að lífsgrundvelli í heimilislífinu, að trú og trausti í samskiptum við þann sem hann elskar? Trúin snertir það dýpsta í tilvist mannsins, hún er leið hans til mennskunnar, til virðingar fyrir öðrum, og til virðingar fyrir sjálfum sér.

„Viltu verða heill?“ Jesús spyr ekki hvort hann sé tilbúinn til að trúa á sköpunarsöguna eða meyfæðinguna eða eitthvað annað, aðeins þetta: viltu verða heill. Um það snýst trúin, að verða heill; trúfræðilegi pakkinn er annað, trú er ekki trúfræði. Að verða heill er að finna mennsku sína, finna frelsi sitt til að lifa, finna ástina á ný, finna merkingu lífsins, öðlast sátt við líf sitt sem manneskju sem lætur af sér spretta djúpa vitund um þakklæti og djúpa löngun til að verða öðrum að gagni. Nú erum við að tala um mannsæmandi trú. Þannig er sú trú sem sprettur upp í fótspor Jesú guðspjallanna, í lífi og reynslu lifandi fólks.

Viltu verða heill? Hver hefði svarað þeirri spurningu neitandi? Enginn, ekki einu sinni heiðinginn. Kannski átti leikarinn við að sá sé heiðingi sem afneitar þeirri trú sem afneitar manninum, slíkir heiðingjar eru þá góðir heiðingjar og móttækilegir fyrir þeirri trú sem leysir manninn og gerir hann heilan.

Jóh 5.1-15

Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“

Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“

Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.
En þessi dagur var hvíldardagur og menn sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“

Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“

Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“

En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum.
Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“

Maðurinn fór og sagði ráðamönnum Gyðinga að Jesús væri sá sem læknaði hann.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2532.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar