Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Sigur lífs og vonar

24. apríl 2011

Hr. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, prédikar

Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.

En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“

Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.Matt. 28. 1-8

Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn! Gleðilega páska.

„Þá varð landskjálfti mikill“ segir Matteus guðspjallamaður er hann reynir að setja reynslu páskadagsmorguns í orð. Landskjálfta þekkjum við, Íslendingar, og við vitum hvílík firn þar geta gerst. Þegar grunnstoðir jarðar bifast og bresta er manneskjan ofursmá og varnalaus. Matteus nefnir annan jarðskjálfta skömmu áður. Það var þegar Guðs sonur gaf upp andann á krossinum. Þá myrkvaðist sólin og jörðin skalf og björgin klofnuðu, segir hann. Hann er að segja að sólin blygðaðist sín og jörðin bylti sér í angist yfir þeirri ógn og óhæfu sem þær urðu vitni að, þegar Guð laut í lægra haldi, þegar hatrið og heiftin, syndin og dauðinn hrósuðu sigri. Á þriðja degi rann upp sól með nýjan dag á jörð og engill Drottins steig ofan og velti steininum frá grafarmunnanum og hinn krossfesti reis upp af gröf sinni.

„Þá varð landskjálfti mikill“ segir Matteus. Hann einn nefnir það. Kannski hafði hann lifað jarðskjálfta og fann í þeirri reynslu þá einu samsvörun sem í raun og veru gat tjáð það umbyltandi afl og ægikrafta sem leystist úr læðingi og breytti öllu, raskaði öllu, umbylti öllu sem áður var augljóst: Hinn krossfesti sigraði. Lífið sigrar dauðann!

Hann Matteus er að leitast við að lýsa í orðum því sem engin orð fá lýst. Þegar konurnar hugðu að legstað hins krossfesta Jesú var gröfin tóm og þær fengu skilaboðin: „Hann er upprisinn.“ Hvorki þær né lærisveinar hans sáu hann rísa upp, en þau sáu gröf hans tóma og þau sáu hann sjálf síðar, lifandi, upprisinn í nýrri dýrðarmynd. Á þessum guðlega leyndardómi grundvallast kristindómurinn og kirkjan. Þegar við játum trúna, þegar kristinn söfnuður fer með trúarjátninguna erum við ekki að tjá skoðanir okkar, heldur staðsetja okkur í samhengi sem hófst fyrir tvöþúsund árum þegar konurnar hlupu frá gröfinni með ótta og mikilli gleði. Við erum að tjá bæn og þökk og von í því samhengi trúar, vonar og kærleika, sem tók okkur á arma sína þegar við komum í þennan heim og mun ef Guð lofar bera okkur út þegar við kveðjum. Það er samhengi lífsins, lífs-trúar, lífs-vonar, lífs-ástar, mitt í heimi, menningu, þar sem hatrið, vonleysið og dauðinn virðast einatt hafa undirtökin. Það er samhengi í birtu góðu fréttanna, fagnaðarerindisins.

Við tóma gröf hins krossfesta var það sagt sem páskahátíðin endurómar og við treystum og trúum, svo óskiljanlegt sem það nú er: Hann er ekki hér, hann er upprisinn. Hann fer á undan ykkur uns markmiði hans er náð, sigur hans er öllum ljós, náð hans, líkn og líf hefur náð að lækna hverja sál og lífið allt.

Nú lifum við tíma mikilla fyrirheita og mikils háska. Fyrstu ár 21. aldar hafa verið mótuð af ótta við margvíslegar ógnir og vá. Móðir jörð hefur verið harðhent við börnin sín, skelfilegar hamfarir dynja yfir hvað eftir annað þar sem ógnvekjandi ofurkraftar dauða og heljar leysast úr læðingi.

Við vorum harmi lostin yfir þeim hamförum sem dundu yfir Japan um daginn, snortin af æðruleysi og kjarki japönsku þjóðarinnar og skelfd yfir mögulegu kjarnorkuslysi með óafturkræfar afleiðingar fyrir komandi kynslóðir. Við vorum minnt á hve þetta er brothætt allt saman, jarðskorpan sjálf, manneskjan, og afl og máttur vísinda og tækni andspænis eyðingaröflunum.

Ísland hefur gengið gegnum samfélagslega landsskjálfta og flóðbylgjur, hrun og uppgjör sem ekki sér enn fyrir endan á. Ári eftir útkomu Rannsóknarskýrslu Alþingis setja neikvæðnin, sakbendingarnar og dómharkan mark sitt á þjóðarsálina. Vissulega ekki af ástæðulausu. En það er auðvelt að missa móðinn, auðvelt að láta neikvæðnina taka yfir í sál sinni, auðvelt að leita sökudólga og benda á aðra, firra sig ábyrgð, flýja í skjól kæruleysis og kaldhæðni.

Við þörfnumst trúar, trúar á lífið, trúar á framtíð þess, trúar á möguleika okkar til að leysa aðsteðjandi vanda, trúar á mátt umhyggju og kærleika til að reisa og viðhalda samfélagi sem stuðlar að mannlegri reisn. Og við þurfum að læra af mistökum og brotum okkar. Við erum öll brothættar, breyskar, varnalausar manneskjur.

Það eru vondir tímar sem við lifum nú þar sem allt virðist öfugstreymi. En vildum við lifa á öðrum tímum en einmitt nú? Hafa Íslendingar nokkurn tíma haft eins góð tækifæri til að vinna sig upp úr vanda og nú? Bara ef við bærum gæfu til að taka höndum saman í kærleika, trú og von!

Við megum ekki við því öllu lengur að sitja föst í vantrausti og tortryggni! Við verðum að geta kallað það besta fram í hvert öðru. Til þess þurfum við að leggja okkur öll fram í agaðri samræðu af sanngirni og virðingu fyrir náunganum. Reyndar er agaleysið og virðingarleysið okkar mesta böl og ein helsta orsök ófara okkar, agaleysi og virðingarleysi sem allt of víða má sjá merki um. Reiðin hefur líka eytt og tært og brotið niður traust til þeirra grunnstoða og stofnana og embætta sem heilbrigt samfélag hlýtur að byggja á. Börnin okkar líða undir því, það segja kennarar sem kikna undan álaginu af því hve börnin eru tætt og streitt. Reiði er í eðli sínu varnarháttur hins varnalausa og ráðþrota og vonlausa, og sé hún nærð þá nagar hún ræturnar.

Kristur segir að ríki sem er sjálfu sér sundurþykkt fái ekki staðist. Það á við um okkar smáa þjóðríki og samfélag. Sagan kennir okkur að þjóðin muni rísa upp, það hefur hún hefur ætíð gert í aldanna rás. Og eins er um kirkjuna. En til þess verðum við að læra að treysta í stað þess að traðka niður það góða sem í okkur býr og umhverfis okkur er.

Rússneskt skáld og andófsmaður, Sinijavski, sat í fangabúðum Stalíns og ritaði:„Það er nauðsyn að trúa. Ekki af hefð né ótta við dauðann, ekki af því að enginn veit nema…ekki til að varðveita vissa húmaníska hugmynd, ekki til að bjarga sál sinni eða vera frumlegur. Það er óhjákvæmilegt að trúa af þeirri einföldu ástæðu, að Guð er.“

Svona talar maður sem hefur horft inn í sortann og horfst í augu við andlegt skipbrot guðleysisins, mannhyggjunnar, vísindalegrar efnishyggju, eins og það hét, í helju Gúlagsins, illskunnar, mannfyrirlitningarinnar. Guð er. Líka þar.
Manstu eftir ræningjunum á krossinum? Annar hæddi Jesú, storkaði honum. Hinn beindi bæn sinni til Jesú: Jesús, minnst þú mín þegar þú kemur í ríki þitt. Og Jesús sagði: Sannarlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís. En ég heyri hann líka segja við hinn fordæmda: Í dag skal ég vera með þér í Helju. Við stígum saman þangað ofan, þú og ég, segir hinn krossfesti Kristur, Guðs son. Ég dey fyrir þig.

Hugsaðu um þetta þegar þú játar eða heyrir næst orð trúarjátningarinnar: Steig niður til heljar. Það er ekki einhver kosmisk landafræði, heldur merkir það að Kristur steig ofan í dýpstu djúp örvæntingarinnar og fordæmingarinnar, líka þar er hann. Ekkert fær skilið þig frá honum, frá kærleika hans, huggun hans, sigri hans og náð. Golgata sýnir okkur gjaldþrota Guð, fordæmdan Guð í helju. En hinn krossfesti reis af gröf.

Guð er, afl og máttur lífsins, sem hinn krossfesti Kristur birtir og boðar, hann er að verki. Þetta er fagnaðarerindið, góðufréttirnar sem brjótast inn í heim þar sem forsíðufregnirnar snúast einatt um óhamingju og böl, þar sem syndin og dauðinn ná stærstu fyrirsögnunum. Fagnaðarerindi vonarinnar brýst inn í heim þar sem flestar fréttir hafa svo lengi verið slæmar að menn eru hættir að heyra. Nema þeir sem hafa horft inn í sortann og í augu við sjálfa sig og fundið erfiði dagsins og byrðarnar þungu, Þau heyra, hrökkva við, undrast og fagna og þakka. Þetta er kristnin, þessi undrun, gleði og þökk, mótstöðuafl gegn vonleysinu, kaldhæðninni, hatrinu, dauðanum.

Til er saga um mann sem skoraði á Guð að tala til sín: „Láttu runnann loga, eins og þú gerðir við Móse. Og þá skal ég fylgja þér. Láttu borgarmúrana hrynja, eins og þú gerðir fyrir Jósúa, og ég skal berjast fyrir þig. Kyrrðu vinda og sjó eins og þú gerðir á vatninu, og ég skal hlusta á þig.“

Svo sat maðurinn við runnann, í námunda við múrvegginn, rétt við sjóinn, og beið þess að heyra Guð tala.

Guð heyrði til mannsins og talaði. Hann sendi eld, ekki í runnann, heldur andans eld sem myndaði kirkjuna. Hann braut niður vegg, ekki borgarmúr heldur múr syndarinnar. Hann lægði storm, ekki á vatninu, heldur í sálunni.
Guð beið eftir manninum og svari hans. Og hann beið…. og hann beið.

En vegna þess að maðurinn einblíndi á runna en ekki hjörtu, á múrveggi en ekki mannlíf, á sjó en ekki sálir, þá fannst honum að Guð hefði ekkert gert.

Loks leit hann á Guð og sagði: „Hefurðu alveg misst máttinn?“

Og Guð leit á hann og spurði: „Hefur þú misst sjón og heyrn?“

Það er ekki sama hvernig maður hlustar og beitir sjóninni. Við eigum þátt í að skapa heiminn okkar, landið okkar og samfélag. Einhver sagði: „Fólk er alltaf að tala um að rósirnar séu með þyrnum. Mér finnst merkilegra að þyrnarnir skuli vera með rósir.“ Er það sjálfsblekking sem birtist í slíkum orðum? Nei, öðru nær. Þannig talar sá sem er snortinn af kærleika, von og trú. Lífið er oft táradalur, gata manns einatt þyrnum stráð, það er satt, en látum ekki þá staðreynd skyggja á eða fela rósirnar, gleðina, fegurðina, góðvildina. Hvernig sem lífsleiðin er að öðru leyti lögð, þá skiptir mestu hvaða stefnu og leið hinn innri maður tekur og beinir skrefum sínum. Þess vegna skiptir trúin máli, þess vegna skiptir kirkjan og iðkun hennar, söngur og bæn máli, þess vegna skiptir máli að börnin læri sitt Faðir vor. Við erum ábyrgar manneskjur sem berum ábyrgð á hvert öðru og okkur sjálfum, á landinu okkar og samfélagi, við getum prýtt það og við getum spillt því, þá geta þyrnarnir orðið meira áberandi en rósirnar, skuggarnir hulið geislana.

Góðu fréttirnar eru sannleikur, við megum treysta því og trúa, fagnaðarerindið er raunveruleiki, fyrirgefningin er raunhæfur möguleiki, sátt og friður er möguleiki í heiminum okkar, af því að Guð er. Kærleikur og umhyggja virkar, af því að hinn krossfesti Kristur er upprisinn. Við erum kölluð til að taka höndum saman um reisa og rækta það samfélag sem byggir á þeirri von og trú.

Kristin kirkja er sú iðkun og athöfn sem er að venja sig á að sjá og heyra góðu fréttirnar um lífið sem rís af dauða og gröf. Hún er samhengi upprisuvonar og trúar, trúar á að lífið sigri dauðann, lífið hafi síðasta orðið. Það er ekki óskhyggja og hugsýn heldur athöfn, verk, afstaða og trúfesti vonarinnar á vettvangi dagsins. Og það er aldrei árangurslaust! Því Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn!

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3821.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar