Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Beðið eftir lífinu

25. september 2011

Biðraðir

Kristín ÞórunnÉg bíð og vona í biðröðum, að röðin komi að mér. Því ég vil verða meðlimur í stórri hringekju. Svona hefst lagið Gullna hliðið af plötunni Tívólí með Stuðmönnum um barnið sem bíður eftir að röðin komi að sér í hringekjubiðröðinni.

Það er misgaman í biðröðum. Í sumum biðröðum tekur maður sér stöðu af fúsum og frjálsum vilja - til að kaupa miða á tónleika eða bíða eftir afgreiðslu á kassanum í Bónus. Í aðrar biðraðir er fólk sett hvort sem því líkar betur eða verr. Dæmi um slíkar biðraðir eru í heilbrigðiskerfinu þegar fólk þarf að bíða eftir nauðsynlegum aðgerðum eða eftir hentugu vistunarplássi. Stundum er eins og þurfi kraftaverk til að röðin komi að manni í slíkum aðstæðum.

Lækningalaug

Maðurinn við laugina beið eftir slíku kraftaverki. Hann hafði beðið lengi og verið lengi sjúkur. Hann hafði þurft að eyða lífi sínu í biðröð ásamt mörgum öðrum sjúkum, blindum, höltum og lömuðum sem biðu í súlnagöngunum eftir því að rétta stundin kæmi og þau gæti upplifað lækningamátt vatnsins. Það skipti máli hvenær þú fórst ofan í vatnið - í sögunni segir að engill komi og hræri vatnið og að hver sá sem fyrstur fór ofan í það hlyti bót sinna meina, sama hvað hrjáði viðkomandi.

Kraftaverkalaugar finnast víða. Frá einni slíkri er sagt í kvikmyndinni Kraftaverkið í Lourdes. Þar fylgjumst við með konu sem sækir uppbyggingu og styrk til hins fræga pílagrímastaðar í Frakklandi, í von um lækningu. Saga Lourdes er á þá leið að árið 1858 fóru ungar stúlkur úr sveitinni, þær Berndadette, Toinette og Jeanne út í skóg til að safna eldivið. Þær þurftu að vaða yfir á nálægt helli einum en þar sem þær standa í vatninu birtist þeim í hellinum mynd af hvítklæddri konu með blátt belti um sig miðja og á rósum skrýddum skóm. Þetta áttu þær eftir að upplifa nokkrum sinnum og svo fór að þorpsbúar og kirkjunnar menn komust á eitt mál að hér væri um enga aðra að ræða en Maríu mey, móður Jesú.

Orð Maríu

María talaði við Bernadette og sagði við hana: Ég heiti þér því að þú verðir mjög hamingjusöm, ekki í þessum heimi heldur þeim næsta. María mælti fleiri orð til Bernadette og hvatti til þess að meiri guðhræðslu, bæna og iðrunar synda. Hún sagði stúlkunni líka að hún ætti að grafa brunn í jörðina og drekka vatnið sem sprytti fram. Bernadette gerði allt þetta - og vatnsstraumurinn varð að þeirri lind sem Lourdes er svo þekkt fyrir í dag.

Fljótlega fór að kvisast út að þarna væri kraftaverkalind því fréttir bárust af því að sjúklingar sem drukku af vatninu hlytu lækningu meina sinna, án þess að nein læknisfræðileg útskýring væri til staðar. Auðvitað skapaðist mikil stemning sem leiddi fólk út í æsing og óreiðu - fréttirnar af lækningum blönduðust sögum af meinum sem læknuðust bara í skamman tíma eða alls ekki neitt. Yfirvöld urðu áhyggjufull og létu loka lindinni og meinuðu fólki aðgang að henni.

Kaþólska kirkjan kvað samt upp úr með það að María mey hefði sannarlega birst Bernadette og að þarna væru himneskir kraftar að verki. Upp frá því hefur Lourdes verið áfangastaður fjölda fólks sem kemur þangað í bæn og von um lækningu, fyrir náðarorð hinnar heilögu meyjar.

Konan í hjólastólnum

Einn af þessum pílagrímum er kona í hjólastól, sem kvikmyndin Kraftaverkið í Lourdes greinir frá. Eitt af því sem þessi mynd gerir er að greina á afskaplega trúverðugan hátt frá starfseminni í Lourdes, þar sem fjöldi fólks starfar við það að leiða sjúka og kreppta inn í veruleika lækningar og guðssnertingar. Myndin kemur líka inn á tilfinningar og væntingar þeirra sjúku og aðstandenda þeirra, sem sumir hverjir koma ár eftir ár í trú á að lækning bíði þeirra. 

Í raun er starfrækt heilsuhæli í Lourdes, með læknaliði og umönnunaraðilum sem hlúa að pílagrímunum. Konan í hjólastólnum, sem er lömuð upp að hálsi, segir við aðstoðarkonuna sína sem þarf að mata hana, leggja í rúmið, klæða og veita allar bjargir, að henni finnst gott að koma hingað, því það sé eins og frí. Hún skipti um umhverfi, hitti nýtt fólk, sjái nýja staði og það hefðbundna sem frí hefur í för með sér.

Hluti dvölinni í Lourdes er vitaskuld heimsókn að lindinni frægu þar sem María birtist Bernadette. Heimsóknin fer fram eftir kúnstarinnar reglum og undir eftirliti pesta, lækna og nunnanna sem halda fastri hendi utan um alla starfsemina. Á leiðinni til lindarinnar eru margar biðraðir sem fólk þarf að bíða í. Pílagrímalestin hlykkjast eftir þeim hraða sem aðgengið að lauginni leyfir, stundum þarf að bíða lengi og stundum skemur. Fólk gerir margar tilraunir á meðan dvölinni stendur til að komast í laugina.

Í myndinni fylgjumst við með konunni í hjólastólnum og hvernig hún upplifir hressingu líkama og sálar í Lourdes. Þegar styrkur fer að gera vart við sig í lömuðum líkamanum taka miklar læknisskoðanir og rannsóknir við, því staðurinn vill ganga úr skugga um að hér sé ekkert svindl á ferðinni. Reynt er að útiloka allar aðrar skýringar á batanum en þær að hér sé kraftaverk á ferð. Við sem fylgjumst með konunni í hjólastólnum upplifum gleðina yfir framförum og bata og spyrjum okkur sömu spurninga og fólkið í kringum hana, hvað er að gerast, hvað veldur þessum breytingum, hversu áreiðanlegar eru þær?

Beðið eftir lífinu

Leikritið beðið eftir Godot eftir Samuel Beckett er snilldarleg lýsing á því hvernig manneskjan getur sett krafta sína og athygli í að bíða eftir einhverju sem hún veit ekki alveg hvað er, en er samt viss um að sé þess virði að bíða eftir. Eða vegna þess að hún hefur engin önnur ráð. Eins og við vitum þá bíða þeir félagar Vladimir og Estragon eftir Godot. Þetta er ekki hamingjufyllt samvera því þeir þola ekki hvor annan. Þeir vilja hengja sig en hafa ekkert reipi við höndina, svo það fer út um þúfur. Þeir ákveða að halda í hvort sína áttina en óttinn við einmanaleikann ber þá ofurliði. Þeir rífast, gráta og syngja - og bíða. En ekkert gerist. Aftur og aftur.

Leikritið er lýsing á bið manneskjunnar eftir frelsun, björgun og leiðsögn. Alveg eins og fólkið í súlnagöngunum og pílagrímarnir í Lourdes, þá bíða Vladimir og Estragon eftir því sem þeir trúa að þeir þurfi til að geta lifað. Íslenska þjóðin er líka í þessum sporum - hún bíður og bíður, eftir lausnum, eftir réttlæti, eftir því að geta staðið upp.

Hvar er lífið?

John Lennon sagði að lífið væri það sem gerðist á meðan maður væri upptekinn af því að skipuleggja hvað maður vildi gera: „Life is what happens while you are busy making other plans“.

Maðurinn í súlnagöngunum beið og beið eftir því að einhver hjálpaði honum ofan í laugina svo hann gæti læknast og hlotið styrk að nýju. En það gerðist aldrei. Í staðinn hitti hann Jesú. Jesús hjálpaði honum ekki ofan í vatnið heldur beinir hann athygli hins sjúka að sjálfum sér og því sem hann getur sjálfur gert.

Það reyndist ráð sem gagnaðist manninum að taka skrefið sem hann hafði ekki getað tekið í þau 38 ár sem hann hafði verið sjúkur. Hann stóð upp og tók rekkju sína og gekk.

Getur verið að það sem við bíðum eftir, komi til okkar á annan hátt en við getum nokkru sinni ímyndað okkur? Er boðskapur guðspjallsins um manninn í biðröðinni sá að hið góða kemur, það er þér ætlað og þú berð það í þér sjálfri?Maðurinn beið og beið en það sem Jesús kom með til hans var ekki það sem hann bjóst við að myndi gerast. En það leysti úr læðingi líf, björgun og frelsun. Þannig gerist kraftaverkið. Ekki þegar forskriftum hugmyndakerfis eða trúarsetninga er fylgt heldur þegar manneskjan hittir Guð í hjarta sínu.

Dýrð sé Guði, sem skapar, frelsar og lífgar. Dýrð sé Guði sem kallar, sendir og byggir upp. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2390.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar