Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Yrsa Þórðardóttir

Embætti frelsara ekki laust til umsóknar

3. júlí 2011

Það er svo margt öfugsnúið og erfitt í textum okkar í dag, meðal annars vegna þess að Jesús er einbeittur á sinni för til Jerúsalem og til himna, en það er eins og enginn megi fara með honum eða geti það. Þau sem biðja um að fylgja honum fá það svar að refir eigi sér greni en mannssonurinn hvergi skjól. Samt býður hann einum að fylgja sér, en sá vill aðeins fá að ljúka einu ætlunarverki fyrst, sem er að jarða föður sinn.

Ég held engan veginn að textar dagsins eða fagnaðarerindið almennt fjalli um að við eigum ekki að sinna jarðarför skyldmenna okkar eða megum ekki byggja okkur hús. Ég held að það sem um ræðir í dag sé þetta: Jesús fór sína för um lífið og dauðann til að frelsa okkur, við getum ekki farið þessa sömu leið og við eigum ekki að gera það. Við frelsum engan með okkar lífsgöngu, Jesús sá alfarið um það. Eftirfylgd við Jesúm felst þannig ekki í að gera eins og hann, hún felst í að horfa fram á við og halda einbeitt þeirri göngu áfram, göngunni í lífinu, göngunni til frelsis, sannleikans, réttlætis og lífsins í því frelsi og þeirri náð sem Jesús ávann okkur.

Sú ganga er óvænt því að auðmýktin og einfaldleikinn sem einkennir þessa göngu er okkur ekki tamur. Við erum ekki vön að ganga einbeitt í átt til himna og taka eftir gleðinni á gönguferðinni. Við erum vanari að gá hvort fólkið sem gengur þessa sömu götu gengur hraðar en við, er í flottari fötum, fær fleiri fréttir um sig í blöðunum og nýtur meiri vinsælda. Því að við þurfum á því að halda að fá einkunn og laun og viðurkenningu, það er ekkert skrýtið við það.

En textar dagsins segja eitthvað nýtt um lífsleiðina okkar og ævintýri á gönguför. Bæði í Orðskviðunum og í fyrra Korintubréfi er talað um hyggindi og vísdóm þann að þekkja Guð, að þekkja hið heilaga, hvort sem við erum álitin vitur eða ekki, hvort sem við fáum háa einkunn eða ekki, þá er það málið, að þekkja Guð.
Það eru ekki kóngar og keisarar, hallir og virki sem vernda okkur, heldur persónuleg vinátta við Guð sem býr hið innra með okkur, hvort sem fólk almennt veit það eða ekki. Og kraftur þess Guðs og vernd felst í persónulegri huggun, þögulli bæn, trú á réttlætið og ýmislegt annað sem er oftast ósýnilegt og ósannanlegt, en samt sterkara en allur máttur Rómarhers, sem var mjög sýnilegur úti um allt á tímum Jesú.

Á okkar dögum gætum við framreiknað textann úr Lúkasarguðspjalli, þar sem Jesús er í byrjun mjög einbeittur á leið sinni til Jerúsalem. Við gætum ímyndað okkur að vinkonur hans og vinir hafi verið með honum fyrir austan fjall, þar sem Jesús læknaði fólk og reisti upp dóttur háttsettrar konu á Selfossi. Svo varð alveg sérstök reynsla á Kambabrún: tveir spámenn birtast í ljóma og það verður alveg ljóst að Jesús er meiri háttar spámaður líka. En Jesús beinir sjónum sínum einarðlega að Reykjavík og vill halda ótrauður áfram. Nokkrar vinkonur snúa hinsvegar við og vilja fá gistingu í Hveragerði, en fólkið þar er á móti borgarstjórninni í Reykjavík og aðallega ríkisstjórninni, svo að það vill ekki hýsa Jesúm. Hans nánustu vinir sem nú hafa glöggt séð að Jesús er guðlegrar ættar, vilja að eldur og brennisteinn, náttúruöflin, himnarnir og Guð komi og tortími þessu vonda fólki í Hveragerði, enda er það hábiblíulegt að uppræta skuli þau sem standa gegn sjálfum Guði, en Jesús vill halda áfram för.

Ég held að almennt séð sé för Jesú ekki okkar för, við eigum ekki að ganga einbeitt upp til Golgata og láta krossfesta okkur, Jesús fór þá ferð, einu sinni, hún var farin þá í eitt skipti fyrir öll.
Jesús bar krossinn, hann getur axlað allar þær byrðar sem við leggjum á hann, en ef það er á einhvern hátt ekki nóg fyrir okkur, ef við finnum engan létti, þá er tvennt til í stöðunni: að við viljum samt bera krossinn til að finna byrðina og við reynum þannig að frelsa mannkynið, eða hin leiðin, að við öxlum okkar eigin byrði til að frelsa okkur sjálf og finnum við það að við getum það ekki. Kannski verðum við að reyna til að sjá að Jesús er löngu búinn að þessu.
En reynum að trúa því að ekkert sem við gerum mun frelsa mannkynið því að sú staða er ekki laus til umsóknar, frelsari mannkyns var og er Jesús en ekki við.

Er það hógværð sem okkur skortir eða raunsæi eða hvað er það sem fær okkur til að vilja fylgja Jesú svo vel að við ætlum okkur að verða hann? Er það misskilningur, kennir kirkjan okkur þetta?
Jesús sagði: enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki. Við ættum semsé ekki að horfa afturábak heldur fram á veg eins og Jesús sem beindi sjónum sínum til Jerúsalem, auk þess sem plógur er tæki sem stjórnað er með tveimur höndum og ef við snúum okkur við skekkist plógfarið og verður ekki beint því að átak handanna verður ekki jafnt.

Hver er okkar plógur og hvert er okkar plógfar? Svarið er að hluta til alveg skelfilegt, því að það skiptir í sjálfu sér ekki máli hvernig plógfarið okkar er, einkunnin verður alltaf sú sama, einkunn Guðs fyrir heilt ævistarf okkar verður sú sama hvort sem við erum með þráðbein plógför eða kræklótt, hvort sem við litum alla litabókina án þess að fara útfyrir eða allt er krassað í klessu. Einkunnin er: Þú ert þú og ég elska þig.

Sumum finnst þetta góð einkunn, en það eru bara aumingjar, er það ekki, sem sætta sig við fyrstu ágætiseinkunn en hafa ekki unnið fyrir henni. Við viljum frekar ganga pílagrimagöngur upp í móti með vindinn í fangið, steina í skónum, þjást, vera hetjur, ganga móti dauðanum og deyja fyrir trú okkar á bálkesti. Nei, annars, það er ekki gaman, við viljum strita og vinna og verða rík út af dugnaði okkar. En einkunnin verður alltaf sú sama. Guð segir: ég skapaði þig, þú ert þú út af því að ég segi það og ég elska þig.

Ha, ég sem er besta dóttir heims og á stærsta húsið og sem lengstu prédikanirnar og gef mikið til Hjálparstarfs kirkjunnar og sé um æðislegar útfarir í minni fjölskyldu og erfidrykkjan er dásamleg, allt heimabakað og handsmurt, dúkarnir úr kniplingum og ég lakkaði parkettið sjálf til heiðurs ættfeðrum mínum.
Einkunnin er sú sama, Gunna og Doddi í næsta húsi, sem eiga ekki einu sinni húsið og áttu ekki fyrir veitingum í erfidrykkju hjá sér, þau eru líka frábær í augum Guðs.

Lesum pistil dagsins aftur úr fyrra Korintubréfi:
Minnist þess, systkin, hvernig þið voruð þegar Guð kallaði ykkur: Mörg ykkar voru ekki vitur að manna dómi, ekki voldug eða ættstór. En Guð hefur útvalið það sem heimurinn telur heimsku til að gera hinum vitru kinnroða og hið veika í heiminum til þess að gera hinu volduga kinnroða. Og hið lítilmótlega í heiminum, það sem heimurinn telur einskis virði, hefur Guð útvalið til þess að gera að engu það sem er í metum. Enginn maður skyldi hrósa sér fyrir Guði. Honum er það að þakka að þið eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn okkur vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn. Eins og ritað er: „Sá sem vill hrósa sér hrósi sér í Drottni.“

Og þá getum við endurmetið Hvergerðingana eða í Lúkasarguðspjalli Samverjana sem vildu ekki hýsa Jesúm af því að hann var á leið til Jerúsalem. Lærisveinarnir vildu vera á óslitinni sigurgöngu og það átti vessgú að tortíma þeim sem sáu ekki að þeir voru í sigurliðinu með aðalmanninum, Jesú, sem sannarlega var Guð, þau voru loksins að átta sig á því, vinkonur hans og vinir. En Jesús lét það liggja á milli hluta, látið Samverjana vera, þau hafa sínar ástæður og þau eru í sjálfu sér ekkert á móti guðsríkinu, þau hafa sínar skoðanir og sína veraldarsýn.
Ég held að við í kirkjunni þurfum að æfa okkur í hógværð hvað þetta varðar, við vitum að við erum í sigurliðinu, þ.e. við erum einkavinir Guðs, en við kannski gleymum að verðlaunin fyrir það eru þau sömu handa okkur og handa þeim sem eru ekki í kirkjunni: Guð skapaði þennan heim og elskar allt fólk, alla sköpunina, jurtir, dýr, fossa, flúðir, andrúmsloft, þetta er allt saman sköpun Guðs, ekkert af þessu er okkur að þakka eða okkar verk og við sem erum í höklum og hempum og með mítur og bagal, við erum ekkert flottari. Við erum öll flottust, fólk af öllu þjóðerni er flottast, fólk sem talar íslensku eða portúgölsku er jafnflott og fólk sem talar swahili og baskamál.

Við ætlum að ljúka þesari helgistund með sálmum og bænastund og ég vil fela okkur öll þau bænarefni sem okkur hafa borist og allt sem okkur liggur á hjarta. Komum til Jesú, öll við sem erfiðum og þunga erum hlaðin og Jesús mun veita okkur hvíld. Ég vona að í þeirri hvíld getum við fundið hvað við getum gert hvert fyrir annað þótt við frelsum ekki þennan heim. En við getum lært virðingu, hjálpsemi og kærleika. Látum það verða okkar verkefni þessa vikuna. Amen

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2389.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar