Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Plógfarið

3. júlí 2011


Nú fullnaðist brátt sá tími er Jesús skyldi upp numinn verða. Beindi hann þá augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað. Og hann lét sendiboða fara á undan sér. Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum gistingu. En menn tóku ekki við honum því að hann var á leið til Jerúsalem. Þegar lærisveinar hans, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það sögðu þeir: „Drottinn, eigum við að bjóða að eldur falli af himni og tortími þeim?“ En Jesús sneri sér við og ávítaði þá [og sagði: „Ekki vitið þið hvaða andi býr í ykkur. Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum heldur til að frelsa.“] Og þeir fóru í annað þorp.
Á leiðinni sagði maður nokkur við Jesú: „Ég vil fylgja þér hvert sem þú ferð.“ Jesús sagði við hann: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“
Við annan sagði hann: „Fylg þú mér!“ Sá mælti: „Drottinn, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.“ Jesús svaraði: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu en far þú og boða Guðs ríki.“ Enn annar sagði: „Ég vil fylgja þér, Drottinn, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima.“ En Jesús sagði við hann: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.“ Lúk 9.51-62


Trúfasti Guð, í syni þínum Jesú Kristi hefur þú upplokið hjarta þínu fyrir okkur og gefið okkur hann að bróður. Hann sem sagðist hvergi eiga höfði að að halla, býður okkur heim. Við þökkum þér að við megum eiga heima í kirkjunni þinni. Hjálpa okkur að vaxa í trúnni og styrkjast í orði þínu. Gefðu okkur samfélag hvert við annað við borð þitt, hjálpa okkur að bera vitni um gæsku þína, hvar sem við erum, í öllu því sem við gerum og erum. Í Jesú nafni. Amen.

Kæri Þingvallasöfnuður.
Síðastliðinn fimmtudag, þann 30. júní voru liðin 100 ár frá fæðingu Sigurbjörns Einarssonar biskups. Þann 22. júlí næstkomandi eru 100 ár frá fæðingu hans góða vinar séra Eiríks J. Eiríkssonar, þjóðgarðsvarðar og Þingvallaprests. Séra Eiríkur var Þingvallaprestur nánast jafnlengi og séra Sigurbjörn var biskup. Það var alltaf mjög hlýtt á milli þessara heiðursmanna, það sá maður úr langri fjarlægð, en ekkert veit sá sem hér stendur meira um það  og er heldur ekki efni þessarar predikunar.

En þótt ekki hefði verið aldarafmæli þeirra væri  það ekki óeðlilegt að þeir tveir komi í hug þegar guðspjallið greinir frá þeim bræðrum Jakobi og Jóhannesi, sem Jesús gaf nafnið þrumusynir (sbr.Mark 3.17), þó að aldrei hefði þeim dottið í hug að segja það sem haft er eftir þeim bræðrum hér í guðspjallinu. En þegar þeir töluðu fór það ekki framhjá þeim sem heyrðu.
 
Séra Eiríks verður minnst við messu hér í kirkjunni þann 24.júlí næstkomandi. Séra Sigurbjarnar hefur verið minnst bæði á afmælisdaginn sjálfan og er minnst í mörgum kirkjum í dag.

Óhætt er að fullyrða að það þurfi að leita langt í sögu kirkjunnar í þessu landi til að finna kennimann sem skildi eftir sig jafn djúp spor og Sigurbjörn Einarsson. Við minnumst hans í þökk og virðingu og lofum Guð sem gaf okkur hann.

Sálmaskáldið Sigurbjörn er okkur ofarlega í huga í þessari messu er við syngjum sálma hans, sem svo oft áður. Einnig þar er hann kennimaður. Hann var kennari sinnar kirkju alla tíð. Þar gilti einu hvort hann talaði í virtasta fræðasamfélagi þessa lands eða við lítil börn og foreldra þeirra á kirkjugólfi. Predikunarstóllinn var staður hans, hvort sem hann var í raun stóll eða stétt. Það sem vafðist fyrir mörgum gat hann opnað og gert augljóst öllum. Til að nefna um það dæmi þá segir hann í hvítasunnupredikun:

Heilagur andi talar blátt áfram í ljósum vitnisburði Guðs orðs um það sem þér er vant og hvað  þú átt. Hann segir  þér hver þú ert og hvað Kristur á að vera þér. Til marks um það að þú hefur vissulega orðið  hans var eru einfaldar staðreyndir sem þú kannast vel við:

Hverju sinni sem nafn Jesú Krist kemur ú huga þinn, og þú finnur að hann er Drottinn þinn, friður hjarta þíns, líf sálar þinnar, þá hefur andi Guðs gert þig varan við sig. Ef þú kannast við að þú eigir að lesa bænirnar þínar og alltaf þegar þú hugsar til Guðs í bæn þá er það gjöf heilags anda. (Um ársins hring. bls. 113-14)

Þetta sagði Sigurbjörn. Og þetta er góður undirbúningur útleggingar guðspjallsins á þessum öðrum sunnudegi eftir hátíð heilagrar þrenningar því að það þarf sannarlega að ákalla heilagan anda og biðja hann að ljúka upp orði sínu og ljúka upp kirkju sinni á vegferðinni með frelsara sínum og Drottni.

Jesús er á leiðinni. Við með honum. Hann með okkur. Jesús sem sjálfur er vegurinn. Við núna. Á undan okkur önnur. Á eftir okkur enn önnur. Löng leið og löng samfylgd. Þar ber margt fyrir augu, fagurt og forkastanlegt. Og margt er það á þeirri leið sem leiðir til glötunar ef því er fylgt. Ekkert nema leiðin beint á eftir Jesú leiðir heim.

Eitt af þeim máltækjum sem af atvinnusögulegum ástæðum missa merkingu sína, er að leggja hönd á plóg.  Það merkir að verða að liði. Það merkir að hafa komið nálægt einhverju verkefni og tekið þátt í því. Allt í jákvæðri merkingu. Enginn vafi er á því að þetta er komið til okkar úr þessum texta sem er guðspjall dagsins. Að leggja hönd á plóg. En í inntaki orða Jesú er merkingin miklu dýpri en sú að verða að liði. Við eigum ekki að leggja hönd á plóg í öðrum tilgangi en að fylgja plógfarinu. Annars er plægingin ómarkviss og ónýt. Við getum ekki lagt hönd á plóg og horft til baka ef við ætlum að plægja beint.

Í túlkun Jesú er sá sem í yfirfærðri merkingu leggur hönd á plóg og horfir aftur ekki hæfur í guðsríki. Það þýðir að sá sem ekki stefnir markvisst þangað er ekki hæfur til inngöngu. Þetta getur valdið áhyggjum eins og margt annað sem Jesú segir í þessari guðspjallsfrásögn. Hér er ekkert bæði og. Hér er annaðhvort eða.

Við gætum spurt hvort þetta merki til dæmis að skírnin sem við treystum á að sé eins og aðgöngumiði að guðsríki, dugi ekki ef við treystum bara á hana, það er verknaðinn sjálfan, skírnarathöfnina sjálfa. Getur miðinn verið útrunnin?

Vikukort í strætó í Berlín rann út um hádegið. Maður heldur að maður hafi allan daginn.

Jesús er vegurinn.  En vegurinn er ekki öruggur í þeirri merkingu að þar geti ekkert hent. Á veginum með Jesú getur manni verið hent út eins og þeim sem hefur útrunnið vikukort.

Jesús er á leiðinni og þeir tóku ekki við honum. Segir guðspjallið.
Þeir vildu hann ekki.

Á leið Jesú komu til hans einstaklingar sem vildu fylgja honum. Og til annarra gekk hann að fyrra bragði og kallaði til fylgdar. Þegar maður heyrir þessi orðaskipti sem guðspjallið birtir, fer ekki hjá því að maður taki eftir því að þetta er sannarlega óvenjulegt guðspjall.
Er Jesús ekki frekar ósanngjarn? Það sem hann segir er ekki bara róttækt heldur gerir það manni bylt við. Að grafa föður sinn var á tímum Jesú ein merkasta skylda trúarlegs eðlis.  Með kröfu sinni um að maður eigi að boða guðsríkið en láta hinum dauðu hina dauðu eftir, kallar Jesús beinlínis  eftir því að óhlýðnast lögmálinu. Og meira en það maður gæti ályktað að hann gerði lítið úr djúpum tilfinningum eins og þeim að kveðaj látan ástvini. En aðalatriðið er ekki það að draga i efa sonarskyldur og tilfinngabönd.
Jesús er á leiðinni til Jerúsalem. Þar sem hann var uppnuminn.Guðspjallið er frásögn frá síðustu jarðvistardögum Jesú með lærisveinunum eftir að hann var upprisinn.  Það merkir hann er á leið að fullkomnunarmarki sinnar ferðar á jörðu. Hann stígur upp til himna,til að senda okkur andann heilaga.
Þetta er leið sendingar hans.  Og lærisveinar á sömu leið þurfa að læra að glíma við það hvað það táknar að fylgja Jesú. Í heilögum anda.

Upphaf frásögunnar setur allt framhald hennar í samhengi. Jesús leitar að herbergi og er vísað frá.
„Refar eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“
Ferðin með Jesú sem er öruggasta ferð sem við vitum um, er óvissuferð.

Þar mætum við spurningunni um takmark eigin lífs. Hvað gefur lífi mínu tilgang? Hefur Jesús Kristur beina aðkomu að takmarki og tilgangi lífsins eða er tilgangurinn þrá eftir öryggi innan eigin veggja? Er tilgangurinn þessa heims? Er hann að treysta Guði fyrir lífi sínu, eða treysta fjölskyldu sinni, sögu sinni, menntun, heilsu og bankareikningum?

Á hvað rekst samferðin með Jesú? Ekki bara á skyldur við fjölskyldu og vinnuveitendur.
Hvað er kirkjan? Jesús á gangi í söfnuðinum, sagði Bonhoeffer.
Ferðin með Jesú er ekki sumarleyfisferð með fyrirfram bókaðri gistingu og morgunverði.

Frásögn guðspjallsins byrjar sem sagt með því að Jesús er á ferð og er synjað gistingar: Skilaboðin eru þessi: Enginn getur treyst því að ferðin með Jesú sé auðveld ferð. En við reynum oft að gera hana auðvelda með því að vera að vísu með honum en vera þó að gera allt annað líka á sama tíma.
Hvernig getum við lifað í eftirfylgdinni og samverunni með Jesú en verið samt hluti þess samfélags sem gengur til vinnu, annast fjölskyldu sína og vini? 
Það er ekki hægt nema taka frá dag hvern tíma fyrir hann og sleppa því aldrei þó að margt sé á dagskrá. Hvar við finnum tíma og hvernig við finnum hann, er okkar val og skylda.
Sá sem vill plægja horfir fram. Ef hann horfir aftur, í samræmi við það sem búið er, fer hann í besta falli í hring.

Þeir urðu svo reiðir Jakob og Jóhannes við fólkið sem ekki vildi hýsa Jesú eina nótt að þeim datt helst í hug að það væri best að biðja um að eldur félli af himni yfir það fólk og eyddi því. Jesús hefur alltaf haft mikla ákafamenn í sínu liði sem fá hugmyndir sem engan vegin falla að hugmyndafræði hans sjálfs. En hann sendir þá ekki burt. Hann agar þá. Aftur og aftur, ef þarf.
Það er alltaf til fólk í okkar röðum líka sem vill beita skyndilausnum. Reka þjálfarann þegar liðið tapar, eða biskupinn ef kirkjan er í erfiðleikum.
 Páll postuli segir í Rómverjabréfinu. 7Guðs ríki er ekki matur og drykkur heldur réttlæti, friður og fögnuður í heilögum anda. Róm.14.7.

Við erum á ferð. Við erum kirkjan á ferð með Jesú Kristi. Fólk á ferð með Jesú er kirkjan. Kirkja sem ekki er á ferð með Jesú, er ekki kirkja. Bara fólk á ferð.

Kæri söfnuður. Við getum ekki skilist við þetta guðspjall öðruvísi en að horfast í augu við vanda kirkjunnar þessa dagana, á för með Kristi. Ekki bara vanda þjóðkirkjunnar, heldur líka kaþólsku kirkjunnar og raunar fleiri kirkna. Og ekki bara hér á landi, heldur vítt um heim.En okkur nægir sannarlega að hugsa um okkur.

Þýski guðfræðingurinn Dietrich Bonhoeffer sem nasistar myrtu í þann mund sem þeir voru að tapa stríðinu, samdi sérstaka syndajátningu fyrir hina svokölluðu játningatrúu kirkju í Þýskalandi. Hún nefndist svo af því að hún skildi sig frá hinni þýsk-kristnu kirkju. Bonhoeffer gerði þetta vegna þess að hann taldi hina játningatrúu kirkju hafa brugðist andspænis gyðingaofsóknunum.
Sú saga öll er ljótur blettur á kirkjunni, rétt eins og sá blettur á henni sem nú kemur æ betur í ljós, að innan hennar hafi þrifist annað eins ógeð og kynferðisofbeldi hverskonar, siðleysi og siðblinda, þegar fýsnir manna og lægstu hvatir þeirra eru látin ráða lífi og hegðun, allt á bak við fagra ásynd og fögur tjöld heilagrar kirkju, þegar jafnvel vígsla til heilags embættis er gerð að felubúningi saurugra athafna og bæði andlegs og líkamlegs ofbeldis, jafnvel ungra barna.
Andspænis þessu verður kirkjan að játa synd sína. Einnig í nafni þeirra sem ekkert geta játað lengur. Og þessari játningu verður að fylgja iðrun og yfirbót. Annars er hún ekki sönn.

Ég er þess fullviss að kirkjan getur haft gagn af játningu  Bonhoeffers, þó tilefni hans hafi verið annað. Hann segir til dæmis:
 

Játning syndarinnar gerist án þess að líta til hliðar til þeirra sem bera sömu synd. Að játa syndina útilokar allt annað því játningin tekur alla skuld á sig.  … Ekki með neinum öðrum hætti agar okkur Kristur sterkar en með því að hann tekur okkar synd skilyrðislaust og fullkomlega á sig. Hann játaði sig sekan af okkar synd og lét okkur ganga frjáls og laus. Þegar við meðtökum þessa náð Krists, frelsar hann okkur algjörlaga frá því að horfa á synd annarra.
Með þessari játningu fellur öll skuld heimsins á kirkjuna, á kristnina. Og þegar hún heykist ekki á kröfunni sem trúin sjálf, sem Kristur sjálfur gerir, heldur játar, opnast möguleiki fyrirgefningarinnar.

Og síðar segir hann.

Frjáls syndajátning er ekki eitthvað sem maður getur gert eða látið vera að gera. Hún verður af því að persóna Jesú Krists stígur fram í kirkjunni.  Kirkja sem er upptekin af því að horfa á sjálfa sig  hættir að vera kirkja Krists. 

Með því að kirkjan játar synd sína leysir hún einstaklingana ekki frá þeirra eigin syndavitund heldur kallar þá inn í samfélag syndajátningarinnar. Hið fallna mannkyn getur aðeins staðist þar sem Kristur dæmir. Undir þann dóm kallar kirkjan alla sem hún nær til.
Hinir mörgu einstaklingar falla saman í eitt í hinu sameiginlega ég kirkjunnar. Í þeim og fyrir þá þekkir kirkjan sína eigin synd.

Og svo hugleiðir hann predikun kirkjunnar, og skrifar:

Kirkjan játar að boðun hennar um hinn eina Guð sem fyrir alla tíma hefur opinberast  í Jesú Kristi og  þolir enga aðra guði sér við hlið, sé ekki nógu afdráttarlaus.

Kæri söfnuður. Ef boðun kirkjunnar er ekki afdráttarlaus, hversvegna skyldum við vænta þess að söfnuðurinn taki afdráttarlausa afstöðu með Jesú, á leiðinni?

Fylg þú mér, segir Jesús. Láttu allt annað liggja.
Fylg þú mér og tak upp það sem þú lést liggja.
Svo einnig það þjóni eftirfylgdinni.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var, og er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2220.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar