Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Gátlisti fyrir Ísland

18. september 2011

Að fara eða vera

Kristín ÞórunnJón og Gunna eru búin að fá nóg af ástandinu á Íslandi. Þeim finnst ekkert ganga að koma landinu á réttan kjöl eftir Hrunið fyrir þremur árum. Þeim finnst mórallinn ömurlegur, spillingin grasserandi, bankarnir siðlausir og bloggararnir óþolandi. Þess vegna ætla þau að flytja til Noregs.

Í aðdraganda flutningsins vanda þau til verka. Gera gátlista yfir allt sem þarf að gera og allt sem þarf að vera til staðar til að flutningur fjölskyldunnar og lífið í nýja landinu verði með sem bestum hætti. Það þarf að forgangsraða, gera áætlanir, ákveða hvað á að taka með og passa upp á að hvers og eins í fjölskyldunni bíði atlæti og tækifæri við hæfi þegar kemur að því að byggja upp tilveruna á nýjum stað.

Á gátlista fyrir flutning finnum við allt þetta og hann eykur stórlega líkurnar á vel heppnuðum og árangursríkum breytinum. Hvað með gátlistann fyrir Ísland og þau sem ætla að byggja upp lífið sitt hér? Þurfum við ekki líka gátlista með vörðum til lækningar og uppbyggingar samfélagsins sem gengur út frá því að hér viljum við vera og ala börnin okkar upp í réttlátu og góðu samfélagi?

Jú, við þurfum slíkan gátlista. Á degi kærleiksþjónustunnar 2011 viljum við einmitt ræða um hvað stendur á gátlista hins góða samfélags og hvaða vörður þarf að reisa sem leiðbeina okkur í áttina að jöfnuði og réttlæti þar sem hvert og eitt fær tækifæri til að blómstra og njóta lífsins. Í dag set ég á gátlistann minn kærleiksþjónustu og sjálfboðastarf sem umbreyta sjálf-félagi í sam-félag.

Hvað er að frétta frá Álftanesi?

Góðir Íslendingar.
Ég heilsa ykkur frá Bessastöðum á Álftanesi. Já, við erum stödd í sveitarfélaginu sem varð svo illa úti í efnahagshruninu að sjálfar forsendur sjálfstæðis þess riðuðu til falls. Er þá hér ekki allt í volli? Ríkir hér ekki vonleysi, skeytingarleysi og doði gagnvart samfélaginu og manna á milli? Eru ekki allir á leiðinni til Noregs?

Nei. Svo er ekki. Hér ríkir andi samhjálpar og samstöðu þar sem hver einstaklingur finnur að það munar um framlag hans eða hennar til samfélagsins, á þeim vettvangi sem hann eða hún kýs að beita sér. Hér er sjálfboðastarf á gátlista samfélagsins. Hvað er það sem veldur?

Álftanes er lítið sveitarfélag miðað við hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Kannski er það ástæðan fyrir því að hér ríkja kjöraðstæður fyrir ríka samfélagsvitund og öfluga starfsemi félagasamtaka. Hér býr fjöldi fólks sem er tilbúið að leggja sitt af mörkum til að gera gott samfélag betra, lætur sig varða hvernig nágrannarnir hafa það, hvernig börnum og ungmennum er sinnt, hvernig hlúð er að eldra fólki og hvernig gengið er um náttúruna. Hér láta sjálfboðaliðar til sín taka.

Ég sé þig og þú mig

Öflugt sjálfboðastarf er til gæfu fyrir samfélagið sem nýtur þess og einstaklinganna sem taka að sér þessa þjónustu. Auðvitað helst þetta tvennt í hendur. Sjálfboðaliðinn velur sér starfsvettvang og sinnir hlutverki sínu af myndugleik og gleði, vegna þess að hann eða hún fær helling til baka. Ekki peninga - en svo margt annað sem gefur lífinu gildi. Hún fær hlutverk, hún fær félagslega stöðu, hún fær félagsskap, hún fær samskipti, hún fær tækifæri til að læra nýja hluti, vaxa og styrkjast í því sem hún er góð. Og hún fær vissuna um að hún láti gott af sér leiða.

Sálfræðin kennir okkur að það mikilvægasta fyrir manneskjuna er að henni finnist hún skipta máli og geti látið gott af sér leiða. Til þess að gera öðrum gott þarf þrennt að koma til. Í fyrsta lagi að sjá þörf og þjáningu annarra og viðurkenna raunveruleika hennar. Í annan stað að bregðast við þjáningunni með umhyggju og gæsku. Í þriðja lagi að gera sér grein fyrir þvi að tilvera manneskjunnar er ófullkomin og endanleg og að öll lifum við þann veruleika. Þetta er ramminn sem sjálfboðaliðinn stígur inn í og þar lætur hann til sín taka.
Að láta gott af sér leiða er gefandi í báðar áttir. Ég sé þig og þú sérð mig.

Kirkjan er vettvangur sjálfboðastarfs

Sjálfboðastarf er á gátlista þeirra sem búa hér á Álftanesi. Hér eins og á mörgum öðrum stöðum eru starfandi hreyfingar og félög sem þjóna samfélaginu með ýmsum hætti. Kirkjan er ein af þessum hreyfingum sem móta og næra samfélagið. Tilgangur kirkjunnar er að þjóna heiminum sem Guð elskar. Þess vegna verður hún vettvangur þeirra sem vilja nærast og byggjast upp af boðskap trúarinnar til að geta nært og byggt upp í kringum sig.

Þjónustan við náungann - kærleiksþjónustan - er hjarta kristinnar kirkju. Reynsla og viska kristinnar trúar færir okkur heimsmynd þar sem þjáning manneskjunnar er tekin alvarlega. Fyrirmynd Jesú mótar okkur á þann veg að hjarta okkar slær með þeim sem þjáist í einmanaleika og sársauka, frekar en með þeim sem ríður feitum hesti frá leikvelli lífsins. Fyrirmynd Jesú beinir okkur að þörfum þeirra sem við lifum í samfélagi með og að bregðast við þeim í kærleika. Fyrirmynd Jesú knýr okkur til að nefna hlutina sínu réttu nöfnum, rjúfa þagnarmúra og segja Valdinu sannleikann um ranglætið sem þrífst í skjóli þess.

Við sama borð

Þjónustan við náungann nær til allra, því öll eru sköpuð í mynd Guðs. Hún á upptök sín í skilyrðislausum viðbrögðum við þjáningu og þörf manneskjunnar - en leiðir óhjákvæmilega til breytinga í lífi einstaklings sem og samfélags með því að gefa kraft sem byggir upp og bætir. Þess vegna er kærleiksþjónusta og sjálfboðastarf svona mikilvægt á gátlista betra samfélags.

Samfélagið sem verður til þegar við söfnumst saman í kirkjunni umbreytir samfélaginu sem við erum send út til að þjóna. Vegna þess að við þiggjum öll gjafir Guðs í lífi og starfi, gegnum brauð og vín sem nærir og gefur líf fyrir náð Guðs, gilda ekki ranglát og skekkjandi lögmál í tengslunum sem verða til milli þess sem gefur og þess sem þiggur. Í samhengi kærleiksþjónustunnar er ekkert til sem heitir ríki gjafarinn og fátæki þiggjandinn. Í veruleika náðarinnar sitjum við öll við sama borð. Í kærleiksþjónustunni verðum við farvegur náðar Guðs sem vinnur í þágu heimsins og gerir heiminn heilbrigðari. Við verðum hendur og fætur Krists sem mætir manneskjunni og reisir hana við.

Gátlisti björgunarinnar

Ég heilsa ykkur, góðir Íslendingar, frá Álftanesi, þar sem fólkið hefur tekið björgunaráætlun Íslands í eigin hendur. Lykillinn að björgunarpakka Íslands eru ekki sterkir bankar, hagvöxtur, ofurskattur á neysluvörur, gorgeir um yfirburði lands og þjóðar eða yfirlýsingar um hvað aðrir eru vondir. Hagtölur segja ekki alla söguna og segja lítið um raunveruleg gæði samfélagsins.

Lykillinn að björgunarpakka Íslands er fólkið sem þar býr. Fólkið sem er ekki sama, fólki sem leggur sitt af mörkum til að mæta þörfum annarra, gleðja og auðga lífið. Fólki sem finnur til með öðrum og nefnir hlutina sína réttu nöfnum. Fólki sem tekur þátt og þjónar í kærleika.

Við sjáum þetta fólk að starfi hér á Álftanesi. Í dag tekur Bessastaðasókn á móti viðurkenningu frá Evrópusamtökum um kærleiksþjónustu, Eurodiaconia, fyrir eflingu sjálfboðins starfs í starfi safnaðarins.

Sóknin tekur á móti þessari viðurkenningu, en íbúarnir á Álftanesi eiga líka skilið hamingjuóskir og þakkir okkar. Þið eruð góð fyrirmynd.

Á gátlistanum fyrir Ísland er kærleiksþjónusta og sjálfboðastarf. Við eigum ekki peninga en við eigum tíma. Við höfum ekki allar lausnirnar, en við mætum hvert öðru í kærleika. Við horfum hvert á annað með augum Jesú og sitjum við sama borð.

Dýrð sé Guði, sem skapar, frelsar og lífgar. Dýrð sé Guði sem kallar, sendir og byggir upp. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun. Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með oss öllum. Amen

Guðspjall

Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta. Þótt þér elskið þá sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gera ekki tollheimtumenn hið sama? Og hvað er það þótt þér heilsið bræðrum yðar og systrum einum? Það gera jafnvel heiðnir menn. Verið því fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn. Matt 5.43-48

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2592.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar