Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sigrún Óskarsdóttir

Eru ekki öll börn draumabörn?

18. september 2011

Sigrún ÓskarsdóttirÉg var á fundi í Uppsölum í Svíþjóð í vikunni. Þar sem ég vissi að knappur tími yrði til undirbúnings prédikunar sunnudagsins las ég texta dagsins áður en ég lagði af stað og tók með í nesti í ferðina.

„Þið hafið heyrt sagt var þú skalt elska náunga þinn en hata óvin þinn“, las ég. Er það ekki nokkuð eðlilegt? Við elskum þau sem skipta okkur máli, vini okkar, fjölskyldu, já, þau sem standa okkur næst. Er ekki einfaldlega mannlegt að hata óvini sína? Svo þrumar Jesús áfram: „En ég segi: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður“. Það er nefnilega það. Elskaðu óvini þína! Gott og vel þá vitum við það. Einfalt og gott. Eða hvað? Elskar þú óvini þína? Hvernig geturðu átt óvini ef þú elskar þá?

Það er dagur kærleiksþjónustunnar í kirkjunni okkar og textarnir minna okkur á það. Kristin trú gerir þá kröfu á okkur að hver dagur á að vera dagur kærleiksþjónustunnar. En það er gott að minna okkur á það með því að eiga sérstakan dag sem við minnum hvert annað og okkur sjálf á kærleiksþjónustuna, þjónustuna við lífið.
Það er fundur með foreldrum fermingarbarna hjá okkur í Árbæjarkirkju að guðsþjónustu lokinni. Þegar ég var að undirbúa mig fyrir guðsþjónustuna sá fyrir mér fólkið sem ég myndi hitta með þennan boðskap í dag. Ég var stödd í fallega háskólabænum Uppsala og hafði svolítinn tíma fyrir fundinn sem ég var á leið á og gekk um miðbæinn í sól og blíðu. Bókabúðirnar virkuðu á mig eins og segull. Deildirnar sem toguðu stekast í mig voru með bókum um guðfræði og svo matreiðslubókum. Ég fann eina sem sameinaði áhugamálið vel: „Fika med andakt“, sem gæti útlagst á ástkæra ylhýra: „matarbiti með hugvekju“ og hefur að geyma 19 uppskriftir og hugvekjur. Freistandi uppskriftir og fallegur boðskapur. Kærleiksmáltíðir.

Það kom önnur bók upp í hendurnar á mér sem ég keypti líka og er búin að glugga töluvert í. Ástæða þess að hún fangaði athygli mína var sú að ég var búin að hugsa mikið um þennan nýja tón sem Jesús gefur okkur. Í gamla testamentinu finnum við boðorðin tíu. Þú skalt EKKI. Við fórum einmitt yfir boðorðin á ágústnámskeiðinu með fermingarbörnunum. Boðorðin eru stundum kölluð umferðareglur lífsins og þau hafa að geyma síglildan boðskap um hvernig við eigum að umgangast Guð og hvert annað. Þú skalt EKKI. Svo kemur Jesús og segir „ þú SKALT ELSKA, elska skilyrðslaust“. Tvöfalda kærleiksboðorðið er undurfallegur boðskapur sem við ættum að rifja upp daglega og helst oft á dag. „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Þú skalt elska Guð, elska þau sem verða á vegi þínum, fjölskyldu, vini líka þau sem þú þekkir ekki, og við eigum að elska okkur sjálf. Það er enginn afsláttur, guðspjall dagsins undirstrikar það. Við eigum meira að segja að elska óvini okkar. Það er hægara sagt en gert, en besta leiðarvísinn um það hvernig við förum að því finnum við með því að kynna okkur orð Jesú og enn frekar með því að skoða hvernig hann umgekkst þau sem hann mætti. Alltaf af virðingu, nærfærni og elsku.

En aftur að bókinni sem ég minntist á. Borðorðin tíu á okkar tíma heitir hún og er eftir sænskan prest Ullabritt Berglund. Hver kafli fjallar um eitt boðorð og hún kallar þau dagskrá fyrir lífið.

Ég hugsa mér gott til glóðarinnar að notfæra mér meira úr þessari ágætu bók en ætla í dag að ljúka prédikuninni á að segja ykkur hennar túlkun á boðorðunum fyrir okkar samtíma með því að segja fyrst boðorðið eins og við finnum það í Gamla testamentinu og svo hennar útfærslu:

1. Ég er Drottinn, Guð þinn, þú skal ekki aðra guði hafa
Vertu meðvituð/meðvitaður um hvernig þú forgangsraðar

2. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.
Berðu virðingu fyrir því sem er heilagt

3. Halda skaltu hvíldardaginn heilagan
Passaðu upp á sveigjanleika og mundu að hvíla þig reglulubundið

4. Heiðra skaltu föður þinn og móður
Vertu stolt/ur yfir uppruna þínum

5. Þú skalt ekki mann deyða
Farðu vel með líf þitt og annarra

6. Þú skalt ekki drýgja hór
Vertu trúr lífsförunaut þínum

7. Þú skalt ekki stela
Vertu heiðarleg/ur í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur

8. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum
Vertu meðvituð/aður um hvernig þú hugsar

9. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns
Þakkaðu fyrir það sem þú átt

10. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þjón, þernu, fénað né nokkuð það sem náungi þinn á.
Gleðstu yfir velgengni annarra.

Þetta gaf mér ýmislegt að hugsa og endurmeta, vonandi þér líka!

Alveg að lokum: Á leiðinni heim sat ég hjá konu og tíu mánaða gömlum syni hennar. Barnið sofnaði í flugtaki og vaknaði þegar u.þ.b. klukkustund var eftir af fluginu fékk sér að borða hjalaði og brosti. „Þetta er algjört draumabarn“ sagði ég við móðurina. „Já, eru ekki öll börn það?“ svaraði hún. Mér fannst þetta vel sagt. Varð hugsað til fermingarbarnanna okkar hér í Árbæjarkirkju. Rúmlega hundrað draumabörn. Við erum heppin!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2508.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar