Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Arna Grétarsdóttir

Fimm rósir

1. maí 2011

Fimm rauðar rósir.

Í dag langar mig að fara með ykkur í göngu. Mig langar að ganga með ykkur göngu hinna fimm rauðu rósa. Páskagöngu og lífsgöngu.
Við erum stödd á pálmasunnudegi. Jesús kemur ríðandi á asna inn í Jerúsalem og fólkið fagnar honum ákaft með pálmagreinum og fagnaðarhrópum.
Kór: Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins
Við vegkantinn þar sem Jesús ríður fram hjá standa fimm fallegar rósir. Rósirnar voru eitt sinn fræ sem fengu að vaxa og dafna vegna þess að þau voru vökvuð og fengu næringaríka mold. Það var einhver sem hlúði að rósunum. Þess vegna uxu þær og urðu stórar og fallegar rauðar rósir.
Þær vissu ekki um tilgang sinn eða tilvist en þetta er þeirra ferðalag.
Það er skírdagskvöld og Páskahátíðin nálgast og Jesús hefur boðið vinum sínum til kvöldverðar. Við erum stödd í loftstofunni, í risinu þar sem síðasta kvöldmáltíðin fór fram. Á borðinu sjáum við rósirnar fimm sem standa þarna þétt saman í fallegum blómavasa. Konurnar höfðu lagt svo fallega á borðið og skreytt það fallegum fimm rauðum rósum. Jesús hóf að þvo fætur lærisveina sinna. Þetta voru skítugar, rykugar, þreyttar og illa lyktandi fætur. Það gerði ekkert til því ilmurinn af rósunum fallegu og víninu og brauðinu gaf svo ljúfan angan. Svo sagði Jesús við lærisveina sína áður en borðað var og vínið drukkið:
Bassi: Gjörið þetta í mína minningu
Já, og það höfum við gert. Minnst Jesú í brauði og víni í borðsamfélaginu við altarið. Þar lofaði hann að vera nálægur í kærleika með sinn frið og fyrirgefningu.
Jesús vissi að hann yrði svikinn. Hann gekk með nístandi sársauka í brjósti sér því hann vissi að vinur hans myndi svíkja hann vegna peninga, annar vinur hans myndi ekki þykjast þekkja hann. Hann vissi hvert þessi svik myndu leiða hann. Svik eru sár, svik meiða sálir bæði þeirra sem svíkja og þeirra sem eru svikin. Svik hafa líka afleiðingar, mis alvarlegar þó. Þessi svik höfðu mjög alvarlegar afleiðingar. Seinna sama kvöld var Jesús handtekinn.

Það er kominn föstudagurinn langi. Allt sem er erfitt virðist lengi að líða. Þess vegna var ÞESSI föstudagur mjög langur. Hann var mjög erfiður og sorglegur. Jesús er dæmdur af lýðnum þó hann sé saklaus. Hrætt fólkið sem áður fagnaði með pálmagreinum hrópar nú af ákefð:
Kór: Krossfestum hann, krossfestum hann, krossfestum hann.
Jesús var saklaus en samt nelgdur upp á kross, þvílíkt grimmd, þvílíkt óréttlæti. Grimmdina og óréttlætið þekkjum við vel. Sjáum það alltof oft og finnum líka stundum fyrir því. Rósirnar okkar góðu liggja upp við krossinn. Konurnar höfðu tekið rósirnar með sér og lagt við krossinn hans Jesú.
Fimm rósir. Fimm svöðusár Jesú. Dauði og djöfull.
(Leggja á altarið fimm raudar rosir)Sár á höndum og á fótum og eitt á síðu hans. Á skírdagskvöldi í kristnum kirkjum eru rósirnar fimm oft lagðar á svartan dúk yfir autt altarið.
Rauðar rósir tákna kærleikann og blóð Jesú táknar líka kærleika. Merkilegur þessi kærleikur Guðs sem birtist svo skýrt í fórninni á krossinum. Ætli það sé einhvern tíma hægt að skilja þennan kærleika mitt í óréttlætinu, mitt í svikunum, mitt í dauðanum.
Rósirnar liggja við krossinn. Líkami Jesú er tekinn niður af krossinum og hann lagður í hvít klæði og settur inn í dimma gröfina.
Á páskadagsmorgni ganga konurnar með rósirnar fimm að gröf Jesú. Vilja setja þessar fallegu rósir við gröfina til minningar um mann sem var þeim svo mikilvægur og kær. Mann sem var svo sérstakur. Hann var vinur þeirra, kennari og bróðir. Þessi skref þekkjum við svo vel, að fara með blóm á gröf látinna ástvina.
En hvað er það sem þær sjá og upplifa? Steininum velt frá! Gröfin tóm! Hvar er Jesús?
Engill birtist þeim og segir við þær:
Sópran: Hann er ekki hér, hann er upprisinn. Kristur er upprisinn.
Kórinn: Kristur er sannarlega upprisinn

Gat þetta verið rétt sem þær heyrðu. Undarlegt hvað sorgin breytist snögglega í gleði. Sorgarfréttir í gleðifréttir. Fagnaðarboðskap sem allur kristindómurinn byggir á. Það tók tíma fyrir konurnar að skilja þetta og enn lengri tíma fyrir karlana. Kristur er upprisinn og þess vegna get ég sagt af hjarta, með tungu og munni mínum. „Ég mun ég rísa upp“. Ég mun rísa upp aftur þegar ég geri mistök, það kenndi Jesús svo skýrt þegar hann var á lífi. Og hann hélt áfram að kenna, líka í dauða sínum og upprisu. Ég mun rísa upp aftur þegar ég dey, vegna Jesú. Er þetta ekki dásamlegt!
Lífið sigrar. Gleðin sigrar.
Rósirnar okkar rauðu eru rauði þráður trúarinnar. Rósirnar eru trúin okkar sem við þurfum að vökva og gróðursetja í næringarríka mold svo hún fái að vaxa og dafna. Lifa hér og nú, finna til, gleðjast, syrgja, tapa og sigra, trúa.
Upprisu undrið tjáir á hverjum einasta sunnudegi í kirkjunni okkar hina djúpu og fullkomnu gleði sem fæst aðeins með því að kynnast dauðanum, sorginni og óréttlætinu. Þegar við þekkjum þessar víddir lífsins þá getum við auðveldlega valið stefnuna. Valið að vökva rósirnar í garðinum okkar. Vökvað lífið sem nær fram yfir gröf og dauða.
Brandari Guðs á páskunum var að hann hló af illsku heimsins, hló af djöfli og dauða. Hló af hiki og hló af svartsýni sem vill frekar trúa á föstudaginn langa en páskadag.
Svo getum við bara valið hvort við viljum hlæja með Guði. Hvort viljum við lifa í föstudeginum langa eða páskunum?
Rósirnar okkar eiga sér líf sem hefst í moldu, líf sem blómstar þrátt fyrir þyrna og arfa, líf sem deyr, verður að moldu og rís svo upp að nýju, ef hlúð er að með næringu kærleikans.
Þær segja samt alltaf sömu söguna, öld eftir öld, ár eftir ár, dag eftir dag. Segja söguna um ástarjátningu Guðs til manna. Að lífið, gleðin og kærleikurinn sigrar!
Finnst ykkur svo ekki merkilegt að Guð hafi skapað þyrnana með rósum?
Og nú ætlar kórinn að syngja söng fyrir upprisinn Jesú, Drottinn vorn og frelsar. Og við skulum fagna og gleðjast! Þjóna Drottni með gleði og náunganum með kærleika.
Kór: My heart is yours
(Kórinn dreifir rósum til kirkjugesta meðan sungið er.)

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2275.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar