Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Gjafir andans

12. júní 2011

Ef þér elskið mig munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu, anda sannleikans. Heimurinn getur ekki tekið á móti honum því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig. En þann sem elskar mig mun faðir minn elska og ég mun elska hann og birta honum hver ég er.“ Jóh. 14.15-21

Guð, þú sem strýkur jörðina með mildum vindum

og vökvar hana með hlýju vorregni

svo að hún vaknar og grænkar og ber ávöxt.

Blás einnig nýju lífi í kirkju þína

svo að hún rísi upp 
með Drottni sínum og Herra Jesú Kristi 

og beri ávöxt  börnum þínum til blessunar

og þér til dýrðar, 
í Jesú nafni. 


Guðs  andi heilagi,

heyr þú er kirkja þín biður:

Kom þú í Orði og mætti,

endurnær börn þín.

Umskapa  lýð þinn sem landið. 
Amen
Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Gleðilega hvítasunnuhátíð.Kæri söfnuður.

Það er gott að halda hátíð heilags anda hér á Þingvöllum. Það er sérstaklega gott að þessu sinni vegna þess að við megum í því samhengi bera lítið barn að skírnarsánum. Ari Kristján sem hvílir áhyggjulaus í faðmi móður sinnar hefur nú verið borinn til Jesú og lagður í faðm hans í heilagri skírn með vatni og heilögum anda.
Það er lengur talað um börn í samhengi kirkjunnar en annarsstaðar Það er ekki bara talað um skírnarbörn og fermingarbörn heldur líka sóknarbörn og öll Guðs börn. Það er gott að minnast þess að við erum öll börn í einhverju tilliti og að sem betur fer megum við halda því áfram meðan við lifum.

Á þetta erum við minnt með sérstökum hætti hér á Þingvöllum. Hér er á vissan hátt vagga kristindómsins í þessu landi. Og þetta litla Guðs hús sem stenst engan samanburð við glæstar kirkjur heimsins og er eins og barn við hlið þeirra, stendur hér í öllu sínu látleysi sem vitnisburður um hið göfugasta sem við eigum. Og ef einhversstaðar er heilög jörð í þessu landi, þá hér.


Lestrar hvítasunnuhátíðarinnar sem við höfum heyrt hafa djúpa merkingu.

Í hvert sinn og nýr hvítasunnudagur rís erum við minnt á þann atburð þegar allir gátu heyrt talað til sín á því máli sem þeir skildu best. Á móðurtungunni. Andinn sem Jesús hafði heitið hafði þessi áhrif: Að tengja saman ólíka einstaklinga svo að þeir töluðu sama tungumál. Ef við tölum ekki sama mál þá týnum við hvert öðru. Ef við sem höfum verið borin að skírnarsánum tölum ekki það mál sem við höfum lært af Jesú Kristi, týnum við hvert öðru. Á það erum við minnt í hvert sinn og við komum með börnin til skírnar.
Við sem þiggjum lífið úr hendi Guðs, hverja mínútu okkar eigin lífs höfum tekið á móti þessu lífi sem eru börnin okkar, úr sömu hendi. Og okkur er trúað fyrir að vernda það líf. 
Við berum börnin til skírnar. Það er, við förum með þau aftur til Guðs og biðjum hann að helga þetta líf í nafni Jesú Krists og taka þannig barnið að sér aftur og létta af okkur þyngstu ábyrgðinni.

Við vorum skírð af því að Jesús mælir svo fyrir. Hann mælir einnig svo fyrir að þau sem skírð eru, verði lærisveinar hans. Verði trúnemar. Læri um hann og um sig sjálf. 
En ekki aðeins þess vegna erum við skírð. Í tvöþúsund ár trúa kristnir menn því og reyna það að manneskjan umbreytist fyrir heilaga skírn  og ástundun trúarinnar. Af því að Jesús lifir. Jesús vitjar okkar með heilögum anda sínum. Jesús breytir mönnum með anda sínum.

Hann setur kærleika til annarra í stað sjálfselsku og sjálfsvorkunnar, hann setur fyrirgefninguna í stað beiskju og haturs, hann setur umhyggju fyrir öðrum í stað afskiptaleysis. Allt þetta eignumst við í skírninni. 
Hvítasunnudagur er ein fegursta hátíð fermingarinnar og staðfestingarinnar. En skírnin verður ekki staðfest. Það er ekki hægt því að hún er fullkomin. En það er hægt að staðfesta samþykki sitt fyrir því að hafa verið borinn ómálga að skírnarsánum og það er hægt að staðfesta þann vilja að Jesús megi ganga við hlið okkar sem kennari og leiðbeinandi í lífinu af því að hann ætlar hverjum og einum eitthvað alveg sérstakt. Og síðan er hægt að staðfesta mótttöku á gjöfum skírnarinnar: ávöxtum andans, kærleika , góðvild, lítillæti, trúfesti og miskunnsemi.


Kristin kirkja á afmæli í dag. Við lítum í kringum okkur og í eigin hjarta og huga, og sjáum að það fer nú ekki alltaf mikið fyrir þessum gjöfum heilags anda hjá okkur sem þó segjumst tilheyra þessari kirkju og vera þessi kirkja.


Meðan ekki er kveikt í púðrinu þá er það bara duft, bara ryk eða aska sem feykist burt í vindinum og enginn verður var við þann sprengikraft sem í því býr.
Það er ekki hægt að segja ósegjanlega hluti. En það er hægt að túlka þá, til dæmis í tónum eða litum. Skáld í tónum og litum hafa komið til skila til okkar ýmsum leyndardómum trúarinnar, eins og þau myndverk sýna sem segja frá því þegar heilagur andi kom yfir  lærisveinahópinn og á þau settust tungur sem af eldi væru
Það þarf eld til að kveikja þann kraft sem því fylgir að játast undir merki Jesú Krists.  Annars gerist ekki neitt. Án hans verður engin kirkja til.

Heilagur andi er gjöf skírnarinnar. Hann staðfestir sig í játendum sínum aftur og aftur. Hann verður aldrei bundinn, hvorki við form né fólk. En hann gerir vart við sig, og hann gerir kröfur. Það sem skiptir máli trúarlega  er hvernig við reynumst sem kristið fólk. Hvernig við tökum á málum og hvernig við bregðumst við.
Það er afmælisdagur kirkjunnar. Ekki bara  þjóðkirkjunnar, eða lútersku kirkjunnar, eða íslensku kirkjunnar, heldur allrar kirkjunnar. Allrar kirkju Krists í heiminum, hvar sem hún er og hvað sem hún heitir. Það er afmæli þessa sérstaka samfélags milli Guðs og manns í Jesú nafni, sem kirkjan er. Hver er hún? Kirkja vors Guðs er gamalt hús. Kirkjan er oss kristnum móðir. Svona syngjum við. Kirkjan er Jesús Kristur á gangi með lærisveinum sínum, ungum og öldnum, konum og körlum, börnum og ungmennum. Kirkjan er líf í Jesú Kristi. Innviðir hennar er heilagur andi.Þjóðkirkjan fékk óvenjulega afmælisgjöf á afmæli sínu þetta árið. Gjöf sem hún hefði viljað vera án, gjöf sem hún þarf að hafa fyrir að meðhöndla og læra að nota.  Til gagns. Þessi gjöf til kirkjunnar er að hluta til dregin saman í bók rannsóknarnefndar kirkjuþings um meðhöndlun á máli Ólafs Skúlasonar. En umfang hennar er miklu stærra en svo að það komist fyrir á þessum liðlega 300 síðum skýrslunnar.


Það er vont og það er sárt að horfa til baka á alla þá atburði og þau atvik sem raðast saman og draga upp mynd.
Þetta er átakanlegur veruleiki af því að það mál sem hér er rætt er ekki einsdæmi og það er engin trygging til fyrir því að ekki geti komið eitthvað slíkt upp aftur.
Mál af þessum toga verka á samfélag þeirra sem trúa og tilheyra kirkjunni eins og það hafi orðið fyrir misþyrmingu. Auðvitað ætlumst við til þess að svona hlutir geti einmitt alls ekki gerst í kirkjunni. Það er eðlilegt að byrja á henni og gera mestar kröfur til hennar og annarra kristinna trúfélaga því að hún er kirkja.
Sannarlega eru prestar ekki öðruvísi menn en aðrir menn, en þeir hafa valið sér þetta sérstaka hlutskipti sem aldrei getur verið trúverðugt nema  sá eða sú sem það velur sé tilbúinn til að axla þá ábyrgð sem því fylgir og mælt er fyrir um í vígslubréfi prestanna: Þú skalt vera söfnuði þínum (sóknarmönnum þínum) til góðrar fyrirmyndar. Það er ekki bara í trúarefnum heldur í öllum lifnaði. Með hjálp heilags anda.
Hvar lendum við ef við getum ekki treyst þeim sem koma fram í nafni sannleikans, til þess að fylgja sannleikanum, heiðarleikanum og manngæskunni?Um leið verðum við að gæta okkur á fljótræðislegum áfellisdómum yfir fólki. Það er dómasýki og refsigleði í gangi í samfélaginu. Það eru afkvæmi reiðinnar sem fæddist í kjölfar þess hruns þegar allt hrundi, líka virðingin fyrir þeim sem voru í forustu, báru ábyrgð, ekki bara á bönkum og peningamálum, heldur á stjórn lands og þjóðar, stofnunum hennar og málefnum.

Jesú segir: Ef þér elskið mig munuð þér halda boðorð mín. … Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig. En þann sem elskar mig mun faðir minn elska og ég mun elska hann og birta honum hver ég er.“

Boðorð? Hvað merkir það annað en boðorðin 10? Jesús var spurður um æðsta boðorðið. Hann svaraði: 
„Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“ (Mark. 12.29-31)

Og í annan tíma sagði hann: 
Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað. Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh.13.34-35)

Í skýrslunni er aftur og aftur talað um mistök. Hvernig stendur á því að við gerum mistök, og hvað eru mistök?
 Mistök eru yfirleitt ekki langtímaverknaður heldur skyndiákvörðun. En mistök geta samt orðið til eftir vandlega íhugun og yfirvegun. Flest mistök verða til vegna fljótræðisákvarðana, vanþekkingar og aðgæsluleysis, og undir miklum þrýstingi ytri aðstæðna. 
Mistök merkir að eitthvað hefur verið tekið röngum tökum. Það hefur ekki verið fengist við málið eins og rétt var. Eða tekist á við það eins og rétt er miðað við eðli málsins eða viðfangsefnisins. Mistök eru þess vegna ekki hið sama og afbrot. En afleiðing mistaka getur engu að síður verið varanlegt tjón.

Gagnið sem við getum haft af þessari afmælisgjöf til kirkjunnar felst í þeim lærdómum sem af henni má draga. Þess vegna verður að lesa hana með bænagleraugum heilags anda. Annars gleymum við okkur í áfellisdómum en ekki lærdómum.

Í hinni gömlu tónbæn hvítasunnudagsins stendur: 
Guð sem hefur uppfrætt hjörtu trúaðara með ljósi þíns heilaga anda: Veit oss í sama anda þínum að vita hið rétta og ávalt að gleðjast af hans heilögu huggun.


Guðs  andi heilagi,
heyr þú er kirkja þín biður:
Kom þú í Orði og mætti,
endurnær börn þín.
Umskapa  lýð þinn sem landið.


Dýrð sé Guði Föður og syni og heilögum anda, um aldir alda. Amen

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2600.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar