Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hildur Eir Bolladóttir

og eldspúandi dreki

10. júlí 2011

Ég var lítill Indíáni þegar ég týndist fyrst, það var á öskudeginum á Akureyri og ég var 5 ára. Ég man óttann eins og eldspúandi dreka innra með mér, skelfinguna yfir að vera skyndilega ein og bara fimm ára í miðju mannhafinu og indíanafjaðrirnar sem áður höfðu minnt á frelsi óbyggðanna drúptu höfði og stríðsmálningin blandaðist tárunum sem trítluðu niður kinnarnar. Í aðra röndina var líka dálítið spennandi að lenda í svona ævintýri, drekar eru spennandi í ógn sinni og fjarstæðukenndin bar mig áfram eins og í draumi, ævintýrið tók þó alveg nýja stefnu þegar gömul kona kom aðvífandi og teymdi mig hvatskeytslega til fundar við laganna verði. Þeir óku með indíánann litla um bæinn í tilheyrandi embættisbíl og drekinn hvarf til síns heima og satt best að segja örlaði á vissum vonbrigðum innra með mér þegar ökuferðinni lauk og indíáninn fann sína eigin þorpsbúa.
Það er vont að týnast en það er líka hræðilegt að týna.
Aldrei á ævinni hef ég orðið eins skelfingu lostin og þegar ég týndi frumburði mínum á stúdentagörðum í Reykjavík þar sem ég bjó á námsárunum. Hann var þriggja ára að leik við önnur börn og við foreldrarnir misstum sjónar á honum eitt augnablik með þeim afleiðingum að hann hvarf, já rétt eins og jörðin hefði gleypt hann.
Ég man máttleysið í fótunum, þegar hálftími var liðinn og hvorki fannst tangur né tetur af drengnum, enginn hafði séð hann, börnin ypptu öxlum. Eldri kona sem áttu sér einskis ills von keyrði upp að mér, skrúfaði niður rúðuna og spurði til vegar, ég hrópaði að ég gæti ekkert hjálpað henni barnið mitt væri týnt, í fyrsta skipti á ævinni var mér nákvæmlega sama um eigin dónaskap, ég þurfti ekki að þóknast neinum því barnið mitt var týnt. Tæpur klukkutími var liðinn og maðurinn minn var í þann mund að slá inn númer neyðarlínunnar þegar nágrannakona kom hlaupandi með drenginn í fanginu, ég lyppaðist niður og grét eins og barn, síðan húðskammaði ég drenginn eins og vanmáttugir foreldrar gera, þarna mætti ég aftur drekanum eldspúandi, mun ógnvænlegri en forðum norður á Akureyri.
Ástæðan fyrir því að okkur þykir svo skelfilegt þegar einhver týnist er það að við vitum ekki hvað viðkomandi hefur mátt þola. Að vita ekki um afdrif sinna nánustu er það erfiðasta sem hægt er að upplifa, að vita ekki um afdrif barna sinna er hrein martröð. Þeir foreldrar sem hafa horft á eftir börnum sínum sogast um niðurfall fíknarinnar þekkja þá martröð alltof vel. Drekinn eldspúandi tekur sér bólfestu innra með þeim og dvelur þar öllum stundum. Af samtölum mínum við foreldra þeirra barna hef ég lært að dauðinn er ekki það versta í þessu lífi, það er að horfa upp á þann einstakling sem maður elskar mest verða önnur manneskja og vita ekki hvað sú manneskja er líða, hvað hún er að hugsa og hvað hún er að aðhafast sjálfri sér og jafnvel öðrum til miska.
Forvarnastarf gegn fíkniefnanotkun ungmenna er mesta þjóðþrifaverk sem hægt er að vinna á þessu landi, Icesavedeilan er gæluverkefni við hliðina á því, það er enginn að fara að týna lífi sínu út af Icesave, engin vinna og ekkert fjármagn getur gert jafn mikið gagn eins og það að beina sjónum barnanna okkar að mannvænlegu lífi og þar hefur Jesús nokkur frá Nasaret mjög mikið til málanna að leggja, hvað sem mönnum annars finnst um kirkju hans, samfélag kristinna manna sem er jú borið uppi af stórum og breiðum lærisveinahópi.
Sagan af týnda syninum fjallar um ungan mann sem hefur fengið marga góðar gjafir í vöggu, skaparinn hefur nestað hann vel til lífsins eins og svo mörg mannanna börn, hann býr við gott atlæti, heilsu, elskandi fjölskyldu, já öryggi og skjól. En hann verður leiður og langar til að skoða heiminn, eins og gengur og gerist og faðir hans nestar hann til ferðar með kvíða í hjarta en líka von um að honum muni farnast vel. Þetta er svipað og við upplifum í fermingarathöfnunum í kirkjunni, þar sjáum við foreldrana horfa á barnið sitt sem er í þann mund að stíga fyrsta skrefið inn í fullorðinsárin og maður greinir drekafælni í augum þeirra um leið og gleðin yfir því að hafa fengið þennan fjársjóð í hendur er svo sterk og fölskvalaus, kannski þess vegna verð ég alltaf viðkvæm í þessum athöfnum, það er andrúmsloft vonar og ótta sem umlykur stundina og gerir hana svo áhrifa og lærdómsríka.
En syninum í sögunni, honum farnaðist ekki vel, eins og þið heyrðuð hér áðan þegar guðspjallið var lesið. Hann mætti fólki sem vildi draga hann inn í myrkur græðgi og taumleysis en þó umfram allt hugsunar og tilfinningaskorts.
Þetta er vinsælasta saga barnastarfs kirkjunnar, engin saga nýtur jafn mikillar athygli, það leggja nefnilega allir við hlustir þegar ljóst er að einhver er týndur, af því að það er svo hræðilegt og við erum í hjarta okkar samhygðarverur og viljum ekki að manneskjum líði illa, það er mikilvægur sannleikur sem er gott að heyra.
Ég nýt þess að segja börnunum þessa sögu, auðvitað vegna vonarinnar sem í henni býr, vegna drengsins sem nær að spyrna sér af botni eymdarinnar og rata leiðina heim, en þó nýt ég þess mest að fá segja börnunum frá Guði sem stendur á hlaðinu heima og skimar eftir þeim. Eitt er að vera týndur og annað að vita að enginn saknar manns. Samfygldin við Jesú Krist er staðfesting á að einhver muni sakna þín og það er svo mikilvægt vegna þess að allir upplifa einhvern tímann að vera týndir, ekki endilega sem litlir Indíanar á öskudegi heldur í enn erfiðari og ógnvænlegri kringumstæðum, sumir týnast í djúpi eigin sálar, aðrir týnast í meðvirkni, ofbeldi, einelti, fátækt, fordómum og fyrirlitningu, ofáti, ofdrykkju, græðgi og spillingu, þær eru jú margar leiðirnar sem liggja að heiman.
Týndi sonurinn varð hólpinn vegna þess að hann vissi að einhver biði hans, einhver sem elskaði hann, hann vissi að í lífi hans væri til nokkuð sem héti heim, hann vissi að í tiltekinni átt biði hans tilfinningalegt skjól, þess vegna fékk hann kraft til að spyrna sér frá botni. Það að gefa barni trú á algóðan Guð sem bíður þess og skimar eftir því sama hvað á dynur er eins og að gefa manni áttavita í óbyggðum. Við þurfum sem manneskjur að finna að þrátt fyrir allt, þá er til Guð sem stendur álengdar og reisir okkur við, Guð sem tekur ekki af okkur frumkvæði né frjálsan vilja heldur stendur álengdar og fylgist með og lætur sig okkur varða.
Sagan af týnda syninum er sagan um okkur og Guð, sú saga er raunar líka sögð í 139. Davíðssálmi sem er minn eftirlætissálmur, vegna þess að þar birtist sá Guð sem leitar hins týnda og frelsar hann.
Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.

Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það,

þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.

Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það,

og alla vegu mína gjörþekkir þú.

Því að eigi er það orð á tungu minni,

að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.

Þú umlykur mig á bak og brjóst,

og hönd þína hefur þú lagt á mig.

Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið,

of háleit, ég er henni eigi vaxinn.

Hvert get ég farið frá anda þínum

og hvert flúið frá augliti þínu?

Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar,

þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.

Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans

og settist við hið ysta haf,

einnig þar mundi hönd þín leiða mig

og hægri hönd þín halda mér.

Hér er lýst þeim Guði sem ekki einungist skimar eftir okkur á hlaðinu heima heldur gengur inn í aðstæður okkar og er þar sem við erum stödd hverju sinni, það er sá Guð sem birtist í Jesú Kristi, hann stýrir ekki vilja okkar en horfir á okkur með augum kærleikans, með augum þess sem hefur bara hagsmuni okkar að markmiði, um það vitnar líf hans og dauði og upprisa.
Forvarnir hefjast í frumbernsku, forvarnir gegn drekanum eldspúandi sem nærist á ótta og afskiptaleysi. Trúin er forvörn gegn því að týnast frá sjálfum sér af því að hún opinberar mannskilning sem helgast af frelsaranum Jesú Kristi og þeirri sýn sem hann hafði á fólk. Þeirri sýn að allar manneskjur væru mikilvægar og hefðu hlutverki að gegna í þessari veröld.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda amen.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2017.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar