Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Til þjónustu við lífið

17. júlí 2011

1. Kon. 8. 22-30, Op. 21. 2-5,  Jóh. 4. 14, 23-24

Lofið Drottinn allar þjóðir. Vegsamið hann allir lýðir, því að miskunn hans er voldug yfir oss og trúfesti hans varir að eilífu. Amen.

Gleðilega Skálholtshátíð! Guð blessi minningu og þökk sem leitt hefur okkur hingað á helgan stað. Skálholtshátíð er að þessu sinni öðrum þræði helguð því að 100 ár eru liðin frá fæðingu Sigurbjörns Einarssonar, biskups, sem hafði forgöngu um endurreisn Skálholts. Það var hann sem efndi til fyrstu Skálholtshátíðar árið 1949 sem markaði upphaf þjóðarvakningar. Á aldarafmæli hans er rétt og skylt að hans sé minnst og lífsverk hans þakkað hér í Skálholti. Það gerist með söng sálma hans hér og með málþingi sem hér var haldin í gær um þátt trúar og trúarbragða í sáttargjörð, meðal annars í ljósi rannsókna Sigurbjörns í trúarbragðafræðum og guðfræðilegri gagnrýni hans á þriðja ríki Hitlers. 

 Pílagrímar hafa í aldanna og þúsaldanna rás vitjað helgra staða. Biblían geymir bænir þeirra sem gengu til fundar við Guð á Síon, í borginni helgu, Jerúsalem. Samverjar héldu til helgistaðarins á Gerisímfjalli. Og samsvörun þessa má sjá í helstu trúarbrögðum heims, Mekka og Amritsar eru slíkir ákvörðunarstaðir pílagrímanna, Santiago de Compostella, já, og Skálholt. Þrátt fyrir allt sem aðskilur er það einatt sama löngun, sama þrá, sama þörf sem stýrir skrefum pílagrímsins sem á för sinni á stefnumót við almættið - og sjálfan sig.
Af því að þrátt fyrir allt er trúarþörf mannsins ólæknandi með öllu.
Á Þorláksmessu á sumri lögðu pílagrímar löngu liðinna alda leið sína hingað í Skálholt til að minnast  Þorláks biskups helga. Margt var honum til ágætis talið, en það minnilegast finnst mér það að haft var til marks um helgi hans að hann lastaði aldrei veður. Það þarf sannarlega helgan mann til þess á Íslandi! Um Þorlák helga sagði séra Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup, í eftirminnilegri prédikun hér á Skálholtshátíð í fyrra – og Guð blessi minningu hans - : „Helgi hans (:Þorláks) kom þó til af þeirri elsku sem alþýða manna bar til hans. Hinum fátæku og smáðu var hann linur og ljúfur velgjörðamaður. Réttlæti hans var hið kristna réttlæti sem sprettur af rótum kærleikans.“

Guðspjallið sem hér var lesið er úr samtali Jesú við samverska konu. Göngumóður og þyrstur hafði hann sest við brunninn þar sem hún kom að sækja vatn. Hann bað hana að gefa sér að drekka og þau fóru að ræðast við og tal þeirra berst að ákvörðunarstað pílagrímsins, hvar er Guð að finna? Jesús svarar: „…sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra tilbiðjenda. Guð er andi og þeir sem tilbiðja hann eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“
Eins og mörg undanfarin ár kom hér stór hópur pílagríma og setur svip sinn á samveru okkar hér í helgidóminum.
Þið, kæru pílagrímar, komuð göngumóð og þyrst í hlað eftir að ganga hina fornu slóð frá Þingvöllum til Skálholts. Þakka ykkur fyrir það, pílagrímar. Það er okkur hinum svo ómetanlegt að mæta ykkur hér og finna okkur hluta af þeirri göngu fram fyrir auglit Guðs. Þið eruð hluti stórrar sögu og samhengis. Þið genguð gegnum Guðs góðu sköpun, með undursamleg litbrigði sín og lífsmagn.  Þið funduð strengi og þreytu í vöðvum og sinum, mæði og lúa. Ferð ykkar var með sérstökum hætti vitnisburður um Guð sem er jafn í því sýnilega og ósýnilega, því líkamlega og andlega. Og hún er eins og mynd af því hvað kirkjan er, hreyfing, ferð, pílagrímsför. Gangan sjálf er líkamleg áreynsla, hvíld og endurnæring í áningarstað er áþreifanleg og eins samferðarfólkið, návist þess og nánd, sem gleður og uppörvar eða þreytir og tefur. Og þú sjálfur, þú sjálf, þitt innra landslag sem lýkst upp og sálarsárin sem minna á sig.
Trúin sem Kristur boðar og kirkjan sem hann helgar sér er ekki aðeins hugarástand eða draumsýn heldur áþreifanlegt samhengi, samferð á lífsgöngunni, þar sem þú ert aldrei einn á ferð. Um allt þitt ertu öðrum háður og aðrir háðir þér.  Og guðsþjónustan er áning á vegi. Lítil stund til að safna þreki til áframhaldandi ferðar. Ekki áfangastaður, afrekspallur eða endastöð.   Því gangan heldur áfram, þjónustan við Guð og menn heldur áfram, þjónustan við lífið á lífsgöngunni.
Og Kristur er hinn ósýnilegi förunautur, orðið sem varð maður á okkar jörð, sem mæddist á göngunni undir brennandi hádegissólinni, bað ókunnuga konu að gefa sér að drekka og leiddi talið að því sem eitt fær svalað sálu manns, það er Guð. Og hann minnir á hið lifandi vatn, sem er bænin og trúin: „Hver sem drekkur af vatninu er ég gef honum mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið sem ég gef honum verður í honum að lind sem streymir fram til eilífs lífs.“

Pílagrímar fyrri alda sem sóttu Skálholt heim komu til að líta skrín Þorláks helga og gera þar sín heit og bæn. Gulli slegið skrínið var borið í helgigöngum og pílagrímar lögðu fram fégjafir sínar. Söngurinn, reykelsisangan og stöðug þröng fólksins til að sjá og snerta skrínið og veita lotning, auðurinn og valdið sem hingað safnaðist af þessum sökum, allt hafði eitt markmið: Það var öðru fremur umhugsunin um og áhyggjan vegna dauðans. Að stytta dvölina í hreinsunareldinum, að létta kvöl hinna framliðnu.
Siðbótin á 16. öld var uppgjör við þetta. Hin evangeliska trú vildi leggja höfuðáherslu á lífið og náðina, hún var siðbót, endurbót trúariðkunarinnar, leyst úr ánauð verkaréttlætingar og sölumennsku, trú á vettvangi dagsins, hversdagstrú, súrdeigs, salts og ljóss, þjónusta lífsins. Hér í felum í fjósinu á Skálholtsstað var Nýja testamentið þýtt á íslensku, bókin semeinatt ögrar valdahroka og alræðisöflum fyrr og síðar, orðið sem boðar þessa björtu trú náðarinnar; þá trú sem er gjöf, eilíft líf og sáluhjálp er gjöf fyrir náð Guðs í Jesú Kristi. Trúariðkun kristins manns sé það að þiggja og bergja af þeirri lind, og fela sig og sína þeirri náð sem sekan sýknar og þjóna náunganum á vettvangi dagsins.  

Þessi áhersla siðbótarinnar varð til að svipta Skálholt og kirkju geypimiklum tekjum og verðmætum. En færði samt okkar þjóð ómetanlegan auð andlegra verðmæta. Þorláksskrín rykféll hér um aldir, uns - ég leyfi mér að segja - hrapallegt virðingarleysi upplýsingarinnar, svonefndu, braut það niður þegar dómkirkjan var rifin og góss hennar selt á uppboði. Það markaði eitt róttækasta hefðarrof sem íslenska þjóðin hefur lifað á ellefu alda sögu sinni.
Bara að forfeðrum okkar hefði auðnast að samþætta virðinguna vegna helgrar minningar og áhersluna á náð Guðs og nánd. En dæmum þá ekki! Horfum í eigin barm. Öfgar kalla alltaf á öfgar. Það þekkjum við sannarlega úr okkar köldu samtíð, okkar köldu öfgaöld.
Endurreisn Skálholts var stefnuyfirlýsing endurnýjunar menningar og trúarlífs á Íslandi á traustum grunni þess besta sem íslensk menning, saga, tunga og trú geymir. Þegar Skálholtskirkja var vígð árið 1963 sagði Sigurbjörn biskup í vígsluræðu sinni: „Vér heitum því Gissuri, að hér skuli í lifandi vitund landsins barna verða helgur höfuðstaður Guðs kristni á Íslandi. Vér heitum því Þorláki að hér skuli bent á hugsjón helgaðs lífs. Vér heitum því Brynjólfi að hér skuli krossinn tilbeðinn og bænin vaka. Vér heitum því meistara Jóni, að hér skuli Guðs orði þjónað og boðuð sú trú „sem blessar og reisir þjóðir.” Með slíkum heitum skal þessi kirkja vígð.“
Þetta var lífshugsjón og köllun Sigurbjörns. Og við skulum bæta við heitstrenging þess að heita honum að við sem kirkja og kristni í þessu landi leggjum rækt við að iðka þá góðu guðfræði, sem nálgast málefni samtíðarinnar í auðmýkt og í hollustu við huga og hjartslátt heilagrar, almennrar kirkju. Það er trú sem er lærisveinafylgd og pílagrímsferð, sem vakandi fyrir straumum og veðrabrigðum mannlífs og náttúru hlustar á Orð Guðs í auðmýkt. Það er lærisveinafylgd, næm á þarfir, neyð og kreppur samtímans, en lætur ekki tískustefnur trufla sig, af því að hún veit hvaðan hún kemur og hvert skal stefna: Til Krists, fram fyrir auglit hans.
Slíkrar siðbótar þarfnast okkar kirkja umfram allt.

Hin pólitíska og hugmyndafræðilega rétthugsun sem ræður för um þessar mundir ber yfirbragð siðbótar. „Siðbót“ vægðarlausrar vandlætingasemi, hroka og sjálfsréttlætingar sem traðkar í offorsi á því sem heilagt er. Kirkjan mun aldrei geta friðmælst við það ofstæki. Á dómstóli fjölmiðla og bloggheima er hvorki að finna náð né fyrirgefningu. Fyrir þeim dómi eru menn dæmdir sekir um leið og grunsemdir vakna, og verða að afplána refsinguna umsvifalaust í gapastokki fjölmiðlanna. Það er nöturleg mynd nýja Íslands. Það er auðvelt að örmagnast í eyðimörk ofstækis, gagnrýni og dómasýki í garð náungans. Iðrun, fyrirgefning, sáttargjörð spretta úr lind trúarinnar sem við þurfum framar öllu á að halda eigi þjóðin að rísa upp og dafna. Til að bergja af þeirri lind þarf auðmýkt og kærleika, bæn í anda og sannleika.
Sigurbjörn biskup lifði guðleysi og mannfyrirlitningu nasismans og kommúnismans, helstefnur sem gengu báðar fram fyrir skjöldu með framsækni og mannhyggju við stöng en gátu af sér ólýsanlegt ofbeldi og ógnir. Hann horfðist í augu við máttleysi kirkjunnar þjóna og guðfræðinga andspænis þessum og öðrum alræðisstefnum, þegar viðmiðið verður það eitt að vera gjaldgengur á þeim torgum þar sem hæst er hrópað. Hann var flestum mönnum glöggskyggnari á þau myrku djúp sem mannssálin geymir og hve auðvelt er að afvegaleiða trú sem og aðrar fegurstu kenndir manneskjunnar og virkja í þágu hins illa. Hann hafði oft á orði að djöfullinn ræðst fyrst á helgidómana og leitast við að saurga þá og hertaka. 

Í prédikun við setningu alþingis árið 1959 sagði Sigurbjörn: „Þróunin verður eins og spámaðurinn lýsir: „Ofbeldið rís upp sem vöndur á ranglætið,“ – vöndur á afhelgun mannsins. Það er eitthvað bilað sem ekki verður bætt, þegar helgin missir máls í hjarta mannsins, þegar altarið hverfur í augum hans. Altarið rýmir ekki nema viðurstyggð komi í sæti þess, viðurstyggð eyðileggingarinnar á helgum stað, það eru endalokin, samkvæmt fornhelgum spámannsorðum, þá fer feigð að mannlífinu. Þess vegna á engin rödd brýnna erindi en sú, sem talar frá altarinu… sá heilagi, góði vilji sem vill gjöra mannlega sál að musteri sínu, að frjálsum, fullveðja, ábyrgum, glöðum þegni og þjóni og barni þess ríkis sem er Krists…“   
Svo mörg voru þau orð.
Og nú erum við í áningarstað fyrir altar

i Skálholtskirkju á Skálholtshátíð, minnumst leiðtoga trúar okkar fyrr og síðar og bergjum af lind hins lifandi vatns til að fá styrk til áframhaldandi vegferðar. Í niðurlagi Jarteinabókar Þorláks biskups segir:„Nú megum vér þat at gera at … biðja þess almáttugan Guð … at hann gefi oss réttsýni meiri um várt ráð héðan frá en hingað til hefir verið ok meiri hlýðni til Guðs boðorða en áðr, göngu og gæfu til góðra verka, hraust hugskot várt frá illri óvenju og ónýtri munnshöfn, verk vár veraldlig frá allri þeirri iðni sem gagnstaðlig er hans vilja…“
Þá hvatningu skulum við taka til okkar og heita á Guð og alla góða menn og bjarta engla til fulltingis er við göngum út í birtuna til þjónustu við lífið!
Dýrð sé Guði….Amen

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2821.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar