Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Fjölnir Ásbjörnsson

Að snúa sér til Guðs

26. júní 2011

Einn úr mannfjöldanum sagði við Jesú: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“ Hann svaraði honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ Og hann sagði við þá: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“ Þá sagði Jesús þeim dæmisögu þessa: „Maður nokkur ríkur átti land er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gera? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta geri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð. En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“ Lúk 12.13-21

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi.

Eins og þeir sem sitja hér í Ísafjarðarkirkju vita flestir þá er ég óbreyttur sveitaprestur, ég bý í Holti í Önundarfirði og mínar sóknir eru Holtssókn, Flateyrarsókn og Kirkjubólssókn, auk þess sem ég hef ákveðnar skyldur við Ísafjarðarkirkju þar sem við erum nú stödd. Ég bý sem sagt úti í sveit og ég kaupi ekki dagblöð í áskrift vegna þess að þá kæmu þau með póstinum og þá í fyrsta lagi daginn eftir en ég fylgist með fréttum á netinu og í útvarpi og sjónvarpi. Flesta morgna fæ ég mér kaffi og fletti upp helstu fréttum á netsíðum eins og dv.is, visir.is og mbl.is.

Það er ekki eintóm gleði sem við manni hefur blasað í fréttum. Síðastliðnar vikur og mánuði hafa fréttirnar verið hörmulegar fyrir presta og alla þá sem unna kirkjunni. Nýr og nýr skandall lítur dagsins ljós og mann langar stundum mest til að gráta. Stundum fjalla fréttirnar um Þjóðkirkjuna, stundum um kaþólsku kirkjuna og stundum um aðra kristna söfnuði og fólk finnur fyrir reiði, hneykslun og sorg og margir hafa íhugað að yfirgefa kirkjuna.

Næsta haust hef ég verið prestur í 9 ár og ég hef alltaf verið glaður yfir því hlutverki að boða trúna á Guð álmáttugan og son hans Jesú Krist krossfestan og upprisinn, frelsara mannanna. En það hefur sært mig að sjá þegar prestar bregðast trausti en traustið er grundvöllur þjónustunnar. Fréttirnar hafa sýnt okkur að kirkjunnar menn hafa brugðist, ekki sinnt hlutverki sínu eða orðið sekir um hegðun sem hæfir ekki vígðum mönnum, hæfir ekki manneskjum ef út í það er farið. Ég er samt ekki algjörlega án vonar vegna þess að ég þekki marga góða presta sem ég myndi treysta fyrir öllu því sem mér þykir dýrmætt - lífi mínu og sál - ef því væri að skipta.

Í fjölmiðlum kemur fram að kirkjan njóti ekki trausts og að fólk sé að flýja kirkjuna. Þetta þykir mér ákaflega leiðinlegt vegna þess að mér þykir óendanlega vænt um kirkjuna. Nú kann einhver að segja: Nú vill hann láta vorkenna sér, honum þykir bara vænt um starfið sitt og launatékkann sem hann fær í hverjum mánuði.

Ég er ekki að biðja um vorkunn, en það er rétt mér þykir gott að vera starfandi prestur og mér þykir líka gott að vera í launaðri vinnu, við sjáum það best á umfjöllun fjölmiðla um atvinnulausa undanfarin misseri að það vill enginn vera atvinnulaus, hvorki ég eða einhver annar.

En mér þykir vænt um kirkjuna og ekki bara vegna þess að ég vinn hjá kirkjunni. Orðið kirkja hefur margskonar merkingu og á ég að segja ykkur hvaða kirkju mér þykir svona vænt um? Sú kirkjan hefur ekki félagaskrá sem hægt er að fletta upp í, hverjir tilheyra þeirri kirkju veit enginn nema Guð almáttugur en ég trúi því að hann haldi nákvæmlega utan um skráninguna.

Sú kirkja sem mér þykir óendanlega vænt um er samfélag fólks sem trúir á Guð og hefur Jesú Krist að leiðtoga í sínu lífi og leitast við að fylgja honum og taka mið af honum sama hvað gengur á. Það er ekki bara Þjóðkirkjufólk í þeirri kirkju, ég þekki kaþólska sem eru í þeirri kirkju, það eru hvítasunnumenn í henni, það er fríkirkjufólk í þeirri kirkju, í henni eru baptistar og sjöundadagsaðventistar og fólk úr öllum kristnum söfnuðum og í henni er fólk sem tilheyrir ekki nokkrum söfnuði.

Ég bið þá sem eru að íhuga úrsögn eða hafa nú þegar sagt sig úr Þjóðkirkjunni eða öðrum söfnuðum að snúa sér ekki frá Guði heldur til hans og halda opnum þeim möguleika að koma til baka til kirkjunnar þegar við höfum bætt okkur og höfum gert hina veraldlegu stofnun líkari því sem hún á að vera, líkari hinni raunverulegu heilögu kirkju Krists á himni og jörðu.

Ný siðbót, er það ekki það sem við þurfum núna?

Það má ekki vera nokkur vafi á því að presturinn eða safnaðarleiðtoginn gangi fram í hógværð og lítillæti, það má ekki vera nokkur vafi á því að hann gangi fram í kærleika og láti ekki stjórnast af neinu nema lönguninni til að breyta rétt, breyta samkvæmt orði Guðs og viljanum til þess að þjóna öðrum. Við þurfum að áminna hvert annað með vinarhug og einlægni. Söfnuðurinn þarf að styðja prestinn með bænum sínum og presturinn þarf að biðja fyrir söfnuði sínum og öllum Guðsbörnum og ekki síst þeim sem eru villtir og telja sig kannski ekki einu sinni vera börn Guðs vegna þess að þau halda að Guð sé ekki til.

Stendur ekki einmitt þetta í lexíu dagsins:

Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.

Heilög ritning er leiðarvísirinn sem við þurfum!

Þjóðkirkjan er hin evangelísk-lúterska kirkja vegna þess að fyrir nokkur hundruð árum villtist kirkjan af leið og til þess að ná stefnunni á ný varð að fara aftur í Guðs orð og lesa það gaumgæfilega vegna þess að allt sem við þurfum að vita til að ná áttum er fólgið í Biblíunni. Þetta hefur verið gert áður og þetta er hægt að gera aftur.

Fagnaðarerindið um Jesú Krist, son Guðs, krossfestan, dáinn og upprisinn mönnum til frelsunar er það sem við þurfum að einblína á og hafa ætíð fyrir augunum vegna þess að ég trúi því að það sé það eina sem getur bjargað kirkjunni okkar, þjóðfélaginu okkar og okkur sjálfum.

Sem betur fer fyrir óbreyttan sveitaprest á Vestfjörðum er boðskapurinn einfaldur og skýr:

Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra.
Þú skalt elska Guð af öllu hjarta og náungann eins og sjálfan þig.
Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.

Þetta eru grundvallaratriðin, skýr eins og gull

En tengjast mál kirkjunnar undanfarin misseri á einhvern hátt texta dagsins? Já ég tel svo vera. Það má lesa margt út úr texta dagsins, eitt er það að við berum ábyrgð, það kemur að því óhjákvæmilega að við stöndum frammi fyrir Guði og verðum að gera grein fyrir því sem við höfum gert og því sem við höfum vanrækt.

Í guðspjalli dagsins er Jesús að kenna lærisveinum sínum að þeir skuli óttast Guð einan og þá er hann skyndilega truflaður af manni sem telur sig hafa orðið fyrir óréttlæti og er óánægður með það hvernig föðurarfi hans hefur verið skipt milli hans og bróður hans. Einhver úr mannfjöldanum var ekki alveg að fylgjast með og sagði við Jesú:

„Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“

Það er ákveðin hughreysting í því fyrir prest að lesa þennan texta og sjá að jafnvel Jesús hélt ekki alltaf athygli allra. Líklega er það mannlegt eðli að láta hugann reika, meira að segja þegar við ættum að vera að fylgjast með af fullri athygli.

Maðurinn í guðspjallinu var ekki að hugsa um það að óttast Guð heldur var hann að hugsa um peninga og hafði skyndilega komist að þeirri niðurstöðu að bróðir hans hefði snuðað hann. Jesús lætur ekki draga sig inn í þá deilu en svarar honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ Og hann sagði við þá: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“

Umfjöllunarefni dagsins er sem sagt peningar. Ekki uppáhalds umfjöllunarefnið mitt en maður fær ekki alltaf allt sem maður vill. Guðspjallið er einmitt lýsandi dæmi um það að orð Jesú Krists eru eilíf sannindi. Núna vitum við Íslendingar ýmislegt um peninga og við vitum að þessi orð Jesú eru sönn.

Hrunið, eins og við köllum það, hefur haft áhrif á okkur öll. Boðskapur guðspjallsins hefði getað sparað okkur mikil leiðindi ef við hefðum tekið það til okkar fyrr.

Gætið ykkar og varist alla ágirnd, segir Jesús

Ágirnd er ekki góð, ágirnd er hættuleg, Hversu mörgum fjölskyldum hefur ágirndin ekki sundrað? Hvað hefur græðgin eyðilagt margar sálir og mörg líf? Jesús skynjar það að deilan um arfinn er einkenni á stærra vandamáli það vandamál er ágirnd en Jesús segir honum að það mikilvægasta sé að hann breyti hjarta sínu og viðhorfi, það sem máli skiptir er að vera ríkur hjá Guði og hvernig maður fer að því kemur fram í fyrra Tímóteusarbréfi sem við heyrðum áðan;

Bjóð þeim að gera gott, vera ríkir að góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og munu geta höndlað hið sanna líf.
Þar höfum við það. Einföld ráð, beint úr heilagri ritningu en því miður er tíðarandinn ekki alltaf á sama máli.
Milljónamæringurinn Malcolm Forbes endurspeglaði ríkjandi viðhorf þegar hann sagði: Sá sem á mest af dóti þegar hann deyr vinnur. Dæmisaga Jesú segir hið gagnstæða, sá sem á mest af dóti þegar hann deyr vinnur ekki. Sá sem safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs er sá sem tapar stærst. Sá sem hefur byggt líf sitt á trú, von og kærleika er hinn eilífi sigurvegari.

Ríki maðurinn lifði sínu lífi eins og Guð væri ekki til, sá ekki að uppskeran sem hann naut var frá Guði og taldi sig geta ráðstafað henni af eigin geðþótta. Slíkur hugsunarháttur á rætur sínar að rekja til þess að það sé ekkert líf eftir dauðann og enginn Guð, og þess vegna reynum við að hremma það sem við getum meðan færi er á og síðan að halda því eins lengi og mögulegt er.

Heimskinginn er sá sem hefur ekki sýn á hinn sanna tilgang lífsins sem er líf með Guði bæði hérna megin og hinumeginn grafar. Það er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að þann sem Guð kallar heimskingja kallar heimurinn oft hvað… algjört suksess, er það ekki?

En auður hefur einn megin galla, þegar lífið hefur fjarað út hafa auðæfi ekkert gildi lengur. Sá sem er ríkur í augum Guðs er sá sem hefur notað það sem Guð gaf honum í þágu annarra.

Í gamla barnaskólanum í Holti er ennþá mikið af gömlum blöðum og bókum og þar rakst ég á tímaritið Samvinnuna, í 9. tölublaði þess frá 1946 er smásaga eftir Leo Tolstoy í þýðingu Magnúsar Guðmundssonar, sagan heitir: Hvað þarf maðurinn mikið land?

Sagan segir frá óðalsbóndanum Phakom sem var ekki sáttur við sitt hlutskipti en vildi stöðugt meira. Einn daginn fær hann frábært tilboð, fyrir 1000 rúblur fær hann allt það land sem hann getur gengið í kringum á einum degi en hann verður að vera kominn á upphafsstað sinn við sólarlag. Um morguninn lagði hann af stað og gekk rösklega, um hádegi var hann orðinn þreyttur en hélt samt áfram. Um kaffileytið gerir hann sér grein fyrir því að græðgin hefur leitt hann langt frá þeim stað þar sem hann hóf göngu sína. Þegar sólin tók að síga á himni fór hann að hlaupa því að hann vissi að ef honum tækist ekki að komast til baka fyrir sólarlag væri draumurinn um enn meira landrými fyrir bi. Þegar sólin tók að síga bak við sjóndeildarhringinn sá hann loksins staðinn sem hann stefndi á. Hjartað barðist í brjósti hans og með öndina í hálsinum tókst honum að neita sinna síðustu krafta til að skjögra í mark. Um leið og hann kom á leiðarenda féll hann niður, blóð lak úr munnvikjum hans og nokkrum mínútum síðar var hann allur. Síðustu orðin í sögunni eru þessi: Vinnumaður Phakoms tekur skófluna, og grefur honum gröf, nægilega stóra fyrir líkama hans, sex fet á lengd og tvö á breidd. Nú þarf hann ekki meira landrými.

Boðskapur sögunar er: Látum ekki ágirndina hlaupa með okkur í gönur. Lífið er flókið viðfangsefni en samt sem áður má draga það saman í einfalda spurningu: Ætlum við eingöngu að lifa fyrir okkur sjálf eða ætlum við að lifa fyrir þjónustuna við Guð og náungann?

Spurningin er einföld, svarið líka en það er eitt að segja og annað að gera. Hrunið kom okkur öllum til að hugsa og breyta. Hin ýmsu skipsbrot kirkjunnar hafa komið okkur öllum til að hugsa og nú þurfum við hugarfarsbreytingu, vitundarvakningu sem aðeins getur orðið ef við snúum okkur í einlægni í bæn til Guðs og förum aftur í grunninn sem er orð Guðs og grandskoðum, íhugum og breytum í samræmi við það . Verum heil í öllum hlutum, leikir sem lærðir, og gerum það sem er rétt, okkur öllum til heilla: Þjónum náunganum í kærleika alla daga, allt til enda veraldar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verða mun um aldir alda amen.

Takið postullegri blessun

Náðin drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með oss öllum. Amen

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2371.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar