Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Jóhannesson

Heilög þrenning, heilög kirkja

19. júní 2011

Náð sé með ykkur öllum og friður, frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi.

Í dag höldum við upp á þrenningarhátíð kirkjunnar – hátíð heilagrar þrenningar – eins og heyra má af ritningarlestrum dagsins og sálmunum sem sungnir eru.

Þrenningarhátíðin er ekki áberandi hátíð í okkar samfélagi og fáir kannast sjálfsagt við hana í dag, ólíkt því sem áður var. Hún er líka haldin í kjölfar stóru hátíðanna þriggja, jóla, páska og hvítasunnu, sem eru öllu þekktari hátíðir í okkar samfélagi, bæði innan kirkjunnar og utan.

Það má segja að þrenningarhátíðin sameini þessar þrjár stórhátíðir kirkjuársins í eina hátíð. Jólin minna okkar á að Guð faðir, skapari himins og jarðar, sendi son sinn inn í þennan heim í manninum Jesú frá Nasaret. Páskarnir minna okkur á upprisu Jesú frá dauðum, sem sýnir að Jesús var sá sem hann sagðist vera, sonur hins lifanda Guðs í heiminn kominn. Hvítasunnan minnir okkur síðan á áframhaldandi nálægð Guðs hér á jörð í anda sínum.

Þrenningarhátíð áréttar þetta allt í senn. Hún sameinar þetta og minnir okkur á að Guð er allt í senn faðir, skapari okkar, sonur, frelsari okkar, og heilagur andi, lífgjafi okkar: Einn Guð sem hefur að geyma þrjár persónur. Þríeinn Guð! Þannig opinberar Guð sjálfan sig.

Þetta hljómar kannski heldur háfleygt allt saman. Ýmsir lyfta líka bara öxlunum þegar þrenninguna ber á góma og spyrja hvað í ósköpunum við höfum eiginlega að gera við hana.

Og ef svo ólíklega vildi nú til að einhver myndi vinda sér upp þér og spyrja þig hvað heilög þrenning er, hvernig myndir þú svara þeirri spurningu?

Þetta er nú varla spurning sem margir velta fyrir sér dagsdaglega. Ég býst ekki við því að margir hafi nýlega tekið tíma frá daglegu amstri til að brjóta hana til mergjar. Og í ljósi þess styrs sem staðið hefur um kirkjuna undanfarna daga hljómar hún eiginlega eins og algjört aukaatriði eða jafnvel eitthvað sem litlu máli skipir þegar allt kemur til alls.

En raunin er önnur. Hér er um að ræða grundvallarspurningu. Og það má segja að kristinn maður þekkist á því hvernig hann svarar þessari spurningu.

Kristið fólk hefur sannarlega velt henni fyrir sér. Í gegnum aldirnar hafa kristnir guðfræðingar og hugsuðir gefið okkur ítarleg og oft háspekileg svör við þessari spurningu. Heilu bækurnar hafa verið tileinkaðar þrenningunni. Ég ætla þó ekki að reyna að endurtaka það sem stendur í þeim, því það er til mjög einfalt svar við þessari spurningu, svar sem allir skilja. Það er einfaldlega: Guð sem er kærleikur!

Guð er í sjálfum sér kærleikur. Það þýðir ekki aðeins að Guð elskar okkur heldur beinlínis að Guð er kærleikur. Guð er í eðli sínu kærleikur. Eins og við vitum þrífst kærleikur ekki einn. Kærleikurinn leitar alltaf út fyrir sjálfan sig – hann er persónulegur og skapandi. Hann þrífst ekki í einrúmi. Ef Guð væri aðeins ein persóna þá hefði sú lýsing að Guð er kærleikur enga merkingu. Kærleikur stafar alltaf frá einhverjum og beinist alltaf að einhverjum. Að Guð er kærleikur kallar því á að Guð hafi að geyma fleiri en eina persónu. Það er ekki unnt að gera grein fyrir þeim Guði sem er kærleikur án þess. Og sem kærleikur getur Guð ekki verið ópersónulegur eða óvirkur heldur er hann lifandi og persónulegur; eilíft samfélag föðurins sem elskar, sonarins sem er elskaður, og andans sem er eining kærleikans sem tengir þá saman.

Hvað þýðir þetta eiginlega?

Þrenningin minnir okkur einfaldlega á það hver Guð er. Hún tjáir þann leyndardóm sem Guð er. Þess vegna skiptir hún máli. Þess vegna getur kristið fólk ekki látið þrenninguna liggja á milli hluta. Þrenningin er Guð sjálfur.

Sá Guð sem við þjónum er ekki fjarlægur og ópersónulegur Guð heldur nálægur, virkur, skapandi og persónulegur; hann er Guð sem gekk inn á svið sögunnar, gerðist sjálfur maður, gekk inn í okkar líf, til þess að kalla okkur til og leiða okkur á vit nýs lífs; hann er jafnframt Guð sem er nálægur í anda sínum allt til þessa dags og miðlar í gegnum hann áhrifum sínum og kallar okkur öll til samfélags við sig í okkar lífi. Guð sem er kærleikur.

Og við erum kölluð til að vera eftirbreytendur hans og bera kærleika hans vitni í okkar eigin lífi, í gegnum hugsanir okkar, orð og verk. Í því er fólgið að vera kristinnar trúar.

Stundum tekst okkur það og stundum tekst okkar það ekki. Það á við um okkur öll með einum eða öðrum hætti. Það er líka saga kristinnar kirkju á öllum tímum.

Og það þarf ekki að koma á óvart. Kirkjan er auðvitað aldrei annað en þverskurður af því fólki sem heyrir henni til. Kirkjan er auðvitað ekki annað en samfélag þess fólks. Og líkt og allt annað fólk er það mistækt og ófullkomið að svo mörgu og miklu leyti, hvar sem það er statt í þjóðfélaginu, hvaða stétt sem það tilheyrir – og eru prestar þar vitanlega ekki undanskildir.

En sem betur fer stendur kirkjan ekki og fellur með því að við séum fullkomin og óskeikul, ófær um að gera mistök og misstíga okkur í hugsunum okkar, orðum og gjörðum. Væri það svo væri engin kirkja til og hefði aldrei orðið til. Þess vegna er líka svo gott að fá að heyra orð Páls postula, sem lesin voru hér áðan, sem minna einmitt á þetta: Að við stöndum ekki og föllum með eigin fullkomleika heldur eigum við allt okkar undir náð og miskunn Guðs, sem einn er fullkominn.

Já, við erum sannarlega ekki kölluð af Jesú vegna þess að við erum fullkomin. Þvert á móti. Jesús kallar okkur til nýs lífs einmitt vegna þess að við erum ófullkomin, breysk og mistæk. Til þess að kom Jesús, til þess að vísa okkur veginn til hins góða lífs, af því að við rötum ekki þangað sjálf í eigin krafti; af því að við villumst svo auðveldlega, og misstígum okkur svo oft.

Það er gott að hafa þetta í huga. Ekki síst í ljósi þess að það er mörgum svo auðvelt og freistandi að meta kristna trú – og jafnvel Guð sjálfan – í ljósi þess sem fer miður hjá kristnu fólki. En það megum við ekki gera. Við megum ekki láta þá umræðu sem nú stendur um kirkjuna – jafn mikilvæg og þörf og sú umræða er – skyggja á eða byrgja okkar sýn á þann grundvöll sem kirkjan stendur á.

Kirkjan er ekki heilög af því að hún er svo hátt upp hafin, óskeikul og fullkomin. Það er öðru nær. Hún er heilög vegna þess að hún – vegna þess að við og okkar líf – er vettvangur þjónustunnar við Guð, frátekin fyrir hana. Ef við lifum í því ljósi, ef við stöndum hvert og eitt á þeim grunni sem lagður er, sem er Jesús Kristur, og byggjum í auðmýkt líf okkar á honum og tökum mið af vilja hans, þá þurfum við ekki að óttast um kirkjuna okkar. Það er öðru nær.

Höfum það líka í huga að með þrenningarhátíðinni kemur nýr tími í kirkjuárinu, græna tímabilið, lengsta tímabil kirkjuársins, sem stendur allt til loka þess, fram að aðventu. Kirkjan breytir um lit. Græni liturinn helst í hendur við sumarið og gróandann og er til áréttingar á því að okkur ber að vaxa og dafna í samfylgd okkar með og þjónustu okkar við hinn þríeina Guð og bera ávöxt í okkar lífi sem eftirbreytendur hans. Leggjum okkar fram til að svo megi verða í kirkjunni okkar, í lífi okkar allra.

Ræktum garðinn okkar, hvert og eitt; trúna, vonina og kærleikann. Leitumst öll við að gera það. Leitumst öll við að opna hug okkar og hjarta fyrir Guði, föður, syni og heilögum anda, svo að hann fái rúm til athafna í okkar lífi og geti haft þar áhrif, skapari okkar, frelsari og lífgjafi, svo að allt okkar líf megi bera honum vitni, vilja hans og kærleika, svo að dýrð hans megi lýsa af okkar lífi, því að honum einum er dýrðin um alla tíma, í Jesú blessaða nafni. Amen.

* * * *

Lexía: 1Mós 18.1-5

Abraham sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum í Mamrelundi er Drottinn birtist honum. Honum varð litið upp og stóðu þá þrír menn frammi fyrir honum. Er hann sá þá hljóp hann til móts við þá úr tjalddyrunum, laut til jarðar og mælti:

„Herra minn, hafi ég fundið náð fyrir augum þínum þá gakk ekki fram hjá þjóni þínum. Mættum við sækja svolítið vatn að þið getið þvegið fætur ykkar og hvílst undir trénu? Ég ætla að ná í matarbita svo að þið getið styrkt ykkur áður en þið haldið lengra úr því að þið fóruð um hjá þjóni ykkar.“

Þeir svöruðu: „Gott og vel, gerðu eins og þú hefur sagt.“

Pistill: Tít 3.4-7

En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni. Það gerði hann í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega yfir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors. Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs.

Guðspjall: Matt.11.25-27

Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.

Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2880.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar