Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Múrinn og musterið

28. ágúst 2011

Guðspjallið
Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum, sem á torgum sitja og kallast á: Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér syrgja. Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: Hann hefur illan anda. Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra! En spekin sannast af verkum sínum.

Þá tók hann að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gjört flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki gjört iðrun. Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér. (Matt. 11. 16-24)

Bænin
Besti faðir, barna þinna gættu,
blessun þín er múr gegn allri hættu.
Að oss hlúðu, hryggð burt snúðu,
hjá oss búðu,
orð þín oss innrættu. Amen.
(Sb. 246)

Predikunin.
Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi, Amen.

Í dag er 10. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Hann hefur yfirskriftina : Jesús grætur yfir Jerúsalem. Yfirskriftin er tekin úr guðspjalli dagsins eftir fyrstu textaröð og tengist með ákveðnum hætti þeim atburði er varð þann 10. ágúst árið 70 eftir Krist þegar hershöfðingi rómverja, Títus að nafni, síðar keisari, lagði borgina Jerúsalem í rúst og eyðilagði musteri gyðinganna. Síðan þá er ekkert musteri í Jerúsalem, aðeins múrar og múrbrot. Þar er grátmúrinn svokallaði, sem við stundum sjáum myndir af, og er sérstakur helgidómur í huga gyðinga og hluti af múrnum sem eitt sinn var umhverfis musterið.
Það er svo aftur önnur saga að fyrir þetta glæsta afrek, að eyðileggja Jerúsalem, lét Títus síðar reisa sér mikinn sigurboga í Róm, sem margir þekkja og hafa séð. Ekki er minni ástæða til að gráta upp við hann.

Þessi 10. sd. eftir trinitatis er sem sagt ekki skemmtilegur dagur. Og þegar hann stendur í næsta nágrenni við Höfuðdaginn, sem er á morgun, verður hann ennþá minna skemmtilegur, þegar þess verður minnst að Jóhannes skírari missti höfuðið af því að hann þorði að tala um siðblindu yfirvaldanna.

Jesús sá fyrir þessa eyðileggingu Jerúsalem. Hann sá fyrir að borg hans yrði jöfnuð við jörðu og musterið með. Þó að hann hafi að sjálfsögðu elskað þessa borg þá er hún ekki þar með höfuðborg kristninnar, eins og stundum er haldið fram, og var reyndar orsök þess ótrúlega blóðbaðs sem fylgdi krossferðatímunum. Hin eiginlega höfuðborg krisninnar er hin nýja Jerúsalem sem er á himnum. Það er staður fullkomnunarinnar sem lífi okkar er stefnt til þegar við förum heim til Guðs.
Á jörðu er sérhver borg höfuðborg hans, ef borgarbúarnir trúa á hann og tilbiðja hann.

Í guðspjalli þessa sunnudags samkvæmt annarri röð guðspjallslestranna ávítar Jesús borgirnar fyrir vanrækslu gagnvart Guði. Jesús horfir yfir borgirnar og nafngreinir nokkrar. Hann þekkir þær vel. Við horfum yfir aðrar borgir sem við þekkjum vel. Guðs Orð hefur verið boðað, Guðs Orð hefur verið heyrt og játað, og hin helgu tákn um nærveru Guðs hafa verið borin fram. En samt er eins og skorti á hinn umskapandi kraft sem því fylgir. Það brennur enginn eldur, og blæs enginn vindur.
Hvaða máli skiptir grundvöllur kristinnar trúar, Jesús sjálfur, í lífi borgar?

Þessi spurning sækir að með sérstökum hætti hér á Þingvöllum, þar sem enga borg er að sjá, en þingheimur kaus sér forðum Krist að konungi og hét því að fylgja honum.
Í þúsund ár hafa Kristur og þjóðin sem byggir þetta land átt samleið. Um það vitnar þessi kirkja alveg sérstaklega. Hún vitnar um það að kynslóð eftir kynslóð hefur kosið að fylgja honum og fundið svarið við því hvaða máli skiptir kristin trú og grundvöllur hennar, Jesús, umfram það að hafa kross á leiðinu sínu.

Sá Jesús sem við fylgjum er ekki bara brosandi á gangi í grængresinu með dansandi börn í kring í endalausri himneskri gleði, þó að það sé sannarlega ein hlið þeirra göngu. Hann fer líka hörðum orðum um skinhelgi og yfirdrepskap, hann rekur út víxlarana, hann grætur yfir borgunum og kvelst á krossinum.

Lestar þessa sunnudags eiga það allir sameiginlegt að í þeim er þungur aðvörunar- og áminningartónn. Þar er fátt til að gleðjast yfir. Nema því að okkur skuli treyst til þess að taka tillit til þeirra.
Textarnir fjalla um þá ábyrgð sem fylgir því að vera kallaður til samfélags við Guð og hvað gerist ef maður gleymir henni, eða ef maður lætur sem maður viti ekki af henni.

Guðspjallslesturinn er í tvennu lagi. Fyrri hlutinn hefur einfaldari skírskotun, um nöldrarana og úrtölufólkið sem aldrei er hægt að gera til geðs.

Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér syrgja.
Öll þekkjum við einstaklinga sem þurfa alltaf að kvarta yfir öllu, eða gera lítið úr því, eða hæðast að því.Tilgangurinn er oftar en ekki að koma sér hjá því að takast á við það sem um er rætt. Það er tilgangur sem ekki er einu sinni alltaf meðvitaður. Maður þarf ekki að takast á við vandann, heldur dæmir hann úr leik. Maður virðir heldur ekki það sem maður sér, heldur gerir lítið úr því. Maður horfist ekki í augu við mistök sín, og kann það í raun ekki,vegna þess að maður hafnar því að þau séu til.

Jesús tekur dæmi af Jóhannesi skírara og sjálfum sér. Við gætum sagt í framhaldi af því: Sá sem tekur trú sína alvarlega, er einlægur og ákafur, og neitar sér um margt sem hann telur stríða gegn trúarsannfæringu sinni, og sker sig þar af leiðandi úr, hann er öðruvísi. Hann spyr ef til vill : „sæmir þetta þeim sem játa trúna“? og fær oftar en ekki að heyra að hann þykist vera eitthvað betri en aðrir, sé jafnvel hrokafullur og líti niður á aðra. Þetta er Jóhannesarstefið.

Sá sem tekur trú sína alvarlega en tekur fullan þátt í lífi fólks, heldur sig ekki til hlés, en er með á eigin forsendum kann að vera ásakaður um að lifa ekki í samræmi við trú sína. Með öðrum orðum: nógu heilögu lífi: „Hann þykist vera eitthvað heilagur, en ég sá hann nú samt á bar niðri í bæ.“ Þetta er Jesústefið.

Þetta er auðveldari hlutinn í guðspjallinu. En svo fór Jesús að ávíta borgirnar, og þær mest sem stóðu honum næst og hann þekkti best.
Áminningarpredikunin hefur alltaf hinn sama brodd sem stingur. Þennan: Sá sem mikið er gefið undirgengst strangari reikningsskap.
Honum dugar ekki hin ódýra afsökun:
Ég vissi það ekki, enginn sagði mér það, ég hef aldrei lært að þekkja sannleikann og aldrei hitt hann.

Jesús ávítar borgirnar. Allt frá því að Adam reyndi að fela sig á bak við runn milli trjánna, þegar Guð var á gangi í kvöldsvalanum í Eden, felur maðurinn sig á bak við eitthvað, til þess að þurfa ekki að horfast í augu við sjálfan sig.
Þá segir hann: Jesús ávítar borgirnar. Ekki mig og ekki íbúana yfirleitt.

Í guðspjallinu miðju er orðið sem öllu skiptir og allt veltur á. Það er orðið iðrun. Ástæða þess að Jesús fer svo hörðum orðum um borgirnar er að þar er engin iðrun. Iðrun verður ekki til með því að horfa á aðra. Iðrun vex innan frá og verður ekki til nema horft sé inn í eigið sjálf.

Gildir áminning Krists fyrir allar borgir, þjóðir og lönd þar sem guðspjallið hefur verið predikað, sakramentin um hönd höfð og krossmerkið reist. Já.
Eru orð hans og kenning grundvöllur að lífi kristins manns, eða er það bara siður einhverra fárra að lesa orð hans og hugleiða þau, meðan allir aðrir sinna kaupskap sínum og vakna aldrei til vitundar nema þegar einhver deyr, eða þegar barn er skírt og kannski fermt. Og er það víst að skírnarheitið og fermingarheitið séu einhvers virði í dauðanum ef þau voru aldrei rifjuð upp, eða þeim beitt í daglegu lífi?

Eru kannski allt um kring, í svökölluðu kristilegu umhverfi, þúsundir sem aldrei hafa í alvöru tekið við því samfélagi Krists sem geymir í sér kraft hans sem æðri er og meiri en allir kraftar þessa lífs, eru ekki hluti þess,
né heldur hluti af sigri hans sem sigrað hefur heiminn? En af því þau tóku ekki eftir því hvað játningin merkti, gætu þau sagt með sanni að þau hefðu aldrei mætt sannleikanum. Og sé svo, hver var það þá sem brást?

Er það kannski svo að enginn hafi kynnt fyrir þeim umskapandi öfl Guðs dýrðar, kraft Krists og endurleysandi mátt iðrunarinnar?

Er trúin kraftur til breytinga? Er máttur Krists lifandi veruleiki? Já. Og játning skírnarinnar og játning fermingarinnar er skráð á himnum og verður ekki máð af. En vægi hennar getur enginn metið nema Guð.

Hversvegna er hann þá ekki kallaður til liðs? Hversvegna göngum við ekki fram undir merki hans og segjum til dæmis: Kristinn maður beitir ekki ofbeldi, kristinn maður svíkur ekki undan skatti, kristinn maður ekur ekki ölvaður, kristinn maður hlýðir reglunum?

Því að Kristur gefur sjálfur kraft til þess að það sé hægt að segja það og framkvæma það og lifa eftir því, eins og hann hefur gert í samfylgd sinni í þúsund ár og eins og við getum vitnað um úr eigin lífi.

Kannski er of víða búið að spilla borginni og brjóta musterið. Kannski er ekkert eftir af trúnni nema lítill múr til að gráta við þegar sorgin tekur sér bólfestu í lífinu.

Besti faðir, barna þinna gættu,
blessun þín er múr gegn allri hættu.
Að oss hlúðu, hryggð burt snúðu,
hjá oss búðu,
orð þín oss innrættu.

Posulinn kallar okkur musteri heilags anda (1.Kor.6.19). Musteri þar sem orð Guðs á heima, og Jesús sjálfur býr. Hjá oss búðu, orð þín oss innrættu.

Kannski er ekkert eftir nema brot af múrnum kringum helgidóminn, til að gráta við. Ég á þá engan helgidóm lengur. Ég hef týnt honum. Hann hefur verið eyðilagður, en ég uppgötva það ekki fyrr en eitthvað hrynur í lífi mínu og hið falska öryggi er tapað. Ég hef misst það sem mér er kærast. Og ég græt við múrinn, og múrinn er kirkjugarðsveggurinn, og það sem eftir er af trúnni er vonin um að látinn lifir og að við hittumst aftur.

Í borginni eru margar kirkjur. Stundum fyllast þær af fólki. Þá er jarðarför.

Kæri söfnuður. Hvers vegna grætur Jesús?
Af því að hann elskar. Lifendur. Og látna.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2620.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar