Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Leiðin gegnum brim og boða og voðasker

5. júní 2011

Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“
Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.
Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“ Matt 8.23-27

Gleðilega hátíð, til hamingju með sjómannadaginn, hátíð hafsins, hátíð sjómanna. Guð blessi þennan dag, þá minningu og þökk sem hann markar í byggðum landsins.
Við höfum numið staðar í hér í Dómkirkjunni á minningar og bænastund í tilefni dagsins. Textar dagsins eru sjóferðasögur, og reynslusögur af því að hafa Jesú Krist með í för. Saga guðspjallsins af því er Jesús kyrrði vind og sjó er sögð í ljósi síðari reynslu þeirra af Golgata og páskum, að þessi sami Jesús og var með þeim í bátnum þarna í óveðrinu, hann gekk í dauðann og reis af gröf og lifir. Það sýndi að miskunnsemin, kærleikurinn, fyrirgefningin sem hann var og auðsýndi, var sterkari en öfl syndar, dauða, haturs og heljar. Og þess vegna var frásögnin færð í letur og er rifjuð upp sem vitnisburður um mátt sem er enn að verki, um kraft sem enn er virkur í heiminum okkar, um návist sem ekkert, alls ekkert, fær skilið okkur frá.
Í huga og reynsluheimi samtíma Jesú var vatnið, sjórinn, tákn eyðingar og dauða. En líka tákn lífsins, því án vatns visnar allt og deyr. Það þekktu þau sem bjuggu í þurruviðrasömu landi, þar sem eyðimörkin er á næsta leiti. Bátsferðin og óveðrið sem skyndilega skall á og guðspjallið segir frá verður í hugum þeirra og minningu eitthvað sem minnti á för forfeðra þeirra og –mæðra yfir Rauðahafið. Og hún verður líka eins og mynd af Golgata og gröfinni á páskadagsmorgni. Gegnum dauðans háska og hörmungar laukst upp leið, fær leið til lífs og framtíðar. Þegar barn er skírt og vatni ausið þá er það einmitt vísan til sömu reynslu, bylgjur dauðans viku fyrir öðrum mætti og sterkari. Jesús Kristur heitir hann, frelsari heimsins. Guðspjallið, já og öll tilvera kirkjunnar er vitnisburður um hann, um mátt hans og mildi sem er að verki í dag.
Við eigum fagurt land, tign og fegurð þess lætur engan ósnortinn. En „í ógnardjúpi, hörðum vafin dróma, skelfing og dauði dvelja langar stundir.“ – eins og listaskáldið góða orðar það. Þetta hefur þjóð okkar búið við í ellefu aldir. Og eflst við átökin þegar eyðingaröflin hafa leysts úr læðingi og skelfing og dauði eru drepin úr dróma, þá hefur þjóðin risið styrkari upp eftir hverja raun. En það er ekki náttúrulögmál! Landið okkar,„…álfu vorrar yngsta land“ er í stöðugri mótun, eins og verkstæði skaparans, þar sem hin sífellda sköpun á sér stað. Afl og orka elds og ísa eiga þar hlut að máli. Og svo er okkur ætlað að taka við að byggja mannlegt samfélag, til að hlú að lífi, efla, bæta, verja, græða og halda eyðingaröflunum í skefjum. Það er köllun okkar að vera þannig samverkafólk Guðs föður, skaparans, lausnarans, heilags anda. Það kemur ekki að sjálfu sér, það gerir kröfur til hvers og eins og okkar allra saman. Svo sem að gefa gaum að þeim öflum sem dvelja í ógnardjúpum sálarinnar.

Sjómannadagur er dagur minninga um þau sem sjórinn tók. Það er þó, Guði sé lof, liðin tíð að sjórinn krefji mannslífa í tugatali, eins og hér var fyrir nokkrum áratugum. Nú er engin stjarna í fána sjómannadagsins, enginn fórst á sjó á umliðnu ári, og er það svo í annað sinn frá 1938 er sjómannadagurinn var fyrst haldinn. Guði sé lof fyrir það. Tækniframfarir með bættum búnaði og eftirliti, sem og samstillt þjóðarátak í slysavörnum sem ótal einstaklingar, félagasamtök og hið opinbera hafa staðið að hefur skilað undraverðum árangri. Það er óumræðilegt þakkarefni. Þátttaka Landhelgisgæslunnar hér í messu sjómannadagsins, og nærvera fulltrúa björgunarsveitanna og löggæslumanna hér og þeirra mörgu sem standa í framvarðasveit þessara mála um land allt er tjáning þakklætis þjóðar og kirkju vegna þeirra allra.
Nú eru mestu mannfórnirnar færðar í umferðinni og af völdum áfengis og fíkniefna, sem er sannkallað þjóðarböl, sem við virðumst ótrúlega vanmegna andspænis. Sú skelfing og dauði sem þar snertir ótal einstaklinga og fjölskyldur í landinu er ægileg og með öllu óviðunandi!
Vímuvandinn er skelfilegt samfélagsmein. Svo virðist sem þröskuldar og hömlur hafi veiklast í takt við aukið öryggisleysi og viljaleysi hinna fullorðnu að setja mörk og framfylgja þeim. Það er andlegt og menningarlegt afl sem við er að etja, áfergja gróðaafla með öflug og þéttriðin net sölumanna dauðans. Þarna er við andlegt ofurefli að etja sem mótar lífsstíl neyslu og fíknar með áherslu á fullnæging langana og flótta frá sársauka lífsins og óttanum öryggisleysinu sem inni fyrir býr. Og veldur friðleysi og áþján. Hér er þörf þjóðarátaks, sem auk björgunar og meðferðarúrræða taki til hinna uppeldislegu, andlegu og siðferðislegu þátta sem helst veiti viðnám gegn menningu fíknar og hömluleysis. Eitt er víst að við getum aldrei bægt ógninni frá, reist varnamúra og viðbragðakerfi sem duga til að fjötra óvætti vímufíknarinnar. Tæknin dugar ekki gegn hinni andlegu vá, skelfing og dauða.

Ég man þegar við stóðum á sjógarðinum við Stokkseyri tengdafaðir minn, heitinn, sem hafði róið þarna í áratugi, allt frá fermingaraldri, og horfðum yfir skerjagarðinn. Þann dag skein sól á sundin blá, og glitraði á lónunum, úti fyrir braut brimaldan á boðum og skerjum og þyrlaði drifhvítum sædrifstrókum. Það var ekki auðvelt að ímynda sér aðstæður á fyrri tíð, þegar banabylgjan gat risið og slegið á augabragði með skelfing og dauða þeim sem fyrir urðu. Margar sögur gat hann sagt af slíku, gamli maðurinn, þótt ekki væri hann margmáll um það. Svo benti hann á hin ýmsu sker og kletta sem hver um sig átti sitt heiti: „Hér er Stál, og þarna er Háleygjaborg og þarna Trölllendur.“ „Þekktirðu öll þessi sker?“ spurði ég.„O, nei,“ svaraði hann. Og bætti svo við: „Það var nóg að þekkja sundið á milli þeirra.“

Mér er oft hugsað til þessara orðaskipta þegar fjallað er um forvarnir. Það er mikilvægt að þekkja hætturnar sem varast ber, skerin, boðana, grynningarnar. En það er annað sem er mikilvægara: Að þekkja og rata leiðina milli þeirra.

Skáldið Ísak Harðarson hugleiðir undur lífsins í ljóði sínu Ungar:

Sá eini sem snerti þá
er sá sem klæddi þá fiðrinu,
sá sem orti í þá beinin
og kveikti í þeim augun


sem að setti af stað hjörtun
- og hjarta þitt líka

og fyllti okkur óendanlegri
þrá

eftir sér.

Skáldið orðar hér hina kristnu staðhæfingu: Guð skapaði þig fyrir sig, fyllti þig óendanlegri þrá eftir sér. Hjarta þitt fær aldrei frið uns það hvílist í honum í trú. Þú finnur ekki veginn rétta, leiðina færu, ef þú gefur ekki gaum að því! Í gegnum lífsins æðar allar megum við heyra og skynja þrá skaparans, lausnarans, andans heilaga eftir því að við finnum veginn rétta, að hjörtu okkar ljúkist upp fyrir umhyggjunni, trúnni, voninni og kærleikanum. Að augu okkar ljúkist upp fyrir undri og fegurð lífsins. Til þess eigum við líka þau viðmið og þær andlegar orkulindir og aflstöðvar sem best dugðu Íslendingum á umliðnum öldum, í bæn og trú og umhyggju um lífið og náungann, og vonina, eilífðarvonina björtu. Þar lýkst upp færa leiðin gegnum brim og boða og voðaskerin öll.
Þetta þurfum við að kenna þeim ungu og beina athygli þeirra að þeim mætti sem snerti þau og orti í þau beinin og kveikti í þeim augun og setti af stað í þeim hjartað, og fyllti þau þessari óendanlegu þrá.
Minning hinna látnu er áleitin í dag. Og samkenndin með þeim sem syrgja og sakna. En það er ekki sorgin ein heldur líka huggun, það er söknuður og líka von, við þekkjum dimmu dauðans, en líka birtuna. Það er ljós, það er von sem nær út yfir dauða og gröf og eitt megnar að útrýma myrkrinu.
Af myndum minninganna um góðvild og gleði stafar birtu sem þerrar ótal tár. Þær minna með sínum hætti á að lífið er meir en tíminn, forgengileikinn og dauðinn. Lífið er neisti af því ljósi sem er meira en allt. Kristin trú kallar það eilíft líf, eilíft ljós. Guð er hjá þér í gleði og gæfu en líka á hættuslóð og háska, og í dimmu sorgar og saknaðar. Hann sleppir aldrei af þér hendi sinni. Trúin á hann, vonin og kærleikurinn eru mikilvægasta slysavörnin, og leiðsögnin á lífsferðinni.

Ráðgáta hins illa, gáta þjáningar og sorgar leitar svara en fær engin svör - hérna megin. Af því að hún er leyndardómur. Eins og gleðin, ástin, lífið, afl sköpunarinnar og dulrúnir lífsins, þetta eru leyndardómar. Þegar kemur að neyð og þjáningu og hamförum sem yfir dynja, þegar kemur að kvíða þínum, missi og sorg, þá gagna engar skýringar og skilgreiningar. En þjáning Krists á krossinum sýnir að Guð gengur inn í þjáningu þína, finnur til með, líður með, umvefur þig elsku sinni og greiðir þér veg lífsins. Og segir: hversu dimmt sem er í heiminum þínum, hversu sárt sem þig svíður þá er Guð hjá þér og vakir yfir þér og sleppir þér ekki. Guð sem gaf þér lífið og fyllti þig óendanlegri þrá eftir sér.
Ekkert í heimi hér er óbifanlegt og öruggt, nema Guð, góður Guð, faðir vor. Þar kemur að kærleikur hans verður allt í öllu og ummyndar líf og heim til sinnar myndar. En þangað til þá skulum við vera hughraust og vongóð og treysta návist Guðs og hlífð og rétta hvert öðru hönd umhyggju og kærleika.

Eins og hér kom fram áðan þá er fáni sjómannadagsins venjulega með stjörnum sem tákna þá einstaklinga sem farist hafa á sjó á umliðnu ári. Að þessu sinni engin stjarna. Horfum á fánann og þökkum þá hlífð sem við nutum á liðnu ári. Fáninn minnir líka á þau öll sem á umliðnum árum hlutu hina votu gröf. Við sameinumst í bæn fyrir þeim og ástvinum þeirra og sendum hugheilar samúðarkveðjur þeim og öllum sem syrgja og sakna.
Á þessari stundu verður lagður blómsveigur að minnisvarða óþekkta sjómannsins í Fossvogskirkjugarði í virðingu, þökk og samúð. Rísið úr sætum og við lútum höfðum í þögn.
Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú, Drottni vorum. Amen
Í Jesú náðar nafni. Amen.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2547.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar